Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Verum sannir fylgjendur Krists

Verum sannir fylgjendur Krists

Verum sannir fylgjendur Krists

„Sérhvert gott tré [ber] góða ávöxtu en slæmt tré vonda.“ — MATT. 7:17.

1, 2. Hvað greinir sanna fylgjendur Krists frá falskristnum mönnum, ekki síst núna á endalokatímanum?

JESÚS sagði að þeir sem segðust þjóna honum en gerðu það ekki í raun yrðu greindir frá sönnum fylgjendum hans. Þeir myndu þekkjast af ávöxtunum — kenningum sínum og hegðun. (Matt. 7:15-17, 20) Fólk verður óhjákvæmilega fyrir áhrifum af því sem það hleypir inn í huga sinn og hjarta. (Matt. 15:18, 19) Þeir sem nærast á fölskum kenningum bera ,vondan ávöxt‘ en þeir sem læra sannleika Biblíunnar bera ,góðan ávöxt‘.

2 Þessir ávextir hafa orðið greinilegir nú á endilokatímanum. (Lestu Daníel 12:3, 10.) Falskristnir menn hafa afbakað viðhorf til Guðs og guðrækni þeirra er oft á tíðum hræsnisfull. En þeir sem búa yfir skilningi á andlegum málum tilbiðja Guð „í anda og sannleika“. (Jóh. 4:24; 2. Tím. 3:1-5) Þeir leggja sig fram um að líkja eftir Kristi. En hvað um okkur hvert og eitt? Um leið og við skoðum fimm einkenni sannrar kristni skulum við spyrja okkur: Samræmist hegðun mín og kennsla greinilega orði Guðs? Geri ég sannleikann aðlaðandi í augum þeirra sem leita hans?

Breytum eftir orði Guðs

3. Hverju hefur Jehóva mætur á og hvernig snertir það sannkristna menn?

3 Jesús sagði: „Ekki mun hver sá sem segir við mig: Drottinn, Drottinn, ganga inn í himnaríki heldur sá einn er gerir vilja föður míns sem er á himnum.“ (Matt. 7:21) Það sem skiptir máli í augum Jehóva er ekki það að játa kristna trú heldur að iðka hana. Sannir fylgjendur Krists láta trúna snerta öll svið lífsins, þar á meðal viðhorf sín til peninga, atvinnu, skemmtana, siðvenja og hátíða heimsins, hjónabands og félagsskapar við aðra. Falskristnir menn hafa hins vegar lagað sig að hugarfari og háttum þessa heims, sem verður stöðugt fjarlægari Guði nú á síðustu dögum. — Sálm. 92:8.

4, 5. Hvernig getum við tekið til okkar orð Jehóva í Malakí 3:18?

4 Orð Malakí spámanns eiga því vel við: „Þá munuð þið enn einu sinni sjá muninn á réttlátum og ranglátum, á þeim sem þjóna Guði og þeim sem þjóna honum ekki.“ (Mal. 3:18) Þegar þú íhugar þessi orð skaltu velta fyrir þér eftirfarandi: Laga ég mig að heiminum eða er greinilegt að ég sker mig úr? Reyni ég alltaf að falla inn í hópinn, hvort sem er í skóla eða vinnu? Eða held ég fast við meginreglur Biblíunnar og tek málstað hennar með því að láta í mér heyra þegar það á við? (Lestu 1. Pétursbréf 3:16.) Við viljum að sjálfsögðu ekki sýnast ofurréttlát en við ættum samt að skera okkur úr hópi þeirra sem hvorki elska Jehóva né þjóna honum.

5 Ef þú finnur að þú getur bætt þig á einhverju sviði, hvernig væri þá að leggja málið fyrir Jehóva í bæn og leita styrks með því að vera iðinn við lesa og hugleiða Biblíuna, biðja og sækja samkomur? Því betur sem þú tileinkar þér orð Guðs því betur tekst þér að bera „góða ávöxtu“, þar á meðal „ávöxt vara er játa nafn [Guðs]“. — Hebr. 13:15.

Boðum ríki Guðs

6, 7. Hvaða mun sjáum við á sönnum fylgjendum Krists og fölskum í tengslum við boðun Guðsríkis?

