Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þrjú mót mörkuðu lífsstefnu mína

Þrjú mót mörkuðu lífsstefnu mína

Þrjú mót mörkuðu lífsstefnu mína

George Warienchuck segir frá

HEFURÐU nokkurn tíma orðið svo snortinn af því sem þú heyrðir á móti hjá Vottum Jehóva að það hafi hvatt þig til að gerbreyta um lífsstefnu? Það gerðist hjá mér. Þegar ég lít til baka verður mér ljóst að það voru aðallega þrjú mót sem settu mark sitt á líf mitt. Fyrsta mótið hjálpaði mér að draga úr feimninni, annað að vera nægjusamari og það þriðja að gefa meira af sjálfum mér. En áður en ég segi ykkur frá þessum breytingum ætla ég að skýra frá nokkrum atburðum sem gerðust mörgum árum áður en þessi mót komu til sögunnar. Þeir tengjast æsku minni.

Ég fæddist árið 1928, yngstur þriggja systkina. Við systur mínar, Margie og Olga, ólumst upp í South Bound Brook í New Jersey í Bandaríkjunum. Þá bjuggu þar um tvö þúsund manns. Þó að við værum efnalítil var móðir okkar örlát. Þegar hún hafði ráð á að matbúa eitthvað sérstakt bauð hún nágrönnunum að njóta þess með okkur. Þegar ég var níu ára heimsótti hana vottur sem talaði ungversku en það var móðurmál mömmu. Það varð til þess að hún fékk áhuga á að kynna sér boðskap Biblíunnar. Síðar hélt Bertha, rúmlega tvítug systir, biblíunámskeiðinu áfram og hjálpaði henni að þjóna Jehóva.

Ólíkt móður minni var ég feiminn að eðlisfari og mig skorti sjálfstraust. Það sem verra var átti hún það til að gera lítið úr mér. Þegar ég spurði hana með tárin í augunum: „Af hverju ertu alltaf að gagnrýna mig?“ sagði hún að henni þætti mjög vænt um mig en hún vildi ekki spilla mér með eftirlæti. Hún vildi vel en mér fannst ég vera minni máttar vegna þess að mér var sjaldan hrósað.

Nágrannakona, sem talaði oft vingjarnlega til mín, bað mig einn daginn um að fara með sonum sínum í sunnudagaskólann í kirkjunni þeirra. Ég vissi að Jehóva mislíkaði ef ég gerði það en ég var hræddur um að særa þessa vingjarnlegu nágrannakonu. Í nokkra mánuði fór ég því í kirkju þó að ég skammaðist mín fyrir það. Í skólanum breytti ég einnig gegn samviskunni vegna ótta við menn. Skólastjórinn, sem var mjög ráðríkur, gætti þess að kennararnir létu öll börnin hylla fánann. Ég tók líka þátt í því í um það bil ár. Þá varð breyting á.

Ég lærði að hleypa í mig kjarki

Árið 1939 fór bóknámshópur að koma saman á heimili okkar. Ben Miezkalski, ungur brautryðjandi, stjórnaði bóknáminu. Við kölluðum hann Big Ben og ekki að ósekju. Í mínum augum var hann eins hár og breiður og útidyrnar hjá okkur. En hinn vörpulegi Ben bjó yfir hlýju hjarta og vingjarnlegt bros hans róaði mig fljótlega. Þegar hann bauð mér út í boðunarstarfið með sér þáði ég það með glöðu geði. Við urðum vinir. Þegar ég var leiður talaði hann við mig eins og umhyggjusamur bróðir við yngra systkini. Þetta hafði mikið að segja fyrir mig og mér fór að þykja mjög vænt um hann.

Árið 1941 bauð Ben okkur fjölskyldunni með sér í bílnum sínum á mót í St. Louis í Missouri. Tilhlökkunin var gífurleg. Ég hafði aldrei ferðast lengra en 80 kílómetra frá heimilinu og nú var ég að fara til staðar sem var meira en 1500 kílómetra í burtu. Það komu samt upp vandræði í St. Louis. Prestar höfðu skipað sóknarbörnum sínum að hætta við að sjá vottunum fyrir gistingu á heimilum sínum. Margir hættu við. Fjölskyldunni, sem ætlaði að hýsa okkur, hafði einnig verið ógnað. En hún bauð okkur velkomin. Húsráðendurnir sögðust ekki ganga á bak orða sinna um að sjá okkur fyrir gistingu. Ég var hrifinn af hugrekki þeirra.

