Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Hafið frið við alla menn“

„Hafið frið við alla menn“

„Hafið frið við alla menn“

„Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á ykkar valdi.“ — RÓMV. 12:18.

1, 2. (a) Við hverju varaði Jesús fylgjendur sína? (b) Hvar getum við fundið leiðbeiningar um rétt viðbrögð við andstöðu?

JESÚS varaði fylgjendur sína við því að þeir myndu verða fyrir andstöðu frá þjóðum heims, og kvöldið áður en hann dó skýrði hann ástæðuna fyrir þeim. Hann sagði við postulana: „Væruð þér af heiminum mundi heimurinn elska sína. Heimurinn hatar yður af því að þér eruð ekki af heiminum heldur hef ég útvalið yður úr heiminum.“ — Jóh. 15:19.

2 Páll postuli kynntist því af eigin raun að Jesús hafði farið með rétt mál. Hann sagði í síðara bréfinu til Tímóteusar, hins unga trúboðsfélaga síns: „Þú hefur fylgt mér í kenningu, hegðun, ásetningi, trú, langlyndi, kærleika, þolgæði í ofsóknum og þjáningum.“ Síðan bætti hann við: „Enda verða allir ofsóttir sem lifa vilja guðrækilega í Kristi Jesú.“ (2. Tím. 3:10-12) Í 12. kafla Rómverjabréfsins gaf Páll góðar leiðbeiningar um það hvernig kristnir menn ættu að bregðast við andstöðu. Það sem hann skrifaði getur verið okkur til leiðsagnar núna á tíma endalokanna.

„Stundið það sem fagurt er“

3, 4. Hvernig er hægt að fylgja leiðbeiningunum í Rómverjabréfinu 12:17 (a) á heimili þar sem annað hjónanna er ekki vottur? (b) í samskiptum við nágranna?

3Lestu Rómverjabréfið 12:17. Páll bendir á að við eigum ekki að gjalda í sömu mynt þegar einhver kemur illa fram við okkur. Það er sérstaklega mikilvægt að fara eftir ráðum hans á heimili þar sem annað hjónanna er vottur en hitt ekki. Það hjónanna sem er vottur stenst freistinguna að endurgjalda óvinsamleg orð eða verk á sama hátt. Það hlýst ekkert gott af því að ‚gjalda illt fyrir illt‘. Það getur hins vegar gert illt verra.

4 Páll mælir með annarri og betri leið: „Stundið það sem fagurt er fyrir sjónum allra manna.“ Ef eiginmaður segir eitthvað miður fallegt um trú konunnar sinnar getur hún hugsanlega afstýrt rifrildi með því að sýna honum góðvild. (Orðskv. 31:12) Carlos starfar nú á Betel. Hann minnist þess hvernig móðir hans sigraðist á harðri andstöðu föður hans með því að vera góðviljuð og annast heimilið vel. „Hún hvatti okkur börnin alltaf til að sýna honum virðingu. Hún lét mig spila boules (franskt kúluspil) við hann þó að það væri ekki uppáhaldsleikurinn minn. En það kom honum í gott skap.“ Hann fór síðar að kynna sér Biblíuna og lét skírast. Vottar Jehóva hafa oft unnið bug á fordómum með því að aðstoða nágranna sína þegar náttúruhamfarir verða. Þannig hafa þeir stundað „það sem fagurt er fyrir sjónum allra manna“.

Bræðum andstöðu með „glóðum elds“

5, 6. (a) Í hvaða skilningi er „glóðum elds“ safnað á höfuð óvinar? (b) Segðu frá dæmi sem þú þekkir um að það geti skilað góðum árangri að fara eftir leiðbeiningunum í Rómverjabréfinu 12:20?

