Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Við tilheyrum Jehóva vegna náðar hans

Við tilheyrum Jehóva vegna náðar hans

Við tilheyrum Jehóva vegna náðar hans

„Við tilheyrum Jehóva.“ — RÓMV. 14:8, NW.

1, 2. (a) Hvaða heiðurs erum við aðnjótandi? (b) Um hvaða spurningar ætlum við að fjalla?

JEHÓVA sýndi Ísraelsmönnum mikinn heiður þegar hann sagði við þá: „Þið [skuluð] verða sérstök eign mín, umfram aðrar þjóðir.“ (2. Mós. 19:5) Þeir sem tilheyra kristna söfnuðinum njóta líka þess mikla heiðurs að vera eign Jehóva. (1. Pét. 2:9; Opinb. 7:9, 14, 15) Þetta er heiður sem við getum fengið að njóta að eilífu.

2 En það er ekki aðeins mikill heiður að tilheyra Jehóva heldur fylgir því líka ábyrgð. Sumir spyrja kannski: Ætli ég sé fær um að gera það sem Jehóva væntir af mér? Ætli hann hafni mér ef ég syndga einhvern tíma? Glata ég frelsinu ef ég tilheyri Jehóva? Slíkar vangaveltur eru fyllilega réttmætar. En áður en við ræðum þær nánar skulum við ígrunda hvaða kosti það hafi að tilheyra Jehóva.

Það er okkur til gæfu að tilheyra Jehóva

3. Hvernig var það til góðs fyrir Rahab að hún skyldi ákveða að þjóna Jehóva?

3 Er það til góðs fyrir fólk að tilheyra Jehóva? Lítum á Rahab sem dæmi en hún var vændiskona búsett í Jeríkó forðum daga. Hún hafði ábyggilega alist upp við hina siðspilltu guðsdýrkun sem stunduð var í Kanaan. En þegar hún frétti hvernig Jehóva hafði veitt Ísraelsmönnum einn sigurinn á fætur öðrum gerði hún sér ljóst að hann væri hinn sanni Guð. Hún hætti því lífinu til að vernda útvalda þjóna Guðs og lagði framtíð sína í þeirra hendur. Í Biblíunni segir: „Svo var og um skækjuna Rahab. Réttlættist hún ekki af verkum er hún tók við sendimönnunum og lét þá fara burt aðra leið?“ (Jak. 2:25) Hugsaðu þér þau gæði sem það hafði í för með sér fyrir hana að fá að tilheyra hreinni þjóð Guðs, þjóð sem var uppfrædd í kærleika og réttlæti samkvæmt lögum Guðs. Það hlýtur að hafa verið henni til mikillar gæfu að snúa baki við fyrra líferni. Hún giftist Ísraelsmanni og eignaðist soninn Bóas sem reyndist einstaklega góður þjónn Guðs. — Jós. 6:25; Rut. 2:4-12; Matt. 1:5, 6.

4. Hvernig varð það Rut til gæfu að hún skyldi ákveða að þjóna Jehóva?

4 Rut frá Móab ákvað einnig að þjóna Jehóva. Sem ung stúlka hafði hún trúlega tilbeðið Kamos og aðra guði Móabíta, en svo kynntist hún hinum sanna Guði, Jehóva, og giftist Ísraelsmanni sem hafði leitað hælis í landinu. (Lestu Rutarbók 1:1-6.) Síðar lagði hún af stað ásamt Orpu, mágkonu sinni, og Naomí, tengdamóður sinni, til Betlehem. En Naomí hvatti ungu konurnar til að snúa heim aftur. Það yrði ekki auðvelt fyrir þær að setjast að í Ísrael. Orpa fór aftur „til fólks síns og guðs síns“ en Rut ekki. Hún breytti í samræmi við trú sína og vissi hverjum hún vildi tilheyra. Hún sagði við Naomí: „Reyndu ekki að telja mig á að yfirgefa þig og hverfa frá þér því að hvert sem þú ferð þangað fer ég, og hvar sem þú náttar þar nátta ég. Þitt fólk er mitt fólk og þinn guð er minn guð.“ (Rut. 1:15, 16) Þar sem Rut ákvað að þjóna Jehóva naut hún góðs af lögmáli hans en í því voru sérstök ákvæði til hjálpar ekkjum, fátækum og landlausum. Rut bjó óhult og ánægð undir verndarhendi Jehóva.

