Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Kærleikur Krists er okkur hvöt til að elska

Kærleikur Krists er okkur hvöt til að elska

Kærleikur Krists er okkur hvöt til að elska

„Hann hafði elskað sína, þá sem í heiminum voru. Hann elskaði þá uns yfir lauk.“ — JÓH. 13:1.

1, 2. (a) Hvernig sýndi Jesús einstakan kærleika? (b) Um hvað verður rætt í þessari grein?

JESÚS er fullkomin fyrirmynd um það hvernig á að elska. Allt sem hann gerði — breytni hans, tal, kennsla og fórnardauði — vitnaði um kærleika hans. Allt þar til lífi hans lauk hér á jörð sýndi hann kærleika þeim sem urðu á vegi hans en þó sér í lagi lærisveinum sínum.

2 Með kærleika sínum gaf Jesús fylgjendum sínum háleita fyrirmynd til að líkja eftir. Fordæmi hans er okkur sömuleiðis hvatning til að elska trúsystkini okkar og alla aðra líkt og hann gerði. Í þessari grein verður fjallað um það sem safnaðaröldungar geta lært af Jesú og hvernig þeir geta sýnt kærleika þeim sem brjóta af sér, jafnvel alvarlega. Einnig verður rætt hvernig kærleikur Jesú er kristnum mönnum hvatning til að hjálpa trúsystkinum sínum þegar erfiðleika, náttúruhamfarir og veikindi ber að garði.

3. Hvernig leit Jesús á Pétur þrátt fyrir alvarleg mistök hans?

3 Nóttina áður en Jesús dó afneitaði Pétur postuli honum þrisvar. (Mark. 14:66-72) En Jesús fyrirgaf honum eftir að hann var snúinn við eins og Jesús sagði að hann myndi gera. Hann fól Pétri mikið ábyrgðarstarf. (Lúk. 22:32; Post. 2:14; 8:14-17; 10:44, 45) Hvað má læra af afstöðu Jesú til þeirra sem verður alvarlega á?

Sýnum sama hugarfar og Kristur gagnvart þeim sem brjóta af sér

4. Við hvaða aðstæður er sérlega mikilvægt að sýna sama hugarfar og Kristur?

4 Við þurfum að sýna hugarfar Krists við margs konar aðstæður. Einhverjar þær erfiðustu geta verið að takast á við alvarlega synd, hvort heldur er í fjölskyldunni eða söfnuðinum. Því miður hefur andi heimsins sífellt meiri áhrif á siðferði fólks eftir því sem líður á síðustu daga þess heims sem Satan stjórnar. Illskan eða skeytingarleysið um rétt og rangt getur haft sín áhrif á unga sem aldna svo að fólk verður ekki eins einbeitt að ganga mjóa veginn. Á fyrstu öld þurfti að víkja einstaka manni úr kristna söfnuðinum og aðrir fengu áminningu. Staðan er svipuð nú á dögum. (1. Kor. 5:11-13; 1. Tím. 5:20) Þegar öldungarnir, sem taka á slíkum málum, sýna sama kærleika og Kristur getur það engu að síður haft djúpstæð áhrif á hinn brotlega.

5. Hvernig ættu öldungar að endurspegla hugarfar Krists gagnvart þeim sem brjóta af sér?

5 Safnaðaröldungar þurfa að framfylgja réttlátum meginreglum Jehóva öllum stundum líkt og Jesús gerði. Þeir eiga alltaf að endurspegla mildi Jehóva, gæsku og kærleika. Þegar hinn brotlegi iðrast í einlægni, hefur „sundurmarið hjarta“ og „sundurkraminn anda“ vegna þess sem hann gerði, þarf ekki að vera erfitt fyrir öldungana að leiðrétta þann mann „með hógværð“. (Sálm. 34:19; Gal. 6:1) En hvernig eiga þeir að koma fram við þann sem er þrjóskur og sýnir litla eða enga iðrun?

6. Hvað þurfa öldungar að forðast í samskiptum við brotlega og hvers vegna?

6 Þegar syndari hafnar biblíulegum leiðbeiningum eða reynir að skella skuldinni á aðra getur það vakið gremju og hneykslun öldunga og annarra. Í ljósi þess skaða sem hinn brotlegi hefur valdið getur þeim þótt freistandi að segja honum hvað þeim finnist um hátterni hans og hugarfar. En reiði er skaðleg og er ekki í samræmi við „huga Krists“. (1. Kor. 2:16; lestu Jakobsbréfið 1:19, 20.) Jesús sagði sumum samtíðarmönnum sínum umbúðalaust til syndanna en reyndi aldrei að særa aðra og hann var aldrei andstyggilegur við þá. (1. Pét. 2:23) Hann sýndi hinum brotlegu í orði og verki að þeir ættu þess kost að iðrast og endurheimta hylli Jehóva. Ein helsta ástæðan fyrir því að Jesús kom í heiminn var til að „frelsa synduga menn“. — 1. Tím. 1:15.