5Lestu Rómverjabréfið 12:20. Þegar Páll valdi orðin í þessu versi hafði hann eflaust í huga það sem stendur í Orðskviðunum 25:21, 22: „Ef óvin þinn hungrar gefðu honum þá að eta og þyrsti hann gefðu honum þá að drekka því að þú safnar glóðum elds að höfði honum og Drottinn mun endurgjalda þér það.“ Þegar litið er á leiðbeiningar Páls í 12. kafla Rómverjabréfsins getur hann varla hafa átt við að hinar táknrænu glóðir elds ættu að vera andstæðingnum til refsingar eða skammar. Orðskviðurinn og svipað orðalag Páls í Rómverjabréfinu virðist frekar draga líkingu af fornri aðferð við málmbræðslu. Enski fræðimaðurinn Charles Bridges, sem var uppi á 19. öld, segir: „Umlykið ósveigjanlegan málminn neðan frá og ofan frá; setjið hann ekki aðeins ofan á eldinn heldur hrúgið glóðum elds ofan á hann. Fá hjörtu eru svo hörð að þau bráðni ekki fyrir krafti brennandi kærleika, þolinmæði og óeigingirni.“

6 Góðverk geta, líkt og ‚glóðir elds‘, yljað og jafnvel brætt hjörtu andstæðinga svo að þeir láta af andstöðunni. Góðvild í verki getur gert fólk jákvæðara gagnvart þjónum Jehóva og biblíuboðskapnum sem þeir boða. Pétur postuli skrifaði: „Hegðið ykkur vel meðal þjóðanna, til þess að þeir sem nú hallmæla ykkur sem illgjörðamönnum sjái góðverk ykkar og vegsami Guð þegar hann kemur.“ — 1. Pét. 2:12.

„Hafið frið við alla menn“

7. Hver er friðurinn sem Kristur gefur lærisveinunum og hvaða áhrif ætti hann að hafa á okkur?

7Lestu Rómverjabréfið 12:18. Síðasta kvöldið, sem Jesús var með postulunum, sagði hann við þá: „Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður.“ (Jóh. 14:27) Friðurinn, sem Jesús gefur lærisveinunum, er innri ró sem fylgir vissunni um að þeir njóti kærleika og velþóknunar Jehóva Guðs og sonar hans. Þessi innri friður ætti að vera okkur hvöt til að eiga frið við aðra. Sannkristnir menn unna friði og eru friðflytjendur. — Matt. 5:9.

8. Hvernig getum við stuðlað að friði á heimilinu og í söfnuðinum?

8 Ein leið til að stuðla að friði innan fjölskyldunnar er að útkljá ágreining eins fljótt og hægt er í stað þess að leyfa ástandinu að versna. (Orðskv. 15:18; Ef. 4:26) Hið sama má segja um kristna söfnuðinn. Pétur postuli setur frið í samhengi við það að hafa taum á tungu sinni. (1. Pét. 3:10, 11) Jakob gefur líka skýrar leiðbeiningar um rétta notkun tungunnar og minnir á að það sé nauðsynlegt að forðast öfund og þrætugirni. Síðan segir hann: „Sú speki sem að ofan er, hún er í fyrsta lagi hrein, því næst friðsöm, ljúfleg, sáttgjörn, full miskunnar og góðra ávaxta, óhlutdræg, hræsnislaus. En friðflytjendur uppskera réttlæti og frið.“ — Jak. 3:17, 18.

9. Hvað ættum við að hafa hugfast þegar við reynum að hafa „frið við alla menn“?

9 Leiðbeiningar Páls í Rómverjabréfinu 12:18 eru ekki einskorðaðar við að stuðla að friði í fjölskyldunni og söfnuðinum. Hann segir að við eigum að hafa „frið við alla menn“. Það nær yfir nágranna, vinnufélaga, skólasystkini og fólk sem við hittum í boðunarstarfinu. En postulinn skilyrðir leiðbeiningar sínar og segir: „Að því leyti sem það er unnt og á ykkar valdi.“ Það þýðir að við gerum allt sem við getum með góðu móti til að hafa „frið við alla“, en við göngum ekki svo langt að við förum á svig við réttlátar meginreglur Guðs.

Hefndin tilheyrir Jehóva

10, 11. Hvernig ‚látum við reiði Guðs um að refsa‘ og af hverju er það viðeigandi?