5. Hverju hefurðu tekið eftir hjá fólki sem hefur þjónað Jehóva dyggilega?

5 Þú þekkir kannski einhverja sem vígðu sig Jehóva fyrir mörgum áratugum og hafa þjónað honum dyggilega æ síðan. Spyrðu þá hvernig það hafi verið þeim til farsældar að þjóna honum. Þótt enginn sé laus við öll vandamál hníga öll rök að því að sálmaskáldið hafi farið með rétt mál: „Sæl er sú þjóð sem á Drottin að Guði.“ — Sálm. 144:15.

Væntingar Jehóva eru sanngjarnar

6. Af hverju ættum við ekki að óttast að geta ekki gert það sem Jehóva væntir af okkur?

6 Þú hefur ef til vill velt fyrir þér hvort þú verðir fær um að gera það sem Jehóva væntir af þér. Það er hægur vandi að finnast yfirþyrmandi tilhugsun að vera þjónn Guðs, lifa eftir lögum hans og tala í nafni hans. Móse fannst hann vanhæfur til að tala til Ísraelsmanna og konungs Egyptalands. En Jehóva gerði ekki óraunhæfar kröfur til Móse heldur ,kenndi honum hvað hann átti að gera‘. (Lestu 2. Mósebók 3:11; 4:1, 10, 13-15.) Móse þáði hjálpina og varð þeirrar gleði aðnjótandi að gera vilja Guðs. Jehóva Guð gerir sömuleiðis ekki nema sanngjarnar kröfur til okkar. Hann skilur að við erum ófullkomin og vill hjálpa okkur. (Sálm. 103:14) Það er endurnærandi en ekki yfirþyrmandi að þjóna Guði og fylgja Jesú vegna þess að þá gerum við öðrum gott og gleðjum hjarta Jehóva. Jesús sagði: „Komið til mín . . . og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur.“ — Matt. 11:28, 29.

7. Af hverju geturðu treyst að Jehóva hjálpi þér að gera það sem hann væntir af þér?

7 Jehóva mun alltaf veita okkur þá hvatningu sem við þurfum, svo framarlega sem við treystum að hann styrki okkur. Jeremía var greinilega ekki djarfmæltur að eðlisfari. Þegar Jehóva fól honum að vera spámaður sinn sagði hann: „Drottinn minn og Guð. Ég er ekki fær um að tala því að ég er enn svo ungur.“ Síðar sagði hann jafnvel: „Ég vil ekki . . . tala í hans nafni.“ (Jer. 1:6; 20:9) En Jehóva hvatti spámanninn svo að hann gat boðað óvinsælan boðskap í 40 ár. Jehóva hughreysti hann margsinnis og sagði: „Ég er með þér, ég hjálpa þér og frelsa þig.“ — Jer. 1:8, 19; 15:20.

8. Hvernig sýnum við að við treystum á Jehóva?

8 Jehóva getur hjálpað okkur að gera það sem hann ætlast til af kristnum mönnum, rétt eins og hann styrkti Móse og Jeremía á sínum tíma. Aðalatriðið er að treysta á hann. Í Biblíunni segir: „Treystu Drottni af öllu hjarta en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit. Minnstu hans á öllum vegum þínum, þá mun hann gera leiðir þínar greiðar.“ (Orðskv. 3:5, 6) Við sýnum að við treystum á Jehóva þegar við nýtum okkur hjálpina sem hann lætur í té í orði sínu og fyrir atbeina safnaðarins. Ef við leyfum Jehóva að stýra skrefum okkar á lífsleiðinni getur ekkert komið í veg fyrir að við séum honum trú.

Jehóva er annt um hvern einasta þjón sinn

9, 10. Hvers konar vernd er lofað í Sálmi 91?

9 Sumir sem íhuga að vígjast Jehóva velta kannski fyrir sér hættunni á því að þeir syndgi, reynist óverðugir og Jehóva hafni þeim. Sem betur fer veitir Jehóva okkur alla þá vernd sem við þurfum til að varðveita sambandið við sig. Sjáum hvernig því er lýst í 91. sálminum.

