Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Metum mikils heyrnarlaus trúsystkini okkar

Metum mikils heyrnarlaus trúsystkini okkar

Metum mikils heyrnarlaus trúsystkini okkar

ÞJÓNAR Guðs mynda stóra fjölskyldu andlegra bræðra og systra. Hún nær allt aftur til karla og kvenna eins og Samúels, Davíðs, Samsonar, Rahab, Móse, Abrahams, Söru, Nóa og Abels. Meðal trúfastra þjóna Jehóva nú á dögum eru margir heyrnarlausir bræður og systur. Til dæmis voru tveir fyrstu vottar Jehóva í Mongólíu heyrnarlaus hjón. Og vegna ráðvendni heyrnarlausra trúsystkina okkar í Rússlandi unnum við mál fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu.

Hinn „trúi og hyggni þjónn“ hefur séð til þess að við höfum biblíurit á táknmáli og hefur stofnað söfnuði og skipulagt mót fyrir þá sem tala táknmál. (Matt. 24:45) Heyrnarlausir á meðal okkar hafa haft mikið gagn af þessu. * En hefur þú einhvern tíma velt fyrir þér hvernig það var fyrir heyrnarlausa að kynnast hinum sanna Guði og taka framförum í sannleikanum án alls þessa? Og hefurðu hugleitt hvað þú getur gert til að aðstoða heyrnarlausa þar sem þú býrð?

Meðan lítið var til

Þú gætir spurt einhverja eldri bræður eða systur, sem eru heyrnarlaus, hvernig þau kynntust sannleikanum. Þau gætu sagt þér hvernig þeim var innanbrjósts þegar þau komust að raun um að Guð ætti nafn. Þetta eina atriði breytti jafnvel lífi þeirra og hélt þeim uppi í mörg ár áður en hægt var að fá efni á táknmáli á myndböndum eða mynddiskum sem hjálpaði þeim að fá dýpri skilning á sannleika Biblíunnar. Þau geta lýst því hvernig það var þegar samkomurnar voru hvorki haldnar á táknmáli né túlkaðar. Einhver sat við hliðina á þeim og punktaði niður á blað svo að þau gætu skilið það sem fram fór. Heyrnarlaus bróðir hlaut biblíufræðslu á þennan hátt í sjö ár áður en hann fékk samkomurnar túlkaðar á táknmál.

Eldri vottar, sem eru heyrnarlausir, muna hvernig það var að stunda boðunarstarfið á meðal heyrandi fólks. Þeir héldu á miða með einfaldri kynningu í annarri hendi og nýjustu eintökum Varðturnsins og Vaknið! í hinni. Það var barningur að fræða aðra heyrnarlausa um Biblíuna og nota efni á ritmáli sem hvorugur skildi almennilega. Þessir eldri boðberar minnast þess eflaust hve svekkjandi það var að geta ekki rætt nánar um andleg mál vegna þess að enginn skildi þá. Þeir vita líka hvernig það er að bera djúpan kærleika til Jehóva en vera samt ekki vissir um hvernig á að sýna hann í verki. Hvers vegna var það? Þeir voru ekki vissir um að þeir skildu ákveðin biblíusannindi nógu vel.

Þrátt fyrir allar þessar hindranir hafa heyrnarlaus trúsystkini okkar verið staðföst í ráðvendni sinni. (Job. 2:3, 5) Þau hafa vonað á Jehóva og beðið hans þolinmóð. (Sálm. 37:7) Og núna blessar Jehóva þau enn ríkulegar en flest þeirra áttu nokkurn tíma von á.

Hugsaðu þér hvað heyrnarlaus bróðir, sem er eiginmaður og faðir, lagði á sig. Áður en til voru myndbönd með efni á táknmáli stýrði hann trúfastur biblíunámi fjölskyldunnar. Sonur hans segir: „Fjölskyldunámið var alltaf erfitt fyrir pabba þar sem hann hafði bara ritað efni til að nota þegar hann kenndi okkur. Oft skildi hann efnið ekki til fulls sjálfur. Og ekki hjálpuðum við krakkarnir til. Við vorum fljót að benda honum á ef hann kom með ranga skýringu á einhverju. En þrátt fyrir það hélt hann fjölskyldunámið alltaf reglulega. Honum fannst skipta mestu máli að við fengjum fræðslu um Jehóva þótt það þýddi að hann yrði vandræðalegur af og til vegna þess að hann skildi enskuna ekki nógu vel.“

Annað dæmi er Richard sem býr í Brooklyn í New York. Hann er bróðir á áttræðisaldri og er bæði blindur og heyrnarlaus. Hann er þekktur fyrir að mæta reglulega á samkomur. Hann fer einn með neðanjarðarlestinni og telur hve oft hún stoppar svo að hann viti hvenær hann á að fara út. Einn veturinn kom svo slæm hríð að samkomunni var aflýst. Allir í söfnuðinum voru látnir vita en það fórst fyrir að segja Richard frá því. Þegar bræðurnir gerðu sér það ljóst og fóru að leita að honum fundu þeir hann þar sem hann stóð fyrir utan ríkissalinn og beið þolinmóður eftir því að dyrnar yrðu opnaðar. Og þegar hann var spurður að því hvers vegna hann hefði farið út í þetta óveður svaraði hann: „Ég elska Jehóva.“

Hvað getur þú gert?

