Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Andinn og brúðurin segja: ,Kom þú!‘“

„Andinn og brúðurin segja: ,Kom þú!‘“

„Andinn og brúðurin segja: ,Kom þú!‘“

„Andinn og brúðurin segja: ,Kom þú!‘ . . . Og sá sem þyrstur er, hann komi. Hver sem vill fær ókeypis lífsins vatn.“ — OPINB. 22:17.

1, 2. Hvaða sess ætti ríki Guðs að skipa í lífi okkar og hvers vegna?

HVAÐA sess ætti ríki Guðs að skipa í lífi okkar? Jesús hvatti fylgjendur sína til að ,leita fyrst ríkis Guðs‘ og lofaði að Guð myndi þá veita þeim það sem þeir þörfnuðust. (Matt. 6:25-33) Hann líkti Guðsríki við perlu sem væri svo verðmæt að þegar kaupmaður einn fann hana „seldi [hann] allt sem hann átti og keypti hana“. (Matt. 13:45, 46) Ættum við ekki að líta á það sem afar þýðingarmikið verkefni að boða ríki Guðs og gera fólk að lærisveinum?

2 Eins og fram kom í greinunum tveim á undan sýnum við að við látum anda Guðs leiða okkur með því að tala með djörfung og beita orði hans fagmannalega þegar við boðum trúna. Andi hans á líka stóran þátt í því að við tökum reglulega þátt í boðunarstarfinu. Lítum nánar á málið.

Öllum er boðið

3. Hvers konar vatn er öllum mönnum boðið að ,koma‘ og drekka?

3 Allir menn hafa fengið ákveðið boð fyrir milligöngu heilags anda. (Lestu Opinberunarbókina 22:17.) Fólki er boðið að ,koma‘ og svala þorstanum með vatni af mjög sérstöku tagi. Þar er ekki um að ræða venjulegt vatn samsett úr einu súrefnisatómi og tveim vetnisatómum. Bókstaflegt vatn er vissulega nauðsynlegt til að viðhalda lífi hér á jörð. Jesús var hins vegar með annars konar vatn í huga þegar hann sagði við samverka konu hjá brunni einum: „Hvern sem drekkur af vatninu er ég gef honum mun aldrei þyrsta að eilífu. Því vatnið, sem ég gef honum, verður í honum að lind sem streymir fram til eilífs lífs.“ (Jóh. 4:14) Þetta óvenjulega vatn, sem mönnum er boðið að drekka, veitir eilíft líf.

4. Hvernig skapaðist þörf fyrir lífsvatnið og hvað táknar þetta vatn?

4 Þörfin fyrir þetta lífsvatn skapaðist þegar fyrsti maðurinn Adam og Eva, eiginkona hans, óhlýðnuðust skapara sínum, Jehóva Guði. (1. Mós. 2:16, 17; 3:1-6) Fyrstu hjónin voru rekin út úr garðinum þar sem þau bjuggu til að Adam ,rétti ekki út hönd sína, tæki einnig af lífsins tré og æti og lifði eilíflega‘. (1. Mós. 3:22) Adam varð þess valdandi að dauðinn kom yfir mannkynið því að hann er forfaðir allra manna. (Rómv. 5:12) Lífsvatnið táknar allt sem Guð hefur gert til að hrífa mennina úr greipum syndar og dauða og veita þeim eilíft líf og fullkomleika í paradís á jörð. Allt byggist það á lausnarfórn Jesú Krists. — Matt. 20:28; Jóh. 3:16; 1. Jóh. 4:9, 10.

5. Hver býður okkur að koma og drekka „ókeypis lífsins vatn“? Skýrðu svarið.

5 Frá hverjum kemur boðið um að koma og fá „ókeypis lífsins vatn“? Þegar allt sem Jehóva gerir fyrir millgöngu Jesú stendur mannkyni að fullu til boða í þúsundáraríkinu er talað um það sem „móðu lífsvatnsins, skæra sem kristall“. Lífsvatnið streymir eins og fljót „frá hásæti Guðs og lambsins“. (Opinb. 22:1) Lífgjafinn Jehóva er því uppspretta lífsvatnsins. (Sálm. 36:10) Það er hann sem gefur þetta vatn fyrir milligöngu „lambsins“ Jesú Krists. (Jóh. 1:29) Þetta táknræna fljót er leið Jehóva til að gera að engu allt það tjón sem óhlýðni Adams olli mannkyni. Boðið um að ,koma‘ á því uppruna sinn hjá Jehóva Guði.

