Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Námsgagn sem hjálpar unglingum að muna eftir skapara sínum

Námsgagn sem hjálpar unglingum að muna eftir skapara sínum

Námsgagn sem hjálpar unglingum að muna eftir skapara sínum

„MUNDU eftir skapara þínum á unglingsárum þínum,“ skrifaði hinn vitri Salómon fyrir um 3000 árum. (Préd. 12:1) Nú hafa kristnir unglingar nýtt námsgagn sem hjálpar þeim til þess. Bókin Spurningar unga fólksins — svör sem duga, 2. bindi, var gefin út á ensku og fleiri tungumálum á umdæmismótunum „Látum anda Guðs leiða okkur“ sem vottar Jehóva héldu um allan heim frá maí 2008 til janúar 2009.

Innan á kápunni er að finna bréf til unglinga frá hinu stjórnandi ráði. Þar segir að hluta: „Það er einlæg bæn okkar að efni þessarar bókar hjálpi þér að taka ákvarðanir sem eru í samræmi við vilja Guðs og auðveldi þér að standast þær freistingar og þann þrýsting sem mætir ungu fólki nú á dögum.“

Foreldrar vilja réttilega ala börnin sín upp „með aga og fræðslu um Drottin“. (Ef. 6:4) En þegar börn ná unglingsaldri verða þau oft óörugg og þrá leiðsögn. Ef þú ert foreldri unglings, hvernig geturðu þá hjálpað barninu þínu að fá sem mest út úr þessari bók? Hér á eftir koma nokkrar tillögur.

Vertu þér úti um þína eigin bók og kynntu þér hana vel. Það felur í sér meira en aðeins að lesa hana. Reyndu líka að koma auga á hvernig hugmyndirnar eru settar fram í bókinni. Reynt er að þjálfa huga unglinganna í stað þess að segja þeim bara hvað er rétt og hvað rangt. (Hebr. 5:14) Þar eru líka gefnar raunhæfar tillögur um hvernig hægt sé að taka afstöðu með því sem er rétt. Tökum dæmi. Í 15. kafla („Hvernig get ég staðist hópþrýsting?“) er unglingum ekki aðeins kennt að segja nei. Þar er bent á biblíulegar aðferðir og raunhæf svör sem geta hjálpað þeim að læra að ,svara hverjum manni‘. — Kól. 4:6.

Notaðu vinnublöð og svaraðu spurningum í bókinni. Þótt þessi vinnublöð séu gerð fyrir unglinga gætirðu fyllt út í þitt eintak þar sem það á við. * Þegar þú skoðar spurningarnar á bls. 16 um samskipti kynjanna skaltu reyna að rifja upp hvernig þér leið þegar þú varst á sama aldri og barnið þitt. Þú getur kannski fyllt í eyðurnar og svarað eins og þú hefðir gert á þeim tíma. Síðan gætirðu spurt þig: Hvernig hafa skoðanir mínar breyst með árunum? Hvaða skilning hef ég núna sem ég hafði ekki áður og hvernig get ég útskýrt það fyrir barninu mínu?

Virtu einkalíf unglingsins. Vinnublöðin og spurningarnar í bókinni eiga að draga fram hvað býr í hjarta unglingsins með því að láta hann skrifa niður svör eða hugleiða málið. Markmið þitt er að líta á hjartalag unglingsins en ekki líta í bókina hans. Á bls. 3 er formáli sem heitir „Til foreldra“. Þar segir: „Til að auðvelda unglingnum að skrifa sínar innstu tilfinningar í bókina skaltu leyfa honum að hafa hana út af fyrir sig. Seinna meir vill hann kannski tjá sig um það sem hann hefur skrifað niður.“

Hjálpargagn fyrir biblíunám fjölskyldunnar

Spurningar unga fólksins, 2. bindi, er frábært hjálpargagn til að nota í biblíunámi fjölskyldunnar. En hvernig er hægt að nota bókina fyrst það eru ekki námsspurningar við hverja grein? Hvernig væri að aðlaga námsaðferðina þannig að hún henti börnunum þínum?

Sumum fjölskyldum gæti til dæmis fundist gagnlegt að hafa verklegar æfingar þegar farið er yfir „Viðbrögð við hópþrýstingi“ á bls. 132 og 133. Fyrsta spurningin hjálpar barninu þínu að koma auga á hverju sé erfiðast fyrir það að standa gegn. Næst er spurt hvar líklegt sé að unglingurinn verði fyrir þessum þrýstingi. Eftir að hafa fjallað um afleiðingar þess að láta undan og gagnið af því að standast hópþrýsting er barnið þitt beðið um að skrifa niður svör annaðhvort til að taka undir það sem sagt er, beina athyglinni frá sér eða beita þrýstingi á móti. Hjálpaðu unglingnum að nota ímyndunaraflið og finna svör sem hann er sáttur við og getur notað af öryggi og sannfæringu. — Sálm. 119:46.

