Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Varðveittu gleðina á erfiðum tímum

Varðveittu gleðina á erfiðum tímum

Varðveittu gleðina á erfiðum tímum

„Allir, sem leita hælis hjá [Jehóva], munu gleðjast, þeir fagna um aldur.“ — SÁLM. 5:12.

1, 2. (a) Nefndu dæmi um þær þjáningar sem allir menn verða fyrir. (b) Hvað þurfa sannkristnir menn að þola, auk þeirra hörmunga sem eru öllum sameiginlegar?

VOTTAR JEHÓVA fara ekki varhluta af þeim hörmungum sem ganga yfir mannkynið. Margir þjónar Guðs hafa orðið fyrir barðinu á glæpum, styrjöldum og öðru ranglæti. Náttúruhamfarir, fátækt, sjúkdómar og dauði valda miklum þjáningum. Páll postuli lýsti ástandinu af raunsæi þegar hann sagði: „Við vitum að öll sköpunin stynur líka og hefur fæðingarhríðir allt til þessa.“ (Rómv. 8:22) Við þurfum einnig að takast á við eigin ófullkomleika. Við segjum kannski eins og Davíð konungur til forna: „Misgjörðir mínar hafa vaxið mér yfir höfuð, þær eru byrði sem ég fæ ekki borið.“ — Sálm. 38:5.

2 Auk þeirra hörmunga, sem allir menn verða fyrir, þurfa sannkristnir menn að bera táknrænan kvalastaur. (Lúk. 14:27) Lærisveinar Jesú eru hataðir og ofsóttir eins og hann. (Matt. 10:22, 23; Jóh. 15:20; 16:2) Til að geta fylgt Kristi þurfum við að leggja hart að okkur og vera þolgóð meðan við bíðum nýja heimsins og blessana hans. — Matt. 7:13, 14; Lúk. 13:24.

3. Hvernig vitum við að kristnir menn þurfa ekki að lifa við sífelldar þjáningar til að þóknast Guði?

3 Ber að skilja þetta svo að kristnir menn lifi hamingju- og gleðisnauðu lífi? Á líf okkar að vera samfelld sorg og raunir þangað til endirinn kemur? Ljóst er að Jehóva vill að við séum glöð og ánægð meðan við bíðum þess að fyrirheit hans rætist. Aftur og aftur er tilbiðjendum hans lýst sem glöðum og hamingjusömum. (Lestu Jesaja 65:13, 14.) „Allir, sem leita hælis hjá [Jehóva], munu gleðjast, þeir fagna um aldur,“ segir í Sálmi 5:12. Það er hægt að vera tiltölulega glaður og ánægður og hafa hugarfrið, jafnvel í erfiðleikum. Við skulum nú kanna hvernig Biblían getur hjálpað okkur að varðveita gleðina í prófraunum og erfiðleikum.

Jehóva er ‚hinn sæli Guð‘

4. Hvernig er Guði innanbrjósts þegar ekki er farið eftir vilja hans?

4 Lítum á Jehóva sem dæmi. Hann er alvaldur Guð og ræður yfir öllum alheimi. Hann vantar ekkert og þarf ekki á neinum að halda. En þrátt fyrir óviðjafnanlegan mátt sinn hlýtur Jehóva að hafa verið vonsvikinn þegar einn af andasonum hans snerist gegn honum og varð að Satan. Hann hlýtur að hafa hryggst yfir því að sjá aðra engla snúast á sveif með Satan í uppreisninni. Og hugsaðu þér hvað það hlýtur að hafa sært hann að horfa upp á Adam og Evu, kórónu sköpunarverksins á jörð, snúa baki við honum. Síðan þá hafa milljarðar afkomenda þeirra hafnað yfirráðum Jehóva. — Rómv. 3:23.