6. Hvenær byrjar ,móða lífsvatnsins‘ að streyma fram?

6 Enda þótt ,móða lífsvatnsins‘ streymi fram í fullum skilningi í þúsundaríki Krists byrjar hún að renna á „Drottins degi“ en hann hófst þegar ,lambið‘ tók við völdum á himnum árið 1914. (Opinb. 1:10) Sumt af því sem Jehóva gerir til að veita líf kom því fram upp úr því. Margt af því er tengt orði Guðs, Biblíunni, en því er einmitt líkt við vatn. (Ef. 5:26) Öllum er boðið að þiggja „lífsins vatn“ með því að hlusta á fagnaðarerindið um ríkið og taka við því. En hverjir koma þessu boði til skila á Drottins degi?

„Brúðurin“ segir: „Kom þú!“

7. Hverjir voru fyrstir til að bjóða öðrum að koma á „Drottins degi“ og hverjum buðu þeir?

7 Þeir sem tilheyra brúðarhópnum, andasmurðir kristnir menn, eru fyrstir til að bjóða öðrum að koma. Hverjum bjóða þeir? Brúðurin er auðvitað ekki að segja sjálfri sér að koma. Hún beinir orðum sínum til þeirra sem vonast eftir eilífu lífi á jörð eftir að ,stríðið á hinum mikla degi Guðs hins alvalda‘ hefur verið háð. — Lestu Opinberunarbókina 16:14, 16.

8. Hvað sýnir að andasmurðir kristnir menn hafa komið boði Jehóva á framfæri allt frá 1918?

8 Andasmurðir fylgjendur Krists hafa komið boði Jehóva á framfæri allt frá 1918. Það ár var flutt opinber ræða sem nefndist: „Milljónir núlifandi manna þurfa aldrei að deyja.“ Í henni kom fram sú von að margir muni hljóta líf í paradís á jörð eftir stríðið við Harmagedón. Á móti Biblíunemendanna í Cedar Point í Ohio í Bandaríkjunum árið 1922 voru áheyrendur hvattir til að ,kunngera konunginn og ríki hans‘. Það var þeim sem eftir voru af brúðarhópnum hvatning til að koma boðinu á framfæri við enn fleiri. Í Varðturninum 15. mars 1929 birtist grein sem hét „Vinsamlegt boð“. Greinin var byggð á Opinberunarbókinni 22:17. Þar sagði meðal annars: „Hinar trúföstu leifar taka undir hið vinsamlega boð [frá hinum hæsta] og segja: ,Kom þú!‘ Þennan boðskap skal boða þeim sem þrá réttlæti og sannleika. Það þarf að gera núna.“ Brúðarhópurinn hefur haldið áfram að koma boðinu á framfæri allt fram á þennan dag.

„Sá sem heyrir segi: ,Kom þú!‘“

9, 10. Hvernig hafa þeir sem heyra boðið verið hvattir til að bjóða enn fleirum að ,koma‘?

9 Hvað um þá sem heyra boðið um að ,koma‘? Þeir eru hvattir til að bjóða öðrum að ,koma‘ líka. Til dæmis sagði í Varðturninum 1. ágúst 1932, bls. 232: „Hinir andasmurðu ættu að hvetja alla sem vilja til að taka þátt í að segja frá fagnaðarerindinu um ríkið. Þeir þurfa ekki að vera andasmurðir þjónar Drottins til að boða boðskap Drottins. Það er vottum Jehóva mikil hughreysting að vita núna að þeim skuli vera leyft að bera lífsvatnið til hóps manna sem á fyrir sér að komast gegnum Harmagedón og öðlast eilíft líf á jörð.“

10 Í Varðturninum 15. ágúst 1934 er vikið að þeirri ábyrgð þeirra sem heyra boðið að bjóða öðrum að koma líka. Þar segir á bls. 249: „Þeir sem tilheyra Jónadabhópnum verða að fylgja þeim sem Jehú fyrirmyndaði, það er að segja hinum andasmurðu, og boða boðskapinn um ríkið, jafnvel þótt þeir séu ekki andasmurðir vottar Jehóva.“ Árið 1935 kom fram hver væri múgurinn mikli sem talað er um í Opinberunarbókinni 7:9-17. Það reyndist gríðarleg lyftistöng því starfi að koma boði Guðs til skila. Síðan þá hefur mikill múgur sannra guðsdýrkenda — meira en sjö milljónir — þegið boðið. Þeir hafa heyrt boðskapinn, tekið við honum með þakklátum huga, vígt sig Guði, látið skírast og gengið í lið með brúðarhópnum til að bjóða öðrum að ,koma og fá ókeypis lífsins vatn‘.

