Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Gefum fúslega og með gleði

Gefum fúslega og með gleði

Gefum fúslega og með gleði

PÁLL postuli skrifaði um gjafmildi: „Sérhver gefi eins og hann hefur ásett sér í hjarta sínu,“ og hann bætti við: „Ekki með ólund eða með nauðung, því að Guð elskar glaðan gjafara.“ (2. Kor. 9:7) Jehóva þvingar engan til að styðja hreina tilbeiðslu. Hann leyfir þjónum sínum að tjá hollustu sína með því að gefa fúslega og með gleði, og alla tíð hefur fólk hans brugðist ákaflega vel við því. Lítum á þrjár frásögur.

Eftir að Jehóva leiddi Ísraelsmenn úr Egyptalandi gaf hann fyrirmæli um að þeir skyldu reisa tjaldbúðina. Þörf var á efni til verksins svo að Ísraelsmenn voru hvattir til að leggja sitt af mörkum. Viðbrögðin voru þau að allir „sem gefa vildu af fúsum hug“ komu með gull og silfur, skartgripi og annað efni. Fólkið sýndi svo mikið örlæti að boð voru látin berast um að ekki væri þörf á fleiri gjöfum. — 2. Mós. 35:5, 21; 36:6, 7.

Öldum síðar, þegar byggja átti musterið, fékk fólk Guðs aftur tækifæri til að styðja hreina tilbeiðslu. Davíð konungur gaf rausnarlega til verksins og bauð öðrum að gefa líka. Þeir létu ekki á sér standa. Aðeins gullið og silfrið, sem látið var í té, samsvaraði rúmlega 100 milljörðum dollara á núvirði! Fólkið gladdist yfir því að hafa fært Jehóva gjafirnar fúslega. — 1. Kron. 29:3-9; 2. Kron. 5:1.

Fylgjendur Jesú Krists á fyrstu öld gáfu líka glaðir og af fúsu geði. Á hvítasunnunni árið 33 létu um 3.000 manns skírast og margir þeirra bjuggu ekki í Jerúsalem. Sumir þeirra höfðu lítið milli handanna, og til þess að þeir gætu dvalið lengur í borginni og fræðst meira um trúna var safnað í sjóð til að hægt væri að framfleyta þeim tímabundið. Bræðurnir seldu eigur sínar og færðu postulunum andvirðið til að aðstoða þá sem voru í neyð. Það hefur án efa glatt Jehóva mikið að sjá þá sýna trú sína og kærleika með þessum hætti. — Post. 2:41-47.

Nú á dögum halda kristnir menn áfram að styðja hreina tilbeiðslu með því að gefa glaðir og af fúsu geði tíma sinn, krafta og fjármuni. Í rammanum er bent á nokkrar leiðir til þess.

[Rammi á blaðsíðu 18, 19]

LEIÐIR TIL AÐ STYÐJA BOÐUNARSTARFIÐ FJÁRHAGSLEGA

Bein fjárframlög: Margir leggja til hliðar í hverjum mánuði ákveðna fjárhæð og setja hana í baukinn sem er ætlaður fyrir framlög til alþjóðastarfsins. Söfnuðirnir senda síðan þessi framlög til deildarskrifstofu Votta Jehóva.

Einstaklingar geta sent framlög beint til deildarskrifstofu Votta Jehóva, Sogavegi 71, 108 Reykjavík eða lagt þau inn á bankareikning 525-26-24564 hjá Íslandsbanka. Kennitala deildarskrifstofunnar er 591072-0219. Þeir sem vilja styðja alþjóðastarfið með reglulegum fjárframlögum og hafa aðgang að netbanka eða heimabanka geta látið bankann millifæra ákveðna upphæð með reglulegu millibili. Ef sent er framlag með ávísun á að stíla hana á deildarskrifstofu Votta Jehóva. Hvernig sem framlagið er sent væri gott að stutt skýring fylgdi með, þess efnis að um frjálst framlag sé að ræða.

Auk þess að gefa bein fjárframlög er hægt að styðja boðunarstarfið með eftirfarandi hætti:

Líftrygging: Hægt er að tilnefna söfnuð Votta Jehóva sem rétthafa bóta. Tryggingartaki þarf að eiga samráð við tryggingafélag sitt um slíka ráðstöfun.

