Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Þér eruð vinir mínir“

„Þér eruð vinir mínir“

„Þér eruð vinir mínir“

„Þér eruð vinir mínir ef þér gerið það sem ég býð yður.“ — JÓH. 15:14.

1, 2. (a) Af hvaða uppruna voru vinir Jesú? (b) Af hverju er mikilvægt fyrir okkur að vera vinir Jesú?

MENNIRNIR, sem sátu í loftstofunni með Jesú, voru af ýmsum uppruna. Bræðurnir Pétur og Andrés höfðu verið fiskimenn. Matteus var fyrrverandi tollheimtumaður og tilheyrði á þeim tíma stétt manna sem Gyðingar fyrirlitu. Sumir, eins og þeir Jakob og Jóhannes, höfðu sennilega þekkt Jesú frá barnæsku. Aðrir, svo sem Natanael, höfðu ef til vill ekki þekkt hann nema í fáein ár. (Jóh. 1:43-50) Allir sem voru í loftstofunni þetta þýðingarmikla páskakvöld í Jerúsalem voru engu að síður sannfærðir um að Jesús væri hinn fyrirheitni Messías, sonur hins lifandi Guðs. (Jóh. 6:68, 69) Það hlýtur að hafa yljað þeim um hjartarætur að heyra hann segja: „Ég kalla yður vini því ég hef kunngjört yður allt sem ég heyrði af föður mínum.“ — Jóh. 15:15.

2 Þessi orð Jesú, sem hann sagði við trúfasta postula sína, gilda raunar um alla andasmurða kristna menn nú á tímum og ná í meginatriðum líka til félaga þeirra af hópi ‚annarra sauða‘. (Jóh. 10:16) Óháð uppruna okkar býðst okkur sá heiður að vera vinir Jesú. Það er ákaflega mikilvægt fyrir okkur að eiga vináttu hans vegna þess að þá erum við líka vinir Jehóva. Reyndar er ekki hægt að eignast náin tengsl við Jehóva nema eiga fyrst náið samband við Krist. (Lestu Jóhannes 14:6, 21.) Hvað þurfum við þá að gera til að verða vinir Jesú og varðveita vináttu hans? Áður en við leitum svara við þessari mikilvægu spurningu skulum við kynna okkur hvernig Jesús reyndist vera góður vinur og kanna hvernig lærisveinarnir brugðust við vináttu hans.

Jesús var góður vinur

3. Fyrir hvað var Jesús þekktur?

3 „Auðmaðurinn eignast fjölda vina,“ skrifaði spekingurinn Salómon. (Orðskv. 14:20) Þessi orð lýsa í hnotskurn tilhneigingu ófullkominna manna til að mynda vináttutengsl með það í huga hvað þeir geti fengið í stað þess að hugsa um hvað þeir geti gefið. Jesús sýndi enga slíka veikleika. Hann lét ekki fjárhag eða félagslega stöðu fólks hafa áhrif á sig. Vissulega þótti honum vænt um ungan ríkan höfðingja og bauð honum að fylgja sér. Hann hvatti manninn hins vegar til að selja eigur sínar og gefa fátækum. (Mark. 10:17-22; Lúk. 18:18, 23) Jesús var ekki þekktur fyrir tengsl sín við hina ríku og voldugu heldur fyrir að vingast við almúgafólk og þá sem voru fyrirlitnir í samfélaginu. — Matt. 11:19.

4. Hvað sýnir að vinir Jesú voru ekki gallalausir?

4 Vinir Jesú voru auðvitað ekki gallalausir. Pétur sá ekki alltaf hlutina frá sjónarhóli Guðs. (Matt. 16:21-23) Jakob og Jóhannes sýndu metnaðargirni þegar þeir báðu Jesú um að veita sér tignarstöður í ríki sínu. Hinum postulunum gramdist við þá og þeir deildu oft um það hver þeirra væri mestur. Jesús reyndi hins vegar að leiðrétta hugsunarhátt vina sinna og sýndi þeim mikla þolinmæði. — Matt. 20:20-28.

5, 6. (a) Af hverju var Jesús vinur postulanna þrátt fyrir galla þeirra? (b) Hvers vegna batt Jesús enda á vináttusambandið við Júdas?

