Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Að eiga vini í kærleikslausum heimi

Að eiga vini í kærleikslausum heimi

Að eiga vini í kærleikslausum heimi

„Þetta býð ég yður, að þér elskið hvert annað.“ — JÓH. 15:17.

1. Af hverju þurftu frumkristnir menn að vera nánir vinir?

SÍÐASTA kvöldið, sem Jesús var á jörð, hvatti hann trúa lærisveina sína til að vera vinir. Fyrr um kvöldið hafði hann sagt að aðrir myndu þekkja að þeir væru fylgjendur hans á því að þeir elskuðu hver annan. (Jóh. 13:35) Postularnir þurftu að vera nánir vinir til að standast prófraunirnar sem voru fram undan og til að vinna það verk sem Jesús átti eftir að fela þeim innan skamms. Raunin var líka sú að frumkristnir menn voru þekktir fyrir órjúfanlega hollustu sína við Guð og hver við annan.

2. (a) Hvað erum við staðráðin í að gera og af hverju? (b) Á hvaða spurningar ætlum við að líta?

2 Það er einkar ánægjulegt að tilheyra alþjóðlegum söfnuði sem tekur sér frumkristna menn til fyrirmyndar. Við erum staðráðin í að hlýða þeim fyrirmælum Jesú að elska hvert annað. Núna á síðustu dögum er sviksemi hins vegar útbreidd og margir eru kærleikslausir. (2. Tím. 3:1-4) Vináttubönd eru oft yfirborðsleg og eigingjörn. Sannkristnir menn mega ekki hegða sér þannig. Við skulum því velta fyrir okkur nokkrum spurningum: Á hverju byggist góð vinátta? Hvernig getum við eignast góða vini? Undir hvaða kringumstæðum gætum við þurft að binda enda á vináttutengsl? Og hvernig getum við átt trygga og góða vini?

Grundvöllur góðrar vináttu

3, 4. Á hverju byggjast sterkustu vináttuböndin og af hverju?

3 Sterkustu vináttuböndin eru byggð á kærleika til Jehóva. Salómon konungur skrifaði: „Ef einhver ræðst á þann sem er einn munu tveir geta staðist hann og þrefaldan þráð er torvelt að slíta.“ (Préd. 4:12) Þegar Jehóva er þriðji þráðurinn í vináttubandi er vináttan sterk og traust.

4 Þeir sem elska ekki Jehóva geta vissulega myndað náin vináttubönd við aðra. En þegar fólk, sem elskar Guð, binst vináttuböndum verður vináttan órjúfanleg. Ef sanna vini greinir á koma þeir fram hver við annan eins og Jehóva vill að þeir geri. Ef andstæðingar Guðs reyna að valda sundrungu uppgötva þeir að vináttuböndin milli sannkristinna manna eru órjúfandi. Sagan hefur sýnt að þjónar Jehóva hafa frekar fórnað lífi sínu en að svíkja hver annan. — Lestu 1. Jóhannesarbréf 3:16.

5. Af hverju var vinátta Rutar og Naomí sterk og traust?

5 Það leikur enginn vafi á að ánægjulegustu vináttutengslin sem við getum átt eru við þá sem elska Jehóva. Tökum Rut og Naomí sem dæmi. Konunum tveim varð vel til vina og lýsingin á vináttu þeirra er einhver sú fegursta sem er að finna í Biblíunni. Af hverju var vinátta þeirra jafn sterk og traust og raun ber vitni? Það sést vel af orðum Rutar þegar hún sagði við Naomí: „Þitt fólk er mitt fólk og þinn guð er minn guð . . . Drottinn gjaldi mér nú og framvegis ef annað en dauðinn aðskilur okkur.“ (Rut. 1:16, 17) Ljóst er að Rut og Naomí elskuðu Guð innilega og það hafði sterk áhrif á framkomu þeirra hvor við aðra. Og Jehóva blessaði þær fyrir vikið.

Að eignast góða vini

6-8. (a) Hver er undirstaða varanlegra vináttubanda? (b) Hvernig er hægt að eiga frumkvæðið að því að eignast vini?