10 Sálmurinn hefst með þessum orðum: „Sá er situr í skjóli Hins hæsta og dvelst í skugga Hins almáttka segir við Drottin: ,Hæli mitt og háborg, Guð minn, er ég trúi á.‘ Hann frelsar þig úr snöru fuglarans.“ (Sálm. 91:1-3) Við tökum eftir að Jehóva lofar að vernda þá sem elska hann og treysta honum. (Lestu Sálm 91:9, 14.) Hvers konar vernd er um að ræða? Jehóva verndaði líf sumra af þjónum sínum til forna, í sumum tilfellum til að varðveita ættlegg hins fyrirheitna Messíasar. Margir trúir þjónar hans voru hins vegar hnepptir í fangelsi, pyndaðir og teknir af lífi þegar Satan reyndi með grimmilegum hætti að fá þá til að snúa baki við Guði. (Hebr. 11:34-39) Þeir fengu hugrekki til að vera staðfastir vegna þess að Jehóva verndaði þá svo að þeir gátu verið honum ráðvandir. Það má því líta svo á að í Sálmi 91 sé að finna loforð fyrir því að Jehóva verndi okkur andlega.

11. Hvað er ,skjól Hins hæsta‘ og hverjir njóta verndar þar?

11 ,Skjól Hins hæsta‘, sem sálmaskáldið nefnir, er því táknrænn staður þar sem hægt er að hljóta andlega vernd. Þeir sem leita hælis hjá Guði eru óhultir fyrir öllu sem gæti ógnað trú þeirra og kærleika til Guðs. (Sálm. 15:1, 2; 121:5) Þetta skjól er þess eðlis að vantrúaðir sjá það ekki. Þar verndar Jehóva fólk sem segir í reynd: ,Guð minn sem ég treysti á‘. Ef við höldum okkur í þessu skjóli þurfum við ekki að óttast um of að falla í „snöru fuglarans“ Satans og glata velþóknun Guðs.

12. Hvað getur ógnað sambandi okkar við Guð?

12 Hvaða hættur steðja að dýrmætu sambandi okkar við Guð? Sálmaskáldið nefnir nokkrar þeirra, þar á meðal „drepsóttina sem læðist um í dimmunni [og] sýkina sem geisar um hádegið“. (Sálm. 91:5, 6),Fuglarinn‘ hefur notað eigingjarna löngun í sjálfstæði til að tæla marga. (2. Kor. 11:3) Aðra veiðir hann með því að ýta undir ágirnd, stolt og efnishyggju. Suma afvegaleiðir hann með ,speki‘ eins og föðurlandsást, þróunarkenningunni og falstrú. (Kól. 2:8) Og margir hafa látið tæla sig í gildru með því að gera sig seka um óleyfilegt kynlíf. Allt er þetta eins og ,drepsótt‘ sem hefur valdið því að kærleikurinn til Guðs hefur kólnað hjá milljónum manna. — Lestu Sálm 91:7-10 og Matteus 24:12.

Varðveittu kærleikann til Guðs

13. Hvernig verndar Jehóva okkur gegn hættum sem ógna andlegri velferð okkar?

13 Hvernig verndar Jehóva fólk sitt gegn þessum andlegu hættum? Í Sálmunum segir: „Þín vegna býður hann út englum sínum til þess að gæta þín á öllum vegum þínum.“ (Sálm. 91:11) Englar á himni leiðbeina okkur og vernda til að við getum boðað fagnaðarerindið. (Opinb. 14:6) Auk englanna eiga safnaðaröldungar hlut að máli. Þeir halda sig við Biblíuna þegar þeir kenna og það verndar okkur svo að við látum ekki blekkjast af falsrökum. Þeir geta hjálpað persónulega hverjum þeim sem er að reyna að sigrast á viðhorfum heimsins. (Tít. 1:9; 1. Pét. 5:2) Hinn „trúi og hyggni þjónn“ lætur í té andlega fæðu til að vernda okkur gegn þróunarkenningunni og berjast gegn siðlausum girndum, löngun í fé og frama og ótal öðrum skaðlegum löngunum og áhrifum. (Matt. 24:45) Hvað hefur hjálpað þér að vara þig á þessum hættum?

14. Hvernig getum við notfært okkur verndina sem Guð lætur í té?

14 Hvað þurfum við að gera til að vera áfram í „skjóli“ Guðs og njóta þar verndar? Við þurfum að vinna að því öllum stundum að vernda okkur gegn andlegum hættum, rétt eins og við þurfum að forðast slys, vara okkur á glæpamönnum og verja okkur gegn sýkingum. Við ættum því að notfæra okkur að staðaldri leiðsögnina sem Jehóva gefur okkur í ritunum, á safnaðasamkomum og á mótum. Við leitum ráða hjá öldungunum. Og njótum við ekki góðs af margvíslegum eiginleikum trúsystkina okkar? Það má með sanni segja að við verðum vitur af því að blanda geði við trúsystkini okkar. — Orðskv. 13:20; lestu 1. Pétursbréf 4:10.