5 Ástæðan fyrir því að Jesús var vinur þessara ófullkomnu manna var ekki sú að hann væri undanlátssamur eða blindur á galla þeirra. Hann kaus hins vegar að horfa á góðan vilja þeirra og jákvæða eiginleika. Lítum á dæmi. Pétur, Jakob og Jóhannes sofnuðu í stað þess að styðja Jesú á erfiðustu stund ævi hans. Jesús var skiljanlega vonsvikinn með þá. Hann vissi engu að síður að þeir vildu vel og sagði: „Andinn er reiðubúinn en holdið veikt.“ — Matt. 26:41.

6 Jesús batt hins vegar enda á vináttusamband sitt við Júdas Ískaríot. Júdas lét í veðri vaka að hann væri vinur Jesú en Jesús vissi að þessi maður, sem hafði verið náinn félagi hans, hafði spillt hjarta sínu. Júdas var orðinn vinur heimsins og þar með hafði hann gert sig að óvini Guðs. (Jak. 4:4) Jesús var því búinn að vísa Júdasi á dyr þegar hann lýsti yfir vináttu sinni við postulana 11 sem voru honum trúir. — Jóh. 13:21-35.

7, 8. Hvernig sýndi Jesús vinum sínum kærleika?

7 Jesús horfði fram hjá göllum dyggra vina sinna og gerði það sem var best fyrir þá. Hann bað til dæmis föður sinn að vernda þá í þrengingum þeirra. (Lestu Jóhannes 17:11.) Hann tók tillit til þess að þeir voru stundum þreyttir. (Mark. 6:30-32) Og hann hafði ekki bara áhuga á að segja þeim hvað honum fannst heldur vildi hann líka heyra hvernig þeim var innanbrjósts og skilja hvernig þeir hugsuðu. — Matt. 16:13-16; 17:24-26.

8 Jesús bæði lifði og dó fyrir vini sína. Hann vissi auðvitað að hann þurfti að fórna lífi sínu til að fullnægja lögum og láta réttlæti föður síns ná fram að ganga. (Matt. 26:27, 28; Hebr. 9:22, 28) En Jesús lagði líf sitt í sölurnar til að tjá kærleika sinn. „Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína,“ sagði hann. — Jóh. 15:13.

Hvernig brugðust lærisveinarnir við vináttu Jesú?

9, 10. Hvernig brást fólk við örlæti Jesú?

9 Jesús var örlátur á tíma sinn, ást og efnislega hluti. Fyrir vikið laðaðist fólk að honum og var örlátt við hann á móti. (Lúk. 8:1-3) Jesús gat sagt af eigin reynslu: „Gefið og yður mun gefið verða. Góður mælir, troðinn, skekinn, fleytifullur mun lagður í skaut yðar. Því með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður aftur mælt verða.“ — Lúk. 6:38.

10 Sumir reyndu auðvitað að umgangast Jesú aðeins af því að þeir vonuðust til að fá eitthvað frá honum. Þessir falsvinir yfirgáfu hann þegar þeir misskildu sumt sem hann sagði. Í stað þess að láta Jesú njóta vafans voru þeir fljótir að draga rangar ályktanir og yfirgefa hann. Postularnir voru hins vegar tryggir vinir. Það reyndi oft á vináttu þeirra við Krist en þeir gerðu sitt besta til að styðja hann í blíðu og stríðu. (Lestu Jóhannes 6:26, 56, 60, 66-68.) Síðasta kvöldið, sem Jesús var maður á jörð, lét hann í ljós hve vænt honum þótti um vini sína. Hann sagði: „Það eruð þér sem hafið staðið með mér í freistingum mínum.“ — Lúk. 22:28.

11, 12. Hvernig hughreysti Jesús lærisveinana og hvernig brugðust þeir við?

11 Skömmu eftir að Jesús hrósaði lærisveinunum fyrir hollustu þeirra yfirgáfu þeir hann. Um stundarsakir létu þeir óttann við menn vera kærleikanum til Krists yfirsterkari. Jesús fyrirgaf þeim það líka. Eftir að hann var dáinn og upprisinn birtist hann þeim og fullvissaði þá enn á ný um vináttu sína. Og hann fól þeim líka heilagt verkefni — að gera fólk af öllum þjóðum að lærisveinum og vera vottar sínir allt til endimarka jarðarinnar. (Matt. 28:19; Post. 1:8) Hvernig brugðust lærisveinarnir við því?

