Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvað segja bænir þínar um þig?

Hvað segja bænir þínar um þig?

Hvað segja bænir þínar um þig?

„Þú, sem heyrir bænir, til þín leita allir menn.“ — SÁLM. 65:3.

1, 2. Af hverju geta þjónar Jehóva treyst að hann heyri bænir þeirra?

JEHÓVA daufheyrist aldrei við bænum dyggra þjóna sinna. Við getum treyst að hann hlusti á okkur. Jafnvel þó að milljónir votta hans myndu biðja til hans samtímis gæti hann hlustað á hvern einasta.

2 Sálmaskáldið Davíð treysti að Guð heyrði innilegar bænir hans. Hann söng: „Þú, sem heyrir bænir, til þín leita allir menn.“ (Sálm. 65:3) Davíð var bænheyrður vegna þess að hann var dyggur dýrkandi Jehóva. Við gætum spurt hvort bænir okkar sýni að við treystum á Jehóva og að okkur sé ákaflega annt um sanna tilbeiðslu. Hvað segja bænir okkar um okkur?

Biðjum til Jehóva í auðmýkt

3, 4. (a) Með hvaða hugarfari eigum við að leita til Guðs í bæn? (b) Hvað ættum við að gera ef okkur er órótt vegna þess að við höfum drýgt alvarlega synd?

3 Til að Jehóva bænheyri okkur þurfum við að leita til hans í auðmýkt. (Sálm. 138:6) Við ættum að biðja Jehóva að rannsaka okkur líkt og Davíð gerði þegar hann sagði: „Prófa mig, Guð, og þekktu hjarta mitt, rannsaka mig og þekktu hugsanir mínar og sjá þú hvort ég geng á glötunarvegi og leið mig hinn eilífa veg.“ (Sálm. 139:23, 24) Við skulum ekki bara biðja heldur líka leyfa Guði að rannsaka okkur og þiggja ráðleggingar hans í Biblíunni. Jehóva getur leitt okkur „hinn eilífa veg“ og hjálpað okkur að fylgja lífsstefnu sem leiðir til eilífs lífs.

4 Hvað er til ráða ef okkur er órótt vegna þess að við höfum drýgt alvarlega synd? (Lestu Sálm 32:1-5.) Ef samviskan ásakar okkur en við reynum að þagga niður í henni getur það dregið úr okkur þrótt þannig að við verðum eins og skrælnað tré í þurrki. Synd Davíðs rændi hann gleðinni og hugsanlega veiktist hann. Það var ólýsanlegur léttir fyrir hann að játa syndina fyrir Guði. Hugsaðu þér gleðina sem hefur gagntekið Davíð þegar hann fann að Jehóva hafði fyrirgefið honum afbrot hans. Það getur verið mikill léttir að játa synd sína fyrir Guði, og aðstoð safnaðaröldunganna er einnig mikilvæg til að hjálpa þeim sem hefur syndgað að endurheimta gott samband við Jehóva. — Orðskv. 28:13; Jak. 5:13-16.

Beiðni og þakkir til Guðs

5. Hvað er átt við með „beiðni“ til Jehóva?

5 Ef áhyggjur sækja á okkur einhverra orsaka vegna ættum við að gera eins og Páll hvatti til: „Verið ekki hugsjúk um neitt heldur gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð.“ (Fil. 4:6) Með „beiðni“ er átt við auðmjúka og innilega bón um eitthvað. Við höfum ekki síst ástæðu til að sárbæna Jehóva um hjálp hans og leiðsögn ef við erum ofsótt eða í hættu.

6, 7. Af hverju ætti „þakkargjörð“ að vera þáttur í bænum okkar?

6 En hvað myndi það segja um samband okkar við Jehóva ef við bæðum aðeins til hans þegar okkur vantaði eitthvað? Páll sagði að við ættum einnig að gera óskir okkar kunnar Guði „með . . . þakkargjörð“. Við höfum ærna ástæðu til að tjá Jehóva sömu tilfinningar og Davíð sem sagði: „Þín er tignin, Drottinn, mátturinn, dýrðin, vegsemdin og hátignin því að allt er þitt á himni og jörðu. Drottinn, þitt er konungdæmið og þú ert hafinn yfir allt . . . Og nú, Guð vor, þökkum vér þér. Vér lofum þitt dýrlega nafn.“ — 1. Kron. 29:11-13.

