Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Vel ég trú mína sjálfur eða læt ég foreldra mína um það?

Vel ég trú mína sjálfur eða læt ég foreldra mína um það?

Vel ég trú mína sjálfur eða læt ég foreldra mína um það?

Í PÓLLANDI segja margir við votta Jehóva: „Ég fæddist í þessari trú og ég mun deyja í henni.“ Þetta gefur til kynna að þeir líti svo á að trú erfist frá einni kynslóð til annarar. Ríkir svipað viðhorf til trúarbragða þar sem þú býrð? Hver verður oft afleiðingin af svona viðhorfi? Trúin hefur tilhneigingu til að verða lítið meira en formið eitt og fjölskylduhefð. Gæti eitthvað þessu líkt átt sér stað meðal votta Jehóva sem hafa fengið undursamlega andlega arfleifð frá foreldrum sínum eða foreldrum þeirra?

Þetta gerðist ekki hjá Tímóteusi. Móðir hans og amma voru báðar guðræknar konur og þær kenndu honum að trúa á og elska hinn sanna Guð. Tímóteus þekkti heilagar ritningar „frá blautu barnsbeini“. Með tímanum sannfærðist hann, líkt og móðir hans og amma, um að kristin trú væri sannleikurinn. Hann ‚festi trú á‘ það sem honum var kennt úr Ritningunni um Jesú Krist. (2. Tím. 1:5; 3:14, 15) Þó að kristnir foreldrar nú á dögum geri sitt besta til að hjálpa börnunum að verða þjónar Jehóva verða börnin sjálf að rækta með sér löngun til að gera það. — Mark. 8:34.

Hver og einn verður að hafa sannfærandi rök fyrir trú sinni ef hann á að geta þjónað Jehóva af öllu hjarta og verið ráðvandur sama hvað dynur á. Þá verður trú hans sterk og óbifanleg. — Ef. 3:17; Kól. 2:6, 7.

Hlutverk barnanna

„Ég hef alltaf trúað því að Vottar Jehóva hafi hina sönnu trú,“ segir Albert  * sem er alinn upp í vottafjölskyldu. „En ég átti erfitt með að sætta mig við hvernig þeir sögðu að ég ætti að lifa“. Ef þú ert unglingur getur verið að þú sért á sömu skoðun. Er ekki ástæða til að kanna hvers konar lífi Guð vill að við lifum og hafa síðan ánægju af að gera vilja hans? (Sálm. 40:9) „Ég fór einfaldlega að biðja,“ segir Albert. „Í fyrstu fannst mér það erfitt og ég varð hálfpartinn að neyða mig til þess. En áður en langt um leið fann ég hins vegar að ég gæti verið dýrmætur í augum Guðs ef ég reyndi að breyta rétt. Þetta gaf mér styrk til að laga það sem þurfti.“ Með því að byggja upp persónulegt samband við Jehóva getur þú ræktað með þér löngun til að gera það sem hann ætlast til af okkur. — Sálm. 25:14; Jak. 4:8.

Hugsaðu um einhvern leik, sem þú hefur spilað, eins og borðspil eða einhverja íþrótt. Þér fyndist leikurinn sennilega leiðinlegur ef þú kynnir ekki reglurnar eða værir ekki fær í honum. En ef þú þekkir reglurnar og ert orðinn góður í leiknum hlakkar þú líklega til að taka þátt í honum og finnur þér jafnvel tækifæri til þess. Sama gildir um þjónustuna við Guð. Undirbúðu þig fyrir samkomur og taktu virkan þátt í þeim. Þú getur verið öðrum til hvatningar með fordæmi þínu þó að þú sért ungur að árum. — Hebr. 10:24, 25.

