Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Láttu þér annt um hlutverk þitt í söfnuðinum

Láttu þér annt um hlutverk þitt í söfnuðinum

Láttu þér annt um hlutverk þitt í söfnuðinum

„Nú hefur Guð sett hvern einstakan lim á líkamann eins og honum þóknaðist.“ — 1. KOR. 12:18.

1, 2. (a) Hvað sýnir að allir í söfnuðinum geti haft hlutverki að gegna og látið sér annt um það? (b) Um hvaða spurningar verður rætt í þessari grein?

FRÁ dögum Ísraelsþjóðarinnar til forna hefur Jehóva notað söfnuðinn til að næra fólk sitt andlega og leiðbeina því. Sem dæmi má nefna að eftir að Ísraelsmenn unnu borgina Aí „las Jósúa upp lagasafnið, orð fyrir orð, blessunina og bölvunina, nákvæmlega eins og skráð er í lögbókinni . . . frammi fyrir öllum söfnuði Ísraels“. — Jós. 8:34, 35.

2 Á fyrstu öldinni sagði Páll postuli við safnaðaröldunginn Tímóteus að kristni söfnuðurinn væri „Guðs hús“ og „stólpi og grundvöllur sannleikans“. (1. Tím. 3:15) „Guðs hús“ nú á dögum er alþjóðlegt bræðralag sannkristinna manna. Í 12. kafla 1. Korintubréfs líkir Páll söfnuðinum við mannslíkama. Hann segir að þótt hver limur á líkamanum þjóni ólíku hlutverki séu þeir allir nauðsynlegir. „Nú hefur Guð sett hvern einstakan lim á líkamann eins og honum þóknaðist,“ skrifar Páll. Hann bendir jafnvel á að „þeim sem okkur virðast vera í óvirðulegra lagi á líkamanum, þeim veitum við því meiri sæmd“. (1. Kor. 12:18, 23) Hlutverk eins réttláts manns í húsi Guðs er hvorki betra eða verra en hlutverk annars. Það er bara ólíkt. En hvernig getum við áttað okkur á því hvaða hlutverki við gegnum í söfnuði Guðs og látið okkur annt um það? Hvað getur haft áhrif á það hvert hlutverk okkar er? Og hvernig getum við látið ‚framför okkar vera öllum augljósa‘. — 1. Tím. 4:15.

Hvernig látum við okkur annt um hlutverk okkar?

3. Hver er ein leið til að átta okkur á hlutverki okkar í söfnuðinum og sýna að við metum það mikils?

3 Ein leið til að átta okkur á hvaða hlutverki við gegnum í söfnuðinum og sýna og við látum okkur annt um það er að vinna með hinum ‚trúa og hyggna þjóni‘ og fulltrúa hans, hinu stjórnandi ráði. (Lestu Matteus 24:45-47.) Við verðum að athuga viðbrögð okkar við leiðbeiningum sem við fáum frá þjónshópnum. Undanfarin ár höfum við til dæmis fengið beinskeytt ráð um útlit og klæðaburð, afþreyingarefni og óviðeigandi notkun Netsins. Fylgjum við þessum góðu ráðum vandlega til að hljóta andlega vernd? Hvað með leiðbeiningarnar um að hafa reglu á biblíunámi fjölskyldunnar? Höfum við fylgt þessum ráðum og tekið frá kvöld til náms? Ef við erum einhleyp tökum við okkur þá tíma til að stunda sjálfsnám í Biblíunni? Jehóva blessar okkur sem einstaklinga og fjölskyldur ef við fylgjum leiðbeiningum þjónshópsins.

4. Hvað ættum við að hugleiða þegar við tökum ákvarðanir í persónulegum málum?

4 Sumir gætu sagt að afþreyingarefni, útlit, klæðaburður og annað þessu líkt séu persónuleg mál. En trúfastur kristinn einstaklingur, sem lætur sér annt um hlutverk sitt í söfnuðinum, ætti ekki aðeins að láta persónulegar skoðanir stjórna sér þegar hann tekur ákvarðanir. Gefa þarf sérstakar gætur að því hvernig Jehóva lítur á málið, en kynnast má viðhorfum hans með því að lesa í Biblíunni. Boðskapur hennar ætti að vera ‚lampi fóta okkar og ljós á vegum okkar‘. (Sálm. 119:105) Það er einnig viturlegt af okkur að hugleiða hvernig ákvarðanir í persónulegum málum hafa áhrif á boðunarstarf okkar og annað fólk, bæði innan og utan safnaðarins. — Lestu 2. Korintubréf 6:3, 4.