7 Jesús þakkaði Guði fyrir matinn og fyrir brauðið og vínið sem notað var við síðustu kvöldmáltíðina. (Matt. 15:36; Mark. 14:22, 23) Við ættum að sýna sams konar þakklæti auk þess að „þakka Drottni . . . dásemdarverk hans við mannanna börn“, fyrir „réttlát ákvæði“ hans og fyrir orð hans eða boðskap sem er að finna í Biblíunni. — Sálm. 107:15; 119:62, 105.

Biðjum fyrir öðrum

8, 9. Af hverju ættum við að biðja fyrir trúsystkinum okkar?

8 Við biðjum eflaust fyrir sjálfum okkur en við ættum líka að biðja fyrir öðrum, jafnvel fyrir trúsystkinum sem við þekkjum ekki með nafni. Það er ekki víst að Páll postuli hafi þekkt alla í söfnuðinum í Kólossu en hann skrifaði: „Ég þakka Guði, föður Drottins vors Jesú Krists, ávallt er ég bið fyrir ykkur. Ég hef heyrt um trú ykkar á Krist Jesú og um kærleikann sem þið berið til allra heilagra.“ (Kól. 1:3, 4) Páll bað einnig fyrir bræðrum sínum og systrum í Þessaloníku. (2. Þess. 1:11, 12) Bænir af þessu tagi segja margt um okkur og um það hvernig við lítum á trúsystkini okkar.

9 Þegar við biðjum fyrir hinum andasmurðu og fyrir ‚öðrum sauðum‘ vitnar það um að við látum okkur annt um söfnuð Guðs. (Jóh. 10:16) Páll bað trúsystkini sín að biðja þess að honum ‚yrðu gefin orð að mæla til að kunngera leyndardóm fagnaðarerindisins‘. (Ef. 6:17-20) Biðjum við þannig fyrir trúsystkinum okkar?

10. Hvaða áhrif getur það haft á okkur að biðja fyrir öðrum?

10 Afstaða okkar til annarra getur breyst ef við biðjum fyrir þeim. Ef við biðjum fyrir einhverjum sem okkur líkar ekkert sérstaklega vel við er óhjákvæmilegt að það breyti hugarfari okkar í hans garð. (1. Jóh. 4:20, 21) Bænir af þessu tagi eru uppbyggjandi og stuðla að einingu innan safnaðarins. Og slíkar bænir gefa til kynna að við elskum á sama hátt og Kristur. (Jóh. 13:34, 35) Kærleikur er einn af ávöxtum anda Guðs. Biðjum við um heilagan anda? Biðjum við Jehóva að hjálpa okkur að bera ávöxt hans, kærleika, gleði, frið, langlyndi, gæsku, góðvild, trúmennsku, hógværð og sjálfsaga? (Lúk. 11:13; Gal. 5:22, 23) Þá sýnum við í orði og verki að við lifum í andanum. — Lestu Galatabréfið 5:16, 25.

11. Af hverju er viðeigandi að biðja aðra um að biðja fyrir okkur?

11 Ef við komumst að raun um að börnum okkar finnist freistandi að svindla á prófum í skólanum ættum við að biðja fyrir þeim og nota Biblíuna til að leiðbeina þeim svo að þau séu heiðarleg og geri ekkert rangt. Páll skrifaði kristnum mönnum í Korintu: „Ég bið til Guðs að þið gerið ekki neitt illt.“ (2. Kor. 13:7) Auðmjúkar bænir af þessu tagi gleðja Jehóva og eru góður vitnisburður um okkur. (Lestu Orðskviðina 15:8.) Við getum beðið aðra að biðja fyrir okkur líkt og Páll postuli gerði. „Biðjið fyrir mér,“ skrifaði hann, „því að ég er þess fullviss að ég hef góða samvisku og vil í öllum greinum breyta vel.“ — Hebr. 13:18.