12 Lærisveinarnir tóku til óspilltra málanna að útbreiða boðskapinn um ríki Guðs. Með stuðningi heilags anda Jehóva tókst þeim á skömmum tíma að fylla Jerúsalem með kenningu sinni. (Post. 5:27-29) Líflátshótanir dugðu ekki einu sinni til að telja þeim hughvarf. Þeir héldu áfram að hlýða fyrirmælum Jesú og gera fólk að lærisveinum. Fáeinum áratugum síðar gat Páll postuli skrifað að fagnaðarerindið hefði verið prédikað „öllu sem skapað er í heiminum“. (Kól. 1:23) Þessir lærisveinar sýndu og sönnuðu að vináttuböndin við Jesú voru þeim afar mikils virði.

13. Hvaða áhrif höfðu kenningar Jesú á lærisveina hans?

13 Þeir sem gerðust fylgjendur Jesú létu líka kenningar hans hafa áhrif á líferni sitt. Margir þurftu að gerbreyta hátterni sínu og persónuleika. Sumir af nýju lærisveinunum höfðu lifað í hórdómi eða verið samkynhneigðir, drykkjumenn eða þjófar. (1. Kor. 6:9-11) Sumir þurftu að breyta um afstöðu til fólks af öðru þjóðerni. (Post. 10:25-28) En þeir hlýddu Jesú. Þeir afklæddust sínum gamla manni og íklæddust hinum nýja. (Ef. 4:20-24) Þeir kynntust „huga Krists“. Þeir skildu hvernig Jesús hugsaði og breytti og líktu eftir honum. — 1. Kor. 2:16.

Vinátta okkar við Krist

14. Hvað lofaði Jesús að gera á endalokatíma þessa heims?

14 Margir þessara kristnu manna á fyrstu öld höfðu þekkt Jesú persónulega eða séð hann eftir að hann reis upp frá dauðum. Við höfum auðvitað ekki fengið slíkt tækifæri. Hvernig getum við þá verið vinir Krists? Ein leiðin er að fylgja handleiðslu hins trúa og hyggna þjóns, þeirra sem eru eftir af andasmurðum bræðrum Krists á jörð. Jesús lofaði að á endalokatímanum myndi hann setja þennan þjón „yfir allar eigur sínar“. (Matt. 24:3, 45-47) Langfæstir þeirra sem sækjast eftir vináttu Krists nú á dögum tilheyra þessum þjónshópi. Hvaða áhrif hafa viðbrögð þeirra við leiðbeiningum hins trúa þjóns á vináttusamband þeirra við Krist?

15. Hvað ræður því hvort fólk verður talið sauðir eða hafrar?

15Lestu Matteus 25:31-40. Jesús kallaði þá sem tilheyrðu trúa þjónshópnum bræður sína. Í dæmisögunni um aðgreiningu sauðanna og hafranna tók hann fram að hann liti á framkomu okkar við bræður sína eins og hann ætti sjálfur í hlut. Hann sagði meira að segja að framkoma manna við ‚minnstu bræður hans‘ réði því hvort þeir yrðu álitnir sauðir eða hafrar. Þeir sem hafa jarðneska von sýna því að þá langi til að vera vinir Krists fyrst og fremst með því að styðja trúa þjónshópinn.

16, 17. Hvernig getum við sýnt bræðrum Krists vináttu okkar?

16 Hvernig geta þeir sem vonast til að lifa á jörð undir stjórn Guðsríkis sýnt bræðrum Krists vináttu sína? Við skulum líta á þrjár leiðir. Í fyrsta lagi getum við gert það með því að taka heilshugar þátt í boðunarstarfinu. Kristur sagði bræðrum sínum að boða fagnaðarerindið um allan heim. (Matt. 24:14) Það væri hins vegar ákaflega erfitt fyrir þá sem eru eftir af bræðrum Krists á jörðinni að rísa undir þeirri ábyrgð án stuðnings félaga sinna af hópi annarra sauða. Í hvert sinn sem einhver af hópi annarra sauða tekur þátt í boðunarstarfinu er hann að hjálpa bræðrum Krists að gera þessu helga verkefni skil. Hinn trúi og hyggni þjónn er afar þakklátur fyrir þennan vináttuvott og hið sama er að segja um Krist.