6 Rut og Naomí eru dæmi um að traust vináttubönd verða ekki til af tilviljun. Grundvöllurinn er sá að báðir elski Jehóva. En traust vináttubönd kosta vinnu og fórnfýsi. Systkini, sem þjóna Jehóva í sömu fjölskyldunni, þurfa meira að segja að leggja sig fram um að vera vinir. Hvernig er þá hægt að eignast góða vini?

7Eigðu frumkvæðið. Páll postuli hvatti vini sína í söfnuðinum í Róm til að ‚leggja stund á gestrisni‘. (Rómv. 12:13) Gestrisni byggist á mörgum smáum verkum. Það má líkja henni við gönguferð þar sem við stígum hvert skrefið á fætur öðru. Enginn getur verið gestrisinn fyrir þig. (Lestu Orðskviðina 3:27.) Ein leið til að vera gestrisinn er að bjóða ýmsum í söfnuðinum að njóta einfaldrar máltíðar með þér. Geturðu haft það fyrir venju að vera gestrisinn við trúsystkini?

8 Önnur leið til að eiga frumkvæðið að því að eignast vini er að bjóða ýmsum boðberum með sér í boðunarstarfið. Þegar þú stendur við dyrnar og heyrir félaga þinn tala við ókunnuga manneskju um kærleika sinn til Jehóva fer ekki hjá því að þú laðist að félaga þínum.

9, 10. (a) Lýstu fordæmi Páls postula. (b) Hvernig getum við tekið Pál til fyrirmyndar?

9Opnaðu hjartað. (Lestu 2. Korintubréf 6:12, 13.) Hefur þér einhvern tíma fundist að það sé bara enginn í söfnuðinum sem þú getur vingast við? Ef svo er getur þá verið að þú horfir hreinlega of þröngt á það hverja þú getir valið þér að vinum? Páll postuli er gott dæmi um að opna hjarta sitt. Einu sinni hefði ekki hvarflað að honum að mynda náin vináttutengsl við fólk af öðru þjóðerni en síðar varð hann „postuli heiðingja“. — Rómv. 11:13.

10 Og Páll einskorðaði sig ekki við sinn eigin aldurshóp. Þeir Tímóteus urðu góðir vinir þrátt fyrir talsverðan aldursmun og ólíkan uppruna. Mörgu ungu fólki nú á tímum þykir mikils virði að hafa eignast vináttutengsl við sér eldra fólk í söfnuðinum. Vanessa er rúmlega tvítug. „Ég á mjög góða vinkonu sem er á sextugsaldri,“ segir hún. „Ég get sagt henni allt sem ég get talað um við vini á mínum aldri, og henni er ákaflega annt um mig.“ Hvernig myndast slík vinátta? „Ég beið ekki bara eftir að hún vingaðist við mig heldur lagði mitt af mörkum,“ segir Vanessa. Geturðu hugsað þér að eignast vini utan þíns aldurshóps? Þú mátt vera viss um að Jehóva umbunar þér viðleitni þína.

11. Hvað getum við lært af Jónatan og Davíð?

11Vertu tryggur. „Vinur lætur aldrei af vináttu sinni, í andstreymi reynist hann sem bróðir,“ stendur í Orðskviðunum 17:17. Þegar Salómon skrifaði þessi orð kann hann að hafa hugsað til vináttu Davíðs föður síns og Jónatans. (1. Sam. 18:1) Sál konungur vildi að Jónatan sonur sinn erfði konungstignina í Ísrael. En Jónatan viðurkenndi að Jehóva hafði valið Davíð til að gegna þessu embætti. Ólíkt Sál öfundaði Jónatan ekki Davíð. Honum gramdist ekki það lof sem Davíð hlaut og gleypti ekki við þeim rógi sem Sál breiddi út um hann. (1. Sam. 20:24-34) Líkjumst við Jónatan? Gleðjumst við með vinum okkar þegar þeir fá verkefni í söfnuðinum? Styðjum við þá og hughreystum þegar þeir lenda í erfiðleikum? Trúum við því eins og nýju neti ef við heyrum talað illa um þá? Eða verjum við vin okkar dyggilega eins og Jónatan gerði?

Þegar binda þarf enda á vináttu

12-14. Í hvaða vanda lenda sumir biblíunemendur og hvernig getum við orðið að liði?

