Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Kanntu að meta það sem Jehóva hefur gert til að veita þér lausn?

Kanntu að meta það sem Jehóva hefur gert til að veita þér lausn?

Kanntu að meta það sem Jehóva hefur gert til að veita þér lausn?

„Lofaður sé Drottinn, Guð Ísraels, því að hann hefur vitjað lýðs síns og búið honum lausn.“ — LÚKAS 1:68.

1, 2. Hvernig mætti lýsa ástandi okkar núna og hvaða spurningar munum við skoða?

ÍMYNDAÐU þér að þú liggir á spítala. Þú ert á deild þar sem allir þjást af sama meininu, ólæknanlegum sjúkdómi sem leiðir til dauða. Þegar þú fréttir að læknir nokkur vinni hörðum höndum að því að finna lækningu fyllistu von. Þú vilt fá að vita allt um málið. Og dag einn færðu að vita að lækning sé fundin. Læknirinn, sem stóð á bak við þessa uppgötvun, færði miklar fórnir til að ná þessu fram. Hvernig yrði þér innanbrjósts? Þú myndir örugglega fyllast þakklæti og virðingu í garð þessa manns sem gerði þér og öðrum mögulegt að losna úr greipum heljar.

2 Þetta dæmi hljómar ef til vill nokkuð dramatískt en það endurspeglar samt raunveruleika sem við stöndum öll frammi fyrir. Hvert og eitt okkar býr við ástand sem er miklu alvarlegra en þetta dæmi lýsir. Okkur sárvantar einhvern til að bjarga okkur. (Lestu Rómverjabréfið 7:24a.) Jehóva hefur lagt mikið á sig til að veita okkur lausn. Sonur hans hefur líka fært miklar fórnir. Skoðum þess vegna fjórar grundvallarspurningar. Hvers vegna þörfnumst við lausnar? Hvað þurfti Jesús að gera til að við fengjum lausn? Hvað þurfti Jehóva að gera til að veita okkur lausn? Og hvernig getum við sýnt að við kunnum að meta þessa lausn?

Hvers vegna þörfnumst við lausnar?

3. Hvernig er syndin í samanburði við farsótt?

3 Samkvæmt nýlegu mati var spænska veikin ein af verstu farsóttum sem gengið hefur yfir heimsbyggðina. Hún geisaði árið 1918 og felldi tugi milljóna manna. Aðrir sjúkdómar eru þó í vissum skilningi banvænni. Þótt færri smitist af þeim er dánartíðnin hærri. * Hvað ef við myndum bera slíkar farsóttir saman við syndina? Munum eftir því sem segir í Rómverjabréfinu 5:12: „Syndin kom inn í heiminn með einum manni og dauðinn með syndinni. Þannig er dauðinn runninn til allra manna því að allir syndguðu þeir.“ Við höfum öll smitast af synd þar sem allir ófullkomnir menn syndga. (Lestu Rómverjabréfið 3:23.) Og hver er dánartíðnin? Páll skrifaði að syndin beri dauða „til allra manna“.

4. Hvernig lítur Jehóva á æviskeið okkar og hvernig er sjónarhorn hans frábrugðið viðhorfi margra nú á dögum?

4 Nú á dögum finnst flestum synd og dauði vera eðlilegur gangur lífsins. Þeir hafa kannski áhyggjur af ótímabærum dauða en finnst ekkert óeðlilegt við það að fólk hrörni og deyi að lokum. Mennirnir eru fljótir að gleyma sjónarhorni skaparans. Ævi okkar er talsvert styttri en hann hafði ráðgert. Í augum Jehóva hefur reyndar enginn maður náð að lifa heilan dag. (2. Pét. 3:8) Í Biblíunni segir þess vegna að líf okkar sé jafn stutt og grasspretta á einu sumri eða einn andardráttur. (Sálm. 39:6; 1. Pét. 1:24) Við verðum að hafa þetta sjónarmið í huga. Af hverju? Ef við áttum okkur á hve „sjúkdómurinn“, sem hrjáir okkur, er alvarlegur kunnum við betur að meta lausn okkar.

5. Hvað hefur syndin gert okkur?

5 Til að geta skilið hve syndin og afleiðingar hennar eru alvarlegar verðum við að reyna að átta okkur á hvað syndin hefur gert okkur. Það gæti reynst erfitt í fyrstu vegna þess að syndin hefur rænt okkur einhverju sem við höfum aldrei haft. Til að byrja með lifðu Adam og Eva fullkomnu lífi. Þau voru fullkomin á líkama og sál og gátu haft stjórn á hugsunum sínum, tilfinningum og gerðum. Þau gátu því haldið áfram að taka framförum sem þjónar Jehóva og nýta til fulls þá hæfileika sem hann hafði gefið þeim. Þau ákváðu hins vegar að fleygja frá sér þeirri dýrmætu gjöf sem fullkomið líf var. Með því að velja að syndga gegn Jehóva glötuðu þau og afkomendur þeirra því lífi sem hann hafði ætlað þeim. (1. Mós. 3:16-19) Og um leið lögðu þau þennan hræðilega „sjúkdóm“ á sig og okkur. Jehóva fordæmdi þau með réttu. En hann hefur veitt okkur von um lausn. — Sálm. 103:10.

