Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þjónar Guðs eiga að sýna góða mannasiði

Þjónar Guðs eiga að sýna góða mannasiði

Þjónar Guðs eiga að sýna góða mannasiði

„Verðið . . . eftirbreytendur Guðs.“ — EF. 5:1.

1, 2. (a) Af hverju eru góðir mannasiðir mikilvægir? (b) Um hvað er fjallað í þessari grein?

RÁÐGJAFINN Sue Fox skrifar: „Maður tekur sér aldrei frí frá góðum mannasiðum. Kurteisi á alls staðar við, öllum stundum.“ Þegar fólk temur sér kurteisi og háttprýði dregur stórlega úr hættunni á árekstrum milli manna. Ókurteis framkoma og ruddaleg hegðun hefur gagnstæð áhrif og veldur árekstrum, gremju og hryggð.

2 Þeir sem mynda kristna söfnuðinn temja sér að jafnaði góða mannasiði. Við þurfum engu að síður að gæta okkar á því að taka ekki upp vonda siði sem eru algengir í heiminum umhverfis. Við skulum kanna hvernig við getum notað meginreglur Biblíunnar um kurteisi og nærgætni til að sporna gegn þessum áhrifum og til að laða fólk að sannri tilbeiðslu. Jehóva Guð og sonur hans eru góðar fyrirmyndir um hvað felst í því að vera kurteis og sýna góða mannasiði.

Jehóva og sonur hans eru góðar fyrirmyndir

3. Hvernig er Jehóva góð fyrirmynd um kurteisi og háttvísi?

3 Jehóva Guð er fullkomin fyrirmynd um kurteisi og háttvísi. Þó að hann sé Drottinn alheims og öllum æðri er hann gæskuríkur við mennina og sýnir þeim fulla virðingu. Einhverju sinni þegar hann ávarpaði Abraham og Móse notaði hann hebreskt orð sem breytir fyrirmælum í hæverska beiðni. (1. Mós. 13:14; 2. Mós. 4:6) Þegar þjónum hans verður eitthvað á er hann „miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður, gæskuríkur og harla trúfastur“. (Sálm. 86:15) Hann er harla ólíkur mönnum sem missa stjórn á skapi sínu þegar aðrir rísa ekki undir væntingum þeirra.

4. Hvernig getum við líkt eftir Jehóva þegar talað er við okkur?

4 Jehóva sýnir mönnunum líka nærgætni með því að hlusta á þá. Þegar Abraham bar fram allmargar spurningar varðandi Sódómubúa svaraði Jehóva þeim öllum með stakri þolinmæði. (1. Mós. 18:23-32) Hann leit ekki svo á að það væri tímasóun að hlusta. Jehóva hlýðir á bænir þjóna sinna og á áköll iðrandi syndara. (Lestu Sálm 51:13, 19.) Ættum við ekki að líkja eftir honum og hlusta þegar talað er við okkur?

5. Hvernig getum við átt enn betri samskipti við aðra ef við líkjum eftir kurteisi og nærgætni Jesú?

5 Jesús Kristur lærði margt af föður sínum, meðal annars nærgætni og kurteisi. Þó að hann þyrfti stundum að verja ómældum tíma og kröftum til þjónustu sinnar meðal almennings var hann alltaf þolinmóður og vingjarnlegur við fólk. Hann var alltaf boðinn og búinn að liðsinna holdsveikum, blindum beiningamönnum og öðrum bágstöddum. Hann tók þeim vel þó að þeir kæmu til hans án þess að gera boð á undan sér. Oft tók hann sér hlé frá því sem hann var að gera til að sinna manneskju sem leitaði til hans í örvilnan. Jesús var einstaklega tillitssamur við þá sem settu traust sitt á hann. (Mark. 5:30-34; Lúk. 18:35-41) Við líkjum eftir fordæmi Jesú með því að vera vingjarnleg og hjálpfús. Slíkt viðmót fer ekki fram hjá ættingjum okkar, nágrönnum og öðrum. Og með því að breyta þannig vegsömum við Jehóva og stuðlum að eigin gleði og hamingju.

6. Hvernig var Jesús hlýlegur og vingjarnlegur?

6 Jesús sýndi fólki einnig virðingu með því ávarpa það með nafni. Gerðu trúarleiðtogar Gyðinga þetta líka? Nei, í augum þeirra var almúginn, sem þekkti ekki lögmálið, „bölvaður“ og það endurspeglaðist í framkomu trúarleiðtoganna. (Jóh. 7:49) En það gegndi öðru máli um son Guðs. Hann ávarpaði Mörtu, Maríu, Sakkeus og marga fleiri með nafni. (Lúk. 10:41, 42; 19:5) Það getur auðvitað verið breytilegt eftir menningarsvæðum og aðstæðum hvernig við ávörpum fólk en hvað sem því líður gera þjónar Jehóva sér far um að vera vingjarnlegir í viðmóti. * Þeir láta ekki stéttaskiptingu koma í veg fyrir að þeir sýni trúsystkinum og öðrum sjálfsagða virðingu. — Lestu Jakobsbréfið 2:1-4.