12 Þegar biblíunemandi fer að breyta lífsmáta sínum getur hann átt í verulegum vanda hvað vináttu varðar. Hann á kannski félaga sem hann hefur ánægju af að vera með en þeir lifa ekki í samræmi við siðferðisreglur Biblíunnar. Hann hefur kannski blandað geði við þá að staðaldri fram til þessa. En nú hefur hann áttað sig á því að það sem þeir stunda getur haft slæm áhrif á hann og honum finnst hann þurfa að takmarka samskipti sín við þá. (1. Kor. 15:33) Honum finnst samt kannski að hann sé að bregðast þessum vinum ef hann umgengst þá ekki.

13 Ef þú ert biblíunemandi og ert í þessari aðstöðu skaltu hafa hugfast að sannur vinur gleðst yfir því að þú sért að reyna að bæta þig. Kannski vill hann líka fræðast um Jehóva. Falsvinir „hallmæla“ þér hins vegar vegna þess að þú hleypur ekki með þeim „út í sama spillingardíki“. (1. Pét. 4:3, 4) Sannleikurinn er sá að þessir vinir hafa brugðist þér en ekki hið gagnstæða.

14 Safnaðarmenn geta fyllt í skarðið þegar biblíunemendur verða fyrir því að vinir þeirra, sem elska ekki Guð, snúa við þeim bakinu. (Gal. 6:10) Þekkirðu persónulega þá sem eru í biblíunámi og sækja samkomur? Geturðu stundum séð þeim fyrir uppbyggilegum félagsskap?

15, 16. (a) Hvað ættum við að gera ef vinur hættir að þjóna Jehóva? (b) Hvernig getum við sýnt Jehóva að við elskum hann?

15 En segjum nú að vinur í söfnuðinum ákveði að snúa baki við Jehóva og það þurfi kannski að víkja honum úr söfnuðinum? Það getur tekið mjög á. Systir nokkur lýsir viðbrögðum sínum þegar náin vinkona hætti að þjóna Jehóva. Hún segir: „Mér fannst eitthvað deyja innra með mér. Ég hélt að vinkona mín stæði styrkum fótum í sannleikanum en svo var ekki. Ég velti fyrir mér hvort hún hefði bara þjónað Jehóva til að þóknast fjölskyldunni. Síðan fór ég að íhuga af hverju ég þjónaði Jehóva. Gerði ég það af réttu tilefni?“ Hvernig tókst hún á við þetta? „Ég varpaði byrðum mínum á Jehóva,“ segir hún. „Ég er staðráðin í að sýna Jehóva að ég elski hann en þjóni honum ekki bara af því að hann sér mér fyrir vinum í söfnuðinum.“

16 Við getum ekki ætlast til þess að halda vináttu Guðs ef við tökum afstöðu með þeim sem kjósa að vera vinir heimsins. Lærsveinninn Jakob skrifaði: „Vitið þið ekki að vinátta við heiminn er fjandskapur gegn Guði? Hver sem því vill vera vinur heimsins, hann gerir sig að óvini Guðs.“ (Jak. 4:4) Við getum sýnt og sannað að við elskum Guð með því að treysta honum til að hjálpa okkur að takast á við vinamissi ef við erum honum trú. (Lestu Sálm 18:26.) Systirin, sem áður er nefnd, orðaði þetta vel. Hún sagði: „Mér lærðist að við getum ekki neytt aðra til að elska Jehóva eða okkur. Fólk verður sjálft að velja.“ En hvað getum við gert til að viðhalda góðum vináttutengslum við trúsystkini?

Að viðhalda góðum vináttuböndum

17. Hvernig tala góðir vinir hver við annan?

17 Góð tjáskipti eru lífæð góðrar vináttu. Þegar við lesum frásögur Biblíunnar af Rut og Naomí, Davíð og Jónatan og þeim Páli og Tímóteusi tökum við eftir að góðir vinir tala opinskátt hver við annan en jafnframt með virðingu. Páll ræðir um hvernig við eigum að tjá okkur við aðra og segir: „Mál ykkar sé ætíð ljúflegt en salti kryddað.“ Páll er einkum að fjalla um það hvernig við eigum að tala við þá „sem fyrir utan eru“, það er að segja þá sem eru ekki trúsystkini okkar. (Kól. 4:5, 6) Ef þeir sem eru ekki í trúnni verðskulda virðingu okkar ættum við auðvitað enn frekar að sýna vinum okkar í söfnuðinum virðingu.

