Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þjónum Guði önnum kafin og glöð

Þjónum Guði önnum kafin og glöð

Þjónum Guði önnum kafin og glöð

JEHÓVA vill að það liggi vel á þér. (Sálm. 100:2) Og sem vottur hans ertu sennilega líka önnum kafinn. Kannski varstu ekki eins upptekinn þegar þú vígðir líf þitt Guði en finnst þú undir álagi núna þar sem þú hefur skyldum að gegna bæði almennt í lífinu og sem vottur. Og kannski hefurðu samviskubit þegar þú stendur ekki undir eigin væntingum. Hvernig geturðu fundið jafnvægi og haldið „gleði Drottins“? — Nehem. 8:10.

Við lifum á erfiðum tímum og það er þrýst á okkur úr mörgum áttum. Það er því nauðsynlegt að skipuleggja sig vel. Sum af innblásnum ráðum Páls postula eiga því sérstaklega vel við núna: „Hafið því nákvæma gát á hvernig þið breytið, ekki sem fávís heldur sem vís. Notið hverja stund því að dagarnir eru vondir.“ — Ef. 5:15, 16.

Hvernig geturðu þá sett þér raunhæf markmið og náð að stunda sjálfsnám, sjá um fjölskylduna og sinna atvinnu og öðrum nauðsynlegum hlutum sem skyldi?

Manstu eftir gleðinni sem þú fannst fyrir þegar þú vígðir þig Guði og lést skírast? Gleðin kom af því að þekkja Jehóva og fyrirætlanir hans. Það kostaði þig ef til vill margra mánaða rækilegt nám að öðlast þekkinguna og gleðina sem fylgdi henni. En það var sannarlega þess virði. Þetta nám breytti lífi þínu til hins betra.

Til að varðveita gleðina þarftu að halda áfram að nærast andlega. Ef þú átt erfitt með að finna tíma til að lesa og hugleiða Biblíuna skaltu skoða hvernig þú notar tímann. Þótt þú notir ekki nema nokkrar mínútur á dag til náms og hugleiðingar verðurðu nánari Jehóva og það mun vissulega veita þér gleði.

Flestir þjónar Guðs geta gefið sér tíma til að sinna því sem er mikilvægt með því að sleppa einhverju sem minna máli skiptir. Spyrðu sjálfan þig: Hve mikinn tíma nota ég til að lesa veraldleg tímarit eða dagblöð, horfa á sjónvarpið, hlusta á tónlist eða sinna einhverju áhugamáli? Slíkar iðkanir geta verið ánægjulegar en aðeins ef þær eru stundaðar í hófi. (1. Tím. 4:8) Ef þú kemst að raun um að þú notar tímann ekki skynsamlega skaltu gera það sem þarf til að bæta stundaskrána.

Adam er kvæntur, þriggja barna faðir og safnaðaröldungur. Hann segir hvað hjálpi honum: „Ég reyni að lifa einföldu lífi. Ég forðast tímafrek áhugamál og eignir sem þarf mikið að hugsa um. Ég er enginn meinlætamaður, ég nýt bara afþreyingar sem er einföld í sniðum.“

Ef þú hugleiðir hvernig ákvarðanir þínar hafa blessast hingað til getur það endurnýjað gleði þína og hjálpað þér að vera jákvæður. Til dæmis segir Mariusz sem er öldungur og þriggja barna faðir: „Ég varð bjartsýnismaður þegar ég fór að lesa og hugleiða Biblíuna. Það koma enn upp vandamál af og til, og mörg þeirra veit aðeins Jehóva um. En vegna þess að hann styður mig er ég bjartsýnn á framtíðina.“

Þó að þú sért jákvæður losnarðu ekki við allar áhyggjur frekar en Mariusz. En bjartsýni getur hjálpað þér að líða betur og þú getur unnið úr vandamálum lífsins á farsælli hátt. Í Orðskviðunum 15:15 stendur: „Hinn volaði sér aldrei glaðan dag, en sá sem vel liggur á, er sífellt í veislu.“ (Biblían 1981) Hugleiddu einnig hvernig Jehóva hefur sýnt þér ástúð. Það getur dýpkað gleði þína og kærleika til hans. — Matt. 22:37.

Það eykur gleði fjölskyldunnar að setja Jehóva og hagsmuni hans í forgang. Þegar fjölskyldumeðlimir sýna af sér kristilega eiginleika dregur það úr ágreiningi innan fjölskyldunnar, eflir tengslin og gerir samskiptin ánægjulegri. Þá verður heimilið öruggt skjól fyrir alla fjölskylduna þar sem eining og friður ríkir. — Sálm. 133:1.