„Andinn“ segir: „Kom þú!“

11. Hvaða hlutverki gegndi heilagur andi í boðunarstarfinu á fyrstu öld?

11 Þegar Jesús prédikaði í samkunduhúsi í Nasaret opnaði hann spádómsbók Jesaja og las: „Andi Drottins er yfir mér af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drottins.“ Jesús heimfærði síðan orðin á sjálfan sig og sagði: „Í dag hefur ræst þessi ritning í áheyrn yðar.“ (Lúk. 4:17-21) Áður en Jesús steig upp til himna sagði hann við lærisveinana: „Þér munuð öðlast kraft er heilagur andi kemur yfir yður og þér munuð verða vottar mínir . . . allt til endimarka jarðarinnar.“ (Post. 1:8) Heilagur andi gegndi veigamiklu hlutverki í boðunarstarfinu á fyrstu öld.

12. Hvaða hlutverki gegnir heilagur andi í því að bjóða fólki að koma nú á tímum?

12 Hvernig á heilagur andi Guðs þátt í því að koma boðinu á framfæri nú á tímum? Heilagur andi er frá Jehóva kominn. Hann beitir andanum til að opna hjörtu og hugi þeirra sem tilheyra brúðarhópnum svo að þeir skilji orð hans, Biblíuna. Andinn er þeim hvöt til að láta boðið ganga til annarra og skýra sannleika Biblíunnar fyrir þeim sem eiga von um eilíft líf í paradís á jörð. Hvað um þá sem þiggja boðið, gerast lærisveinar Jesú Krists og bjóða öðrum að koma? Andinn á líka hlut að máli í þeirra tilfelli. Þeir eru skírðir,í nafni heilags anda‘, fara eftir leiðsögn hans og reiða sig á hann. (Matt. 28:19) Boðskapurinn, sem hinir andasmurðu og múgurinn mikli boða, er sóttur í Biblíuna og hún er skrifuð undir beinum áhrifum heilags anda Guðs. Það er því vegna áhrifa heilags anda sem mönnum er boðið að koma. Við njótum handleiðslu heilags anda. Hvaða áhrif ætti það að hafa á þátttöku okkar í boðunarstarfinu?

Þau segja í sífellu: „Kom þú!“

13. Hvað gefur það til kynna þegar sagt er að ,andinn og brúðurin segi í sífellu: „Komdu!“‘?

13 „Andinn og brúðurin“ segja ekki bara: „Kom þú!“ Í frummálinu lýsir sagnorðið áframhaldandi athöfn. Í ljósi þessa er versið orðað svona í Nýheimsþýðingunni: „Andinn og brúðurin segja í sífellu: ,Komdu!‘“ Þetta gefur til kynna reglufestu í því að bjóða fólki að koma. Hvað um þá sem heyra boðið og þiggja það? Þeir segja líka: „Kom þú!“ Miklum múgi sannra guðsdýrkenda er lýst svo að hann ,þjóni Jehóva dag og nótt í musteri hans‘. (Opinb. 7:9, 15) Í hvaða skilningi þjóna þeir „dag og nótt“? (Lestu Lúkas 2:36, 37; Postulasöguna 20:31; 2. Þessaloníkubréf 3:8.) Páll postuli og hin aldraða spákona Anna eru dæmi um hvað það er að ,þjóna dag og nótt‘. Það lýsir staðfestu og einlægri viðleitni í þjónustunni.

14, 15. Hvernig sýndi Daníel fram á að það væri mikilvægt að tilbiðja Jehóva stöðugt?

14 Daníel spámaður sýndi einnig fram á hve mikilvægt það væri að vera staðfastur í tilbeiðslunni. (Lestu Daníel 6:5-11, 17.) Hann var vanur að biðja til Guðs „þrisvar á dag“. Hann breytti ekki út af þeirri venju, ekki einu sinni um mánaðar skeið, jafnvel þó að það þýddi að honum yrði kastað í ljónagryfju. Hann sýndi greinilega þeim sem til sáu að ekkert væri mikilvægara en að tilbiðja Jehóva stöðugt. — Matt. 5:16.

