Ræktum með okkur kærleika sem fellur aldrei úr gildi
Ræktum með okkur kærleika sem fellur aldrei úr gildi
‚Kærleikurinn umber allt. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.‘ — 1. KOR. 13:7, 8.
1. (a) Hvernig er oft fjallað um ástina? (b) Að hverju beina margir ást sinni nú á dögum?
MARGT hefur verið gert til þess að auglýsa ástina. Margir lagahöfundar hafa dásamað hana og klætt hana í rómantískan búning. Ást er ein af grunnþörfum mannsins. En bækur og kvikmyndir fjalla oft um uppspunnar ástarsögur og framboðið á slíku efni er yfirdrifið. Það ber þó sárlega lítið á einlægum kærleika til Guðs og náungans. Við sjáum gerast það sem spáð var í Biblíunni um síðustu daga. Menn eru „sérgóðir, fégjarnir . . . og elska munaðarlífið meira en Guð“. — 2. Tím. 3:1-5.
2. Hvernig varar Biblían við ást sem beinist í ranga átt?
2 Mennirnir eru þeim hæfileika gæddir að geta sýnt ást og kærleika. Biblían varar þó við kærleika sem beinist í ranga átt. Í henni er því jafnframt lýst hvað gerist þegar þess konar kærleikur festir rætur í hjartanu. (1. Tím. 6:9, 10) Manstu hvað Páll postuli skrifaði um Demas? Þrátt fyrir að hafa starfað með Páli fór Demas að elska það sem heimurinn hafði upp á að bjóða. (2. Tím. 4:10) Jóhannes postuli varaði kristna menn líka við þessari hættu. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 2:15, 16.) Að elska heiminn og þá hverfulu hluti, sem í heiminum eru, getur ekki farið saman við að elska Guð og það sem kemur frá honum.
3. Hvaða vanda stöndum við frammi fyrir og hvaða spurningar vakna í framhaldinu?
3 Við erum ekki hluti af þessum heimi þótt við búum enn í honum. Okkar vandi er því að varast að verða fyrir áhrifum af brengluðum viðhorfum heimsins til ástarinnar. Það er
mikilvægt að við látum ekki leiðast út í að sýna ást sem er afbökuð eða beinist í ranga átt. Við þurfum því að rækta með okkur og sýna kærleika sem byggist á meginreglum. En að hverjum á hann að beinast? Hvað getur hjálpað okkur að rækta með okkur kærleika sem umber allt og fellur aldrei úr gildi? Hvernig gagnast það okkur núna og hvaða áhrif hefur það á framtíð okkar? Við þurfum að vita hvað Guð hefur um málið að segja svo að við getum fylgt hans ráðum.Ræktum með okkur kærleika til Jehóva
4. Hvernig vex kærleikurinn til Guðs?
4 Að rækta getur falið í sér að undirbúa og hlúa að vexti einhvers. Sjáðu fyrir þér bónda sem vinnur hörðum höndum að því að undirbúa jarðveginn og sá fræi. Hann gerir ráð fyrir að fræið vaxi. (Hebr. 6:7) Kærleikur okkar til Guðs ætti sömuleiðis að vaxa. Hvað þarf til að það gerist? Við verðum að vinna með jarðveginn, sem er hjartalag okkar, þar sem sæði Guðsríkis var sáð. Við getum gert það með rækilegu námi í Biblíunni því að þannig fáum við aukna þekkingu á Guði. (Kól. 1:10) Þekking okkar eykst einnig ef við sækjum samkomur að staðaldri og tökum þátt í þeim. Leggjum við okkur hvert og eitt stöðuglega fram við að öðlast dýpri þekkingu? — Orðskv. 2:1-7.
5. (a) Hvernig getum við fræðst um höfuðeiginleika Jehóva? (b) Hvað finnst þér um réttlæti, visku og mátt Guðs?
5 Jehóva opinberar okkur persónuleika sinn í Biblíunni. Með því að lesa og rannsaka hana og auka jafnt og þétt við þekkingu okkar á Jehóva lærum við betur að meta eiginleika hans — réttlæti, mátt, visku og umfram allt óviðjafnanlegan kærleika hans. Réttlæti Jehóva birtist í öllum verkum hans og í lýtalausu lögmáli hans. (5. Mós. 32:4; Sálm. 19:8) Við getum skoðað allt sem Jehóva hefur skapað og mikilfengleg viska hans fyllir okkur lotningu. (Sálm. 104:24) Alheimurinn sýnir einnig fram á að Jehóva er máttugastur allra og býr yfir óþrjótandi orku. — Jes. 40:26.