5. Hvað tekur Jehóva sérstaklega nærri sér?

5 Uppreisn Satans er enn í fullum gangi. Í ein 6.000 ár hefur Jehóva horft upp á skurðgoðadýrkun, ofbeldi, morð og spillingu í kynferðismálum. (1. Mós. 6:5, 6, 11, 12) Hann hefur þurft að hlusta á svívirðilegar lygar og guðlast. Tilbiðjendur Guðs hafa meira að segja stundum sært hann. Einu slíku dæmi er lýst þannig: „Hversu oft þrjóskuðust þeir við hann í eyðimörkinni, hryggðu hann á öræfunum. Og aftur freistuðu þeir Guðs og móðguðu Hinn heilaga í Ísrael.“ (Sálm. 78:40, 41) Jehóva tekur það mjög nærri sér þegar þjónar hans snúa baki við honum. (Jer. 3:1-10) Ljóst er að margt fer á verri veg og það hryggir Jehóva ákaflega. — Lestu Jesaja 63:8-10.

6. Hvernig tekst Guð á við mótlæti?

6 En Jehóva lætur ekki sársauka og vonbrigði lama sig. Þegar erfiðleikar hafa orðið hefur hann tekið á málum þegar í stað til að draga sem mest úr slæmum afleiðingum þeirra. Hann hefur einnig gert ráðstafanir til að fyrirætlun hans nái fram að ganga með tíð og tíma. Þar sem Jehóva hefur brugðist þannig við aðstæðum getur hann horft til þess með fögnuði að drottinvald hans verði réttlætt og allir dyggir dýrkendur hans hljóti blessun. (Sálm. 104:31) Þrátt fyrir allar þær ásakanir og svívirðingar sem hann hefur mátt þola er hann eftir sem áður ‚hinn sæli Guð‘. — 1. Tím. 1:11, Biblían 1912; Sálm. 16:11.

7, 8. Hvernig getum við líkt eftir Jehóva þegar eitthvað fer úrskeiðis?

7 Við erum auðvitað ekki eins fær og Jehóva að leysa vandamál. Við getum samt sem áður líkt eftir viðbrögðum hans við mótlæti. Það er fullkomlega eðlilegt að verða niðurdregin þegar eitthvað fer úrskeiðis en við þurfum ekki að vera niðurdregin til langframa. Þar sem við erum sköpuð eftir mynd Guðs getum við hugsað rökrétt og búum yfir visku til að brjóta vandann til mergjar og gera viðeigandi ráðstafanir ef hægt er.

8 Eitt mikilvægt atriði, sem getur hjálpað okkur að takast á við erfiðleika lífsins, er að horfast í augu við að sumt er einfaldlega þess eðlis að við ráðum ekki við það. Ef við létum slík mál valda okkur hugarkvöl gæti það gert illt verra og rænt okkur gleðinni sem er samfara sannri tilbeiðslu. Eftir að hafa gert viðeigandi ráðstafanir til að leysa vandann er best að halda sínu striki og einbeita sér að einhverju jákvæðara. Eftirfarandi frásögur Biblíunnar sýna fram á það.

Að sýna skynsemi

9. Hvernig sýndi Hanna skynsemi?

9 Tökum sem dæmi Hönnu, móður Samúels spámanns. Hún var á sínum tíma döpur yfir því að geta ekki eignast börn og mátti þola háð og spott fyrir. Stundum var hún svo miður sín að hún grét og vildi ekki borða. (1. Sam. 1:2-7) Einhverju sinni, þegar hún kom í helgidóminn, bað hún til Jehóva „full örvæntingar“ og „grét sáran“. (1. Sam. 1:10, 11) Eftir að hún hafði úthellt hjarta sínu fyrir Jehóva kom Elí æðstiprestur til hennar og sagði: „Farðu í friði. Guð Ísraels mun veita þér það sem þú baðst hann um.“ (1. Sam. 1:17) Hanna hlýtur að hafa gert sér grein fyrir að hún hafði gert allt sem í hennar valdi stóð. Hún gat engu um það ráðið að hún skyldi vera barnlaus. Hún sýndi skynsemi, „gekk . . . leiðar sinnar, byrjaði aftur að borða og var ekki lengur döpur í bragði“. — 1. Sam. 1:18.