Það sama gildir þegar þú ert að segja öðrum frá trú þinni. Enginn ætti að boða trúna vegna þess að honum finnst hann neyddur til þess heldur á kærleikurinn að vera hvötin að baki því. Spyrðu sjálfan þig: „Hvers vegna vil ég segja öðrum frá Jehóva? Hvers vegna elska ég hann?“ Þú þarft að þekkja Jehóva sem ástríkan föður. Jehóva sagði fyrir milligöngu Jeremía: „Ef þér leitið mín munuð þér finna mig. Þegar þér leitið mín af öllu hjarta læt ég yður finna mig.“ (Jer. 29:13, 14) Hvers krefst þetta af þér? „Ég varð að breyta hugsunarhætti mínum,“ segir Jakub. „Ég hef komið á samkomur og farið í boðunarstarfið alveg frá æsku en þetta varð að nokkurs konar vana. Það var ekki fyrr en ég kynntist Jehóva betur og eignaðist persónulegt samband við hann að ég fór raunverulega að leggja mig fram í sannleikanum.“

Góður og uppbyggilegur félagsskapur getur skipt miklu máli til þess að þú njótir þjónustunnar. „Eigðu samneyti við vitra menn, þá verður þú vitur,“ segir í innblásnum orðskvið. (Orðskv. 13:20) Leitaðu því félagsskapar við þá sem setja sér andleg markmið og eru ánægðir í þjónustunni við Jehóva. Jola segir: „Mér fannst uppörvandi að eiga félagsskap við ungt andlega sinnað fólk. Ég fór að taka reglulega þátt í boðunarstarfinu og hafði mikla ánægju af því.“

Hlutverk foreldranna

„Ég er mjög þakklát fyrir það sem foreldrar mínir kenndu mér um Jehóva,“ segir Jola. Já, foreldrar geta haft mikil áhrif á hvað börn þeirra ákveða að gera. Páll postuli skrifaði: „Feður, . . . alið [börnin] upp með aga og fræðslu um Drottin.“ (Ef. 6:4) Þessar innblásnu leiðbeiningar sýna greinilega að hlutverk foreldra er að kenna börnum sínum vegi Jehóva en ekki eigin visku. Væri ekki dásamlegt ef þú gætir hjálpað börnunum að gera það að aðalmarkmiði lífsins að lifa í samræmi við vilja Jehóva frekar en að fá þau til að gera það sem þú hefðir viljað gera?

Þú getur brýnt orð Jehóva fyrir börnum þínum og haft „þau yfir þegar þú situr heima og þegar þú ert á faraldsfæti, þegar þú leggst til svefns og þegar þú ferð á fætur“. (5. Mós. 6:6, 7) „Við ræddum mikið um mismunandi leiðir til að þjóna í fullu starfi,“ segja Ewa og Ryszard, foreldrar þriggja stráka. Hver var árangurinn? „Strákarnir vildu á unga aldri taka þátt í Boðunarskólanum, urðu boðberar og ákváðu að lokum sjálfir að skírast. Síðar urðu þeir Betelítar eða brautryðjendur.“

Fordæmi foreldranna skiptir höfuðmáli. Ryszard segir: „Við vorum ákveðin í að lifa ekki tvöföldu lífi, haga okkur á einn hátt heima hjá okkur og á annan hátt í söfnuðinum.“ Það er því gott að spyrja sig: „Hvað sjá börnin mig gera? Sjá þau sannan kærleika til Jehóva? Finna þau að þessi kærleikur endurspeglast í bænum mínum og sjálfsnámi? Hvað um viðhorf mitt til boðunarstarfsins, skemmtunar og efnislegra hluta eða hvernig ég tala um aðra í söfnuðinum?“ (Lúk. 6:40) Börnin taka eftir daglegu lífi þínu og eru fljót að koma auga á ef það er ósamræmi milli þess sem þú segir og gerir.

Agi skiptir miklu máli í uppeldi barna. En í innblásnu orði Guðs er sagt: „Fræð hinn unga um veginn sem hann á að halda.“ (Orðskv. 22:6) Ewa og Ryszard segja: „Við tókum okkur tíma til að kenna drengjunum hverjum fyrir sig.“ Auðvitað eiga foreldrar að ákveða hvort þörf sé fyrir kenna börnunum hverju í sínu lagi. Hvað sem því líður þarf að koma fram við hvert barn sem einstakling. Það krefst sveigjanleika og sanngirni. Tökum dæmi. Í stað þess að segja barninu einfaldlega að viss tónlist sé skaðleg, hví ekki að sýna því hvernig á að komast að viturlegri niðurstöðu með því að nota meginreglur Biblíunnar?