Annað sem bænir okkar leiða í ljós

12. Hvað ætti að vera áberandi í bænum okkar?

12 Bera bænir okkar með sér að við séum ánægðir og kappsamir vottar Jehóva? Snúast þær að stórum hluta um það að gera vilja Guðs, boða fagnaðarerindið um ríkið, verja drottinvald hans og helga nafn hans? Þetta ætti að vera áberandi í bænum okkar eins og sjá má af faðirvorinu sem Jesús gaf okkur til fyrirmyndar. Bænin hefst þannig: „Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ — Matt. 6:9, 10.

13, 14. Hvað leiða bænir okkar í ljós?

13 Bænir okkar til Guðs leiða í ljós hverjar séu langanir okkar, hvatir og áhugamál. Jehóva veit hvernig við erum innst inni. Í Orðskviðunum 17:3 segir: „Deiglan er fyrir silfrið og bræðsluofninn fyrir gullið en Drottinn prófar hjörtun.“ Guð sér hvað býr í hjartanu. (1. Sam. 16:7) Hann veit hvað okkur finnst um samkomurnar, boðunarstarfið og trúsystkini okkar. Hann veit hvernig við hugsum um ‚bræður‘ Krists. (Matt. 25:40) Hann veit hvort við meinum raunverulega það sem við segjum í bænum okkar eða hvort við erum bara að þylja upp orð. Jesús sagði: „Þegar þér biðjist fyrir skuluð þér ekki fara með fánýta mælgi eins og heiðingjarnir. Þeir hyggja [ranglega] að þeir verði bænheyrðir fyrir mælgi sína.“ — Matt. 6:7.

14 Það sem við segjum í bænum okkar lýsir einnig hve vel við treystum Guði. Davíð sagði: „Þú [Jehóva] ert mér hæli, traust vígi gegn óvinum. Lát mig gista í tjaldi þínu um eilífð, eiga athvarf í skjóli vængja þinna.“ (Sálm. 61:4, 5) Þegar Jehóva ‚tjaldar yfir okkur‘ í táknrænni merkingu njótum við verndar hans og erum óhult. (Opinb. 7:15, Biblían 1981) Það er ákaflega hughreystandi að leita til Jehóva í bæn í þeirri vissu að hann sé með okkur í hverri trúarprófraun sem við verðum fyrir. — Lestu Sálm 118:5-9.

15, 16. Hvernig getur bænin hjálpað okkur að skoða af hvaða hvötum okkur langar til að gegna ábyrgðarstörfum í söfnuðinum?

15 Ef við ræðum opinskátt við Jehóva um hvatir okkar getur það hjálpað okkur að kanna hvers eðlis þær eru. Tökum dæmi. Segjum að þig langi mjög til að gegna umsjónarstöðu í söfnuðinum. Er hvötin sprottin af einlægri löngun til að koma að sem mestu gagni í söfnuðinum og boðunarstarfinu? Eða getur verið að þig langi til að vera „fremstur“ eða jafnvel að „drottna yfir“ öðrum? Þannig á það ekki að vera meðal þjóna Jehóva. (Lestu 3. Jóhannesarbréf 9, 10 og Lúkas 22:24-27.) Ef við berum rangar hvatir í brjósti kemur það kannski í ljós þegar við biðjum opinskátt til Jehóva, og það getur hjálpað okkur að breyta þeim áður en þær ná að festa rætur.

16 Kristinni eiginkonu er ef til vill mikið í mun að eiginmaður hennar verði safnaðarþjónn og kannski umsjónarmaður þegar fram í sækir. Ef hún biður um þetta í einrúmi getur hún breytt í samræmi við það með því að vera til fyrirmyndar í allri hegðun. Þetta er mikilvægt vegna þess að framkoma og tal fjölskyldunnar getur haft áhrif á það hvernig litið er á fjölskylduföðurinn í söfnuðinum.

Bænir á samkomum

17. Af hverju er gott að vera ein þegar við biðjumst fyrir?

17 Jesús dró sig oft í hlé frá mannfjöldanum til að biðja til föður síns í einrúmi. (Matt. 14:13; Lúk. 5:16; 6:12) Við þurfum líka stundum að vera ein. Þegar við biðjum í ró og næði á kyrrlátum stað eru góðar líkur á að við tökum ákvarðanir sem Jehóva hefur velþóknun á og hjálpa okkur að varðveita náið samband við hann. En Jesús baðst líka fyrir í áheyrn annarra og það er gott að kanna hvernig hægt er að gera það á viðeigandi hátt.

