Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Stjórnarfar Jehóva er hið eina rétta

Stjórnarfar Jehóva er hið eina rétta

Stjórnarfar Jehóva er hið eina rétta

„Hinn æðsti er alvaldur yfir ríki mannanna.“ — DAN. 4:17.

1, 2. Nefndu nokkrar ástæður fyrir því að manninum hefur mistekist að stjórna sér sjálfur.

STJÓRN manna hefur misheppnast. Á því leikur enginn vafi. Ein meginástæðan fyrir því er sú að mennirnir búa ekki yfir nægri visku til að stjórna farsællega. Það hefur aldrei verið jafn augljóst að stjórn manna hefur misheppnast því að margir valdhafar hafa reynst ,sérgóðir, fégjarnir, raupsamir, hrokafullir, guðlausir, ósáttfúsir, rógberandi, taumlausir, grimmir og andsnúnir öllu góðu, sviksamir og drambsamir‘. — 2. Tím. 3:2-4.

2 Foreldrar mannkyns ákváðu endur fyrir löngu að hafna stjórn Guðs. Þau héldu kannski að þar með yrðu þau sjálfstæð og óháð. Veruleikinn var hins vegar sá að þau voru að gangast undir stjórn Satans. Sex þúsund ára óstjórn manna, undir sterkum áhrifum Satans, „höfðingja þessa heims“, hefur leitt til þess að ástandið er verra nú en nokkru sinni fyrr í sögu mannkyns. (Jóh. 12:31) Í bókinni The Oxford History of the Twentieth Century er fjallað um núverandi stöðu mannkyns og sagt að það sé til einskis að „vonast eftir fullkomnum heimi“. Síðan segir: „Slíkur heimur verður aldrei til og það sem verra er, ef reynt er að búa hann til endar það með hörmungum, alræði og styrjöldum ef allt fer á versta veg.“ Þetta er ósköp hreinskilnisleg viðurkenning á því að manninum hafi mistekist að stjórna sér sjálfur.

3. Hvernig hefði Guð stjórnað mannkyni ef Adam og Eva hefðu ekki syndgað?

3 Það er ákaflega sorglegt að foreldrar mannkyns skuli hafa hafnað eina stjórnarfarinu sem virkar — stjórn Guðs. Við vitum auðvitað ekki í smáatriðum hvaða form Jehóva hefði haft á stjórn jarðar ef Adam og Eva hefðu verið honum trú. Hitt getum við verið viss um að Guð hefði stjórnað með kærleika og engum hefði verið mismunað ef allir menn hefðu viðurkennt stjórn hans. (Post. 10:34; 1. Jóh. 4:8) Þar sem viska Guðs er ótakmörkuð er líka öruggt að ef mannkynið hefði stutt stjórn hans hefði mátt afstýra öllum þeim mistökum sem málsvarar mannastjórnar hafa gert. Undir stjórn Guðs hefði tekist að ,seðja allt sem lifir með blessun‘. (Sálm. 145:16) Það hefði með öðrum orðum verið fullkomið stjórnarfar. (5. Mós. 32:4) Það er dapurlegt að mennirnir skyldu hafna því.

4. Að hvaða marki hefur Satan fengið að stjórna?

4 Samt sem áður er gott að hafa hugfast að Jehóva hefur aldrei afsalað sér réttinum til að ráða yfir sköpunarverum sínum, þó að hann hafi leyft mönnum að stjórna sér sjálfir um tíma. Hinn voldugi konungur Babýlonar neyddist jafnvel til að viðurkenna að „Hinn æðsti er alvaldur yfir ríki mannanna“. (Dan. 4:17) Til langs tíma litið kemur ríki Guðs því til leiðar að vilji hans nær fram að ganga. (Matt. 6:10) Um stundar sakir hefur hann leyft Satan að vera „guð þessarar aldar“ til að útkljá með sannfærandi hætti deilumálin sem andstæðingurinn vakti. (2. Kor. 4:4; 1. Jóh. 5:19) En Satan hefur aldrei getað gengið lengra en Jehóva leyfir. (2. Kron. 20:6; samanber Jobsbók 1:11, 12; 2:3-6.) Og alltaf hefur verið til fólk sem kaus að vera undirgefið Guði, jafnvel þó að það byggi í heimi sem andstæðingur hans stjórnar.