6. Hvernig hefur Guð sýnt okkur kærleika og hvernig hefur það snert þig?
6 Hvað má segja um áhrifamesta eiginleika Guðs, kærleikann? Hann breiðir úr sér og nær til okkar allra. Guð sýndi kærleika sinn með því að greiða það gjald sem þurfti til að endurleysa mannkynið. (Lestu Rómverjabréfið 5:8.) Allir jarðarbúar geta nýtt sér þessa gjöf en þeir einir njóta góðs af henni sem breyta í samræmi við kærleika Guðs og trúa á son hans. (Jóh. 3:16, 36) Guð færði Jesú að friðþægingarfórn fyrir syndir okkar og það ætti að vekja með okkur kærleika til Guðs.
7, 8. (a) Hvað þurfum við að gera til að sýna að við elskum Guð? (b) Þrátt fyrir hvað heldur fólk Guðs boðorð hans?
7 Hvernig getum við sýnt að við elskum Guð vegna alls þess sem hann hefur gert fyrir okkur? Það kemur skýrt fram í Biblíunni: „Elskan til Guðs birtist í að við höldum boðorð hans. Og boðorð hans eru ekki þung.“ (1. Jóh. 5:3) Já, kærleikurinn til Jehóva Guðs knýr okkur til að halda boðorð hans. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að við kunngerum nafn hans og ríki öðrum til góðs. Ef við gerum það af öllu hjarta sýnum við að við höldum boðorð Guðs af hreinum hvötum. — Matt. 12:34.
8 Trúsystkini okkar um allan heim halda boð Guðs af þrautseigju þrátt fyrir að fólk sé sinnulaust eða hafni afdráttarlaust boðskapnum um ríkið. Þau fullna þjónustu sína án þess að hægja á sér. (2. Tím. 4:5) Við finnum okkur einnig knúin til að segja öðrum frá Guði og halda öll önnur boðorð hans.
Af hverju elskum við Drottin okkar Jesú Krist?
9. Hvers konar þrautir þoldi Kristur og af hvaða hvötum þoldi hann þær?
9 Við höfum margar ástæður til að rækta með okkur kærleika til Jesú, auk þess að elska föður hans. Við höfum ekki séð Jesú en þegar við lærum meira um hann styrkist kærleikur okkar til hans. (1. Pét. 1:8) Hvaða erfiðleika þoldi Jesús? Meðan hann framkvæmdi vilja föður síns var hann hataður að tilefnislausu, ofsóttur, ranglega ákærður, smánaður og niðurlægður með ýmsum öðrum hætti. (Lestu Jóhannes 15:25.) Kærleikurinn, sem Jesús bar til Jehóva, fékk hann til að þola þessa erfiðleika. Og það var vegna kærleika sem hann færði líf sitt að fórn til lausnargjalds fyrir marga. — Matt. 20:28.
10, 11. Hvað viljum við gera í ljósi þess sem Kristur hefur gert fyrir okkur?
10 Stefna Jesú kallar á viðbrögð af okkar hálfu. Þegar við hugleiðum það sem Kristur hefur gert fyrir okkur vex kærleikurinn til hans. Við erum fylgjendur hans og það ætti að vera markmið okkar að sýna sams konar kærleika og hann til að geta haldið trúfastlega boð hans um að prédika fagnaðarerindið og gera menn að lærisveinum. — Matt. 28:19, 20.
11 Kærleikurinn, sem Kristur sýndi mannkyninu, knýr okkur til að ljúka verkefni okkar áður en endirinn kemur. (Lestu 2. Korintubréf 5:14, 15.) Þessi kærleikur Krists var aðalástæðan fyrir því að hann gat framkvæmt það sem Guð hefur í hyggju fyrir mannkynið. Og fyrirmyndin, sem Kristur lét okkur eftir að fylgja, gerir okkur öllum mögulegt að eiga þátt í þessari fyrirætlun Guðs. Þetta krefst þess að við ræktum með okkur kærleika til Guðs í fyllsta mæli. (Matt. 22:37) Með því að fara eftir því sem Jesús kenndi og halda boðorð hans sýnum við að við elskum hann og erum ákveðin í að upphefja drottinvald Guðs sama hvað það kostar, rétt eins og Jesús gerði. — Jóh. 14:23, 24; 15:10.