18, 19. Hvernig ættum við að líta á ráð sem við fáum frá vini í söfnuðinum og hvað getum við lært af öldungunum í Efesus?

18 Góðir vinir meta mikils álit hver annars. Þeir þurfa því að vera bæði vinsamlegir og hreinskilnir hver við annan. Salómon konungur skrifaði: „Ilmolía og reykelsi gleðja hjartað en indælli er vinur en ilmandi viður.“ (Orðskv. 27:9) Líturðu þannig á ráð sem þú færð frá góðum vini? (Lestu Sálm 141:5.) * Hvernig bregstu við ef vinur lýsir áhyggjum sínum af einhverju sem þú ert að gera? Líturðu á orð hans sem merki um kærleika eða móðgast þú?

19 Páll postuli átti náið samband við öldungana í söfnuðinum í Efesus. Sennilega hafði hann þekkt suma þeirra frá því að þeir tóku trú. Þegar hann hitti þá í síðasta sinn gaf hann þeim opinskáar leiðbeiningar. Hvernig brugðust þeir við? Vinir Páls móðguðust ekki. Þeir voru þakklátir fyrir umhyggju hans og grétu af tilhugsuninni um að þeir myndu ekki sjá hann framar. — Post. 20:17, 29, 30, 36-38.

20. Hvað gerir kærleiksríkur vinur?

20 Góðir vinir bæði gefa og þiggja viturleg ráð. Við þurfum að sjálfsögðu að vita hvenær við eigum ekki að blanda okkur í mál annarra. Og við þurfum líka að hafa hugfast að hver og einn þarf að „gera Guði skil á sjálfu sér“. (Rómv. 14:12) Kærleiksríkir vinir eru hins vegar ófeimnir við að minna vinsamlega á mælikvarða Jehóva þegar þörf krefur. (1. Kor. 7:39) Hvað myndirðu til dæmis gera ef þú uppgötvaðir að ógiftur vinur væri að mynda tilfinningatengsl við einhvern utan safnaðarins? Myndirðu veigra þér við að lýsa yfir áhyggjum þínum af ótta við að spilla vináttunni? Og hvað myndirðu gera ef vinurinn tæki ekki mark á ráðleggingum þínum? Góður vinur myndi leita hjálpar safnaðaröldunga í von um að geta aðstoðað félaga sem hefur orðið eitthvað á. Það þarf hugrekki til að gera þetta en það spillir ekki vináttu sem byggist á kærleika til Jehóva.

21. Hvað gerum við öll af og til en af hverju er mikilvægt að eiga góða vini í söfnuðinum?

21Lestu Kólossubréfið 3:13, 14. Stundum gerum við eitthvað á hlut vina okkar og þeir gera líka eða segja eitthvað sem ergir okkur. „Öll hrösum við margvíslega,“ skrifaði Jakob. (Jak. 3:2) En vinátta er óháð því hve oft við syndgum hvert gegn öðru. Hún ræðst öllu heldur af því hvort við fyrirgefum fullkomlega. Það er ákaflega mikilvægt að mynda sterk vináttubönd með því að tjá okkur opinskátt og fyrirgefa fúslega. Ef við sýnum slíkan kærleika verður hann band sem „bindur allt saman og fullkomnar allt“.

[Neðanmáls]

^ gr. 18 Sálmur 141:5 (Biblían 1859): „Sá ráðvandi slái mig, það er elska; hann straffi mig, það er mér viðsmjör á höfði; mitt höfuð skal ei undan færast, þó hann slái aptur.“

Hvert er svarið?

• Hvernig getum við eignast góða vini?

• Hvenær gæti þurft að binda enda á vináttu?

• Hvað þurfum við að gera til að viðhalda góðum vináttuböndum?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 18]

Á hverju byggðist traust vinátta Rutar og Naomí?

[Mynd á blaðsíðu 19]

Sýnirðu gestrisni að staðaldri?