5. Af hverju verðum við að varast sjálfstæðisanda?

5 ‚Andi þess sem nú verkar í þeim sem ekki trúa‘ er svo útbreiddur að hann er eins og loftið sem við öndum að okkur. (Ef. 2:2) Þessi andi gæti komið inn þeirri hugmynd hjá okkur að við þurfum ekki leiðsögn frá söfnuði Jehóva. Við viljum að sjálfsögðu ekki vera eins og Díótrefes sem tók ekki mark á leiðbeiningum frá Jóhannesi postula. (3. Jóh. 9, 10) Við verðum að varast að ala á sjálfstæðisanda. Gætum þess að ögra aldrei, í orði eða verki, þeirri boðleið sem Jehóva notar nú á dögum. (4. Mós. 16:1-3) Við ættum öllu heldur að meta að verðleikum þann heiður að fá að vinna með þjónshópnum. Og ættum við ekki að leggja okkur fram um að vera hlýðin og undirgefin þeim sem fara með forystuna í heimasöfnuði okkar? — Lestu Hebreabréfið 13:7, 17.

6. Af hverju ættum við að skoða vandlega aðstæður okkar?

6 Önnur leið til að sýna að við látum okkur annt um hlutverk okkar í söfnuðinum er að skoða vandlega aðstæður okkar og gera allt sem við getum til að „vegsama“ þjónustu okkar og heiðra Jehóva. (Rómv. 11:13) Sumir geta verið brautryðjendur. Aðrir þjóna í fullu starfi sem trúboðar, farandumsjónarmenn og betelítar. Margir bræður og systur aðstoða við byggingu ríkissala. Stærstur hluti þjóna Jehóva gerir sitt besta til að annast andlegar þarfir fjölskyldna sinna og eiga dyggan þátt í boðunarstarfinu í hverri viku. (Lestu Kólossubréfið 3:23, 24.) Við getum verið viss um að þegar við bjóðum fúslega fram krafta okkar og gerum okkar besta til að þjóna Guði af öllu hjarta höfum við alltaf einhverju hlutverki að gegna í söfnuði hans.

Hvað hefur áhrif á hlutverk okkar?

7. Útskýrðu hvernig aðstæður okkar hafa áhrif á hlutverk okkar innan safnaðarins.

7 Það er mikilvægt að grandskoða aðstæður okkar því að hlutverk okkar í söfnuðinum veltur að vissu leyti á því hvað við getum gert eða erum í aðstöðu til að gera. Staða bróður í söfnuðinum er til dæmis aðeins önnur en staða systur. Aldur, heilsa og annað hefur einnig áhrif á það hvað við getum gert í þjónustu Jehóva. „Þrek er ungs manns þokki,“ segir í Orðskviðunum 20:29, „en hærurnar prýði öldunganna.“ Hinir ungu geta kannski gert meira í söfnuðinum vegna þess að þeir hafa nægan kraft og þrótt, en hinir öldruðu gagnast söfnuðinum sérstaklega vel vegna visku sinnar og reynslu. Við verðum einnig að hafa í huga að allt sem við gerum í söfnuði Jehóva veltur á óverðskuldaðri góðvild hans og náð. — Post. 14:26; Rómv. 12:6-8.

8. Hvaða áhrif hafa langanir okkar á það sem við gerum innan safnaðarins?

8 En það er annað sem hefur áhrif á það hvaða hlutverki við gegnum innan safnaðarins eins og sjá má af dæmi um tvær systur. Báðar útskrifast þær úr framhaldsskóla. Þær búa við sömu aðstæður. Foreldrar þeirra hafa gert sitt besta til að hvetja þær báðar til að verða brautryðjendur eftir skóla. Eftir útskriftina byrjar önnur sem brautryðjandi en hin fer í fulla vinnu. Hver var munurinn? Það var þeirra eigin löngun. Þegar allt kom til alls gerði hvor systirin það sem hún vildi. Er það ekki þannig með okkur flest? Við verðum að hugsa alvarlega um það hvað við viljum gera í þjónustu Guðs. Getum við aukið þátttöku okkar, jafnvel þótt það þýði að við verðum að breyta aðstæðum okkar? — 2. Kor. 9:7.