Börnin þín vita sennilega upp á hár til hvers þú ætlast af þeim og kannski virðast þau fara eftir óskum þinum. En þú þarft samt að ná til hjartna þeirra. Gleymdu ekki að „ráð mannshjartans eru sem djúp vötn og hygginn maður eys af þeim“. (Orðskv. 20:5) Sýndu góða dómgreind og vertu vakandi fyrir vísbendingum um að eitthvert vandamál sé í uppsiglingu og taktu strax á málinu. Sýndu umhyggju þína án þess að ásaka barnið og spyrðu viðeigandi spurninga. Vertu samt varkár að hnýsast ekki of mikið. Einlægur áhugi þinn fyrir velferð barnsins mun ná til hjarta þess og greiða götuna fyrir því að þú getir hjálpað því.

Hlutverk safnaðarins

Getur þú, sem einn af þjónum Guðs, hjálpað unga fólkinu í söfnuðinum að meta andlega arfleifð sína að verðleikum? Þó að foreldrar beri ábyrgð á uppeldi barnanna geta aðrir í söfnuðinum, einkum öldungar, aðstoðað foreldrana. Það er sérstaklega mikilvægt að aðstoða fjölskyldur þar sem aðeins annað foreldranna er vottur.

Hvað geta öldungar gert til að hjálpa ungu fólki að elska Jehóva og finna að það er mikils virði? Mariusz er umsjónarmaður í söfnuði í Póllandi. Hann segir: „Það er geysilega mikilvægt að öldungar hafi samskipti við unga fólkið. Ekki tala bara við krakkana þegar eitthvert vandamál kemur upp heldur einnig við önnur tækifæri — í boðunarstarfinu, eftir samkomur eða bara yfir tebolla.“ Hví ekki að spyrja unglingana hvað þeim finnst um söfnuðinn? Slík opin samskipti færa unga fólkið nær söfnuðinum og hjálpa því að finna að það tilheyrir honum.

Ef þú ert öldungur, ertu þá að kynnast unga fólkinu í söfnuðinum? Albert, sem áður var minnst á, þjónar nú sem öldungur. Hann upplifði ýmsa erfiðleika sem unglingur. Hann segir: „Sem ungur maður þurfti ég að fá hirðisheimsókn.“ Öldungar geta líka sýnt persónulegan áhuga á ungu fólki með því að biðja fyrir andlegri velferð þess. — 2. Tím. 1:3.

Það er gott fyrir ungt fólk að taka þátt í starfsemi safnaðarins. Að öðrum kosti er hætt við að það einbeiti sér að veraldlegum markmiðum. Getið þið sem eruð eldri farið í boðunarstarfið með unga fólkinu og vingast við það? Vertu með unga fólkinu í frístundum og reyndu að skapa gagnkvæmt traust og vináttu. Jola segir: „Brautryðjandasystir sýndi mér persónulegan áhuga. Það var með henni sem ég fór fyrst í boðunarstarfið af því að mig langaði til þess.“

Persónulegt val þitt

Ungt fólk ætti að spyrja sig: „Hver eru markmið mín? Ef ég er ekki enn skírður, stefni ég þá að því?“ Sú ákvörðun að láta skírast ætti að eiga sér rætur í hjarta sem er fullt af kærleika til Jehóva. Hún ætti ekki að byggjast á skyldukvöð og fjölskylduhefð.

Já, vonandi verður þú sannur vinur Jehóva og sannleikurinn fjársjóður þinn. Jehóva sagði fyrir munn spámannsins Jesaja: „Vertu ekki hræddur því að ég er þinn Guð.“ Hann verður með þér eins lengi og þú ert vinur hans. Hann mun sannarlega styrkja og ‚styðja þig með sigrandi hendi sinni‘. — Jes. 41:10.

[Neðanmáls]

^ gr. 6 Sumum nöfnum hefur verið breytt.

[Mynd á blaðsíðu 4]

Reyndu að átta þig á hvað býr í hjarta barnsins.

[Mynd á blaðsíðu 6]

Sú ákvörðun að láta skírast á sér rætur í hjarta sem er fullt af kærleika til Jehóva.