Þegar fjölskyldan iðkar trúna í sameiningu eykur það á hamingju hennar. Mariusz segir: „Mér finnst þær stundir verðmætar sem við eigum saman sem fjölskylda. Konan mín er mjög hjálpsöm. Hún vinnur með mér hvenær sem mögulegt er, hvort sem ég er í boðunarstarfinu eða að þrífa leikvang fyrir umdæmismót. Og hún fer með mér þegar ég flyt opinbera fyrirlestra í öðrum söfnuðum. Það finnst mér uppörvandi.“

Biblían leggur þær skyldur á herðar kristnum mönnum að sjá fyrir efnislegum þörfum fjölskyldunnar. (1. Tím. 5:8) En ef vinnan tekur of mikinn tíma og kraft getur það rænt þig gleðinni í þjónustunni við Guð. Leggðu málið fyrir Jehóva í bæn. (Sálm. 55:23) Sumir hafa komist að raun um að til að geta leitað fyrst ríkis Guðs þurfi þeir að skipta um vinnu. Enginn kristinn maður ætti að leyfa efnislegum ávinningi af krefjandi vinnu að hindra sig í að sinna andlegum málum sem eru enn mikilvægari. — Orðskv. 22:3.

Það getur verið gagnlegt fyrir þig að punkta niður kosti og galla núverandi eða tilvonandi atvinnu. Það er að sjálfsögðu eftirsóknarvert að hafa ánægjulega vinnu sem gefur vel af sér. En hjálpar núverandi atvinna þér að efla andlegt heilbrigði fjölskyldunnar? Leggðu hlutlægt mat á alla þætti málsins og taktu síðan ákvörðun miðað við að samband þitt við Jehóva hafi forgang.

Ef núverandi atvinna þín stuðlar ekki að andlegum vexti þarftu að gera eitthvað í málinu. Margir vottar hafa gert róttækar breytingar til að fá meiri tíma fyrir andleg mál. Bróðir í Póllandi segir: „Einu sinni átti ég ekki um annað að velja en að hætta hjá fyrirtækinu sem ég vann hjá vegna þess að ég þurfti svo oft að vera að heiman í viðskiptaferðum. Ég hafði hvorki nægan tíma til að sinna andlegu málunum né fjölskyldunni.“ Nú sér hann fyrir sér með atvinnu sem tekur mun minni tíma og krafta.

Hafðu gleði af að hjálpa öðrum

Jesús sagði að ‚sælla væri að gefa en þiggja‘. (Post. 20:35) Við höfum mörg tækifæri til að gefa af okkur. Stundum þarf ekki annað en hlýlegt bros, handtak eða einlægar þakkir fyrir vel unnin störf í söfnuðinum til að gleðja trúsystkin. Og þú gleðst um leið.

Páll postuli hvatti trúsystkini sín: „Hughreystið ístöðulitla, takið að ykkur óstyrka.“ (1. Þess. 5:14) Þeim sem eru niðurdregnir finnst þeir kannski ófærir um að takast á við vandamál sín í eigin mætti. Geturðu rétt þeim hjálparhönd? Ef þú sérð að trúbróðir er að missa gleðina í þjónustunni skaltu reyna að uppörva hann. Það virkar líka hvetjandi á þig. Sum vandamál getur mannlegur máttur ekki leyst. En þú getur sýnt einlæga samúð og hvatt bróður þinn til að treysta á Jehóva sem bregst aldrei. Þeir sem gera það verða aldrei fyrir vonbrigðum. — Sálm. 27:10; Jes. 59:1.

Önnur hagnýt aðstoð, sem þú getur veitt, er að bjóða samstarf þeim sem virðist skorta gleði. Þegar Jesús sendi út lærisveinana 70 lét hann þá fara saman „tvo og tvo“. (Lúk. 10:1) Heldurðu ekki að hann hafi með því séð þeim fyrir gagnkvæmri hvatningu? Getur þú notað þessa aðferð til að hjálpa einhverjum að taka gleði sína aftur?

Lífinu fylgja alls kyns áhyggjur. Samt sem áður hvetur Páll okkur: „Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur: Verið glöð.“ (Fil. 4:4) Líf þitt hefur tilgang vegna þess að þú elskar Guð, hlýðir honum og heldur ótrauður áfram að sinna af kostgæfni því starfi sem hann fól þér. Það veitir þér gleði. Og það sem meira er, Jehóva hjálpar þér að fást við álag og vandamál sem verða á vegi þínum. — Rómv. 2:6, 7.

Við sjáum með augum trúarinnar hversu nálægur nýi heimurinn er sem Jehóva lofar. Hugsaðu þér hve mikil blessun fylgir honum og hve margar ástæður verða til að gleðjast. (Sálm. 37:34) Við getum því verið ánægð með lífið og haft hugfast hve ríkulega Jehóva blessar okkur jafnvel núna. Við getum ‚þjónað Drottni með gleði‘. — Sálm. 100:2.

[Skýringarmynd á blaðsíðu 8]

(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)

Til að halda gleði þinni gætirðu þurft að endurskoða hvernig þú skipuleggur tímann.

AFÞREYING og SKEMMTUN

HEIMILIÐ og FJÖLSKYLDAN

ATVINNA

SAFNAÐAR- SAMKOMUR

SJÁLFSNÁM

BOÐUNARSTARFIÐ

[Myndir á blaðsíðu 10]

Gætirðu hjálpað öðrum að taka aftur gleði sína?