Hvað þurfti Jesús að gera til að við fengjum lausn?

6, 7. (a) Hvernig gaf Jehóva fyrst til kynna að lausn okkar yrði dýrkeypt? (b) Hvað getum við lært af fórnum Abels og trúfastra ættfeðra fyrir daga lögmálsins?

6 Jehóva vissi að hann þyrfti að fórna miklu til að veita afkomendum Adams og Evu lausn. Við getum lesið um það í spádóminum í 1. Mósebók 3:15. Jehóva þyrfti að reiða fram „niðja“, eða lausnara, sem myndi eyða Satan þegar fram liðu stundir. En þessi lausnari myndi sjálfur þurfa að þjást og hljóta táknrænt hælmar. Þetta hælmar myndi örugglega valda sársauka og máttleysi en hvað merkir það? Hvað myndi útvalinn þjónn Jehóva þurfa að þola?

7 Til að geta leyst mannkyn undan synd myndi lausnarinn þurfa að láta í té friðþægingu — sætta menn við Guð með því að gera áhrif syndarinnar að engu. Hvað fólst í því? Það kom snemma í ljós að færa yrði fórn. Þegar Abel, fyrsti trúfasti maðurinn, fórnaði dýrafórnum til handa Jehóva fékk hann velþóknun hans. Seinna færðu guðhræddir ættfeður eins og Nói, Abraham, Jakob og Job svipaðar fórnir og það gladdi Guð. (1. Mós. 4:4; 8:20, 21; 22:13; 31:54; Job. 1:5) Öldum síðar vörpuðu Móselögin skýrara ljósi á fórnir og mikilvægi þeirra.

8. Hvað gerði æðsti presturinn á hinum árlega friðþægingardegi?

8 Meðal mikilvægustu fórnanna, sem lögmálið kvað á um, voru þær sem átti að færa á hinum árlega friðþægingardegi. Á þeim degi framkvæmdi æðsti presturinn ýmsar táknrænar athafnir. Hann færði Jehóva fórnir til að friðþægja fyrir syndir — fyrst fyrir syndir prestastéttarinnar og síðan fyrir syndir hinna ættkvíslanna. Æðsti presturinn fór inn í hið allra helgasta í tjaldbúðinni eða musterinu þar sem hann einn mátti fara inn á þessum sérstaka degi ár hvert. Þar stökkti hann fórnarblóðinu fyrir framan sáttmálsörkina. Stundum birtist skínandi bjart ský yfir þessari helgu kistu og táknaði það nærveru Jehóva Guðs. — 2. Mós. 25:22; 3. Mós. 16:1-30.

9. (a) Hvern táknaði æðsti presturinn á friðþægingardeginum og hvað táknuðu fórnirnar sem hann færði? (b) Hvað fyrirmyndaði æðsti presturinn þegar hann fór inn í hið allra helgasta?

9 Páli postula var innblásið að útskýra hvað þessar táknrænu athafnir merktu. Hann benti á að æðsti presturinn táknaði Messías, Jesú Krist, og fórnirnar táknuðu fórnardauða Krists. (Hebr. 9:11-14) Þessi fullkomna fórn myndi veita tveim hópum manna raunverulega friðþægingu — annars vegar 144.000 andasmurðum bræðrum Krists, sem mynda prestastétt hans, og hins vegar ‚öðrum sauðum‘. (Jóh. 10:16) Þegar æðsti presturinn fór inn í hið allra helgasta fyrirmyndaði hann Jesú þegar hann bar andvirði fórnar sinnar fram fyrir Jehóva á himnum. — Hebr. 9:24, 25.

10. Hvað átti Messías að þola samkvæmt biblíuspádómum?

10 Það er augljóst að frelsun afkomenda Adams og Evu yrði dýrkeypt. Messías yrði að fórna sínu eigin lífi! Spámenn Hebresku ritninganna skýrðu frá þessum sannindum í smáatriðum. Til dæmis sagði Daníel spámaður að „hinn smurði [yrði] afmáður með öllu“, eða tekinn af lífi, til að ‚friðþægja fyrir ranglætið‘. (Dan. 9:24-26) Jesaja spáði að Messíasi yrði hafnað, hann ofsóttur og tekinn af lífi til að bera syndir ófullkominna manna. — Jes. 53:4, 5, 7.