Systur mínar létu skírast á mótinu. Þennan dag hélt bróðir Rutherford frá Betel í Brooklyn áhrifamikla ræðu og bað öll börn, sem vildu gera vilja Guðs, að standa upp. Um það bil 15.000 börn stóðu upp. Ég gerði það líka. Síðan bað hann þau okkar, sem vildu gera eins mikið og þau gætu í boðunarstarfinu, að segja: „Já,“ og ég hrópaði já eins og hin börnin. Dynjandi lófaklapp kvað við. Ég var upptendraður!

Eftir mótið heimsóttum við bróður í Vestur-Virginíu. Hann sagði frá því að einu sinni þegar hann var í boðunarstarfinu hafi skríll barið hann og atað hann tjöru og fiðri. Ég hlustaði á hann með öndina í hálsinum. „En ég ætla að halda áfram að prédika,“ sagði bróðirinn. Þegar við kvöddum hann leið mér eins og Davíð. Ég var tilbúinn að takast á við Golíat — skólastjórann minn!

Þegar ég kom aftur í skólann fór ég til skólastjórans. Hann starði reiðilega á mig. Ég bað Jehóva í hljóði um að hjálpa mér. Síðan bunaði ég út úr mér: „Ég hef verið á móti hjá Vottum Jehóva. Ég ætla ekki lengur að hylla fánann.“ Það varð löng þögn. Skólastjórinn stóð hægt upp frá skrifborðinu og gekk í áttina til mín. Andlitið var eldrautt af reiði. Hann hrópaði: „Hylltu fánann eða þú ert rekinn!“ Í þetta sinn lét ég ekki undan og innst inni fann ég til gleði. Slíkrar gleði hafði ég aldrei áður fundið fyrir.

Ég gat varla beðið með að segja Ben hvað hafði gerst. Þegar ég sá hann í ríkissalnum hrópaði ég: „Ég var rekinn úr skólanum! Ég hyllti ekki fánann!“ Ben tók utan um mig, brosti og sagði: „Það er öruggt að Jehóva elskar þig.“ (5. Mós. 31:6) Hvílík uppörvun! Ég lét skírast 15. júní 1942.

Ég lærði að vera nægjusamur

Efnahagslífið blómstraði eftir síðari heimsstyrjöldina og efnishyggja tók völdin. Ég var í vel launaðri vinnu og gat keypt hluti sem mig hafði bara dreymt um áður. Sumir vina minna fengu sér mótorhjól og aðrir endurnýjuðu heimili sín. Ég keypti mér splunkunýjan bíl. Bráðlega fór löngunin í meiri efnisleg þægindi að ýta til hliðar áhuga mínum á þjónustu Jehóva. Ég vissi að ég stefndi í ranga átt. Mót, sem haldið var í New York-borg árið 1950, hjálpaði mér til allrar hamingju að ná aftur réttri stefnu.

Á þessu móti hvatti hver ræðumaðurinn á fætur öðrum áheyrendurna til að stefna fram á við í prédikunarstarfinu. Einn af þeim sagði: „Látið ykkur nægja það allra nauðsynlegasta og þreytið skeiðið.“ Hann virtist beina orðum sínum beint til mín. Ég sá einnig útskriftarhóp frá Gíleaðskólanum og ég fór að velta fyrir mér: „Fyrst þessir vottar, sem eru á aldur við mig, geta verið án efnislegra þæginda til að þjóna erlendis ætti ég að vera fús til að gera það hér heima.“ Í lok mótsins hafði ég gert upp hug minn um að verða brautryðjandi.