10. Hvernig sýndi Páll raunsæi þegar hann átti í vanda sem hann gat ekki leyst?

10 Páll postuli sýndi sama hugarfar þegar hann varð fyrir mótlæti. Hann átti við einhverjar raunir að stríða sem ollu honum mikilli kvöl. Hann kallaði þær ‚flein í holdinu‘. (2. Kor. 12:7) Hvers eðlis sem ‚fleinninn‘ var gerði Páll það sem hann gat til að losna við hann og bað Jehóva að taka hann frá sér. Eftir að hann hafði beðið þrisvar um þetta opinberaði Guð honum að ‚fleinninn í holdinu‘ yrði ekki fjarlægður fyrir kraftaverk. Páll sætti sig við það og einbeitti sér að því að þjóna Jehóva af alefli. — Lestu 2. Korintubréf 12:8-10.

11. Hvernig hjálpar bænin okkur að takast á við erfiðleika?

11 Það ber ekki að túlka þessi dæmi svo að við eigum að hætta að biðja um hjálp Jehóva til að glíma við ákveðna erfiðleika. (Sálm. 86:7) Þvert á móti segir í orði Guðs: „Verið ekki hugsjúk um neitt heldur gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð.“ Hvernig bregst Jehóva við slíkum bænum? Í Biblíunni segir áfram: „Friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir ykkar í Kristi Jesú.“ (Fil. 4:6, 7) Það er ekki víst að Jehóva taki erfiðleikana frá okkur en hann getur bænheyrt okkur með því að vernda huga okkar. Eftir að hafa rætt ákveðið mál við Jehóva í bæn áttum við okkur kannski á að við megum ekki láta bugast af áhyggjum.

Höfum ánægju af að gera vilja Guðs

12. Af hverju getur langvarandi depurð verið skaðleg?

12 Í Orðskviðunum 24:10 stendur: „Látir þú hugfallast á degi neyðarinnar er máttur þinn lítill.“ Í öðrum orðskvið segir: „Sé hryggð í hjarta er hugurinn dapur.“ (Orðskv. 15:13) Sumir þjónar Guðs hafa orðið svo niðurdregnir að þeir hafa hætt að lesa í Biblíunni og hugleiða efni hennar. Bænir þeirra hafa orðið yfirborðslegar og þeir hafa jafnvel hætt að umgangast trúsystkini sín. Ljóst er að langvarandi depurð getur verið skaðleg. — Orðskv. 18:1, 14.

13. Hvað getum við gert til að vinna bug á depurð og halda gleði okkar?

13 Jákvæð viðhorf hjálpa okkur hins vegar að einbeita okkur að því sem við getum haft ánægju af. Davíð skrifaði: „Að gera vilja þinn, Guð minn, er mér yndi.“ (Sálm. 40:9) Þegar eitthvað fer úrskeiðis í lífinu ættum við alls ekki að bregða út af góðum venjum í þjónustunni við Jehóva. Það er reyndar gott mótefni gegn depurð að gera eitthvað sem maður hefur ánægju af. Jehóva segir að það geti veitt gleði og hamingju að lesa reglulega í Biblíunni og glöggva sig á því sem hún segir. (Sálm. 1:1, 2; Jak. 1:25) Við finnum „vingjarnleg orð“ í Heilagri ritningu og heyrum þau á safnaðarsamkomum, og þau geta upplífgað okkur og glatt hjörtu okkar. — Orðskv. 12:25; 16:24.

14. Hvaða loforð Jehóva veita okkur gleði núna?

14 Jehóva gefur okkur margar ástæður til að vera glöð. Loforð hans um hjálpræði er mikill gleðigjafi. (Sálm. 13:6) Óháð því hvað hendir okkur núna vitum við að Guð mun að lokum umbuna þeim sem leita hans í einlægni. (Lestu Prédikararann 8:12.) Habakkuk spámaður lýsti þessari sannfæringu fagurlega þegar hann skrifaði: „Þótt fíkjutréð beri ekki blóm og vínviðurinn engan ávöxt; þótt gróði ólífutrésins bregðist og akrarnir gefi enga fæðu; þótt sauðféð hverfi burt úr kvíum og nautgripir úr fjósum, skal ég samt gleðjast í Drottni og fagna yfir Guði hjálpræðis míns.“ — Hab. 3:17, 18.

