Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þýðing Biblíunnar á eyjunni rauðu

Þýðing Biblíunnar á eyjunni rauðu

Þýðing Biblíunnar á eyjunni rauðu

EYJAN Madagaskar er staðsett um 400 kílómetra úti fyrir suðausturströnd Afríku og er fjórða stærsta eyjan á jörðinni. Madagaskarbúar hafa lengi verið kunnugir nafninu Jehóva vegna þess að nafn Guðs hefur staðið í biblíum þýddum á malagasy í meira en 170 ár. Þýðing Biblíunnar yfir á malagasy er saga þrautseigju og trúmennsku.

Tilraunir til að þýða Biblíuna yfir á malagasy byrjuðu upprunalega á nágrannaeyjunni Máritíus. Árið 1813 hóf sir Robert Farquhar, breski landsstjórinn á Máritíus, að þýða guðspjöllin yfir á malagasy. Seinna hvatti hann konunginn á Madagaskar, Radama fyrsta, til að bjóða kennurum frá Trúboðsfélagi Lundúna að koma til stóru rauðu eyjarinnar eins og Madagaskar er oft kölluð.

Þann 18. ágúst árið 1818 komu tveir velskir trúboðar frá Máritíus til hafnarborgarinnar Toamasina. Þeir hétu David Jones og Thomas Bevan. Fólkið sem bjó þar var mjög trúað og stundaði forfeðradýrkun, og erfikenningar voru í hávegum hafðar. Madagaskarbúar töluðu litríkt tungumál sem er aðallega af malajískum og pólýnesískum uppruna.

Fljótlega eftir að Jones og Bevan höfðu komið á fót litlum skóla komu eiginkonur þeirra og börn frá Máritíus til Toamasina. En svo sorglega vildi til að allur hópurinn veiktist af malaríu og Jones misst bæði eiginkonu sína og barn í desember árið 1818. Tveimur mánuðum síðar dró sjúkdómurinn alla Bevan fjölskylduna til dauða. David Jones var einn eftir af hópnum.

Jones lét þó ekki harmleikinn stöðva sig. Hann var staðráðinn í að Madagaskarbúar skyldu fá aðgang að orði Guðs. Eftir að hafa snúið til Máritíus til að ná sér eftir veikindin byrjaði Jones á því erfiða verkefni að læra malagasy. Skömmu síðar hóf hann undirbúning að því að þýða Jóhannesarguðspjall.

Jones sneri aftur til Madagaskar í október árið 1820. Hann settist að í höfuðborginni Antananarivo og kom fljótlega á fót nýjum trúboðsskóla. Aðstæður voru mjög frumstæðar. Það voru hvorki til kennslubækur, krítartafla né skólaborð. En námsefnið var afbragðsgott og börnin voru námfús.

Eftir að hafa unnið einn í sjö mánuði tók Jones á móti nýjum félaga í stað Bevans, trúboða sem hét David Griffiths. Þessir tveir helguðu sig því krefjandi verkefni að þýða Biblíuna á malagasy.

Þýðingarvinnan byrjar

Snemma á þriðja áratug 18. aldar var malagasy ritað með arabísku letri. Það var kallað sorabe en aðeins lítill hluti fólksins gat lesið það. Eftir að trúboðarnir höfðu ráðfært sig við Radama konung fyrsta, heimilaði hann að latneska stafrófið yrði tekið upp og notað í stað sorabe.

Þýðingarvinnan byrjaði svo fyrir alvöru 10. september árið 1823. Jones vann að þýðingu 1. Mósebókar og Matteusarguðspjalls en Griffiths þýddi 2. Mósebók og Lúkasarguðspjall. Báðir mennirnir höfðu undravert úthald. Auk þess að sjá um mestalla þýðingarvinnuna sjálfir kenndu þeir í skólanum á morgnana og síðdegis. Þar að auki undirbjuggu þeir og héldu guðsþjónustur á þremur tungumálum. En þýðingarnar gengu samt fyrir öllu öðru.

Með hjálp 12 stúdenta þýddu trúboðarnir tveir allar Grísku ritningarnar og margar af bókum Hebresku ritninganna á aðeins 18 mánuðum. Árið eftir var frumþýðingu á allri Biblíunni lokið. Að sjálfsögðu var leiðréttinga og lagfæringa þörf og þess vegna voru málvísindamennirnir David Johns og Joseph Freeman sendir frá Englandi til að hjálpa til.

Erfiðleikar koma upp

Þegar malagasy þýðingunni var lokið var Charles Hovenden sendur frá Trúboðsfélagi Lundúna til að setja upp fyrstu prentvélina á Madagaskar. Hovenden kom til eyjarinnar 21. nóvember árið 1826. Hann smitaðist hins vegar af malaríu og lést innan mánaðar frá komu sinni. Þar með var enginn á eyjunni sem kunni á vélina. Árið eftir tókst hagvirkum iðnaðarmanni frá Skotlandi, James Cameron að nafni, að setja saman vélina með hjálp handbókar sem fannst innan um vélarhlutana. Eftir að hafa prófað sig áfram tókst Cameron loks að prenta hluta af fyrsta kafla 1. Mósebókar þann 4. desember 1827. *

Annað bakslag kom eftir að Radama konungur fyrsti dó 27. júlí 1828. Hann hafði stutt þýðingarverkefnið með ráðum og dáð. David Jones sagði á þeim tíma: „Radama konungur er ákaflega góðviljaður og viðfelldinn. Hann er mjög hlynntur menntun og metur fræðslu þjóðar sinnar í hugvísindum meira en gull og silfur.“ En eiginkona hans, Ranavalona fyrsta, tók við hásætinu og fljótlega varð það ljóst að hún myndi ekki styðja verkefnið í sama mæli og eiginmaður hennar hafði gert.