6 Jesús sagði: „Mér ber og að flytja hinum borgunum fagnaðarerindið um Guðs ríki því að til þess var ég sendur.“ (Lúk. 4:43) Hvers vegna var ríki Guðs kjarninn í boðunarstarfi Jesú? Hann vissi að sem konungur í þessu ríki ættu hann og andasmurðir bræður hans eftir að ráðast að rótum allra vandamála mannkynsins — syndinni og Satan. (Rómv. 5:12; Opinb. 20:10) Hann sagði því fylgjendum sínum að boða Guðsríki allt til enda þessa heimskerfis. (Matt. 24:14) Þeir sem segjast fylgja Kristi en gera það ekki í raun taka ekki þátt í þessu starfi. Og reyndar geta þeir það ekki. Hvers vegna ekki? Það eru að minnsta kosti þrjár ástæður fyrir því: Í fyrsta lagi geta þeir ekki boðað það sem þeir skilja ekki sjálfir. Í öðru lagi búa fæstir þeirra yfir því hugrekki og þeirri auðmýkt sem þarf til að þola háð og andstöðu sem þeir geta átt von á þegar þeir segja nágrönnum sínum frá ríki Guðs. (Matt. 24:9; 1. Pét. 2:23) Og í þriðja lagi hafa falskristnir menn ekki anda Guðs. — Jóh. 14:16, 17.

7 Sannir fylgjendur Krists skilja hins vegar hvað Guðsríki er og hverju það mun áorka. Þar að auki láta þeir það hafa forgang í lífinu og með hjálp anda Jehóva boða þeir það um allan heim. (Sak. 4:6) Tekurðu að staðaldri þátt í þessu starfi? Reynirðu að verða færari boðberi Guðsríkis, með því til dæmis að taka aukinn þátt í starfinu eða vera skilvirkari? Sumir hafa lagt sig fram um að bæta boðunarstarf sitt með því að nota Biblíuna meira. „Orð Guðs er lifandi og kröftugt“ skrifaði Páll postuli en hann gerði það að venju sinni að rökræða út frá ritningunum. — Hebr. 4:12; Post. 17:2, 3.

8, 9. (a) Nefndu dæmi sem sýna gagnið af því að nota Biblíuna í boðunarstarfinu? (b) Hvernig getum við orðið leiknari í að nota orð Guðs?

8 Þegar bróðir nokkur hitti kaþólskan mann í boðunarstarfinu hús úr húsi las hann Daníel 2:44 og útskýrði hvernig ríki Guðs muni koma á sönnum friði og öryggi. Maðurinn sagði: „Ég kann vel að meta að þú sagðir mér ekki bara hvað stóð í Biblíunni heldur opnaðir hana og last beint úr henni.“ Þegar annar bróðir las ritningarstað fyrir konu úr grísku rétttrúnaðarkirkjunni sýndi hún áhuga og kom með góðar spurningar. Bróðirinn og kona hans notuðu líka Biblíuna til að svara þeim. Síðar sagði þessi áhugasama kona: „Vitið þið hvers vegna ég vildi tala við ykkur? Þið komuð heim til mín með Biblíuna og lásuð úr henni.“

9 Ritin okkar eru að sjálfsögðu mikilvæg og við ættum að bjóða þau í starfinu. En Biblían er samt aðalverkfæri okkar. Ef þú hefur ekki vanið þig á að nota hana að staðaldri í boðunarstarfinu, væri þá ekki gott að stefna að því? Þú gætir til dæmis valið nokkra lykilritningarstaði sem útskýra hvað Guðsríki er og hvernig það mun leysa ákveðin vandamál sem snerta fólk á þínu svæði. Vertu síðan tilbúinn að lesa þá í boðunarstarfinu hús úr húsi.

Berum nafn Guðs með stolti

10, 11. Hvaða reginmunur er á því hvernig Jesús notaði nafn Guðs og margir þeirra sem segjast fylgja honum?

10 „Þér eruð vottar mínir, segir Drottinn, að það er ég sem er Guð.“ (Jes. 43:12) Jesús Kristur, fyrsti og fremsti vottur Jehóva, leit á það sem heiður að bera nafn hans og kunngera það. (Lestu 2. Mósebók 3:15; Jóhannes 17:6; Hebreabréfið 2:12.) Hann var kallaður „votturinn trúi“ vegna þess að hann kunngerði nafn föður síns. — Opinb. 1:5; Matt. 6:9.

11 Margir sem segjast vera fulltrúar Guðs og sonar hans hafa á hinn bóginn látið í ljós skammarlegt viðhorf til nafns Guðs og hafa jafnvel fjarlægt það úr biblíuþýðingum sínum. Nýlega fengu kaþólskir biskupar tilskipun sem endurspeglar þetta viðhorf. Þar segir að „nafn Guðs, fjórstafanafnið YHWH, á hvorki að nota né segja“ við guðþjónustur. * Svona hugsun er vítaverð!

