Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Ætti systir að vera með höfuðfat þegar hún túlkar ræður og annað efni á táknmál á safnaðarsamkomum eða mótum?

Almenna reglan er sú að kristin kona á að vera með höfuðfat þegar hún sinnir verkefnum sem eiginmaður hennar eða bróðir í söfnuðinum myndi undir venjulegum kringumstæðum sjá um. Það er í samræmi við meginregluna sem Páll postuli nefndi þegar hann sagði: „Sérhver kona, sem biðst fyrir eða flytur spádóma Guðs berhöfðuð, óvirðir höfuð sitt“ því að „karlmaðurinn er höfuð konunnar“. (1. Kor. 11:3-10) Þegar systir ber látlaust og viðeigandi höfuðfat við slíkar aðstæður sýnir hún að hún virðir það fyrirkomulag sem er viðhaft í kristna söfnuðinum. — 1. Tím. 2:11, 12. *

En hvað er viðeigandi að gera þegar systir túlkar á táknmál fyrir bróður sem flytur ræðu? Að vísu er systirin aðeins að miðla efninu yfir á annað tungumál. Með öðrum orðum er það ekki hún sem er að kenna heldur bróðirinn sem hún túlkar fyrir. Táknmálstúlkun er þó mjög ólík túlkun milli raddmála. Þegar um raddmál er að ræða geta áheyrendur beint athyglinni að ræðumanninum og jafnframt hlustað á túlkunina. Og systur, sem túlka milli raddmála, eru sjaldnast á svo áberandi stað, ólíkt táknmálstúlkum. Stundum geta þær jafnvel setið meðan þær túlka eða, ef þær standa, geta þær snúið að ræðumanninum í stað þess að snúa að áheyrendum. Það er því ekki nauðsynlegt fyrir systur, sem túlkar á raddmál, að vera með höfuðfat.

Þar við bætist að vegna tækniframfara verður hlutverk túlksins jafnvel enn meira áberandi þegar ræður eru túlkaðar á táknmál. Túlkuninni er gjarnan varpað upp á stóran skjá þó að viðstaddir sjái jafnvel ekki ræðumanninn. Með þetta í huga er því við hæfi að systir, sem túlkar á táknmál, sýni að hún sé í aukahlutverki sem túlkur með því að vera með höfuðfat.

Hvernig eiga þessar nýju leiðbeiningar við um táknmálstúlkun á verkefnum í Boðunarskólanum, sýnidæmum og túlkun á svörum í safnaðarbiblíunáminu, á þjónustusamkomum eða í Varðturnsnáminu? Á systir, sem túlkar á táknmál við þessar aðstæður, líka að vera með höfuðfat? Það mætti hugsa sér að við sumar aðstæður þyrfti systir ekki að vera með höfuðfat þar sem allir viðstaddir ættu að skilja að hún stýrir ekki samkomunni. Þetta á til dæmis við þegar hún túlkar athugasemdir frá áheyrendum, nemendaræður sem systur flytja eða sýnidæmi. En þegar hún túlkar ræður sem bræður flytja á þessum samkomum, túlkar fyrir Varðturnsnámsstjórann, þann sem stýrir safnaðarbiblíunáminu eða er forsöngvari fyrir söng á táknmáli, ætti hún að vera með höfuðfat. Á einni og sömu samkomunni getur systirin jafnvel þurft að túlka fyrir bræður, systur, börn og öldunga. Þar af leiðandi er kannski heppilegast fyrir hana að vera með höfuðfat alla samkomuna.

[Neðanmáls]

^ gr. 3 Nánari umfjöllun um höfuðfat fyrir kristnar konur má finna á bls. 209-212 í bókinni „Látið kærleika Guðs varðveita ykkur“.