7. Hvernig hjálpa meginreglur Biblíunnar okkur að sýna fólki hvar sem er viðeigandi virðingu?

7 Góðvild og nærgætni Guðs og sonar hans við fólk af öllum þjóðum og þjóðernum ber vitni um að þeir sýni öðrum virðingu, og þetta laðar fólk að sannleikanum. Það er auðvitað breytilegt frá einum stað til annars hvað teljast góðir mannasiðir. Við setjum því ekki stífar og strangar reglur um mannasiði heldur erum við sveigjanleg í samræmi við meginreglur Biblíunnar og sýnum náunganum viðeigandi virðingu hvar sem er í heimi. Við skulum nú kanna hvernig hlýleiki og kurteisi getur stuðlað að enn betri árangri í boðunarstarfinu.

Að heilsa fólki og tala við það

8, 9. (a) Hvað gæti fólk túlkað sem ókurteisi? (b) Af hverju ættum við að láta orð Jesú í Matteusi 5:47 hafa áhrif á framkomu okkar við fólk?

8 Í öllum asanum, sem einkennir þjóðlífið víða um lönd, er algengt að tvær manneskjur mætist án þess að kasta kveðju hvor á aðra. Auðvitað er ekki ætlast til að maður tali við hvern einasta mann sem maður mætir á fjölfarinni gangstétt. Oft er hins vegar viðeigandi og æskilegt að heilsa fólki. Ertu vanur að gera það? Eða gengurðu oft fram hjá fólki án þess að brosa eða segja fáein vingjarnleg orð? Það er hægt, án þess að maður ætli sér það, að venja sig á eitthvað sem er í rauninni hrein ókurteisi.

9 Jesús minnti á það þegar hann sagði: „Hvað er það þótt þér heilsið bræðrum yðar og systrum einum? Það gera jafnvel heiðnir menn.“ (Matt. 5:47) Ráðgjafinn Donald Weiss sagði um þetta mál: „Fólki gremst ef það er sniðgengið. Það duga engar afsakanir til að friða manneskju sem maður hefur hunsað. Lausnin er einföld: Heilsaðu fólki. Talaðu við það.“ Ef við gætum þess að vera ekki fálát eða kuldaleg í samskiptum við aðra uppskerum við í samræmi við það.

10. Hvernig getur gott viðmót greitt fyrir boðun fagnaðarerindisins? (Sjá rammagreinina „Hlýlegt bros er byrjunin“.)

10 Hjónin Tom og Carol eru vottar og búa í stórri borg í Norður-Ameríku. Þau hafa fyrir venju að brydda upp á vinsamlegum samræðum við nágrannana til að greiða fyrir boðun fagnaðarerindisins. Hvernig fara þau að? Tom vísar í Jakobsbréfið 3:18 og segir: „Við reynum að vera vingjarnleg og friðsöm í framkomu. Við tökum tali nágranna sem eru úti við og fólk sem vinnur í hverfinu. Við heilsum með brosi. Við spjöllum um það sem nágrannarnir hafa áhuga á — börnin þeirra, hundana, húsin eða vinnuna. Smám saman fer fólk að líta á okkur sem vini.“ Carol bætir við: „Þegar við hittum fólkið seinna segjum við hvað við heitum og spyrjum það nafns. Við segjum frá hvað við erum að gera í hverfinu en höfum samtalið stutt. Að lokum getum við vitnað fyrir nágrönnunum.“ Tom og Carol hafa áunnið sér traust margra nágranna sinna. Þó nokkrir hafa þegið biblíufræðslurit og fáeinir hafa sýnt áhuga á að kynnast sannleikanum.

Að sýna háttvísi við erfiðar aðstæður

11, 12. Af hverju ættum við að reikna með ókurteisi og móðgunum þegar við boðum fagnaðarerindið og hvernig ættum við að bregðast við?

11 Stundum er okkur sýnd ókurteisi þegar við boðum fagnaðarerindið. Það kemur okkur ekki á óvart því að Jesús Kristur hafði varað lærisveina sína við því: „Hafi menn ofsótt mig þá munu þeir líka ofsækja yður.“ (Jóh. 15:20) Það er hins vegar ekki vænlegt til árangurs að svara niðrandi orðum í sömu mynt. Hvernig ættum við að bregðast við? Pétur postuli skrifaði: „Helgið Krist sem Drottin í hjörtum ykkar. Verið ætíð reiðubúin að svara hverjum manni sem krefst raka fyrir voninni sem þið eigið. En gerið það með hógværð og virðingu.“ (1. Pét. 3:15, 16) Með því að vera kurteis — sýna mildi og virðingu — getum við hugsanlega fengið þá sem koma illa fram við okkur til að breyta um afstöðu. — Tít. 2:7, 8.