10Lestu Rómverjabréfið 12:19. Jafnvel þegar fólk er ekki hlynnt starfi okkar og boðskap eða „skipast í móti“ gætum við þess að vera „hógvær“ og ‚þolin í þrautum‘. (2. Tím. 2:23-25) Páll ráðleggur kristnum mönnum að hefna sín ekki sjálfir heldur ‚láta reiði Guðs um að refsa‘. Við sem erum kristin vitum að við eigum ekki að leita hefnda heldur er það hlutverk Guðs. Sálmaskáldið orti: „Lát af reiði, slepp heiftinni, ver eigi of bráður, það leiðir til ills eins.“ (Sálm. 37:8) Og Salómon ráðlagði: „Segðu ekki: ‚Ég hefni hins illa.‘ Treystu á Drottin og hann mun bjarga þér.“ — Orðskv. 20:22.

11 Ef andstæðingar gera eitthvað á hlut okkar er skynsamlegast að láta Jehóva um að refsa þeim þegar og ef hann telur það við hæfi. Ljóst er að það var það sem Páll hafði í huga því að hann bætti við: „Ritað er: ‚Mín er hefndin, ég mun endurgjalda,‘ segir Drottinn.“ (Samanber 5. Mósebók 32:35.) Það væri hroki af okkar hálfu að reyna að hefna okkar sjálf. Þá værum við að taka okkur vald sem Jehóva hefur áskilið sér. Og við sýndum þá líka að við treystum ekki loforði hans þegar hann segir: „Ég mun endurgjalda.“

12. Hvenær og hvernig opinberast reiði Jehóva?

12 Páll segir fyrr í Rómverjabréfinu: „Reiði Guðs opinberast af himni yfir öllu guðleysi og illsku manna sem kefja sannleikann með ranglæti.“ (Rómv. 1:18) Reiði Jehóva opinberast af himni fyrir milligöngu sonar hans í „þrengingunni miklu“. (Opinb. 7:14) Þá ‚birtist réttlátur dómur Guðs‘ eins og Páll skýrir á öðru innblásnu bréfi: „Guð er réttlátur, hann endurgeldur þeim þrengingu sem að ykkur þrengja en veitir ykkur, sem þrengingu líðið, hvíld ásamt mér þegar Drottinn Jesús opinberast af himni með máttugum englum sínum. Hann kemur í logandi eldi og hegnir þeim sem þekkja ekki Guð og þeim sem hlýða ekki fagnaðarerindinu um Drottin vorn Jesú.“ — 2. Þess. 1:5-8.

Sigrum illt með góðu

13, 14. (a) Af hverju kemur andstaða okkur ekki á óvart? (b) Hvernig getum við blessað þá sem ofsækja okkur?

13Lestu Rómverjabréfið 12:14, 21. Við treystum fullkomlega að Jehóva láti vilja sinn ná fram að ganga og getum því óhikað einbeitt okkur að verkinu sem hann hefur falið okkur — að boða „fagnaðarerindið um ríkið . . . um alla heimsbyggðina“. (Matt. 24:14) Við vitum að þetta starf okkar vekur reiði óvinanna því að Jesús sagði: „Allar þjóðir munu hata yður vegna nafns míns.“ (Matt. 24:9) Andstaða kemur okkur því ekki á óvart og við látum hana ekki draga úr okkur kjark. Pétur postuli skrifaði: „Þið elskuðu, látið ykkur ekki undra eldraunina, sem yfir ykkur er komin, eins og eitthvað áður óþekkt hendi ykkur. Gleðjist heldur er þið takið þátt í píslum Krists.“ — 1. Pét. 4:12, 13.

14 Í stað þess að finna til óvildar í garð þeirra sem ofsækja okkur reynum við að upplýsa þá. Sumir þeirra gera þetta kannski af því að þeir vita ekki betur. (2. Kor. 4:4) Við reynum að gera eins og Páll hvatti til: „Blessið þá er ofsækja ykkur. Blessið en bölvið ekki.“ (Rómv. 12:14) Ein leið til að blessa andstæðingana er að biðja fyrir þeim. Jesús sagði í fjallræðunni: „Elskið óvini yðar, gerið þeim gott sem hata yður, blessið þá sem bölva yður og biðjið fyrir þeim er misþyrma yður.“ (Lúk. 6:27, 28) Páll postuli vissi af eigin reynslu að ofsóknari gat breyst í trúan lærisvein Krists og dyggan þjón Jehóva. (Gal. 1:13-16, 23) Í öðru bréfi sagði hann: „Hrakyrtir blessum við, ofsóttir umberum við. Þegar við erum rægðir uppörvum við.“ — 1. Kor. 4:12, 13.

