Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Verið brennandi í andanum“

„Verið brennandi í andanum“

„Verið brennandi í andanum“

„Verið ekki hálfvolg í áhuganum, verið brennandi í andanum. Þjónið Drottni.“ — RÓMV. 12:11.

1. Af hverju færðu Ísraelsmenn dýrafórnir og aðrar fórnargjafir?

JEHÓVA kann að meta fórnir sem þjónar hans færa honum af því að þeir elska hann og lúta vilja hans. Til forna tók hann við ýmiss konar dýrafórnum og öðrum fórnargjöfum. Ísraelsmenn færðu þær í samræmi við Móselögin til að hljóta syndafyrirgefningu og tjá þakklæti sitt. Jehóva ætlast ekki til að kristnir menn færi efnislegar fórnir með svona formlegum hætti. Hins vegar bendir Páll postuli á í 12. kafla Rómverjabréfsins að kristnir menn eigi samt sem áður að færa fórnir. Lítum nánar á málið.

Lifandi fórn

2. Hvers konar lífi lifum við og hvað felur það í sér?

2Lestu Rómverjabréfið 12:1, 2. * Framarlega í bréfi sínu sýnir Páll greinilega fram á að andasmurðir kristnir menn, hvort heldur Gyðingar eða heiðingjar að uppruna, hafi verið réttlættir frammi fyrir Guði af trú en ekki verkum. (Rómv. 1:16; 3:20-24) Í 12. kaflanum bendir Páll á að kristnir menn eigi að sýna þakklæti sitt með því að vera fórnfúsir. Til að gera það þurfum við að endurnýja hugarfarið. Vegna ófullkomleikans, sem við höfum fengið í arf, erum við undir „lögmáli syndarinnar og dauðans“. (Rómv. 8:2) Þess vegna þurfum við að bæta okkur, „endurnýjast í anda og hugsun“, með því að gerbreyta tilhneigingum okkar. (Ef. 4:23) Við getum ekki breytt okkur þannig nema með hjálp Guðs og anda hans. Við þurfum líka að leggja okkur fram af alefli og beita til þess ‚skynseminni‘. Það þýðir að við gerum okkar ýtrasta til að fylgja ekki „háttsemi þessa heims“ og brengluðu og spilltu siðferði hans, skemmtanalífi og hugsunarhætti. — Ef. 2:1-3.

3. Af hverju stundum við allt sem er fólgið í því að vera kristinn?

3 Páll hvetur okkur líka til að nota ‚skynsemina‘ til að læra að skilja hver sé „vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna“. Af hverju lesum við daglega í Biblíunni, hugleiðum það sem við lesum, biðjum, sækjum safnaðarsamkomur og boðum fagnaðarerindið um ríkið? Er það vegna þess að safnaðaröldungarnir hvetja okkur til þess? Við erum vissulega þakklát fyrir gagnlegar ábendingar öldunganna. En við gerum allt þetta vegna þess að andi Guðs knýr okkur til að sýna honum hve heitt við elskum hann. Auk þess erum við sannfærð um að það sé vilji Guðs að við gerum þetta. (Sak. 4:6; Ef. 5:10) Það veitir okkur mikla gleði og lífsfyllingu að vita að með sannkristnu líferni getum við þóknast Guði.

Margvíslegar náðargáfur

4, 5. Hvernig eiga safnaðaröldungar að nota náðargáfur sínar?

4Lestu Rómverjabréfið 12:6-8, 11. Páll nefnir að við eigum „margvíslegar náðargáfur samkvæmt þeirri náð sem Guð hefur gefið“. Sumar af náðargáfunum sem Páll nefnir, svo sem að hvetja og veita forstöðu, varða einkum safnaðaröldungana sem eru hvattir til að veita forstöðu af kostgæfni.