„Sæl er sú þjóð sem á Drottin að Guði“

15, 16. Nefndu nokkrar af gjöfum Guðs sem við getum notið meðan við bíðum eftir þeirri blessun sem við hljótum í framtíðinni.

15 Jehóva vill að við njótum þeirra gæða sem hann hefur gefið okkur meðan við bíðum þeirrar unaðslegu framtíðar sem er í vændum. Í Biblíunni segir: „Ég sá að ekkert hugnast [mönnunum] betur en að vera glaðir og njóta lífsins [„gera gott“, NW ] meðan það endist. En að matast, drekka og gleðjast af öllu erfiði sínu, einnig það er Guðs gjöf.“ (Préd. 3:12, 13) Að „gera gott“ felur meðal annars í sér að vinna góðverk í þágu annarra. Jesús sagði að það væri sælla að gefa en þiggja. Við höfum mikla ánægju af að gera maka okkar, börnum, foreldrum og öðrum ættingjum gott. (Orðskv. 3:27) Það er líka gleðigjafi og Jehóva þóknanlegt að vera mildur og gestrisinn og fyrirgefa fúslega trúsystkinum okkar. (Gal. 6:10; Kól. 3:12-14; 1. Pét. 4:8, 9) Það er einnig gefandi að vera fórnfús í þjónustunni.

16 Hér á undan en vitnað í Prédikarann þar sem minnst er á hin einföldu gæði lífsins eins og að borða og drekka. Jafnvel í erfiðleikum getum við glaðst yfir þeim efnislegu gjöfum sem við höfum fengið frá Jehóva. Litríkt sólsetur, tignarlegt landslag, leikur ungra dýra og önnur undur náttúrunnar eru ókeypis en geta samt veitt okkur gleði og vakið með okkur djúpa lotningu. Við styrkjum kærleikann til Jehóva með því að leiða hugann að slíku því að það er hann sem gefur okkur öll gæði lífsins.

17. Hvers vegna losnum við að lokum undan öllum erfiðleikum og hvað getum við huggað okkur við þangað til?

17 Þar sem við elskum Guð, hlýðum boðorðum hans og trúum á lausnarfórnina losnum við að lokum við þá erfiðleika sem fylgja ófullkomleikanum og hljótum eilífa gleði. (1. Jóh. 5:3) Þangað til getum við huggað okkur við að Jehóva veit vel af öllu því sem hrjáir okkur. Davíð skrifaði: „Ég gleðst og fagna yfir trúfesti þinni því að þú sást neyð mína og gafst gætur að mér í þrengingum.“ (Sálm. 31:8) Jehóva mun bjarga okkur frá raunum okkar vegna þess að hann elskar okkur. — Sálm. 34:20.

18. Af hverju ættu þjónar Guðs að vera glaðir?

18 Meðan við bíðum þess að fyrirheit Jehóva rætist skulum við reyna að líkja eftir honum því að hann er hinn sæli Guð. Látum ekki depurð verða þess valdandi að við gefumst upp í þjónustu hans. Þegar erfiðleika ber að garði skulum við hugsa rökrétt og sýna visku. Jehóva hjálpar okkur að hafa stjórn á tilfinningum okkar og gera það sem við getum til að draga úr skaðlegum afleiðingum þeirra erfiðleika sem verða á vegi okkar. Njótum þeirra gæða sem Jehóva gefur, bæði hinna efnislegu og hinna andlegu. Ef við varðveitum náin tengsl við Guð getum við verið glöð vegna þess að „sæl er sú þjóð sem á Drottin að Guði“. — Sálm. 144:15.

Hvað hefurðu lært?

• Hvernig getum við líkt eftir Jehóva þegar við verðum fyrir mótlæti?

• Hvernig getur skynsemin hjálpað okkur að takast á við erfiðleika?

• Hvernig getum við notið þess að gera vilja Guðs þrátt fyrir erfiða tíma?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 16]

Það tekur Jehóva sárt að horfa upp á hið illa.

[Credit line]

© G.M.B. Akash/Panos Pictures

[Myndir á blaðsíðu 18]

Jehóva hefur gert okkur kleift að varðveita gleðina.