Í millitíðinni hafði ég kynnst Evelyn Mondak, kappsfullri systur sem var í sama í söfnuði og ég. Móðir hennar var hugrökk kona og hafði alið upp sex börn. Hún hafði mjög gaman af að fara í götustarfið fyrir framan feikistóra rómversk-kaþólska kirkju. Engu máli skipti hve oft reiður presturinn sagði henni að fara burt, hún hvikaði ekki. Evelyn líktist móður sinni, hún óttaðist ekki menn. — Orðskv. 29:25.

Við giftumst árið 1951, hættum í vinnunni og gerðumst brautryðjendur. Farandumsjónarmaður hvatti okkur til að flytja til Amagansett sem var lítið þorp við Atlantshafsströndina, 160 kílómetra frá New York-borg. Þegar söfnuðurinn þar upplýsti okkur um að þeir hefðu ekkert húsnæði fyrir okkur leituðum við að húsvagni en okkur tókst ekki að finna neinn á viðráðanlegu verði. Þá komum við auga á niðurníddan húsvagn. Eigandinn vildi fá 900 dollara fyrir hann. Það var nákvæmlega upphæðin sem við höfðum fengið í brúðkaupsgjöf. Við keyptum húsvagninn, gerðum hann upp og drógum hann á nýja starfssvæðið. Við komum þangað algerlega peningalaus og vissum ekki hvernig við gætum lifað af sem brautryðjendur.

Evelyn tók að sér ræstingar í heimahúsum og ég fékk næturvinnu við hreingerningar á ítölsku veitingahúsi. Eigandinn sagði að ég mætti taka allan afgangsmat með mér heim handa eiginkonunni. Þegar ég kom svo heim klukkan tvö að næturlagi fylltist húsvagninn af pitsu- og pastailmi. Þessar upphituðu máltíðir komu sér vel, sérstaklega á veturna þegar við skulfum inni í ísköldum húsvagninum. Þessu til viðbótar skildu stundum bræðurnir í söfnuðinum eftir stóran fisk á tröppum húsvagnsins. Árin, sem við störfuðum með þessum elskulegu bræðrum og systrum í Amagansett, kenndu okkur að það leiðir til ánægjulegs lífs að vera nægjusamur. Þetta voru hamingjurík ár.

Hvött til að leggja meira í sölurnar

Í júlí árið 1953 tókum við á móti hundruðum trúboða sem höfðu komið frá trúboðsstarfi erlendis og ætluðu að vera á alþjóðamóti í New York-borg. Þeir sögðu heillandi frásögur. Hrifning þeirra var smitandi. Þegar ræðumaður á mótinu sagði með áherslu að ekki hefði enn náðst til margra landa með fagnaðarboðskapinn vissum við hvað við ættum að gera — gefa meira af sjálfum okkur með því að færa út kvíarnar í boðunarstarfinu. Áður en mótinu lauk vorum við búin að sækja um að fá þjálfun til trúboðsstarfa. Þetta sama ár var okkur boðið að vera í 23. nemandahópi Gíleaðskólans sem átti að hefjast í febrúar 1954. Hvílík blessun!

Við urðum mjög ánægð þegar við fréttum að við yrðum send til starfa í Brasilíu. Áður en við fórum af stað í 14 daga siglingu með gufuskipi sagði bróðir, sem gegndi ábyrgðarstarfi á Betel, við mig: „Níu einhleypar trúboðssystur verða samferða ykkur hjónunum til Brasilíu. Gættu þeirra!“ Þið getið rétt ímyndað ykkur upplitið á sjóliðunum þegar þeir sáu mig koma um borð með tíu ungar konur í eftirdragi! Systurnar áttu þó ekki í neinum vandræðum með að takast á við kringumstæðurnar. Mér létti þó þegar við komumst heilu og höldnu til Brasilíu.