17 Í öðru lagi geta þeir sem eru af hópi annarra sauða hjálpað bræðrum Krists með því að styðja boðunarstarfið fjárhagslega. Jesús hvatti fylgjendur sína til að nota „hinn rangláta mammón“ til að afla sér vina. (Lúk. 16:9) Það er ekki svo að skilja að við getum keypt okkur vináttu Jesú eða Jehóva. Þegar við notum eigur okkar til að styðja starf Guðsríkis sönnum við hins vegar vináttu okkar og kærleika, ekki aðeins í orði heldur einnig „í verki og sannleika“. (1. Jóh. 3:16-18) Við styðjum starfið fjárhagslega þegar við tökum þátt í boðunarstarfinu, þegar við gefum peninga til að byggja eða viðhalda samkomuhúsum okkar og þegar við gefum fjármuni til boðunarstarfsins í heiminum. Hvort sem framlagið er stórt eða smátt eru Jehóva og Jesús báðir þakklátir þegar við gefum með gleði. — 2. Kor. 9:7.

18. Af hverju ættum við að fylgja biblíulegri leiðsögn safnaðaröldunganna?

18 Það þriðja, sem við getum öll gert til að sanna að við séum vinir Krists, er að fylgja fúslega forystu öldunganna í söfnuðinum. Þeir eru útnefndir af heilögum anda undir leiðsögn Krists. (Ef. 5:23) „Hlýðið leiðtogum ykkar og verið þeim eftirlát,“ skrifaði Páll postuli. (Hebr. 13:17) Stundum getur okkur fundist erfitt að fylgja biblíulegri leiðsögn safnaðaröldunganna. Við þekkjum eflaust galla þeirra og það getur haft áhrif á hvernig við lítum á leiðbeiningar þeirra. En Kristur, höfuð safnaðarins, notar þessa ófullkomnu menn með glöðu geði. Viðbrögð okkar við forystu þeirra hefur því bein áhrif á vináttusamband okkar við Krist. Þegar við horfum fram hjá göllum öldunganna og fylgjum fúslega leiðsögn þeirra sönnum við að við elskum Krist.

Hvar getum við fundið góða vini?

19, 20. Hvað finnum við í söfnuðinum og um hvað verður fjallað í næstu grein?

19 Jesús heldur áfram að annast okkur, ekki aðeins með því að sjá fyrir kærleiksríkum umsjónarmönnum heldur líka með því að gefa okkur andlegar mæður, bræður og systur í söfnuðinum. (Lestu Markús 10:29, 30.) Hvernig brugðust ættingjar þínir við þegar þú byrjaðir að hafa samneyti við söfnuð votta Jehóva? Vonandi studdu þeir viðleitni þína til að eiga gott samband við Guð og Krist. En Jesús benti á að stundum yrðu „heimamenn manns . . . óvinir hans“. (Matt. 10:36) Er ekki hughreystandi til þess að vita að í söfnuðinum sé að finna fólk sem reynist okkur tryggara en bróðir? — Orðskv. 18:24.

20 Páll átti marga nána vini eins og sjá má af persónulegum kveðjum hans í lok bréfsins til safnaðarins í Róm. (Rómv. 16:8-16) Jóhannes postuli lauk þriðja bréfi sínu þannig: „Heilsa þú vinunum hverjum fyrir sig.“ (3. Jóh. 15) Ljóst er að hann eignaðist líka marga trausta vini. Hvernig getum við líkt eftir Jesú og lærisveinum hans á fyrstu öld og myndað varanleg vináttubönd við trúsystkini okkar? Þeirri spurningu verður svarað í næstu grein.

Hvert er svarið?

• Hvernig reyndist Jesús vera góður vinur?

• Hvernig brugðust lærisveinarnir við vináttu Jesú?

• Hvernig getum við sýnt að við séum vinir Krists?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 14]

Jesús hafði áhuga á sjónarmiðum og tilfinningum vina sinna.

[Myndir á blaðsíðu 16]

Hvernig getum við sýnt að okkur langi til að vera vinir Krists?