7, 8. Hvað ættu öldungarnir að hafa að leiðarljósi í dómnefndarmálum?

7 Hvaða áhrif ætti fordæmi Jesú að hafa á viðhorf okkar til þeirra sem þurfa að fá ögun af hendi safnaðarins? Höfum hugfast að fyrirmæli Biblíunnar um dómsmeðferð á vegum safnaðarins eru hjörðinni til verndar og geta verið hinum brotlega hvatning til að iðrast. (2. Kor. 2:6-8) Það er dapurlegt að sumir skuli ekki iðrast og það þurfi að víkja þeim úr söfnuðinum. Það er hins vegar gleðilegt til þess að vita að margir þeirra snúa síðar aftur til Jehóva og safnaðar hans. Þegar öldungar sýna sama hugarfar og Kristur greiða þeir fyrir því að hinn brotlegi athugi sinn gang og snúi aftur. Hinn brotlegi man kannski ekki seinna meir eftir öllum biblíulegu leiðbeiningunum sem öldungarnir gáfu honum. Hann man hins vegar örugglega eftir því að öldungarnir sýndu honum virðingu og kærleika.

8 Öldungar þurfa þess vegna að sýna ‚ávöxt andans‘, ekki síst kærleika, jafnvel þó að það sé ekki alltaf auðvelt. (Gal. 5:22, 23) Þeir ættu aldrei að flýta sér að víkja brotlegum úr söfnuðinum. Þeir verða að sýna að þeim sé mikið í mun að syndarinn snúi aftur til Jehóva. Þegar syndari iðrast síðar meir, og margir gera það, má hann vera innilega þakklátur bæði Jehóva og öldungunum sem söfnuðurinn hefur fengið að „gjöf“ því að þeir hafa auðveldað honum að snúa aftur. — Ef. 4:8, 11, 12.

Líkjum eftir kærleika Krists á endalokatímanum

9. Nefndu dæmi um hvernig Jesús sýndi lærisveinum sínum kærleika í verki.

9 Lúkas segir frá sérstöku dæmi um það hvernig Jesús sýndi kærleika í verki. Jesús vissi að rómverskir hermenn myndu seinna meir setjast um Jerúsalem og koma í veg fyrir að hægt væri að flýja hina dæmdu borg. Hann sýndi þann kærleika að vara lærisveina sína við því: „Þegar þér sjáið herfylkingar umkringja Jerúsalem, þá vitið að eyðing hennar er í nánd.“ Hvað áttu þeir að gera? Jesús gaf þeim skýr og nákvæm fyrirmæli um það: „Þá flýi þau sem í Júdeu eru til fjalla, þau sem í borginni eru flytjist burt og þau sem eru á ekrum úti fari ekki inn í hana. Því þetta eru refsingardagar, þá er allt það rætist sem ritað er.“ (Lúk. 21:20-22) Eftir að rómverski herinn hafði sest um Jerúsalem árið 66 gerðu hlýðnir lærisveinar hans eins og hann hafði lagt fyrir þá.

10, 11. Hvað má læra af flótta kristinna manna frá Jerúsalem sem getur búið okkur undir þrenginguna miklu?

10 Þegar kristnir menn flúðu Jerúsalem þurftu þeir að sýna hver öðrum kærleika rétt eins og Kristur hafði elskað þá. Þeir þurftu að deila hver með öðrum því sem þeir áttu. En spádómur Jesú fjallaði ekki aðeins um eyðingu Jerúsalem forðum daga. Hann nær líka fram í tímann því að Jesús sagði: „Þá verður sú mikla þrenging sem engin hefur þvílík verið frá upphafi heims allt til þessa og verður aldrei framar.“ (Matt. 24:17, 18, 21) Áður en „sú mikla þrenging“, sem er fram undan, skellur á og meðan hún stendur yfir getur verið að við lendum í þrengingum og okkur skorti ýmislegt. Ef við höfum sama hugarfar og Kristur hjálpar það okkur að komast gegnum erfiðleikana.