12. Hvernig tengdust þjónar Jehóva enn betur nafni hans árið 1931?

12 Sannkristnir menn líkja eftir Jesú og miklum „fjölda votta“ sem var uppi eftir hann og eru stoltir af því að nota nafn Guðs. (Hebr. 12:1) Þeir tengdust enn betur nafni Guðs árið 1931 þegar þeir tóku upp nafnið Vottar Jehóva. (Lestu Jesaja 43:10-12.) Þannig urðu sannir fylgjendur Krists á mjög sérstakan hátt ,lýður er bar nafn Guðs‘. — Post. 15:14, 17.

13. Hvernig getum við staðið undir þeirri ábyrgð að bera nafn Guðs?

13 Hvernig getum við, hvert og eitt, staðið undir þeirri ábyrgð að bera nafn Guðs? Við verðum meðal annars að vera trúfastir vottar um Guð. „Hver sem ákallar nafn Drottins verður hólpinn,“ skrifaði Páll. „En hvernig eiga menn að geta ákallað þann sem þeir trúa ekki á? Og hvernig eiga þeir að trúa á þann sem þeir hafa ekki heyrt um? Og hvernig eiga þeir að heyra án þess að einhver prédiki? Og hver getur prédikað nema hann sé sendur?“ (Rómv. 10:13-15) Við ættum einnig með háttvísi að afhjúpa falskar trúarkenningar sem rægja skaparann, svo sem kenninguna um helvíti. Hún eignar Guði kærleikans grimma eiginleika Satans djöfulsins. — Jer. 7:31; 1. Jóh. 4:8; samanber Mark. 9:17-27.

14. Hvernig hafa sumir brugðist við því að kynnast nafni Guðs?

14 Berðu nafn föður þíns á himnum með stolti? Kynnirðu heilagt nafn hans fyrir öðrum? Kona nokkur í París frétti að Vottar Jehóva þekktu nafn Guðs. Hún bað næsta vott, sem hún hitti, að sýna sér það í Biblíunni sinni. Þegar hún las Sálm 83:19 hafði það mikil áhrif á hana. Hún hóf biblíunám og er nú trúföst systir okkar sem starfar á erlendri grund. Þegar kaþólsk kona í Ástralíu sá nafn Guðs í Biblíunni í fyrsta sinn grét hún af gleði. Nú hefur hún verið brautryðjandi í mörg ár. Nýlega sýndu vottar á Jamaíka konu einni nafn Guðs í Biblíunni hennar. Hún tárfelldi einnig af gleði. Verum því stolt af því að bera nafn Guðs og boða það öllum eins og Jesús gerði.

Elskið ekki heiminn

15, 16. Hvaða viðhorf hafa sannkristnir menn til heimsins og hvaða spurninga ættum við að spyrja okkur?

15 „Elskið hvorki heiminn né það sem í heiminum er. Sá sem elskar heiminn elskar ekki föðurinn.“ (1. Jóh. 2:15) Heimurinn og veraldlegur andi hans er andsnúinn Jehóva og heilögum anda hans. Þess vegna reyna sannir fylgjendur Krists ekki aðeins að forðast að vera hluti af heiminum heldur hafna þeir honum algerlega. Þeir vita að „vinátta við heiminn er fjandskapur gegn Guði“, eins og lærisveinninn Jakob skrifaði. — Jak. 4:4.

16 Það getur verið áskorun að fara eftir orðum Jakobs í heimi sem býður upp á endalausar freistingar. (2. Tím. 4:10) Jesús bað því fyrir fylgjendum sínum: „Ég bið ekki að þú takir þá úr heiminum heldur að þú varðveitir þá frá hinu illa. Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum.“ (Jóh. 17:15, 16) Spyrðu þig: Reyni ég mitt besta til að vera ekki hluti af heiminum? Þekkja aðrir afstöðu mína til hátíða og siða sem eru óbiblíulegir eða endurspegla greinilega anda heimsins þótt þeir séu ekki af heiðnum toga? — 2. Kor. 6:17; 1. Pét. 4:3, 4.