5 Páll segir að umsjónarmenn eigi að sýna sömu kostgæfnina þegar þeir koma fram sem kennarar og gegni ‚þjónustustörfum‘. Af samhenginu virðist mega ráða að ‚þjónustustörfin‘, sem Páll hefur í huga, séu unnin innan safnaðarins en hann er kallaður „einn líkami“. (Rómv. 12:4, 5) Þessi þjónustustörf eru svipaðs eðlis og minnst er á í Postulasögunni 6:4 þar sem postularnir sögðu: „Við munum helga okkur bæninni og þjónustu orðsins.“ Hvað er fólgið í slíkri þjónustu? Safnaðaröldungar nota náðargáfur sínar til að byggja upp söfnuðinn. Þeir gegna þjónustu sinni með því að nota orð Guðs til að leiðbeina söfnuðinum og fræða hann, og með því að rannsaka orð Guðs í bænarhug, kenna og gæta sauðanna. Umsjónarmenn ættu að nota náðargáfur sínar samviskusamlega og gæta hjarðarinnar „með gleði“. — Rómv 12:7, 8; 1. Pét. 5:1-3.

6. Hvernig getum við fylgt leiðbeiningunum í Rómverjabréfinu 12:11 sem heiti greinarinnar er sótt í?

6 Páll segir enn fremur: „Verið ekki hálfvolg í áhuganum, verið brennandi í andanum. Þjónið Drottni.“ Ef við finnum að við höfum tilhneigingu til að slá slöku við í þjónustunni þurfum við kannski að endurskoða námsvenjur okkar og biðja ákafar og oftar um anda Jehóva. Hann getur hjálpað okkur að vera ekki hálfvolg heldur gert okkur kappsöm á nýjan leik. (Lúk. 11:9, 13; Opinb. 2:4; 3:14, 15, 19) Heilagur andi gaf frumkristnum mönnum kraft til að tala um „stórmerki Guðs“. (Post. 2:4, 11) Hann getur sömuleiðis gert okkur kappsöm í þjónustunni og „brennandi í andanum“.

Auðmýkt og hógværð

7. Af hverju ættum við að gegna störfum okkar með auðmýkt og hógværð?

7Lestu Rómverjabréfið 12:3, 16. Þær náðargáfur, sem við höfum, eru „náð“ Jehóva að þakka. „Hæfileiki minn [er] frá Guði,“ segir Páll annars staðar. (2. Kor. 3:5) Þess vegna ættum við ekki að reyna að upphefja okkur. Við ættum að viðurkenna með auðmýkt að allur árangur, sem við sjáum af starfi okkar, er blessun Jehóva að þakka en ekki færni sjálfra okkar. (1. Kor. 3:6, 7) Það er í samræmi við þetta sem Páll segir: „Enginn hugsi hærra um sjálfan sig en hugsa ber.“ Við þurfum að hafa sjálfsvirðingu og hafa ánægju og gleði af þjónustunni við Jehóva. En ef við erum hógvær og meðvituð um takmörk okkar verðum við ekki þver og skoðanaföst heldur hugsum „í réttu hófi“ um sjálf okkur.

8. Hvernig getum við gætt þess að ‚oftreysta ekki eigin hyggindum‘?

8 Það væri heimskulegt að stæra sig af afrekum sínum vegna þess að það er Guð sem „gefur vöxtinn“. (1. Kor. 3:7) Páll segir að Guð hafi gefið hverjum og einum í söfnuðinum ákveðinn „mæli trúar“. Í stað þess að þykjast yfir aðra hafin ættum við að viðurkenna að það sem aðrir áorka er í samræmi við þann mæli trúar sem þeim er gefinn. Páll segir enn fremur: „Berið sama hug til allra.“ Í öðru bréfi segir hann: „Gerið ekkert af eigingirni eða hégómagirnd. Verið lítillát og metið hvert annað meira en ykkur sjálf.“ (Fil. 2:3) Það þarf sanna auðmýkt og meðvitaða viðleitni til að játa að hvert einasta trúsystkini okkar er okkur fremra á einn eða annan hátt. Ef við erum hógvær gætum við þess að ‚oftreysta ekki eigin hyggindum‘. Sumir eru vissulega í sviðsljósinu vegna sérstakra verkefna sinna í söfnuðinum. Allir hafa samt ánægju af einföldum og látlausum störfum sem vekja oft ekki mikla athygli. — 1. Pét. 5:5.