11. Hvernig sýndi sonur Jehóva að hann var fús til að fórna sér til að leysa okkur?

11 Einkasonur Guðs vissi áður en hann kom til jarðar hvað hann myndi þurfa að gera til að við fengjum lausn. Hann myndi þurfa að líða miklar kvalir og vera síðan tekinn af lífi. Reyndi hann að koma sér undan þessu verkefni eða gera uppreisn þegar faðir hans sagði honum hvað biði hans? Nei, þvert á móti fylgdi hann fúslega leiðbeiningum föður síns. (Jes. 50:4-6) Enn fremur sýndi Jesús föður sínum hlýðni þegar hann var hér á jörð og framkvæmdi vilja hans. Af hverju? Hann svaraði með því að segja: „Ég elska föðurinn.“ Hann sagði líka: „Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína.“ (Jóh. 14:31; 15:13) Það er því að stórum hluta kærleika Jesú að þakka að við eigum von um lausn. Þótt hann þyrfti að fórna fullkomnu lífi sínu sem maður gerði hann það með gleði til að veita okkur lausn.

Hvað þurfti Jehóva að gera til að veita okkur lausn?

12. Hver ákvað að færa ætti lausnargjald og af hverju reiddi hann það fram?

12 Það var ekki Jesús sem ákvað að færa ætti lausnarfórnina eða með hvaða hætti það skyldi gert heldur var þessi björgunarráðstöfun mikilvægur þáttur í fyrirætlun Jehóva. Páll postuli gaf í skyn að altarið í musterinu þar sem fórnirnar voru færðar táknaði vilja Jehóva. (Hebr. 10:10) Það er því fyrst og fremst Jehóva að þakka að fórn Krists veitir okkur lausn. (Lúk. 1:68) Fórnin er í samræmi við fullkomna fyrirætlun Jehóva og þann mikla kærleika sem hann ber til mannanna. — Lestu Jóhannes 3:16.

13, 14. Hvernig getur frásagan af Abraham og Ísak hjálpað okkur að skilja það sem Jehóva hefur gert fyrir okkur?

13 Hvað þurfti Jehóva að leggja á sig til að sýna okkur kærleika með þessum hætti? Við eigum erfitt með að skilja það til hlítar. En það er ein frásaga í Biblíunni sem getur hjálpað okkur að sjá það skýrar. Jehóva bað hinn trúfasta Abraham um að gera eitthvað sem var óhemju erfitt — hann átti að færa Ísak, son sinn, að fórn. Abraham var ástríkur faðir. Jehóva kallaði Ísak einkasoninn, „sem þú elskar“, þegar hann talaði við Abraham. (1. Mós. 22:2) En Abraham áttaði sig á því að hlýðni við vilja Jehóva skipti meira máli en ást hans til Ísaks. Hann ákvað því að hlýða. Jehóva leyfði samt Abraham ekki að gera það sem hann myndi sjálfur þurfa að gera seinna meir. Hann sendi engil til að stoppa hann af áður en hann fórnaði Ísak. Þótt það væri mjög erfitt var Abraham svo einbeittur í að hlýða Guði að hann taldi fullvíst að eina leiðin til að sjá son sinn aftur lifandi væri fyrir tilstuðlan upprisu. Og hann treysti því algerlega að Guð myndi reisa Ísak upp. Páll segir reyndar að Abraham hafi heimt Ísak „úr helju ef svo má að orði komast“. — Hebr. 11:19.

14 Það er varla hægt að ímynda sér hvernig Abraham leið þegar hann bjó sig undir að fórna Ísak. Í vissum skilningi getur þessi atburður í lífi Abrahams hjálpað okkur að fá innsýn í tilfinningar Jehóva þegar hann fórnaði þeim sem hann sagði um: „Þessi er minn elskaði sonur“. (Matt. 3:17) Við skulum þó hafa í huga að líklega hefur Jehóva fundið meira til. Hann hafði notið félagsskapar sonar síns í óteljandi milljónir eða jafnvel milljarða ára. Sonurinn hafði yndi af því að vinna með föður sínum, var verkstjóri hjá honum og talsmaður hans, eða „Orðið“. (Orðskv. 8:22, 30, 31; Jóh. 1:1) Við getum ekki skilið til fulls sársauka Jehóva þegar hann horfði upp á son sinn pyntaðan, hæddan og síðan tekinn af lífi sem glæpamann. Lausn okkar var Jehóva mjög dýrkeypt! Hvernig getum við þá sýnt að við kunnum að meta þessa lausn?