12 Er hægt að búa sig undir að svara hranalegum orðum með þeim hætti sem Guð hefur velþóknun á? Já, Páll gaf eftirfarandi ráð: „Mál ykkar sé ætíð ljúflegt en salti kryddað til þess að þið vitið hvernig þið eigið að svara hverjum manni.“ (Kól. 4:6) Ef við venjum okkur á að vera alltaf kurteis og nærgætin við alla í fjölskyldunni, í vinnunni, söfnuðinum og hverfinu erum við betur undir það búin að taka háðsglósum og móðgunum eins og kristnum manni sæmir. — Lestu Rómverjabréfið 12:17-21.

13. Nefndu dæmi sem sýnir að kurteisi getur mildað þá sem eru okkur andsnúnir.

13 Það getur haft jákvæð áhrif að sýna háttvísi við aðstæður sem reyna á okkur. Vottur í Japan varð fyrir háðsglósum bæði frá húsráðanda og gesti hans. Bróðirinn sýndi fyllstu kurteisi og kvaddi. Hann hélt áfram að boða trúna á svæðinu en tók þá eftir að gesturinn stóð stutt frá og fylgdist með. Bróðirinn gekk til hans og þá sagði maðurinn: „Mér þykir leitt hvað gerðist. Ég tók eftir að þú hélst áfram að brosa þó að við kæmum illa fram við þig. Hvað þarf ég að gera til að geta komið þannig fram?“ Maðurinn var orðinn atvinnulaus og var nýbúinn að missa móður sína og hafði enga von um að geta verið hamingjusamur. Votturinn bauð honum biblíunámskeið og maðurinn þáði boðið. Áður en langt um leið voru þeir farnir að hittast tvisvar í viku til biblíunáms.

Besta leiðin til að temja sér kurteisi og háttvísi

14, 15. Hvað kenndu þjónar Jehóva börnum sínum á biblíutímanum?

14 Guðræknir foreldrar á biblíutímanum kenndu börnunum grundvallaratriði kurteisrar framkomu. Taktu eftir hve kurteislega Abraham og Ísak, sonur hans, ávörpuðu hvor annan í 1. Mósebók 22:7. Jósef er einnig dæmi um gott uppeldi í föðurhúsum. Hann sýndi samföngum sínum fyllstu kurteisi þegar honum var varpað í fangelsi. (1. Mós. 40:8, 14) Þegar hann var leiddur fyrir faraó sýndi það sig að hann kunni að ávarpa hátt settan valdamann. — 1. Mós. 41:16, 33, 34.

15 Ísraelsmenn fengu eftirfarandi fyrirmæli í boðorðunum tíu: „Heiðra föður þinn og móður svo að þú verðir langlífur í landinu sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér.“ (2. Mós. 20:12) Börn gátu meðal annars heiðrað foreldra sína með því að sýna af sér góða mannasiði á heimilinu. Dóttir Jefta sýndi föður sínum einstaka virðingu með því að gera eins og hann hafði heitið þó að það væri ekki auðvelt fyrir hana. — Dóm. 11:35-40.

16-18. (a) Hvernig er hægt að kenna börnum góða mannasiði? (b) Hvaða kostir fylgja því að börnin læri góða mannasiði?

16 Það er ákaflega mikils virði að kenna börnunum góða mannasiði. Til að koma vel saman við fullorðna þurfa börnin að læra að heilsa gestum, svara í símann og borða með öðrum. Það þarf að leiða þeim fyrir sjónir af hverju þau ættu að halda opnum dyrum fyrir aðra, sýna sjúkum og öldruðum umhyggju og bjóðast til að hjálpa fólki að bera þunga hluti. Þau þurfa að skilja mikilvægi þess að vera kurteis þegar þau biðja um eitthvað, þakka einlæglega fyrir sig, bjóðast til að aðstoða og biðjast afsökunar.