Stjórn Guðs í Ísrael

5. Hvaða loforð gáfu Ísraelsmenn Jehóva?

5 Fjöldi fólks tilbað Jehóva og hlýddi boðum hans frá dögum Abels fram að ættfeðratímanum. (Hebr. 11:4-22) Á dögum Móse gerði Jehóva sáttmála við afkomendur ættföðurins Jakobs. Þar með varð Ísraelsþjóðin til. Árið 1513 f.Kr. skuldbundu Ísraelsmenn sig og afkomendur sína til að viðurkenna yfirráð Jehóva. „Við skulum gera allt sem Drottinn hefur boðið,“ sögðu þeir. — 2. Mós. 19:8.

6, 7. Hvað einkenndi stjórn Guðs í Ísrael?

6 Það var í ákveðnum tilgangi sem Jehóva útvaldi Ísraelsmenn sem þjóð sína. (Lestu 5. Mósebók 7:7, 8.) Hann var ekki aðeins að hugsa um velferð Ísraelsmanna. Hann var líka að hugsa um nafn sitt og drottinvald og það var þyngra á metunum. Ísraelsþjóðin átti að vera vottur þess að Jehóva er hinn eini sanni Guð. (Jes. 43:10; 44:6-8) Þess vegna sagði Jehóva við þjóðina: „Þú ert þjóð helguð Drottni, Guði þínum. Drottinn hefur valið þig úr öllum þjóðunum, sem á jörðinni eru, til að vera eignarlýður sinn.“ — 5. Mós. 14:2.

7 Jehóva tók tillit til þess að Ísraelsmenn voru ófullkomnir. Lög hans voru engu að síður fullkomin og endurspegluðu vel eiginleika hans. Boðorðin, sem Jehóva gaf fyrir milligöngu Móse, lögðu sterka áherslu á heilagleika hans, réttlætisást, þolinmæði og vilja til að fyrirgefa. Á tímum Jósúa og kynslóðar hans hlýddi þjóðin boðorðum Jehóva og bjó við frið og andlega blessun. (Jós. 24:21, 22, 31) Það tímabil í sögu Ísraels sýnir fram á að stjórnarhættir Jehóva eru til farsældar.

Stjórn manna er dýru verði keypt

8, 9. Hvaða óviturlegu stefnu tóku Ísraelsmenn og hvaða afleiðingar hafði það?

8 Þegar fram liðu stundir gerðist það æði oft að Ísraelsmenn sneru baki við Guði með þeim afleiðingum að þeir nutu ekki verndar hans. Á dögum Samúels spámanns krafðist þjóðin þess að fá sýnilegan mennskan konung. Jehóva sagði Samúel að verða við ósk þeirra og bætti við: „Þjóðin hefur ekki hafnað þér heldur hefur hún hafnað mér sem konungi sínum.“ (1. Sam. 8:7) Enda þótt Jehóva leyfði Ísraelsmönnum að eiga sér mennska konunga varaði hann þá við því að það myndi kosta sitt. — Lestu 1. Samúelsbók 8:9-18.

9 Sagan sannaði að Jehóva hafði rétt fyrir sér. Það olli alvarlegum erfiðleikum fyrir Ísraelsmenn að eiga sér mennska konunga, ekki síst ef konungurinn var Guði ótrúr. Þegar tekið er mið af sögu Ísraels kemur ekki á óvart að mennskum stjórnendum, sem þekkja ekki Jehóva, skuli í aldanna rás hafa mistekist að tryggja þegnum sínum varanlegan frið og farsæld. Sumir stjórnmálamenn biðja Guð svo sem að blessa viðleitni sína til að koma á friði og öryggi. En hvernig getur Guð lagt blessun sína yfir þá sem vilja ekki lúta stjórn hans? — Sálm. 2:10-13.