Eining í söfnuðinum

9. Af hverju líkir Páll andagetnum kristnum mönnum við limi á líkama?

9Lestu Rómverjabréfið 12:4, 5, 9, 10. Páll líkir andasmurðum kristnum mönnum við limi á líkama sem þjóna saman undir stjórn höfuðsins en það er Kristur. (Kól. 1:18) Hann minnir hina andasmurðu á að líkaminn hafi marga limi sem hafi mismunandi hlutverk. Þótt þeir séu margir séu þeir samt „einn líkami í Kristi“. Páll tók í sama streng þegar hann skrifaði hinum andasmurðu í Efesus: „Við eigum . . . að ástunda sannleikann í kærleika og vaxa í öllu upp til hans sem er höfuðið, Kristur. Hann tengir líkamann saman og heldur honum saman með því að láta sérhverja taug inna sína þjónustu af hendi, allt eftir þeim krafti sem hann úthlutar hverri þeirra. Þannig lætur hann líkamann vaxa og byggjast upp í kærleika.“ — Ef. 4:15, 16.

10. Hverjum hefur Jehóva falið forræði sem ‚aðrir sauðir‘ ættu að virða og viðurkenna?

10 Þó svo að ‚aðrir sauðir‘ tilheyri ekki líkama Krists geta þeir lært ýmislegt af þessari líkingu. (Jóh. 10:16) Páll segir um Jehóva: „Allt hefur hann lagt undir fætur [Krists] og gefið hann kirkjunni sem höfuðið yfir öllu.“ (Ef. 1:22) Aðrir sauðir eru meðal þess sem Jehóva hefur falið syni sínum forræði yfir nú á tímum. Þeir eru hluti af ‚eigunum‘ sem Kristur hefur falið ‚trúum og hyggnum þjóni‘ sínum að hafa umsjón með. (Matt. 24:45-47) Þeir sem hafa jarðneska von ættu þar af leiðandi að viðurkenna Krist sem höfuð sitt og vera undirgefnir trúa og hyggna þjóninum og hinu stjórnandi ráði, svo og þeim sem eru skipaðir umsjónarmenn í söfnuðinum. (Hebr. 13:7, 17) Það stuðlar að einingu.

11. Á hverju byggist eining okkar og hvaða aðrar leiðbeiningar gaf Páll?

11 Slík eining byggist á kærleika sem „bindur allt saman og fullkomnar allt“. (Kól. 3:14) Páll leggur áherslu á það í 12. kafla Rómverjabréfsins og segir að kærleikur okkar eigi að vera „flærðarlaus“. Við eigum að vera „ástúðleg hvert við annað í bróðurlegum kærleika“. Það stuðlar að gagnkvæmri virðingu. „Keppist um að sýna hvert öðru virðingu,“ segir postulinn. En við þurfum auðvitað að gera greinarmun á kærleika og tilfinningasemi. Við ættum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að halda söfnuðinum hreinum. Eftir að hafa gefið leiðbeiningar um kærleikann segir Páll: „Hafið andstyggð á hinu vonda en haldið fast við hið góða.“

Gestrisni

12. Hvað má læra um gestrisni af kristnum mönnum í Makedóníu til forna?

12Lestu Rómverjabréfið 12:13. Við ‚tökum þátt í þörfum heilagra‘ eftir bestu getu vegna þess að við elskum trúsystkini okkar. Við getum gefið öðrum hlutdeild í því sem við eigum jafnvel þó að við höfum ekki mikið af veraldlegum gæðum. Páll sagði um kristna menn í Makedóníu: „Þrátt fyrir þær miklu þrengingar sem þeir hafa orðið að reyna hefur hin ríka gleði þeirra leitt í ljós hve örlátir þeir eru þrátt fyrir sára fátækt. Ég get vottað það hversu þeir hafa gefið eftir efnum, já, umfram efni sín. Af eigin hvötum lögðu þeir fast að mér og báðu um að mega taka þátt í samskotunum til hinna heilögu [í Júdeu].“ (2. Kor. 8:2-4) Kristnir menn í Makedóníu voru einkar örlátir þó að þeir væru fátækir. Þeir álitu það heiður að deila eigum sínum með þurfandi trúsystkinum í Júdeu.

13. Hvað merkir það að ‚leggja stund á gestrisni‘?

13 Gríska setningin, sem er þýdd „leggið stund á gestrisni“, gefur til kynna frumkvæði. Í The New Jerusalem Bible er setningin þýdd „leitið færis að vera gestrisin“. Gestrisni birtist stundum í því að bjóða öðrum í mat og það er hrósvert ef kærleikur býr að baki. En ef við sýnum frumkvæði finnum við margar aðrar leiðir til að vera gestrisin. Ef við höfum til dæmis ekki ráð á að bjóða öðrum í mat er líka hægt að sýna gestrisni með því að bjóða öðrum kaffibolla, tebolla eða annað til drykkjar.