17 Það þarf ekki að vera erfitt að kenna börnunum kurteisi. Besta leiðin er að vera þeim góð fyrirmynd. Kurt er 25 ára. Hann lýsir því hvernig hann og bræður hans þrír lærðu að sýna kurteisi: „Við sáum og heyrðum hvernig mamma og pabbi voru vingjarnleg í tali hvort við annað og voru þolinmóð og tillitssöm við aðra. Pabbi tók mig með sér fyrir og eftir samkomur í ríkissalnum til að tala við eldri bræður og systur. Ég heyrði hann heilsa þeim og sá hvernig hann sýndi þeim virðingu.“ Kurt heldur áfram: „Smám saman tileinkaði ég mér sams konar framkomu og hann. Það verður manni eiginlegt að sýna öðrum kurteisi. Það er ekki kvöð að vera kurteis og tillitssamur heldur vill maður vera það.“

18 Hvaða áhrif er líklegt að það hafi ef foreldrar kenna börnunum góða mannasiði? Börnin geta þá eignast vini og átt friðsamleg samskipti við aðra. Þau verða vel í stakk búin til að vinna með samstarfsmönnum og vinnuveitendum. Og börn, sem eru kurteis, háttvís og heiðarleg, eru foreldrum sínum til gleði og ánægju. — Lestu Orðskviðina 23:24, 25.

Við skerum okkur úr ef við temjum okkur góða mannasiði

19, 20. Af hverju ættum við að vera ákveðin í að líkja eftir Guði og syni hans?

19 „Verðið . . . eftirbreytendur Guðs svo sem elskuð börn hans,“ skrifaði Páll. (Ef. 5:1) Við líkjum eftir Jehóva Guði og syni hans með því að fylgja meginreglum Biblíunnar, eins og rætt hefur verið í þessari grein. Ef við gerum það sýnum við ekki þá hræsni að vera kurteis aðeins til að koma okkur í mjúkinn hjá yfirmanni eða til að hagnast á því. — Júd. 16.

20 Ill stjórn Satans er brátt á enda og hann reynir allt hvað hann getur til að útrýma þeirri góðu og virðingarverðu breytni sem Jehóva er höfundur að. En honum tekst aldrei að koma í veg fyrir að sannkristnir menn sýni af sér góða mannasiði. Við skulum öll vera ákveðin í að fylgja fordæmi Guðs og sonar hans. Þá stingum við alltaf í stúf við þá sem kjósa að vera ókurteisir eða dónalegir með orðum sínum eða verkum. Við heiðrum þá nafn Jehóva Guðs sem er fullkomin fyrirmynd um háttvísi og tillitssemi og löðum einlægt fólk að sannri tilbeiðslu.

[Neðanmáls]

^ gr. 6 Í sumum löndum telst það ekki góðir mannasiðir að ávarpa sér eldri manneskju með skírnarnafni nema hún bjóði manni að gera það. Þjónar Guðs ættu að virða slíkar siðvenjur.

Manstu?

• Hvað má læra um góða mannasiði af Jehóva og syni hans?

• Af hverju gefur það góða mynd af okkur sem kristnum mönnum að kasta hlýlegri kveðju á fólk?

• Hvernig er það boðunarstarfinu til framdráttar að vera kurteis og tillitssamur?

• Hvernig geta foreldrar kennt börnunum góða mannasiði?

[Spurningar]

[Rammi á blaðsíðu 27]

Hlýlegt bros er byrjunin

Margir hika við að brydda upp á samræðum við ókunnuga. Vegna kærleika til Guðs og náungans reyna vottar Jehóva þó sitt besta til að læra að ræða við fólk og koma sannleika Biblíunnar á framfæri. Hvað geturðu gert til að bæta þig á þessu sviði?

Í Filippíbréfinu 2:4 kemur fram mikilvæg meginregla. Þar segir: „Lítið ekki aðeins á eigin hag heldur einnig annarra.“ Reyndu að sjá orðin í þessu ljósi: Ef þú hefur aldrei hitt ákveðinn einstakling áður lítur hann á þig sem ókunnuga manneskju. Hvernig geturðu hjálpað honum að slaka á? Hlýlegt bros og vingjarnleg kveðja getur stuðlað að því. En þú þarft að hafa fleira í huga.

Með því að brydda upp á samræðum hefurðu kannski vakið hann upp af hugsunum sínum. Ef þú reynir að ræða við hann um það sem er þér efst í huga án þess að taka tillit til þess sem hann er að hugsa um er óvíst að viðbrögðin verði jákvæð. Væri ekki ráð að reyna að átta sig á því sem hann var að hugleiða og nota það til að hefja samræður við hann? Jesús gerði þetta þegar hann hitti konu við brunn í Samaríu. (Jóh. 4:7-26) Hún var að sækja vatn og var með hugann við það. Jesús notaði það til að hefja samræður við hana og innan skamms voru þau komin út í líflegar umræður um andleg mál.

[Myndir á blaðsíðu 26]

Með því að vera vingjarnleg getum við oft skapað okkur tækifæri til að vitna um trúna.

[Mynd á blaðsíðu 28]

Góðir mannasiðir eru alltaf við hæfi.