15. Af hverju máttu treysta að Jehóva geti verndað þig gegn öllu sem gæti kostað þig velþóknun hans?

15 Við höfum enga ástæðu til að efast um að Jehóva geti verndað okkur gegn öllu sem gæti kostað okkur velþóknun hans. (Rómv. 8:38, 39) Hann hefur verndað söfnuðinn gegn öflugum óvinum á vettvangi trúmála og stjórnmála sem hafa ekki endilega haft það markmið að tortíma okkur heldur frekar að gera okkur viðskila við hann. Jehóva hefur staðið við loforð sitt: „Ekkert vopn, sem smíðað verður gegn þér, skal reynast sigursælt.“ — Jes. 54:17.

Hver veitir okkur frelsi?

16. Af hverju getur heimurinn ekki boðið okkur upp á frelsi?

16 Erum við ófrjáls ef við tilheyrum Jehóva? Nei, við værum hins vegar ófrjáls ef við tilheyrðum heiminum. Heimurinn er fjarlægur Jehóva og stjórnandi hans er grimmur guð sem hneppir fólk í þrældóm. (Jóh. 14:30) Heimskerfi Satans beitir til dæmis efnahagslegum þvingunum til að ræna fólk frelsinu. (Samanber Opinberunarbókina 13:16, 17.) Syndin getur líka tælt fólk og gert það að þrælum sínum. (Jóh. 8:34; Hebr. 3:13) Vantrúaðir hvetja kannski til lífernis sem stingur í stúf við kenningar Jehóva og lofa að það hafi frelsi í för með sér. Þeir sem hlusta á þá komast hins vegar fljótt að raun um að þeir eru orðnir þrælar syndugs og auvirðandi lífernis. — Rómv. 1:24-32.

17. Hvaða frelsi býður Jehóva okkur?

17 Ef við felum okkur Jehóva á hendur frelsar hann okkur undan öllu sem getur orðið okkur til tjóns. Að sumu leyti erum við í svipaðri aðstöðu og maður sem leggur líf sitt í hendurnar á færum skurðlækni sem getur læknað hann af lífshættulegum sjúkdómi. Við erum öll haldin lífshættulegum „sjúkdómi“ — erfðasyndinni. Því aðeins að við treystum á Jehóva og trúum á fórn Krists eigum við von um að losna undan áhrifum syndarinnar og hljóta eilíft líf. (Jóh. 3:36) Við lærum að treysta Jehóva þegar við kynnumst honum, rétt eins og við fáum traust á skurðlækni þegar við heyrum hvaða orð fer af honum. Við höldum því áfram að kynna okkur orð Guðs vandlega því að það hjálpar okkur að elska hann og rekur út allan ótta við að tilheyra honum. — 1. Jóh. 4:18.

18. Hvað hefur það í för með sér að tilheyra Jehóva?

18 Jehóva gefur öllum valfrelsi. Í Biblíunni segir: „Veldu þá lífið svo að þú og niðjar þínir megið lifa með því að elska Drottin, Guð þinn.“ (5. Mós. 30:19, 20) Hann vill að við sýnum honum kærleika okkar með því að kjósa af fúsum og frjálsum vilja að þjóna honum. Það sviptir okkur ekki frelsi að tilheyra þeim Guði sem við elskum heldur gerir okkur hamingjusöm.

19. Af hverju er það náð að mega tilheyra Jehóva?

19 Við erum syndug og verðskuldum því ekki að tilheyra Guði sem er fullkominn. Það er aðeins gerlegt vegna náðar Guðs. (2. Tím. 1:9) Páll skrifaði því: „Ef við lifum, lifum við Drottni, ef við deyjum, deyjum við Drottni. Hvort sem við þess vegna lifum eða deyjum þá erum við Drottins.“ (Rómv. 14:8) Við sjáum aldrei eftir því ef við veljum að tilheyra Jehóva.

Hvert er svarið?

• Hvaða blessun fylgir því að tilheyra Jehóva?

• Af hverju erum við fær um að gera það sem Guð væntir af okkur?

• Hvernig verndar Jehóva þjóna sína?

[Spurningar]

[Myndir á bls. 8]

Spyrðu aðra hvernig það hafi verið þeim til farsældar að tilheyra Jehóva.

[Mynd á bls. 10]

Nefndu dæmi um hvernig Jehóva verndar þjóna sína.