9, 10. Hvað ættum við að gera ef okkur skortir löngun til að gera meira í þjónustu Jehóva?

9 Hvað ef okkur skortir einfaldlega löngun til að gera meira í þjónustu Jehóva og finnst þægilegt að uppfylla bara lágmarkskröfurnar? Í bréfi sínu til Filippímanna segir Páll: „Það er Guð sem verkar í ykkur bæði að vilja og að framkvæma sér til velþóknunar.“ Já, Jehóva getur verkað í okkur og haft áhrif á vilja okkar og langanir. — Fil. 2:13; 4:13.

10 Ættum við þá ekki að biðja Jehóva um að vekja með okkur löngun til að gera vilja hans? Davíð konungur í Forn-Ísrael gerði það. Hann bað: „Vísa mér vegu þína, Drottinn, kenn mér stigu þína. Lát mig ganga í sannleika þínum og kenn mér því að þú ert Guð hjálpræðis míns, allan daginn vona ég á þig.“ (Sálm. 25:4, 5) Við getum gert hið sama með því að biðja Jehóva um að vekja með okkur löngun til að þóknast honum. Þegar við hugleiðum hvernig Jehóva Guð og sonur hans líta á það sem við gerum í þeirra þágu fyllast hjörtu okkar þakklæti. (Matt. 26:6-10; Lúk. 21:1-4) Þessi þakklætiskennd getur fengið okkur til að biðja Jehóva um að láta okkur vilja taka framförum í trúnni. Við ættum að tileinka okkur sama viðhorf og Jesaja spámaður hafði. Þegar hann heyrði rödd Jehóva spyrja: „Hvern skal ég senda? Hver vill reka erindi vort?“ svaraði hann: „Hér er ég. Send þú mig.“ — Jes. 6:8.

Hvernig getum við tekið framförum?

11. (a) Af hverju er þörf á því að bræður sækist eftir ábyrðarstörfum innan safnaðarins? (b) Hvernig getur bróðir sóst eftir þjónustuverkefnum?

11 Á þjónustuárinu 2008 létu 289.678 skírast um allan heim og því er greinilega mikil þörf á bræðrum til að taka forystuna. Hvernig ætti bróðir að bregðast við þessari þörf? Einfaldlega með því að reyna að uppfylla hæfniskröfur Biblíunnar fyrir safnaðarþjóna og öldunga. (1. Tím. 3:1-10, 12, 13; Tít. 1:5-9) Hvernig getur bróðir leitast við að uppfylla þessar hæfniskröfur? Með því að eiga ríkan þátt í boðunarstarfinu, sinna safnaðarstörfum sínum dyggilega, reyna að svara betur á samkomum og sýna trúsystkinum persónulegan áhuga. Þannig sýnir hann að hann lætur sér annt um hlutverk sitt í söfnuðinum.

12. Hvernig geta unglingar sýnt að þeir hafi brennandi áhuga á sannleikanum?

12 Hvað geta ungir bræður gert til að taka framförum, sérstaklega þeir sem eru á unglingsaldri? Þeir geta þroskað með sér ‚speki og skilning‘ með því að afla sér þekkingar á Biblíunni. (Kól. 1:9) Það gera þeir meðal annars með því að vera duglegir að lesa í Biblíunni og taka virkan þátt í safnaðarsamkomum. Ungir menn geta einnig sótt fram með því að reyna að verða hæfir til að ganga inn um „víðar dyr að miklu verki“ í þjónustunni í fullu starfi. (1. Kor. 16:9) Ævistarf í þjónustu Jehóva er einstaklega gefandi lífsstefna sem leiðir til mikillar blessunar. — Lestu Prédikarann 12:1.

13, 14. Hvernig geta systur sýnt að þær láti sér annt um hlutverk sitt í söfnuðinum?

13 Systur geta sýnt að þær líti á það sem mikinn heiður að eiga þátt í að uppfylla Sálm 68:12. Þar segir: „Drottinn lætur boðskap út ganga, heill her kvenna flytur sigurfréttina.“ Ein helsta leiðin fyrir systur að sýna þakklæti sitt fyrir hlutverk sitt í söfnuðinum er að taka þátt í því starfi að gera menn að lærisveinum. (Matt. 28:19, 20) Með því að sinna boðunarstarfinu ötullega og vera fúsar til að færa fórnir í þágu þessa starfs sýna systur að þær láta sér annt um hlutverk sitt í söfnuðinum.