Ný þjóð undir stjórn Guðs

10. Af hverju voru Ísraelsmenn látnir víkja sem útvalin þjóð Guðs?

10 Ísraelsþjóðin reyndist ekki fús til að þjóna Jehóva í trúfesti. Að lokum sendi hann Messías en þjóðin hafnaði honum. Jehóva hafnaði þá Ísraelsþjóðinni. Í stað hennar átti að koma hópur fólks sem myndaði nýja þjóð. Þar af leiðandi var kristni söfnuðurinn stofnaður árið 33 en hann var skipaður andasmurðum tilbiðjendum Jehóva. Söfnuðurinn var í reynd ný þjóð sem var undir stjórn Jehóva. Páll kallaði hana „Ísrael Guðs“. — Gal. 6:16.

11, 12. Hvað er líkt með umsjóninni í Ísrael og hjá „Ísrael Guðs“?

11 Sumt er líkt og sumt ólíkt með hinni upprunalegu Ísraelsþjóð og hinum nýja „Ísrael Guðs“. Ólíkt Ísrael fortíðar á kristni söfnuðurinn sér ekki mennskan konung og þarf ekki að fórna dýrum í þágu syndara. Eitt sem er líkt með Ísraelsþjóðinni og kristna söfnuðinum er að þar eru skipaðir öldungar til starfa. (2. Mós. 19:3-8) Þeir drottna ekki yfir hjörðinni heldur gæta safnaðarins og taka dyggilega forystuna í starfsemi hans. Þeir eru kærleiksríkir í samskiptum við hvern einasta safnaðarmann og sýna öllum virðingu. — 2. Kor. 1:24; 1. Pét. 5:2, 3.

12 Með því að hugleiða samskipti Guðs við Ísrael geta þeir sem mynda „Ísrael Guðs“ og ,aðrir sauðir‘, sem eru félagar þeirra, lært að meta Jehóva og stjórnarfar hans enn betur. (Jóh. 10:16) Sagan sýnir til dæmis að mennirnir, sem fóru með völd í Ísrael, höfðu mikil áhrif á þegna sína, annaðhvort til góðs eða ills. Þeir sem fara með forystuna í söfnuðinum eru ekki valdhafar eins og konungar fortíðar, en þessi staðreynd minnir þá engu að síður á að þeir þurfa alltaf að vera til fyrirmyndar með trú sinni. — Hebr. 13:7.

Hvernig stjórnar Jehóva núna?

13. Hvaða mikilvægum áfanga var náð árið 1914?

13 Kristnir menn boða heiminum nú á tímum að stjórn manna hér á jörð sé brátt á enda. Jehóva stofnsetti ríki sitt á himnum árið 1914 og setti það í hendur konungsins Jesú Krists. Þá veitti hann Jesú umboð til að fara út „sigrandi og til þess að sigra“. (Opinb. 6:2) Hinum nýkrýnda konungi var sagt: „Drottna þú meðal óvina þinna.“ (Sálm. 110:2) Þjóðir heims hafa því miður þverneitað að beygja sig undir stjórn Jehóva. Þær hegða sér eins og Jehóva Guð sé ekki til. — Sálm. 14:1.

14, 15. (a) Hvernig birtast yfirráð Guðsríkis gagnvart okkur og hvaða spurninga ættum við þar af leiðandi að spyrja okkur? (b) Hvernig sýnir það sig að stjórnarfar Guðs er það besta sem völ er á?

14 Enn eru eftir fáeinir andasmurðir sem tilheyra „Ísrael Guðs“. Þeir eru bræður Jesú og koma fram sem erindrekar hans. (2. Kor. 5:20) Sem hópur eru þeir trúr og hygginn þjónn sem hefur fengið það verkefni að hafa umsjón með hinum andasmurðu og sjá þeim fyrir andlegri fæðu. Þeir gegna sama hlutverki gagnvart ört vaxandi hópi kristinna manna sem eiga von um eilíft líf á jörð. Í þeim hópi eru milljónir manna. (Matt. 24:45-47; Opinb. 7:9-15) Blessunin, sem tilbiðjendur Guðs búa við núna, er til vitnis um að þetta fyrirkomulag hefur velþóknun hans.