15 Eftir að Daníel hafði verið næturlangt í ljónagryfjunni kom konungurinn og kallaði: „Daníel, þjónn hins lifandi Guðs, hefur Guð þinn, sá sem þú vegsamar án afláts, megnað að frelsa þig undan ljónunum?“ Daníel svaraði þá: „Konungur, megir þú lifa að eilífu. Guð sendi engil sinn og hann lokaði gini ljónanna svo að þau unnu mér ekkert mein. Gagnvart honum hef ég reynst saklaus og í engu hef ég brotið gegn þér, konungur.“ Jehóva blessaði Daníel fyrir að þjóna sér „án afláts“. — Dan. 6:20-23.

16. Hvaða spurninga ættum við að spyrja, með hliðsjón af fordæmi Daníels, varðandi þátttöku okkar í boðunarstarfinu?

16 Daníel vildi frekar deyja en vanrækja tilbeiðsluna á Jehóva. Hvað um okkur? Hvaða fórnir færum við eða erum fús til að færa til að geta boðað fagnaðarerindið um ríki Guðs án afláts? Við ættum ekki að láta líða mánuð án þess að segja öðrum frá Jehóva. Ættum við ekki, ef kostur er, að reyna að taka þátt í boðunarstarfinu í hverri viku? Jafnvel þó að við séum mjög heilsutæp og getum ekki vitnað nema stundarfjórðung í mánuði ættum við að setja það á starfsskýrsluna okkar. Af hverju? Af því að við þráum að taka undir með andanum og brúðinni og segja án afláts: „Kom þú!“ Við viljum gera allt sem við getum til að vera staðfastir boðberar Guðsríkis.

17. Hvaða tækifæri ættum við að nota til að koma boði Jehóva á framfæri?

17 Við ættum að gera okkur far um að koma boði Jehóva á framfæri hvenær sem tækifæri gefst, ekki aðeins á þeim tíma sem við höfum tekið frá til að boða fagnaðarerindið. Það er mikill heiður að mega bjóða þeim sem þyrstir að ,fá ókeypis lífsins vatn‘, til dæmis þegar við erum úti að versla, erum á ferðalagi, í fríi, í vinnunni eða á leið í skólann. Jafnvel þó að yfirvöld banni boðunarstarfið höldum við áfram að prédika svo lítið beri á, til dæmis með því að fara ekki nema í fáein hús í sömu götu á sama tíma eða með því að vitna meira óformlega.

Segðu án afláts: „Kom þú!“

18, 19. Hvernig sýnirðu að þér finnist það mikill heiður að mega vera samverkamaður Guðs?

18 Í rúmlega níu áratugi hafa andinn og brúðurin sagt: „Kom þú!“ við alla sem þyrstir í lífsins vatn. Hefurðu fengið þetta frábæra boð? Þá hvetjum við þig til að láta boðið ganga áfram til annarra.

19 Við vitum ekki hve lengi Jehóva heldur áfram að bjóða fólki að koma en með því að segja öðrum: „Kom þú!“ verðum við samverkamenn hans. (1. Kor. 3:6, 9) Það er ómetanlegur heiður. Sýnum að við kunnum að meta þennan heiður og ,færum Guði lofgerðarfórn án afláts‘ með því að prédika staðfastlega. (Hebr. 13:15) Við sem höfum jarðneska von skulum, ásamt brúðarhópnum, segja án afláts: „Kom þú!“ Það er von okkar að margir fleiri þiggi „ókeypis lífsins vatn“.

Hvað lærðir þú?

• Hverjum er boðið að ,koma‘?

• Hvernig má segja að boðið um að ,koma‘ eigi uppruna sinn hjá Jehóva?

• Hvert er hlutverk heilags anda í því að koma boðinu á framfæri?

• Af hverju ættum við að reyna að taka reglulega þátt í boðunarstarfinu?

[Spurningar]

[Tafla/​myndir á bls. 16]

(Sjá uppsettan texta í ritinu)

Segðu án afláts: „Kom þú!“

1914

5.100 boðberar

1918

Margir munu hljóta líf í paradís á jörð.

1922

„Kunngerið, kunngerið, kunngerið konunginn og ríki hans.“

1929

Þeir sem eftir eru af hinum andasmurðu segja: „Kom þú!“

1932

Fleiri en hinir andasmurðu fá að bjóða fólki að ,koma‘.

1934

Jónadabhópnum boðið að prédika.

1935

Bent á hver sé,múgurinn mikli‘.

2009

7.313.173 boðberar.