14. (a) Hvernig er gríska orðið, sem er þýtt „gestrisni“, samsett? (b) Hvernig getum við sýnt útlendingum umhyggju í boðunarstarfinu?

14 Gestrisni er nátengd viðhorfum okkar. Gríska orðið, sem er þýtt „gestrisni“, er samsett úr tveim stofnorðum sem merkja „kærleikur“ og „ókunnugur“. Hvernig lítum við á ókunnuga eða útlendinga? Það má með sanni segja að vottar stundi gestrisni þegar þeir reyna að læra annað tungumál til að boða fagnaðarerindið meðal útlendinga sem hafa flust á starfssvæði safnaðarins. Auðvitað eru ekki allir í aðstöðu til að læra annað tungumál. Við getum samt sem áður öll lagt okkar af mörkum til að hjálpa útlendingum með því að nota vel bæklinginn Good News for People of All Nations (Fagnaðarerindi fyrir fólk af öllum þjóðum) en í honum er biblíuleg kynning á mörgum tungumálum. Hefurðu notað þennan bækling með góðum árangri í boðunarstarfinu?

Samkennd

15. Hvernig er Jesús gott dæmi um að fylgja ráðunum í Rómverjabréfinu 12:15?

15Lestu Rómverjabréfið 12:15. Það má draga leiðbeiningar Páls í þessu versi saman í tvö orð: Sýnum samkennd. Við þurfum að læra að skilja tilfinningar annarra og taka þátt í þeim, hvort heldur það er gleði eða sorg. Ef við erum brennandi í andanum sést að við tökum þátt í gleði annarra eða finnum til með þeim. Þegar 70 lærisveinar Krists komu glaðir úr boðunarferð og sögðu frá góðum árangri af starfi sínu „fylltist Jesús af fagnandi gleði heilags anda“. (Lúk. 10:17-21) Hann tók þátt í gleði þeirra. Hins vegar ‚grét Jesús með grátendum‘ þegar Lasarus vinur hans dó. — Jóh. 11:32-35.

16. Hvernig getum við sýnt samkennd og hverjir þurfa að leggja sig sérstaklega fram um það?

16 Við viljum líkja eftir Jesú og sýna samkennd. Þegar trúbróðir eða trúsystir fagnar langar okkur til að taka þátt í gleðinni. Að sama skapi ættum við að vera næm á þjáningar og sorgir trúsystkina okkar. Oft er hægt að lina verulega sálarkvöl trúsystkina með því að taka sér tíma til að hlusta á þau og sýna samkennd með þeim. Stundum getur það snortið hjarta okkar svo að við tárumst með þeim. (1. Pét. 1:22) Öldungar ættu að leggja sig sérstaklega fram um að sýna samkennd eins og Páll hvetur til.

17. Hvað höfum við skoðað hingað til í 12. kafla Rómverjabréfsins og um hvað verður fjallað í greininni á eftir?

17 Í versunum, sem við höfum skoðað hingað til í 12. kafla Rómverjabréfsins, höfum við fengið góð ráð varðandi líf okkar sem kristinna manna og um samskipti við trúsystkini. Í næstu grein skoðum við það sem eftir er af kaflanum. Þar er fjallað um hvernig við eigum að líta á og koma fram við fólk utan kristna safnaðarins, þar á meðal andstæðinga og þá sem ofsækja okkur.

[Neðanmáls]

^ gr. 2 Rómv. 12:1 (Biblían 1912): „Svo áminni eg yður, bræður, að þér, vegna miskunnar Guðs, bjóðið fram líkami yðar að lifandi, heilagri, Guði þóknanlegri fórn, og er það skynsamleg guðsdýrkun af yðar hendi.“

Til upprifjunar

• Hvernig sýnum við að við séum „brennandi í andanum“?

• Af hverju eigum við að þjóna Guði í auðmýkt og hógværð?

• Hvernig getum við sýnt trúsystkinum umhyggju og samkennd?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 4]

Af hverju gerum við það sem sýnt er á þessum myndum?

[Mynd á blaðsíðu 6]

Hvernig getum við öll hjálpað útlendingum að læra um ríki Guðs?