15 Við ættum öll að spyrja okkur: Viðurkenni ég að fullu skyldur mínar í kristna söfnuðinum? Styð ég stjórn Jehóva í einu og öllu? Er ég stoltur af því að vera þegn ríkis hans? Er ég staðráðinn í að halda áfram að segja öðrum frá ríki Guðs í þeim mæli sem ég hef tök á? Sem heild fylgjum við fúslega handleiðslu hins stjórnandi ráðs og vinnum með öldungum safnaðarins. Þannig sýnum við að við viðurkennum stjórn Jehóva. (Lestu Hebreabréfið 13:17.) Með því að vera undirgefin stuðlum við að einingu sem er einstök í þessum sundraða heimi. Þannig stuðlum við líka að friði og réttlæti og erum Jehóva til lofs. Þetta sýnir að stjórnarfar hans er það besta sem völ er á.

Stjórn Jehóva hrósar sigri

16. Hvaða ákvörðun þurfa allir að taka?

16 Þess er skammt að bíða að deilumálin, sem komu upp í Eden, verði útkljáð. Núna er því rétti tíminn fyrir fólk til að gera upp hug sinn. Hver og einn þarf að ákveða hvort hann viðurkennir stjórn Jehóva eða heldur sig við stjórnarfar manna. Það er verkefni okkar að hjálpa auðmjúku fólki að taka rétta ákvörðun. Í Harmagedónstríðinu, sem er rétt fram undan, mun stjórn Jehóva ryðja endanlega úr vegi stjórnum manna sem eru undir áhrifum Satans. (Dan. 2:44; Opinb. 16:16) Yfirráð manna eru þá á enda og ríki Guðs fer með völd yfir allri jörðinni. Þá er orðið endanlega ljóst að stjórnarfar Jehóva er hið eina rétta. — Lestu Opinberunarbókina 21:3-5.

17. Hvað hjálpar auðmjúku fólki að taka skynsamlega afstöðu til stjórnar Guðs?

17 Þeir sem eru ekki enn búnir að taka eindregna afstöðu með Jehóva ættu að hugleiða hvaða gæði stjórn hans hefur í för með sér fyrir mannkynið og ræða það við hann í bæn. Mönnum hefur ekki tekist að uppræta glæpi eða hryðjuverk. Stjórn Guðs mun hins vegar fjarlægja öll illmenni af jörðinni. (Sálm. 37:1, 2, 9) Stjórn manna hefur haft í för með sér linnulaus stríð en stjórn Guðs „stöðvar stríð til endimarka jarðar“. (Sálm. 46:10) Hún mun meira að segja koma á friði milli manna og dýra! (Jes. 11:6-9) Stjórn manna hefur alltaf haft fátækt og hungur í för með sér en stjórn Guðs útrýmir öllu slíku. (Jes. 65:21) Mennskir stjórnendur hafa ekki verið færir um að útrýma sjúkdómum og dauða, þótt margir þeirra hafi viljað vel, en undir stjórn Guðs munu aldraðir og sjúkir endurheimta æskuþrótt sinn. (Job. 33:25; Jes. 35:5, 6) Jörðin verður paradís og hinir dánu verða jafnvel reistir upp. — Lúk. 23:43; Post. 24:15.

18. Hvernig getum við sýnt að við trúum og treystum að stjórnarfar Guðs sé það besta?

18 Stjórn Guðs á eftir að bæta allan þann skaða sem Satan olli þegar hann fékk foreldra mannkyns til að snúa baki við skapara sínum. Og hugsaðu þér, Satan hefur haft 6.000 ár til að gera illt af sér en Guð mun fyrir atbeina Krists bæta skaðann á innan við 1.000 árum. Er það ekki ærin sönnun fyrir því að stjórnarfar Guðs sé öllu öðru betra? Við sem erum vottar Guðs viðurkennum hann sem stjórnanda. Við skulum því sýna alla daga og öllum stundum að við tilbiðjum Jehóva, séum þegnar ríkis hans og séum stolt af því að vera vottar hans. Og notum hvert tækifæri til að segja öllum sem vilja hlusta að stjórnarfar Jehóva sé það albesta sem völ er á.

Hvað lærðum við um stjórn Guðs af því að lesa . . .

5. Mósebók 7:7, 8?

1. Samúelsbók 8:9-18?

Hebreabréfið 13:17?

Opinberunarbókina 21:3-5?

[Spurningar]

[Myndir á bls. 29]

Jehóva hefur alltaf haldið um stjórnartaumana.

[Mynd á bls. 31]

Með því að vera undirgefin stjórn Jehóva stuðlum við að einingu sem nær um allan heim.