18. Hvað ættu bræður að hafa í huga þegar þeir fara með bæn fyrir hönd safnaðarins?

18 Trúfastir karlmenn fara með bænir fyrir hönd safnaðarins á samkomum. (1. Tím. 2:8) Aðrir í söfnuðinum ættu að geta sagt „amen“ í lok þessara bæna, en amen merkir „verði svo“. Til að gera það verða þeir hins vegar að vera sammála því sem sagt er. Í faðirvorinu er ekkert sem hneykslar eða vitnar um ónærgætni. (Lúk. 11:2-4) Og Jesús taldi ekki upp allar þarfir eða öll vandamál áheyrenda sinna. Það er eðlilegt að ræða um persónuleg mál þegar við biðjum í einrúmi en það ætti ekki að gera þegar farið er með bæn fyrir hönd safnaðarins. Og þegar við biðjum upphátt í hópi fólks ættum við ekki að minnast á nein trúnaðarmál.

19. Hvernig ættum við að hegða okkur meðan farið er með bæn á samkomum?

19 Við þurfum að sýna viðeigandi lotningu og guðsótta þegar farið er með bæn fyrir okkar hönd. (1. Pét. 2:17) Vissir hlutir geta verið viðeigandi við ákveðnar aðstæður en óviðeigandi á safnaðarsamkomum. (Préd. 3:1) Segjum sem svo að einhver vildi fá alla til að haldast í hendur eða krækja saman örmum meðan farið er með bæn. Einhverjum gæti fundist þetta óþægilegt eða þótt sér misboðið, til dæmis gestum sem eru ekki sömu trúar og við. Hjón geta haldist í hendur án þess að mikið beri á en ef þau faðmast meðan farið er með bæn á samkomum gæti það hneykslað fólk sem tæki eftir því. Það fær kannski á tilfinninguna að hjónin séu uppteknari af ástinni en lotningu fyrir Jehóva. Við berum djúpa virðingu fyrir honum og skulum þess vegna ‚gera allt Guði til dýrðar‘ en forðast hátterni sem gæti truflað eða hneykslað aðra. — 1. Kor. 10:31, 32; 2. Kor. 6:3.

Um hvað eigum við að biðja?

20. Skýrðu Rómverjabréfið 8:26, 27.

20 Stundum vitum við kannski ekki hvað við eigum að segja þegar við biðjum einslega til Guðs. Páll skrifaði: „Við vitum ekki hvers við eigum að biðja eins og ber en sjálfur andinn [heilagi] biður fyrir okkur með andvörpum sem engum orðum verður að komið. En hann [Guð] sem hjörtun rannsakar veit hver hyggja andans er.“ (Rómv. 8:26, 27) Jehóva lét skrá fjölda bæna í Biblíuna. Hann tekur við þessum innblásnu bænum eins og þær væru frá okkur og svarar þeim. Hann þekkir okkur og veit hvað það merkir sem hann lét anda sinn koma á framfæri með hjálp biblíuritaranna. Jehóva bænheyrir okkur þegar andinn „biður“ fyrir okkur. En þegar við kynnumst orði Guðs betur eigum við kannski auðveldara með að átta okkur á hvers við eigum að biðja.

21. Á hvað lítum við í næstu grein?

21 Eins og fram hefur komið segja bænir okkar margt um okkur. Þær leiða kannski í ljós hve náið samband við eigum við Jehóva og hve vel við þekkjum orð hans. (Jak. 4:8) Í næstu grein lítum við á nokkrar bænir og bænarorð sem er að finna í Biblíunni. Hvaða áhrif ætli slík athugun hafi á bænir okkar til Guðs?

Hvert er svarið?

• Með hvaða hugarfari ættum við að biðja til Jehóva?

• Af hverju ættum við að biðja fyrir trúsystkinum?

• Hvað geta bænir okkar leitt í ljós varðandi sjálf okkur og hvatir okkar?

• Hvernig ættum við að hegða okkur meðan farið er með bæn á samkomum?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 4]

Lofarðu Jehóva að staðaldri og þakkar honum?

[Mynd á blaðsíðu 6]

Þegar farið er með bæn á samkomum ættum við alltaf að heiðra Jehóva með framkomu okkar.