Skömmu eftir að drottningin hafði tekið við krúnunni beiddist gestur frá Englandi eftir viðtali við hana vegna þýðingarverkefnisins. Því var hafnað. Við annað tækifæri tjáðu trúboðarnir drottningu að þeir ættu enn mikið verk óunnið við að fræða eyjarskeggja, þar á meðal kenna þeim grísku og hebresku. Þá sagði hún: „Ég hef ekki mikinn áhuga á grísku og hebresku en ég myndi vilja vita hvort þið gætuð kennt þjóð minni eitthvað nytsamlegra eins og sápugerð.“ Þegar þeim varð ljóst að þeir gætu þurft að yfirgefa eyjuna áður en malagasy biblíuþýðingin væri fullgerð bað Cameron um vikufrest til þess að íhuga orð drottningarinnar.

Viku seinna afhenti Cameron sendiboðum drottningarinnar tvö lítil heimagerð sápustykki. Þetta ásamt fleiri verkefnum, sem handverksmenn á vegum trúboðsstöðvarinnar gerðu í almannaþágu, friðaði drottninguna nógu lengi til þess að þeim tókst að prenta allt nema nokkrar bækur Hebresku ritninganna.

Óvænt ánægja — síðan vonbrigði

Þrátt fyrir að hafa hafnað trúboðunum í byrjun sendi drottningin frá sér óvænta tilkynningu í maí 1831. Hún gaf þegnum sínum leyfi til að taka kristilega skírn! En þessi ákvörðun varð ekki langlíf. Í bókinni A History of Madagascar segir: „Svo margir skírðust að íhaldssöm öfl við hina konunglegu hirð urðu uggandi og þeim tókst að sannfæra drottninguna um að altarisgangan jafngilti hollustueiði við Breta.“ Þetta olli því að leyfið til kristinnar skírnar var dregið til baka við árslok 1831, aðeins hálfu ári eftir að það hafði verið veitt.

Hverflyndi drottningar ásamt auknum áhrifum íhaldsmanna innan ríkisstjórnarinnar var trúboðunum hvatning til að ljúka við prentun Biblíunnar. Prentun Grísku ritninganna var þegar lokið og þúsundum eintaka hafði verið dreift. Annað reiðarslag skall á 1. mars 1835 þegar Ranavalona drottning tilkynnti að kristin trú væri ólögleg og gaf út skipun um að öllum kristnum bókum skyldi skilað inn til yfirvalda.

Tilskipun drottningarinnar þýddi einnig að innfæddir lærlingar gátu ekki lengur unnið við prentunina. Til þess að geta lokið verkinu urðu þeir örfáu trúboðar sem eftir voru að leggja nótt við dag. Að lokum var öll Biblían komin út á prenti í júní árið 1835. Biblían á malagasy hafði loksins litið dagsins ljós!

Þar sem kristin trú var nú bönnuð var biblíunum snarlega dreift og 70 eintök grafin í jörð til að þau yrðu ekki eyðilögð. Það var ekki seinna vænna því að innan árs höfðu allir trúboðarnir, nema tveir, yfirgefið Madagaskar. En orð Guðs barst út um stóru rauðu eyjuna.

Ást Madagaskarbúa á Biblíunni

Það var mikið gleðiefni fyrir íbúa Madagaskar að geta lesið orð Guðs á sinni eigin tungu. Sums staðar gætir ónákvæmni í þýðingunni og málfarið er orðið úrelt. En þrátt fyrir það er Biblían til á nánast hverju heimili og margir Madagaskarbúar lesa hana reglulega. Það sem er merkilegt við þýðinguna er að nafn Guðs, Jehóva, er notað í öllum Hebresku ritningunum. Í frumeintökum er nafnið einnig að finna í Grísku ritningunum. Þar af leiðandi þekkja flestir Madagaskarbúar nafn Guðs.

Þegar fyrstu eintökin af Grísku ritningunum voru prentuð tók prentarinn, sem hét Baker, eftir gleði eyjarskeggja og hrópaði upp yfir sig: „Ég ætla ekki vera með neina spádóma en ég trúi því ekki að orði Guðs verði nokkru sinni útrýmt í þessu landi!“ Hann reyndist sannspár. Hvorki malaría né sú áskorun að læra erfitt tungumál né tilskipanir óvinveitts stjórnanda gátu komið í veg fyrir að Madagaskarbúar fengju aðgang að orði Guðs.

Og nú er staðan enn betri. Hvernig þá? Árið 2008 kom öll Nýheimsþýðingin út á malagasy. Þýðing hennar er stórt skref fram á við vegna þess að hún er skrifuð á auðskiljanlegu nútímamáli. Orð Guðs stendur því enn traustari fótum á stóru rauðu eyjunni Madagaskar. — Jes. 40:8.

[Neðanmáls]

^ gr. 14 Fyrstu biblíutextarnir, sem komu út á malagasy, voru boðorðin tíu og faðirvorið sem prentað var á Máritíus í apríl-maí 1826. Hins vegar voru það aðeins fjölskylda Radama konungs og nokkrir embættismenn sem fengu eintök.

[Mynd á blaðsíðu 31]

„Nýheimsþýðingin“ á malagasy heiðrar nafn Guðs, Jehóva.