11 Þegar þar að kemur þurfum við að líkja eftir Jesú og sýna óeigingjarnan kærleika. Páll postuli sagði þar að lútandi: „Sérhvert okkar hugsi um náunga sinn, það sem honum er til góðs og til uppbyggingar. Kristur hugsaði ekki um sjálfan sig . . . En Guð, sem veitir þolgæðið og hugrekkið, gefi ykkur að vera samhuga að vilja Krists Jesú.“ — Rómv. 15:2, 3, 5.

12. Hvers konar kærleika þurfum við að temja okkur núna og af hverju?

12 Pétur hafði notið góðs af kærleika Jesú. Hann hvatti kristna menn til að temja sér ‚hræsnislausa elsku hver til annars‘ og „hlýða sannleikanum“. Við eigum að „elska hvert annað af heilu hjarta“. (1. Pét. 1:22) Nú er brýnna en nokkru sinni fyrr að líkja eftir Kristi og tileinka sér þessa eiginleika. Þjónar Guðs verða fyrir sífellt meira álagi. Enginn ætti að leggja traust sitt á neitt í þessum gamla heimi. Ringulreiðin, sem orðið hefur í fjármálaheiminum upp á síðkastið, færir okkur heim sanninn um það. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 2:15-17.) Eftir því sem nálgast endalok þessa heimskerfis þurfum við að eiga enn nánara samband við Jehóva. Við þurfum að standa enn þéttar saman og styrkja vináttuböndin innan safnaðarins. Páll hvatti: „Verið ástúðleg hvert við annað í bróðurlegum kærleika og keppist um að sýna hvert öðru virðingu.“ (Rómv. 12:10) Og Pétur leggur enn ríkari áherslu á þetta og segir: „Umfram allt hafið brennandi kærleika hvert til annars því að kærleikur hylur fjölda synda.“ — 1. Pét. 4:8.

13-15. Hvernig hafa margir vottar sýnt kærleika að fyrirmynd Krists í kjölfar náttúruhamfara?

13 Vottar Jehóva eru þekktir um allan heim fyrir að sýna kærleika í verki. Tökum sem dæmi vottana sem buðu fram krafta sína eftir að fárviðri og fellibyljir ollu gríðarlegu tjóni í sunnanverðum Bandaríkjunum árið 2005. Meira en 20.000 vottar buðu sig fram til sjálfboðastarfa í samræmi við fordæmi Krists. Margir þeirra yfirgáfu þægileg heimili og örugga atvinnu til að liðsinna trúsystkinum sem höfðu orðið fyrir búsifjum.

14 Á einu svæði gekk flóðbylgja, allt að 10 metra há, heila 80 kílómetra inn í landið. Þegar vatnið sjatnaði var þriðjungur íbúðarhúsa og annarra bygginga, þar sem bylgjan hafði gengið yfir, gerónýtur. Vottar frá nokkrum löndum komu á svæðið með verkfæri og byggingarefni og buðu fram krafta sína og kunnáttu til hvaða starfa sem þörf var á. Tvær systur, sem voru ekkjur, hlóðu eigum sínum á pallbíl og óku 3.000 kílómetra leið til að leggja hönd á plóginn. Önnur þeirra er enn á svæðinu og starfar þar sem brautryðjandi, auk þess að aðstoða nefndina sem annast hjálparstarfið.

15 Sjálfboðaliðar hafa endurbyggt eða lagfært meira en 5.600 hús eða íbúðir votta og annarra á svæðinu. Hvað finnst vottunum, sem búa þar, um þann mikla kærleika sem þeim var sýndur? Systir nokkur, sem missti heimili sitt í hamförunum, hafðist við í litlu hjólhýsi með leku þaki og bilaðri eldavél. Sjálfboðaliðarnir byggðu látlaust en þægilegt hús handa henni. Þegar hún stóð fyrir framan snoturt húsið grét hún af þakklæti til Jehóva og trúsystkina sinna. Margir vottar á svæðinu bjuggu áfram í bráðabirgðahúsnæði í heilt ár eða lengur eftir að búið var að endurbyggja húsin þeirra. Þetta gerðu þeir til að hjálparstarfsmenn gætu búið í nýja húsnæðinu. Er þetta ekki frábært dæmi um það hvernig lærisveinar Krists hafa tileinkað sér hugarfar hans?

Sýnum sama hugarfar og Kristur gagnvart sjúkum

16, 17. Hvernig getum við sýnt sama hugarfar og Kristur gagnvart sjúkum?