Hlutabréf og önnur verðbréf: Hægt er að afhenda deildarskrifstofu Votta Jehóva hlutabréf og ýmis önnur verðbréf að gjöf. Hið sama er að segja um aðra lausafjármuni.

Fasteignir: Hægt er að afhenda söfnuði Votta Jehóva seljanlegar fasteignir að gjöf. Hafa skal samráð við deildarskrifstofuna áður en fasteign er ráðstafað með þeim hætti.

Erfðaskrá: Hægt er að ánafna söfnuði Votta Jehóva fasteignir eða lausafé í erfðaskrá. Erfðaskráin þarf að fullnægja opinberum formskilyrðum.

Nánari upplýsingar er hægt að fá hjá deildarskrifstofu Votta Jehóva í Reykjavík. Lesendur í öðrum löndum ættu að senda framlög sín til deildarskrifstofunnar í því landi þar sem þeir búa. Skrá um deildarskrifstofur og aðsetur þeirra má finna í ritum sem Vottar Jehóva gefa út.

Framlög meðal frumkristinna manna

Jesús og postular hans nutu stuðnings annarra þegar þeir fóru um og boðuðu fagnaðarerindið. (Lúk. 8:1-3) Kristnir menn í Makedóníu og Akkeu voru einstaklega gjafmildir í garð þurfandi trúsystkina í Jerúsalem. Þeir höfðu „ákveðið að gangast fyrir samskotum handa fátæklingum meðal hinna heilögu“ þar í borg. (Rómv. 15:26) En enginn var þó skyldugur til að leggja fram fjármuni í frumkristna söfnuðinum.

Gríska orðið koinoniʹa, sem er þýtt ‚samskot‘ í Rómverjabréfinu 15:26 og ‚gefa‘ í 2. Korintubréfi 9:13, er einnig notað til að lýsa hjálpsemi. Það er notað í Hebreabréfinu 13:16 þar sem stendur: „Gleymið ekki velgjörðaseminni og hjálpseminni því að slíkar fórnir eru Guði þóknanlegar.“

Upphæðin, sem gefin er, þarf ekki að vera mælikvarði á örlæti þess sem gefur. Einhverju sinni horfði Jesús á fólk leggja fjármuni í fjárhirslu musterisins. Auðmenn lögðu mikið í sjóðinn en Jesús veitti sérstaka athygli heilshugar örlæti fátækrar ekkju sem lagði fram tvo verðlitla smápeninga. Hann sagði: „Þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir. Hinir allir lögðu í sjóðinn af allsnægtum sínum en hún gaf af skorti sínum, alla björg sína.“ (Lúk. 21:1-4; Mark. 12:41-44) Páll postuli skrifaði um hjálp sem veitt var fátækum í söfnuðinum: „Ef viljinn er góður þá er hver metinn eftir því sem hann á og ekki eftir því sem hann á ekki til.“ — 2. Kor. 8:12.

Að sjálfsögðu getur enginn auðgað Jehóva því að hann á allt sem til er. (1. Kron. 29:14-17) Það er engu að síður heiður að mega sýna honum kærleika sinn með því að gefa af fjármunum sínum. Sá sem gefur af réttu tilefni og til að efla sanna tilbeiðslu, en ekki af eigingjörnum hvötum eða til að sýnast, uppsker gleði og hlýtur blessun Guðs. (Post. 20:35; Matt. 6:1-4; Orðskv. 3:9, 10) Ein leið til að fá hlutdeild í þessari gleði er að leggja reglulega til hliðar einhver verðmæti til að styðja sanna tilbeiðslu og liðsinna verðugum. — 1. Kor. 16:1, 2.

Jehóva er besta dæmið um örlæti því að hann hefur gefið mannkyni „líf og anda og alla hluti“. (Post. 17:25) Hann gaf einkason sinn í þágu manna. (Jóh. 3:16) Og hann auðgar þjóna sína í samræmi við örlæti þeirra. (2. Kor. 9:10-15) Það má með sanni segja að „sérhver góð gjöf og sérhver fullkomin gáfa [sé] ofan að, frá föður ljósanna“. — Jak. 1:17.