Þegar ég hafði náð tökum á portúgölsku voru mér falin farandhirðisstörf í Rio Grande do Sul sem er ríki í suðurhluta Brasilíu. Farandhirðirinn, sem ég átti að taka við af, var einhleypur bróðir. Hann sagði við okkur: „Ég er hissa á því að hjón skuli vera send hingað. Þessi staður er erfiður yfirferðar.“ Söfnuðirnir voru á víð og dreif um víðáttumikið og strjálbýlt svæði. Sumra var aðeins hægt að ná til með því að fá far með vörubíl. Ef við keyptum máltíð handa bílstjóranum leyfði hann okkur að klöngrast upp á bílinn hjá sér. Við sátum ofan á farminum eins og værum við á hestbaki og ríghéldum okkur með báðum höndum í kaðlana sem farmurinn var bundinn með. Í hvert skipti sem vörubíllinn tók snarpa beygju héldum við okkur dauðahaldi þar sem hár farmurinn hallaðist og hyldjúpir dalir blöstu við okkur fyrir neðan. En daglöng ferðalög í líkingu við þetta voru sannarlega þess virði þegar við sáum ánægjuna á andlitum trúsystkinanna sem biðu okkar eftirvæntingarfull.

Við bjuggum á heimilum trúsystkina okkar. Þau voru ósköp fátæk en það kom ekki í veg fyrir að þau væru gjafmild. Í afskekktu héraði unnu öll trúsystkinin í kjötpökkunarveri. Launin voru svo lág að þau höfðu aðeins ráð á einni máltíð á dag. Ef þau misstu dag úr vinnu fengu þau ekki laun þann daginn. Meðan á dvöl okkar stóð tóku þau sér samt tveggja daga frí frá vinnu til þess að taka þátt í safnaðarstarfinu. Þau treystu Jehóva. Þessi auðmjúku trúsystkini kenndu okkur að færa ríki Guðs fórnir. Þeim lærdómi gleymum við aldrei. Að búa með þeim veitti okkur menntun sem enginn skóli getur veitt. Þegar ég lít til baka og minnist þessara trúsystkina tárast ég enn af gleði.

Árið 1976 snerum við aftur til Bandaríkjanna til að annast sjúka móður mína. Það var erfitt að yfirgefa Brasilíu en við erum þakklát fyrir að hafa séð boðberum og söfnuðum þar fjölga svo um munar. Í hvert sinn sem við fáum bréf þaðan koma upp margar ljúfar minningar frá þessum frábæra tíma í lífi okkar.

Ánægjulegir endurfundir

Meðan við önnuðumst móður mína vorum við brautryðjendur og tókum að okkur ræstingar. Móðir mín lést árið 1980, trúföst Jehóva. Eftir það var mér boðið að þjóna sem farandhirðir í Bandaríkjunum. Árið 1990 heimsóttum við hjónin söfnuð í Connecticut og þar hittum við mann sem okkur var kær. Einn af öldungunum var enginn annar en Ben, sá sami Ben sem hjálpaði mér 50 árum áður að taka afstöðu með Jehóva. Getið þið ímyndað ykkur fögnuðinn þegar við föðmuðumst?

Frá árinu 1996 höfum við Evelyn starfað sem sérbrautryðjendur í portúgalska söfnuðinum í Elizabeth í New Jersey. En sökum aldurs getum við ekki starfað fullan tíma en njótum áfram réttinda sem sérbrautryðjendur. Heilsan er farin að gefa sig en með hjálp elskulegrar eiginkonu minnar tek ég eins mikinn þátt í boðunarstarfinu og ég get. Evelyn aðstoðar einnig veikburða, aldraða nágrannakonu. Og hvað skyldi hún heita? Hún heitir Bertha, reyndar sú sama Bertha sem hjálpaði móður minni að verða þjónn Jehóva fyrir meira en 70 árum. Við erum ánægð að fá tækifæri til að sýna þakklæti okkar fyrir allt sem hún gerði til að hjálpa fjölskyldu minni að læra sannleikann.

Ég er þakklátur fyrir mótin sem hvöttu mig á yngri árum til að taka afstöðu með sannri tilbeiðslu, einfalda líf mitt og færa út kvíarnar í boðunarstarfinu. Þessi mót höfðu mikil áhrif á lífsstefnu mína.

[Mynd á blaðsíðu 23]

Móðir Evelynar (til vinstri) og móðir mín.

[Mynd á blaðsíðu 23]

Ben, vinur minn.

[Mynd á blaðsíðu 24]

Í Brasilíu.

[Mynd á blaðsíðu 25]

Nýleg mynd af okkur hjónunum.