16 Fæst okkar hafa lent í meiri háttar náttúruhamförum. Næstum allir þurfa hins vegar að takast á við heilsubrest hjá sjálfum sér eða nákomnum ættingja. Kærleikur Krists til sjúkra er okkur fordæmi til eftirbreytni. Hann kenndi í brjósti um þá. Þegar komið var með sjúka til hans hópum saman læknaði hann „alla þá er sjúkir voru“. — Matt. 8:16; 14:14.

17 Kristnir menn nú á tímum búa ekki yfir lækningamætti eins og Kristur. Þeir láta sér hins vegar annt um sjúka ekki síður en hann. Hvernig birtist umhyggja þeirra? Sem dæmi má nefna að öldungar sýna sama hugarfar og Kristur með því að skipuleggja aðstoð við sjúka í söfnuðinum og sjá um að hrinda henni í verk. Það gera þeir í samræmi við lýsinguna sem er að finna í Matteusi 25:39, 40. * (Lestu.)

18. Hvernig sýndu tvær systur ósvikinn kærleika og hvað leiddi það af sér?

18 Við þurfum auðvitað ekki að vera öldungar til að gera öðrum gott. Charlene, 44 ára, var með krabbamein og var sagt að hún ætti aðeins tíu daga eftir ólifaða. Tvær systur í söfnuðinum, þær Sharon og Nicolette, gerðu sér grein fyrir þörfum hennar og sáu hve það gekk nærri eiginmanni hennar að annast hana. Þær buðu sig því fram til að aðstoða hana frá morgni til kvölds síðustu dagana sem hún átti ólifaða. Dagarnir urðu að sex vikum en systurnar tvær sýndu kærleika sinn uns yfir lauk. „Það er erfitt þegar maður veit að viðkomandi á ekki eftir að ná sér,“ segir Sharon. „En Jehóva styrkti okkur. Þessi lífsreynsla færði okkur enn nær honum og hvert öðru.“ Eiginmaður Charlene segir: „Ég mun aldrei gleyma hlýju og hjálp þessara yndislegu systra. Þær gerðu þetta af einlægni og jákvæðni sem auðveldaði Charlene minni síðustu prófraunina og léttu undir með mér líkamlega og andlega sem ég þurfti svo mjög á að halda. Ég verð þeim ævinlega þakklátur. Fórnfýsi þeirra styrkti trú mína á Jehóva og kærleikann til alls bræðrafélagsins.“

19, 20. (a) Hvaða fimm þætti í fari Jesú höfum við skoðað? (b) Hvað ert þú staðráðinn í að gera?

19 Í þessum þrem greinum höfum við skoðað fimm þætti í fari Jesú og velt fyrir okkur hvernig við getum tileinkað okkur hugsunarhátt hans og breytni. Við skulum vera ‚hógvær og af hjarta lítillát‘ eins og hann. (Matt. 11:29) Leggjum okkur fram um að vera góðviljuð hvert við annað, einnig þegar ófullkomleiki og veikleikar koma upp á yfirborðið. Við skulum hlýða hugrökk öllum fyrirmælum Jehóva, einnig þegar við lendum í prófraunum.

20 Að síðustu skulum við líkja eftir Kristi með því að sýna öllum trúsystkinum okkar kærleika í verki ‚uns yfir lýkur‘. Með slíkum kærleika sýnum við að við erum sannir fylgjendur hans. (Jóh. 13:1, 34, 35) Já, látum ‚bróðurkærleikann haldast‘. (Hebr. 13:1) Spörum hann ekki! Notum líf okkar til að lofa Jehóva og hjálpa öðrum. Við megum treysta að hann blessar einlæga viðleitni okkar.

[Neðanmáls]

^ gr. 17 Sjá greinina „Segið ekki bara: ‚Vermið yður og mettið‘“ í Varðturninum 1. maí 1987.

Geturðu svarað?

• Hvernig geta öldungar sýnt sama hugarfar og Kristur gagnvart þeim sem brjóta af sér?

• Af hverju er sérstaklega mikilvægt að líkja eftir kærleika Krists núna á endalokatímanum?

• Hvernig getum við líkt eftir hugarfari Krists gagnvart sjúkum?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 17]

Öldungar vilja hjálpa brotlegum að snúa aftur til Jehóva.

[Mynd á blaðsíðu 18]

Hvernig sýndu kristnir menn sama hugarfar og Kristur þegar þeir yfirgáfu Jerúsalem?

[Mynd á blaðsíðu 19]

Vottar Jehóva eru þekktir fyrir að sýna kærleika í verki.