Hvernig getur þú sýnt að þú kunnir að meta lausnina?

15. Hvernig lauk Jesús því mikla verkefni að friðþægja fyrir syndir manna, og hverju kom það til leiðar?

15 Eftir að Jesús var reistur upp til himna lauk hann því mikla verkefni að friðþægja fyrir syndir mannanna. Hann sameinaðist föður sínum á nýjan leik og bar andvirði fórnar sinnar fram fyrir hann. Það leiddi af sér miklar blessanir. Hægt var að öðlast algera syndafyrirgefningu, fyrst til handa andasmurðum bræðrum Krists og síðan „fyrir syndir alls heimsins“. Vegna þessarar fórnar geta allir staðið hreinir frammi fyrir Jehóva Guði ef þeir iðrast einlæglega synda sinna og gerast sannir fylgjendur Krists. (1. Jóh. 2:2) En hvernig snertir þetta þig?

16. Hvernig mætti lýsa því af hverju við ættum að meta mikils lausnina sem Jehóva getur veitt okkur?

16 Snúum okkur aftur að líkingunni í byrjun greinarinnar. Segjum sem svo að læknirinn, sem tókst að finna lækningu við sjúkdómnum, myndi koma að máli við sjúklingana á deildinni þinni og bjóða þeim eftirfarandi: Allir sjúklingar, sem þiggja meðferð og fylgja öllum leiðbeiningum, munu ná sér að fullu. Hvað ef flestir sjúklinganna myndu hafna ráðum læknisins og halda því fram að það væri of erfitt að taka lyfin eða fylgja fyrirskipunum læknisins? Myndirðu taka undir með þeim þótt það lægju nægar sannanir fyrir því að lækningin skilaði tilætluðum árangri? Auðvitað ekki. Þú myndir vafalaust þakka lækninum fyrir lækninguna og fylgja síðan leiðbeiningum hans í einu og öllu og jafnvel segja öðrum frá vali þínu. Ættum við þá ekki miklu frekar að vilja sýna Jehóva hve mikils við metum lausnina sem hann getur veitt okkur vegna lausnarfórnar sonar síns? — Lestu Rómverjabréfið 6:17, 18.

17. Hvernig geturðu sýnt að þú metir mikils það sem Jehóva hefur gert til að veita þér lausn?

17 Ef við kunnum að meta það sem Jehóva og sonur hans hafa gert til að leysa okkur undan synd og dauða látum við það í ljós. (1. Jóh. 5:3) Við berjumst gegn tilhneigingunni til að syndga. Við förum ekki að iðka synd og lifa tvöföldu lífi sem oft fylgir í kjölfarið, því að það væri hræsni. Með slíkri breytni værum við að segja að við kynnum alls ekki að meta lausnargjaldið. Við viljum miklu frekar sýna þakklæti okkar með því að leggja okkur fram um að standa hrein frammi fyrir Guði. (2. Pét. 3:14) Við sýnum það með því að segja öðrum frá þessari frábæru von um lausn svo að þeir geti líka staðið hreinir frammi fyrir Jehóva og átt von um eilíft líf. (1. Tím. 4:16) Eiga Jehóva og sonur hans ekki skilið að við notum allan þann tíma og þá orku, sem við getum gefið, til að lofa þá? (Mark. 12:28-30) Veltu þessu fyrir þér. Við getum horft fram til þess tíma þegar við verðum endanlega laus við synd. Við getum þá lifað því lífi sem Guð ætlaði okkur, fullkomin að eilífu — allt vegna þess sem Jehóva hefur gert til að veita okkur lausn! — Rómv. 8:21.

[Neðanmáls]

^ gr. 3 Spænska veikin er sögð hafa smitað allt frá 20 til 50 af hundraði allra jarðarbúa á sínum tíma. Veiran gat fellt allt frá einu til tíu prósent þeirra sem smituðust. Til samanburðar er ebólaveiran mun sjaldgæfari en stundum hefur hún dregið til dauða nánast 90 af hundraði þeirra sem smitast.

Hvert er svarið?

• Af hverju þarfnast þú sárlega lausnar?

• Hvaða áhrif hefur fórnfýsi Jesú á þig?

• Hvað finnst þér um þá gjöf Jehóva að láta í té lausnargjald?

• Hvað ertu staðráðinn í að gera í ljósi þess sem Jehóva hefur gert til að veita þér lausn?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 27]

Á friðþægingardeginum var æðsti prestur Ísraels lifandi fyrirmynd um Messías.

[Mynd á blaðsíðu 28]

Abraham var fús til að fórna syni sínum og það kennir okkur margt um miklu stærri fórn Jehóva.