17. Hvað getur fengið hjartahreint fólk til að taka afstöðu með Jehóva?

17 Afstaða okkar, sem byggð er á Biblíunni, á eflaust ekki eftir að ávinna okkur hylli heimsins. En hún getur vakið forvitni hjá hjartahreinu fólki. Þegar það skynjar að trú okkar á sterkar rætur í Biblíunni og hefur áhrif á allt líf okkar gæti það verið þeim hvatning til að segja í reynd við hina smurðu: „Við viljum fara með ykkur, við höfum heyrt að Guð sé með ykkur.“ — Sak. 8:23.

Sýnum sannan kærleika

18. Hvað felur það í sér að elska Jehóva og náungann?

18 Jesús sagði: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum“ og „þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ (Matt. 22:37, 39) Kærleikurinn, sem talað er um hér (agaʹpe á grísku), er kærleikur sem er byggður á frumreglum og tekur mið af skyldum, meginreglum og siðferðiskröfum. En honum fylgja oft sterkar tilfinningar. Hann getur bæði verið hlýr og ákafur. (1. Pét. 1:22) Hann er andstæðan við sjálfselsku því að hann birtist í óeigingjörnum orðum og verkum. — Lestu 1. Korintubréf 13:4-7.

19, 20. Nefndu dæmi sem sýna þann mátt sem kristinn kærleikur býr yfir.

19 Kærleikurinn er ávöxtur anda Guðs. Þess vegna gerir hann sannkristnum mönnum kleift það sem aðrir geta ekki, eins og að sigrast á sundrung vegna menningar, kynþáttar eða stjórnmálaskoðana. (Lestu Jóhannes 13:34, 35; Gal. 5:22) Sannleiksleitandi fólk getur ekki annað en laðast að slíkum kærleika. Sem dæmi má nefna ungan Gyðing í Ísrael sem sótti samkomu hjá vottum Jehóva í fyrsta sinn. Hann var undrandi að sjá bæði Gyðinga og Araba tilbiðja Jehóva hlið við hlið sem bræður. Hann fór að sækja samkomurnar reglulega og þáði biblíunámskeið. Sýnir þú trúbræðrum þínum þess konar kærleika? Og leggurðu þig fram um að taka vel á móti nýjum sem koma í ríkissalinn, óháð þjóðerni, hörundslit eða þjóðfélagsstöðu þeirra?

20 Sem sannkristnir einstaklingar reynum við að sýna öllum kærleika. Ungur boðberi í El Salvador aðstoðaði 87 ára kaþólska konu við biblíunám, en hún hélt tryggð við kirkjuna sína. Dag nokkurn varð konan fárveik og var lögð inn á spítala. Þegar hún kom aftur heim heimsóttu vottarnir hana og sáu um að hún ætti mat. Þetta gerðu þeir í um það bil mánuð. Enginn úr kirkju konunnar kom að heimsækja hana. Hvaða áhrif hafði það á konuna? Hún losaði sig við líkneskin, sagði sig úr kirkjunni og hélt áfram biblíunámi sínu. Já, kristinn kærleikur er máttugur! Hann getur náð til hjartans þar sem töluð orð gera það ekki.

21. Hvernig getum við tryggt framtíð okkar?

21 Brátt kemur að því að Jesús segi við alla sem segjast þjóna honum en gera það ekki í raun: „Aldrei þekkti ég yður. Farið frá mér, illgjörðamenn.“ (Matt. 7:23) Við skulum því bera ávöxt sem heiðrar bæði föðurinn og soninn. „Hver sem heyrir þessi orð mín og breytir eftir þeim,“ sagði Jesús, „sá er líkur hyggnum manni er byggði hús sitt á bjargi.“ (Matt. 7:24) Já, ef við reynumst sannir fylgjendur Krists njótum við velþóknunar Guðs og framtíð okkar er jafn örugg og væri hún byggð á bjargi.

[Neðanmáls]

^ gr. 11 Í sumum kaþólskum ritum á ensku, þar með talinni biblíuþýðingunni The Jerusalem Bible, er fjórstafanafnið þýtt „Yahweh“.

Manstu?

• Hver er munurinn á sönnum og fölskum fylgjendum Krists?

• Nefndu dæmi um „ávexti“ sem einkenna sannkristna menn.

• Hvaða markmið geturðu sett þér til að rækta kristna eiginleika betur?

[Spurningar]

[Mynd á bls. 13]

Hefurðu vanið þig á að nota Biblíuna að staðaldri í boðunarstarfinu?

[Mynd á bls. 15]

Þekkja aðrir afstöðu þína til óbiblíulegra hátíða?