Búa einhverjir heyrnarlausir á þínum slóðum? Gætirðu þá lært dálítið í táknmáli til að geta talað við þá? Heyrnarlausir eru venjulega mjög vinsamlegir og þolinmóðir þegar þeir kenna öðrum málið sitt. Kannski hittirðu einhvern við óformlegar aðstæður eða í boðunarstarfinu. Hvað geturðu þá gert? Reyndu að tala við hann. Notaðu látbragð, skrifaðu á blað, teiknaðu eða notaðu myndir. Þú getur líka notað sitt lítið af hverju. Og þó að sá sem þú talar við sýni að hann hafi ekki áhuga á sannleikanum skaltu samt láta bróður eða systur, sem er heyrnarlaus eða kann táknmál, vita af heimsókninni. Boðskapurinn höfðar ef til vill betur til hans þegar hann fær hann á táknmáli.

Hvernig getur þú orðið færari í að tala og skilja táknmál ef þú ert nú þegar að læra málið og sækir samkomur á táknmáli? Hvernig væri að „skrúfa fyrir“ röddina jafnvel þó að það séu kannski fleiri heyrandi boðberar í söfnuðinum? Það hjálpar þér að hugsa á táknmáli, það er að segja að hugsa sjónrænt. Stundum læturðu kannski freistast til að nota röddina af því að það er auðveldara, en eins og með allt annað tungumálanám þarf maður að þrauka í gegnum byrjunarerfiðleikana til að ná góðu valdi á málinu.

Við sýnum heyrnarlausum bræðrum okkar og systrum virðingu með því að leggja okkur fram við að tala táknmál. Ímyndaðu þér hvernig þeim sem eru heyrnarlausir hlýtur að líða daginn út og daginn inn vegna þess að þeir skilja ekki fólk í kringum sig í vinnu eða skóla. „Alla daga talar fólk í kringum mig,“ segir heyrnarlaus bróðir. „Ég finn oft til einmanakenndar og finnst ég vera út undan. Mér gremst það og ég verð jafnvel reiður. Það er ekki hægt að lýsa því með orðum hvernig mér líður stundum.“ Samkomurnar ættu að vera eins og vin í eyðimörk þar sem heyrnarlaus trúsystkini okkar fá andlega fæðu og finna hlýhug í samskiptum og samveru við aðra. — Jóh. 13:34, 35.

Ekki má gleyma öllum þeim litlu hópum heyrnarlausra sem sækja samkomur í heyrandi söfnuðum. Samkomurnar eru túlkaðar fyrir þá. Heyrnarlausir safnaðarmeðlimir sitja fremst í ríkissalnum til að geta skilið allt sem fram fer. Þá geta þeir bæði séð túlkinn og ræðumanninn í sömu sjónlínu án þess að nokkuð trufli. Reynslan sýnir að söfnuðurinn í heild venst þessu nokkuð fljótt og það veldur ekki truflun. Þetta á líka við um mót þar sem boðið er upp á táknmálstúlkun. Duglegir safnaðarboðberar eiga hrós skilið fyrir að túlka efnið á þann hátt sem heyrnarlausir myndu sjálfir koma efninu til skila — á eðlilegu táknmáli sem skilst vel.

Kannski ert þú í söfnuði sem heldur uppi táknmálshópi eða þar sem túlkað er fyrir nokkra heyrnarlausa. Hvað geturðu þá gert til að sýna þessum heyrnarlausu trúsystkinum persónulegan áhuga? Bjóddu þeim heim. Ef mögulegt er skaltu læra nokkur tákn. Vertu ekki hræddur við að tala við þá. Þú finnur örugglega leið til að eiga samskipti við þá, og með því að sýna slíkan kærleika eignist þið ánægjulegar minningar. (1. Jóh. 4:8) Trúsystkini okkar, sem eru heyrnarlaus, hafa mikið að gefa. Þau eru fær í að halda uppi samræðum, hafa gott innsæi og ágæta kímnigáfu. Bróðir, sem á heyrnarlausa foreldra, segir: „Ég hef umgengist heyrnarlausa alla tíð og þeir hafa gefið mér mun meira en ég gæti nokkurn tíma endurgoldið þeim. Við getum lært heilmargt af heyrnarlausum trúsystkinum okkar.“

Jehóva elskar trúfasta þjóna sína, þar á meðal þá sem eru heyrnarlausir. Fordæmi þeirra í trú og þolgæði er afar verðmætt fyrir söfnuð Jehóva. Við skulum því meta að verðleikum heyrnarlaus trúsystkini okkar.

[Neðanmáls]

^ gr. 3 Sjá greinina „Jehóva hefur ‚látið ásjónu sína lýsa yfir þá‘“ í Varðturninum 15. ágúst 2009.

[Mynd á blaðsíðu 31]

Fagnaðarerindið höfðar oft betur til heyrnarlausra þegar það er flutt á táknmáli.

[Mynd á blaðsíðu 32]

Samkomurnar ættu að vera eins og vin í eyðimörk þar sem heyrnarlaus trúsystkini okkar fá andlega uppörvun.