15. Hver er besta leiðin til að sigra illt með góðu?

15 Sannkristinn maður fer þar af leiðandi eftir lokaorðunum í 12. kafla Rómverjabréfsins: „Lát ekki hið illa sigra þig en sigra þú illt með góðu.“ Satan djöfullinn er uppspretta allrar illsku. (Jóh. 8:44; 1. Jóh. 5:19) Í opinberuninni, sem Jóhannesi postula var gefin, upplýsir Jesús að andasmurðir bræður hans hafi „sigrað [Satan] fyrir blóð lambsins og fyrir orð vitnisburðar síns“. (Opinb. 12:11) Af þessu má sjá að besta leiðin til að sigrast á Satan og þeim illu áhrifum, sem hann hefur í núverandi heimskerfi, er að gera gott með vitnisburði okkar, það er að segja með því að boða fagnaðarerindið um ríkið.

Verum glöð í voninni

16, 17. Hvað höfum við lært af 12. kafla Rómverjabréfsins um (a) hvernig við eigum að nota líf okkar? (b) hvernig við eigum að breyta innan safnaðarins? (c) hvernig við eigum að koma fram við þá sem eru andvígir trú okkar?

16 Stutt yfirferð yfir 12. kaflann í bréfi Páls til kristinna manna í Róm hefur minnt okkur á margt. Þar sem við erum vígðir þjónar Jehóva eigum við að vera fús til að færa fórnir. Undir áhrifum anda Guðs færum við fúslega fórnir vegna þess að skynsemin hefur sannfært okkur um að það sé vilji Guðs. Við erum brennandi í andanum og notum margvíslegar náðargáfur okkar af kappi. Við þjónum með auðmýkt og hógværð og gerum okkar ýtrasta til að verðveita eininguna í söfnuðinum. Við stundum gestrisni og sýnum öðrum ósvikinn samhug.

17 Í 12. kafla Rómverjabréfsins eru einnig ítarlegar leiðbeiningar um það hvernig við eigum að bregðast við andstöðu. Við eigum ekki að gjalda líku líkt. Við eigum að reyna að sigrast á andstöðu með góðum verkum. Við eigum að reyna að hafa frið við alla menn að svo miklu leyti sem við getum og án þess að brjóta gegn meginreglum Biblíunnar. Þetta gildir innan fjölskyldunnar og safnaðarins, gagnvart nágrönnum, í vinnunni, skólanum og boðunarstarfinu. Jafnvel þó að okkur sé sýndur hreinn fjandskapur gerum við okkar besta til að sigra illt með góðu, minnug þess að hefndin tilheyrir Jehóva.

18. Hvaða þrjár hvatningar er að finna í Rómverjabréfinu 12:12?

18Lestu Rómverjabréfið 12:12. Auk þess að gefa okkur öll þessi viturlegu og góðu ráð hvetur Páll okkur til að gera þrennt. Þar sem við getum aldrei gert þetta án hjálpar Jehóva hvetur hann okkur til að vera „staðföst í bæninni“. Það gerir okkur einnig kleift að vera „þolinmóð í þjáningunni“ eins og hann hvetur jafnframt til. Að síðustu þurfum við alltaf að hafa í huga hvaða framtíð Jehóva lofar okkur og vera „glöð í voninni“ um eilíft líf, hvort heldur það er á himni eða jörð.

Til upprifjunar

• Hvernig eigum við að bregðast við andstöðu?

• Á hvaða sviðum eigum við að stuðla að friði og hvernig?

• Af hverju ættum við ekki að reyna að hefna okkar sjálf?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 8]

Við getum hugsanlega kveðið niður fordóma með því að aðstoða nágranna okkar.

[Mynd á blaðsíðu 9]

Leggur þú þig fram um að stuðla að friði í söfnuðinum?