Fylgjum hinni miklu ágætari leið kærleikans
12. Hvað átti Páll við þegar hann talaði um „miklu ágætari leið“?
12 Páll postuli fylgdi fordæmi Krists. Og hann gat öruggur hvatt trúsystkini sín til að breyta eftir sér þar sem hann fetaði í fótspor Krists. (1. Kor. 11:1) Þótt hann hefði sagt frumkristnum mönnum í Korintu að þeir ættu að sækjast eftir vissum náðargáfum andans, eins og lækningamætti og tungutali, benti hann þeim á að sækjast eftir einhverju sem var enn betra. Í 1. Korintubréfi 12:31 sagði hann: „Nú bendi ég ykkur á enn þá miklu ágætari leið.“ Samhengið í versunum á eftir sýnir fram á að hann átti við hina ágætari leið kærleikans. Að hvaða leyti var hún miklu ágætari? Páll útskýrði nánar hvað hann átti við. (Lestu 1. Korintubréf 13:1-3.) Hvað væri hann ef hann byggi yfir framúrskarandi hæfileikum og ynni mikil afrek en hefði ekki kærleika? Ekki neitt. Með hjálp anda Guðs benti hann á þetta mikilvæga atriði. Þessi kröftuga rökfærsla hefur sannarlega sterk áhrif á okkur.
13. (a) Hver er árstextinn árið 2010? (b) Í hvaða skilningi fellur kærleikurinn aldrei úr gildi?
13 Páll telur því næst upp hvað kærleikurinn er og hvað hann er ekki. (Lestu 1. Korintubréf 13:4-8.) Taktu þér nú tíma til að kanna hvar þú stendur miðað við þessa lýsingu á kærleika. Einbeittu þér að síðustu orðunum í versi 7 og fyrstu setningunni í versi 8: ‚Kærleikurinn umber allt. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi‘ en það er árstextinn árið 2010. Taktu eftir að í versi 8 sagði Páll að náðargáfur andans, þar á meðal tungutal og spádómsgáfur — sem voru notaðar á upphafsárum kristna safnaðarins — myndu líða undir lok. Þær tækju enda. En kærleikurinn yrði alltaf til staðar. Jehóva er eilífur og kærleikurinn kemur frá honum. Kærleikurinn fellur því aldrei úr gildi eða tekur enda. Hann heldur áfram að vera til um alla eilífð sem eiginleiki okkar eilífa Guðs. — 1. Jóh. 4:8.
Kærleikurinn umber allt
14, 15. (a) Hvernig getur kærleikur hjálpað okkur að þola raunir? (b) Af hverju neitaði ungur bróðir að hvika frá trú sinni?
14 Hvað gerir kristnum mönnum kleift að vera þolgóðir í alls konar raunum, erfiðum aðstæðum og vandamálum? Í stuttu máli sagt er það kærleikur byggður á meginreglu. Slíkur kærleikur fær okkur til að gera meira en aðeins fórna efnislegum eigum. Hann nær svo langt að við erum fús til að varðveita ráðvendni okkar og jafnvel láta lífið vegna Krists. (Lúk. 9:24, 25) Leiðum hugann að trúfesti votta sem þoldu miklar þjáningar í fangabúðum, vinnubúðum og fangelsum í síðari heimsstyrjöldinni og eftir að henni lauk.
15 Ungur þýskur vottur, Wilhelm að nafni, lýsir þessu vel. Hann hvikaði ekki frá trúnni heldur stóð staðfastur frammi fyrir aftökusveit nasista. Í kveðjubréfi til fjölskyldu sinnar skrifaði hann: „Við verðum umfram allt að elska Guð eins og leiðtogi okkar, Jesús Kristur, fyrirskipaði. Ef við stöndum með honum umbunar hann okkur.“ Ættingi hans skrifaði seinna í grein í Varðturninum: „Þrátt fyrir ólgutíma höfum við fjölskyldan gætt þess að kærleikurinn til Guðs sé ávallt í fyrirrúmi hjá okkur.“ Þetta sama viðhorf sýna margir bræður sem nú eru í fangelsi í Armeníu, Erítreu, Suður-Kóreu og víðar. Þessir bræður eru stöðugir í kærleika sínum til Jehóva.
16. Hvað þurftu trúsystkini okkar í Malaví að þola?
16 Í mörgum löndum reyna erfiðleikar af öðru tagi á trú og þolgæði trúsystkina okkar. Í 26 ár lögðu yfirvöld í Malaví bann við starfsemi Votta Jehóva og vottarnir þurftu að þola harða andstöðu og mörg grimmdarverk. Þeim var umbunað fyrir þolgæði sitt. Þegar ofsóknirnar hófust voru um það bil 18.000 vottar í landinu. Þrjátíu árum seinna hafði þeim fjölgað um meira en helming og voru orðnir 38.393. Svipað hefur gerst í öðrum löndum.