Hjálpargagn sem hvetur til tjáskipta

Spurningar unga fólksins, 2. bindi, hvetur unglinga til að tala við foreldra sína. Rammarnir „Hvernig get ég talað við pabba eða mömmu um kynlíf?“ (bls. 63-64) og „Talaðu við foreldra þína!“ (bls. 189) koma með gagnlegar tillögur um hvernig sé hægt að hefja samræður um viðkvæm mál. Þrettán ára stelpa skrifaði: „Þessi bók gaf mér hugrekki til að tala við foreldra mína um það sem var mér efst í huga — jafnvel um hluti sem ég hafði gert.“

Bókin hvetur líka til tjáskipta á annan hátt. Í lok hvers kafla er rammi sem nefnist „Hvað finnst þér?“ Rammann má ekki aðeins nota til upprifjunar heldur einnig til að hefja umræður innan fjölskyldunnar. Undir lok hvers kafla er líka rammi sem nefnist „Hvað ætla ég að gera?“ Þessi rammi gefur unglingum tækifæri til að skrifa niður hvernig þeir ætla að fara eftir því sem þeir hafa lært í kaflanum. Síðast í rammanum segir: „Það sem mig langar til að spyrja foreldra mína um . . .“ Þetta getur hjálpað unga fólkinu að leita til foreldra sinna og fá góð ráð hjá þeim.

Náðu til hjartans

Foreldrar ættu að leggja sig fram um að ná til hjartna barnanna sinna. Spurningar unga fólksins, 2. bindi, getur hjálpað þér til þess. Taktu eftir hvernig faðir nokkur hefur notað þessa bók til að stuðla að opnum tjáskiptum við dóttur sína.

„Við Rebekka eigum okkur nokkra uppáhaldsstaði og þangað göngum við, hjólum eða keyrum. Þegar við erum utandyra finnst mér skapast góð tækifæri fyrir hana til að opna sig.

Það fyrsta sem við fórum yfir í bókinni var bréfið frá hinu stjórnandi ráði og ,Til foreldra‘. Ég vildi að dóttir mín vissi að eins og fram kemur á bls. 3 gæti hún verið ófeimin við að skrifa í bókina. Ég myndi ekki hnýsast í bókina til að athuga hvað hún hefði skrifað.

Ég leyfði Rebekku að velja þá kafla sem hún vildi fara yfir í þeirri röð sem henni hentaði. Einn af fyrstu köflunum, sem hún valdi, var ,Ætti ég að spila tölvuleiki?‘ Mér hefði aldrei dottið í hug að hún myndi velja hann. En hún hafði ástæðu fyrir því. Nokkrir vinir hennar voru að spila frekar óhugnanlegan leik. Ég hafði ekki hugmynd um það hve ofbeldisfullur leikurinn var og hve orðbragðið var ljótt. En allt þetta kom upp á yfirborðið þegar við fórum yfir rammann ,Hvað ætla ég að gera?‘ á bls. 251. Þessi rammi hjálpaði Rebekku líka að finna svar sem hún gæti gefið ef einhver reyndi að fá hana til að spila þennan leik.

Núna leynir Rebekka ekki fyrir mér hvað hún skrifar í bókina sína. Námsstundirnar okkar eru endalausar samræður. Við skiptumst á að lesa og síðan vill hún tala um allt, líka myndirnar og rammagreinarnar. Þetta gefur mér tækifæri til að segja henni hvernig þetta var þegar ég var á hennar aldri og síðan segir hún mér hvernig þetta er núna. Hún vill deila öllu með mér!“

Ef þú átt börn varstu örugglega spenntur þegar þessi bók kom út. Núna hefurðu tækifæri til að nýta hana vel. Það er von hins stjórnandi ráðs að bókin Spurningar unga fólksins — svör sem duga, 2. bindi, verði til blessunar fyrri þig og fjölskyldu þína. Megi hún hjálpa öllum — sérstaklega unga fólkinu okkar — að ,lifa í andanum‘. — Gal. 5:16.

[Neðanmáls]

^ gr. 6 Sum vinnublöð eiga við alla aldurshópa. Ramminn „Hafðu stjórn á reiðinni“ (bls. 221) gæti til dæmis verið jafn gagnlegur fyrir þig og fyrir son þinn eða dóttur. Hið sama má segja um „Viðbrögð við hópþrýstingi“ (bls. 132-133), „Fjárhagsáætlun mánaðarins“ (bls. 163) og „Markmiðin mín“ (bls. 314).

[Rammi á bls. 30]

Hvað segir unga fólkið?

„Þetta er bók sem maður verður að lesa með blýant í hendi og hugleiða vandlega. Hún er sett fram eins og persónuleg dagbók og gefur manni kost á að gera sjálfsrannsókn með það að markmiði að velja bestu lífsstefnuna.“ — Nicola.

„Ég verð fyrir miklum þrýstingi til að eignast kærasta, jafnvel frá fólki sem vill vel. Fyrsti hluti bókarinnar sannfærði mig um að ég er ekki tilbúin til þess, sama hvað aðrir segja.“ — Katrina.

„Ramminn ,Ertu að hugsa um að láta skírast?‘ hefur hjálpað mér að líta alvarlegri augum á skírn mína. Þetta hvatti mig til að endurmeta námsvenjur mínar og bænasamband mitt við Guð.“ — Ashley.

„Jafnvel þótt foreldrar mínir séu vottar og hafi kennt mér frá því að ég var lítil hefur þessi bók fengið mig til að hugsa sjálf um þau skref sem ég verð að stíga í lífinu. Hún hefur líka hjálpað mér að vera opinskárri við foreldra mína.“ — Zamira

[Mynd á bls. 31]

Foreldrar! Kynnið ykkur þessa bók vandlega.

[Mynd á bls. 32]

Leggðu þig fram um að ná til hjarta barnsins.