14 Í bréfi sínu til Títusar segir Páll: „Svo eiga og aldraðar konur að vera í háttum sínum eins og heilögum sæmir. Þær skulu . . . vera öðrum til fyrirmyndar til þess að þær laði hinar ungu til að elska menn sína og börn, vera hóglátar, skírlífar, heimilisræknar, góðlátar og eiginmönnum sínum eftirlátar til þess að orði Guðs verði ekki lastmælt.“ (Tít. 2:3-5) Já, þroskaðar systur geta haft mjög góð áhrif á söfnuðinn. Með því að virða bræður í ábyrgðarstöðum og taka viturlegar ákvarðanir í málum eins og útliti, klæðaburði og afþreyingu gefa þær öðrum gott fordæmi og sýna að þær láta sér annt um hlutverk sitt í söfnuðinum.

15. Hvað gæti einhleyp systir gert til að takast á við einmanaleika?

15 Stundum getur verið erfitt fyrir ógifta systur að átta sig á hvert hlutverk hennar er innan safnaðarins. Systir, sem hefur liðið þannig, segir: „Það getur stundum verið einmanalegt að vera einhleyp.“ Þegar hún var spurð hvernig hún tækist á við það sagði hún: „Bæn og biblíunám hjálpa mér að átta mig aftur á hlutverki mínu í söfnuðinum. Ég les um það í Biblíunni hvernig Jehóva lítur á mig. Síðan legg ég mig fram um að aðstoða aðra í söfnuðinum. Þetta hjálpar mér að hugsa um eitthvað annað en sjálfa mig.“ Samkvæmt Sálmi 32:8 sagði Jehóva við Davíð: „Ég vil gefa þér ráð, vaka yfir þér.“ Já, Jehóva sýnir öllum þjónum sínum persónulegan áhuga, þar á meðal einhleypum systrum, og hann hjálpar öllum að átta sig á hvert hlutverk þeirra er innan safnaðarins.

Haltu áfram að sinna hlutverki þínu

16, 17. (a) Af hverju er það besta ákvörðun sem við getum tekið að þiggja boð Jehóva um að tilheyra söfnuði hans? (b) Hvernig getum við haldið áfram að sinna hlutverki okkar í söfnuði Jehóva?

16 Jehóva hefur sýnt þann kærleika að laða hvern og einn af þjónum sínum til sín. Jesús sagði: „Enginn getur komið til mín nema faðirinn, sem sendi mig, laði hann.“ (Jóh. 6:44) Af öllum þeim milljörðum manna, sem búa á jörðinni, hefur Jehóva boðið okkur persónulega að vera hluti af söfnuði sínum nú á dögum. Þegar við þáðum þetta boð var það besta ákvörðun sem við höfum nokkurn tíma tekið. Þessi ákvörðun hefur gefið lífi okkar tilgang og ákveðna stefnu. Já, það veitir okkur sannarlega mikla gleði og lífsfyllingu að hafa hlutverki að gegna í söfnuðinum.

17 „Drottinn, ég elska húsið sem er bústaður þinn,“ sagði sálmaritarinn. Hann söng líka: „Fótur minn stendur á sléttri grund, ég vil lofa Drottin í söfnuðinum.“ (Sálm. 26:8, 12) Hinn sanni Guð hefur gefið hverju og einu okkar hlutverk í söfnuði sínum. Við getum haldið áfram að rækja dýrmætt hlutverk okkar með því að fylgja leiðsögn Jehóva og sinna þjónustunni af kappi.

Manstu?

• Af hverju er rökrétt að álykta að allir hafi hlutverki að gegna í söfnuðinum?

• Hvernig sýnum við að við látum okkur annt um hlutverk okkar í söfnuði Guðs?

• Hvað hefur áhrif á það hvaða hlutverki við gegnum innan safnaðarins?

• Hvernig geta jafnt unglingar sem fullorðnir sýnt að þeir láti sér annt um hlutverk sitt í söfnuði Guðs?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 16]

Hvernig geta bræður sóst eftir þjónustuverkefnum innan safnaðarins?

[Mynd á blaðsíðu 17]

Hvernig geta systur sýnt að þær láti sér annt um hlutverk sitt í söfnuðinum?