17. Hvað mætir sumum á trúarlega skiptum heimilum og af hverju hafa þeir getað þolað illa meðferð?
Matt. 10:35, 36) Unglingar hafa þolað andstöðu frá vantrúuðum foreldrum. Sumir hafa meira að segja verið reknir að heiman en vingjarnlegir vottar hafa tekið þá inn á heimili sín. Sumum hefur verið afneitað. Hvað gerði þeim kleift að þola slíka meðferð? Það var ekki eingöngu kærleikur til bræðrafélagsins, heldur fyrst og fremst einlægur kærleikur til Jehóva og sonar hans. — 1. Pét. 1:22; 1. Jóh. 4:21.
17 Beinar árásir á fólk Guðs í heild geta vissulega reynt á. Það getur þó verið enn erfiðara fyrir kristinn mann að mæta andstöðu frá fjölskyldunni. Það getur skapað mikla streitu þegar heimilisfólk eða nánir ættingjar snúast gegn trú okkar. Sagði Jesús ekki fyrir að þetta myndi eiga sér stað? Jú, og margir hafa komist að raun um að hann sagði satt. (18. Hvernig getur kærleikur, sem umber allt, komið kristnum hjónum að gagni?
18 Til eru margar fleiri aðstæður sem útheimta kærleika sem umber allt. Kærleikur gerir hjónum kleift að virða þessi orð Jesú: „Það sem Guð hefur tengt saman má eigi maðurinn sundur skilja.“ (Matt. 19:6) Þegar kristnir menn glíma við erfiðleika í hjónabandinu ættu þeir að minnast þess að Jehóva gegnir lykilhlutverki í hjónabandi þeirra. (1. Kor. 7:28) Í orði hans segir að ‚kærleikurinn umberi allt‘ og hjón sem íklæðast þessum eiginleika eru staðráðin í að vera saman og vernda hjónaband sitt. — Kól. 3:14.
19. Hvað hefur gerst meðal fólks Guðs eftir náttúruhamfarir?
19 Kærleikur hjálpar okkur að umbera allt þegar náttúruhamfarir eiga sér stað. Það sást glöggt þegar jarðskjálfti varð í suðurhluta Perú og fellibylurinn Katrina lagði í rúst svæði í Bandaríkjunum sem liggja að Mexíkóflóa. Mörg trúsystkina okkar misstu heimili sín eða eigur í þessum hamförum. Vegna kærleika lét heimssöfnuðurinn í té hjálpargögn og sjálfboðaliðar aðstoðuðu við að endurbyggja heimili og gera við ríkissali. Slík verk eru sönnun um þann kærleika og þá umhyggju sem trúsystkini okkar bera hvert fyrir öðru sama hvað á dynur. — Jóh. 13:34, 35; 1. Pét. 2:17.
Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi
20, 21. (a) Hvers vegna ber kærleikurinn af? (b) Af hverju ert þú staðráðinn í að fylgja leið kærleikans?
20 Við sjáum meðal þjóna Jehóva viskuna í því að fylgja ágætari leið kærleikans. Þessi leið ber af við allar aðstæður. Taktu eftir hvernig Páll postuli lagði áherslu á það. Fyrst benti hann á að náðargáfur andans tækju enda og að kristni söfnuðurinn myndi vaxa upp úr bernskunni og ná þroska. Síðan sagði hann: „Nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt, en þeirra er kærleikurinn mestur.“ — 1. Kor. 13:13.
21 Með tímanum mun það sem við trúum á verða að veruleika og þá verður ekki lengur þörf á því að trúa á það. Ekki þarf lengur að halda í vonina um að sjá loforðin rætast þegar allir hlutir hafa verið gerðir nýir. En hvað með kærleikann? Hann fellur aldrei úr gildi, tekur aldrei enda. Hann verður áfram. Þegar eilífðin blasir við okkur munum við örugglega sjá og kynnast æ fleiri hliðum á kærleika Guðs. Með því að hlýða Guði og fylgja hinni ágætari leið kærleikans, sem fellur aldrei úr gildi, getur þú varað að eilífu. — 1. Jóh. 2:17.
Hvert er svarið?
• Af hverju verðum við að vera á varðbergi gagnvart kærleika sem beinist í ranga átt?
• Hvað getur kærleikurinn hjálpað okkur að þola?
• Í hvaða skilningi fellur kærleikurinn aldrei úr gildi?
[Spurningar]
[Innskot á blaðsíðu 27]
Árstextinn árið 2010 verður: ‚Kærleikurinn umber allt. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.‘ — 1. Kor. 13:7, 8.
[Mynd á blaðsíðu 25]
Kærleikurinn til Guðs knýr okkur til að boða fagnaðarerindið.
[Mynd á blaðsíðu 26]
Trúsystkini okkar í Malaví gátu þolað miklar raunir af því að þau bjuggu yfir óhagganlegum kærleika.