Spurningar frá lesendum
Spurningar frá lesendum
Hvaða má læra af Orðskviðunum 24:27?
Í Orðskviðunum er ungum manni gefin góð ráð: „Sinntu útiverkunum og ljúktu þeim á akrinum, síðan getur þú byggt þér hús.“ Hver er kennslan í þessum innblásnu leiðbeiningum? Karlmanni ber að undirbúa sig vel áður en hann byggir sér hús, það er að segja giftir sig og stofnar eigin fjölskyldu. Hann þarf að gera sér grein fyrir ábyrgðinni sem fylgir slíkri skuldbindingu.
Áður fyrr var þetta vers stundum útskýrt þannig að eiginmanni eða föður bæri ekki aðeins að sinna veraldlegu starfi heldur ætti hann einnig að hvetja og uppörva fjölskylduna. Þetta ætti hann að gera til dæmis með því að fræða fjölskylduna um Guð og Biblíuna. Þó að þessi hugsun sé vissulega sönn og í samræmi við Biblíuna þá virðist sem umrætt vers eigi ekki við þetta. Hvers vegna ekki? Skoðum tvær ástæður fyrir því.
Í fyrsta lagi er ekki verið að tala um að byggja upp í þeim skilningi að uppörva eða styrkja fjölskyldu sem þegar er til staðar. Hér er bókstaflega átt við að byggja hús. Orðin „byggt þér hús“ geta einnig á táknrænan hátt vísað til að byggja eða leggja grundvöllinn að heimili — að giftast og eignast börn.
Í öðru lagi leggur versið áherslu á að gera hlutina í réttri röð, rétt eins og að segja: „Fyrst gerirðu þetta og svo hitt“. Er þá verið að kenna okkur að veraldlegar skyldur hafi forgang yfir þær andlegu? Vissulega ekki.
Ef einhver vildi ‚byggja sér hús‘ eða gifta sig og stofna fjölskyldu á biblíutímum þurfti hann að spyrja sig: „Er ég tilbúinn til þess að framfleyta og sinna eiginkonu og börnum sem við gætum eignast?“ Áður en stofnað var til fjölskyldu þurftu menn að sinna vinnunni, sjá um akrana og uppskeruna. Þess vegna er þetta vers þýtt á eftirfarandi hátt í Today’s English Version: „Ekki byggja þér hús og stofna heimili fyrr en akrarnir þínir eru tilbúnir og þú ert viss um að þú getir framfleytt fjölskyldu.“ Á sama meginregla við í dag?
Já. Maður sem vill giftast þarf að vera tilbúinn fyrir þá ábyrgð. Ef hann er fær um að vinna mun hann þurfa að gera það. Og auðvitað þarf maðurinn ekki bara að leggja hart að sér við að sjá um líkamlegar þarfir fjölskyldunnar. Í orði Guðs er sagt að sá maður sem sér ekki um líkamlegar, tilfinningalegar og andlegar þarfir fjölskyldunnar sé verri en vantrúaður. (1. Tím. 5:8, Biblían 1981) Ungur maður, sem er að hugsa um að giftast og stofna fjölskyldu, þarf því að spyrja sig spurninga á borð við þessar: „Er ég reiðubúinn til að sjá fyrir fjölskyldu? Er ég tilbúinn til að leiða fjölskyldu hvað varðar tilbeiðsluna á Jehóva. Mun ég rækja þá skyldu mína að hafa reglulegt biblíunám með eiginkonu minni og börnum?“ Í orði Guðs er lögð mikil áhersla á þessa miklu ábyrgð. — 5. Mós. 6:6-8; Ef. 6:4.
Ungur maður, sem vill gifta sig, ætti því að íhuga vandlega meginregluna sem er að finna í Orðskviðunum 24:27. Ungar konur ættu sömuleiðis að spyrja sig hvort þær séu tilbúnar til að axla þá ábyrgð sem fylgir því að vera eiginkona og móðir. Ung hjón gætu spurt sig álíka spurninga ef þau eru að íhuga að eignast börn. (Lúk. 14:28) Að lifa eftir slíkum innblásnum leiðbeiningum getur hjálpað þjónum Guðs að njóta farsæls fjölskyldulífs og forðast óþarfa þjáningar.
[Innskot á blaðsíðu 12]
Hvaða spurninga ætti ungur maður að spyrja sig hvað varðar hjónaband?