Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Notaðu „sverð andans“ fagmannlega

Notaðu „sverð andans“ fagmannlega

Notaðu „sverð andans“ fagmannlega

„Grípið sverð andans, Guðs orð.“ — EF. 6:17.

1, 2. Hvernig ættum við að bregðast við þörfinni fyrir fleiri boðbera fagnaðarerindisins?

„UPPSKERAN er mikil en verkamenn fáir,“ sagði Jesús. Hann var að hugsa um andlegar þarfir mannfjöldans þegar hann sagði þetta. Hann hélt áfram: „Biðjið því Drottin uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar.“ En Jesús lét ekki þar við sitja. Eftir að hafa sagt þetta „kallaði [hann] til sín lærisveina sína tólf“ og sendi þá út til að prédika og ,uppskera‘. (Matt. 9:35-38; 10:1, 5) Síðar kvaddi hann til aðra, „sjötíu að tölu, og sendi þá . . . tvo og tvo“ til að vinna þetta sama verk. — Lúk. 10:1, 2, neðanmáls.

2 Það er líka þörf fyrir fleiri til að boða fagnaðarerindið nú á tímum. Árið 2009 voru 18.168.323 viðstaddir minningarhátíðina um heim allan. Það voru um 10 milljónum fleiri en allir vottar Jehóva. Það er hverju orði sannara að akrarnir eru fullþroskaðir til uppskeru. (Jóh. 4:34, 35) Við ættum þess vegna að biðja Jehóva að senda fleiri verkamenn. En hvernig getum við starfað í samræmi við bænir okkar? Við getum gert það með því að verða enn duglegri og færari í að boða ríki Guðs og gera fólk að lærisveinum. — Matt. 28:19, 20; Mark. 13:10.

3. Hvernig hjálpar andi Guðs okkur að verða dugmeiri boðberar?

3 Í greininni á undan var fjallað um það hvernig andi Guðs gerir okkur kleift að tala orð hans „af djörfung“. (Post. 4:31) Andinn getur líka hjálpað okkur að vera dugandi boðberar. Ein leið til að verða enn færari í boðunarstarfinu er að nota vel hið frábæra hjálpargagn sem Jehóva Guð hefur gefið okkur — orð sitt, Biblíuna. Hún varð til fyrir atbeina heilags anda. (2. Tím. 3:16) Boðskapur hennar er innblásinn af Guði. Þess vegna má segja að við látum heilagan anda leiða okkur þegar við boðum og kennum sannleika Biblíunnar fagmannlega. En áður en við könnum hvernig við getum gert það skulum við skoða hvílíkur kraftur býr í orði Guðs.

,Orð Guðs er kröftugt‘

4. Hvernig getur boðskapur Guðs í Biblíunni breytt fólki?

4 Orð Guðs er óneitanlega kröftugt. (Hebr. 4:12) Í óeiginlegri merkingu er boðskapur Biblíunnar beittari en nokkurt sverð gert af mannahöndum því að það smýgur táknrænt séð inn í innstu fylgsni liðamóta og mergjar. Sannleikur Biblíunnar þrengir sér inn í innstu fylgsni mannsins og hefur áhrif á hugsanir hans og tilfinningar. Hann afhjúpar hvað býr með honum innst inni. Sannleikurinn getur haft sterk áhrif og breytt fólki til hins betra. (Lestu Kólossubréfið 3:10.) Já, orð Guðs getur breytt lífi fólks.

5. Hvernig getur Biblían verið leiðarljós okkar og hvaða áhrif hefur það á líf okkar?

5 Í Biblíunni er að finna óviðjafnanlega visku. Hún hefur að geyma gagnlegar upplýsingar sem geta leiðbeint fólki hvernig það eigi að lifa í þessum flókna heimi. Orð Guðs lýsir ekki aðeins upp næstu skref heldur einnig veginn fram undan. (Sálm. 119:105) Hún er ómetanleg hjálp þegar erfiðleika ber að garði og til að velja sér vini, afþreyingarefni, atvinnu, klæðnað og svo framvegis. (Sálm. 37:25; Orðskv. 13:20; Jóh. 15:14; 1. Tím. 2:9) Þegar við förum eftir meginreglum Biblíunnar getum við átt góð samskipti við aðra. (Matt. 7:12; Fil. 2:3, 4) Þar sem vegurinn fram undan er vel upplýstur í táknrænum skilningi erum við í aðstöðu til að hugleiða hvaða áhrif ákvarðanir okkar hafi til langs tíma litið. (1. Tím. 6:9) Í Biblíunni er einnig lýst fyrirætlunum Guðs svo að við getum hagað lífi okkar í samræmi við vilja hans. (Matt. 6:33; 1. Jóh. 2:17, 18) Það er hægt að gera líf sitt ákaflega innihaldsríkt með því að hafa meginreglur Guðs að leiðarljósi.

6. Hversu öflugt vopn er Biblían í andlegum hernaði okkar?

6 Hugsaðu þér hve öflugt vopn Biblían er í andlegum hernaði okkar. Páll kallaði hana „sverð andans“. (Lestu Efesusbréfið 6:12, 17.) Þegar boðskapur Biblíunnar er skýrður vel getur hann frelsað fólk undan áhrifavaldi Satans. Þetta er sverð sem bjargar mannslífum í stað þess að eyða þeim. Ættum við ekki að gera okkar ýtrasta til að beita því fagmannlega?

Farðu rétt með orð Guðs

7. Af hverju er mikilvægt að læra að nota „sverð andans“ vel?

7 Hermaður getur því aðeins beitt vopnum sínum af leikni í hernaði að hann hafi æft sig og lært að nota þau vel. Hið sama gildir um „sverð andans“ og andlega hernaðinn. Páll postuli skrifaði: „Legg kapp á að standast fyrir Guði sem verkamaður er ekki þarf að skammast sín og fer rétt með orð sannleikans.“ — 2. Tím. 2:15.

8, 9. Hvað hjálpar okkur að skilja það sem stendur í Biblíunni? Skýrðu með dæmi.

8 Hvað getur hjálpað okkur að ,fara rétt með orð sannleikans‘ í boðunarstarfinu? Ef við viljum miðla öðrum skýrt og greinilega því sem stendur í Biblíunni er nauðsynlegt að við skiljum það sjálf. Til að gera það þurfum við að gefa gaum að samhengi versa og biblíukafla. Samkvæmt orðabók er samhengi „þeir hlutar af skrifuðu eða mæltu máli o.þ.h. sem fara á undan og eftir orði eða orðastæðu og gæða þau fyllri merkingu“.

9 Til að skilja ritningargrein rétt þurfum við að huga að textanum í kring. Þetta sést vel af orðum Páls í Galatabréfinu 5:13. Hann skrifaði: „Bræður og systur, þið voruð kölluð til að vera frjáls. Misnotið ekki frelsið í þágu eigin girnda heldur þjónið hvert öðru í kærleika.“ Um hvaða frelsi er Páll að tala? Var það frelsi frá synd og dauða, frá fjötrum falstrúar eða einhverju öðru? Af samhenginu má sjá að hann átti við frelsið sem fylgir því að vera laus undan „bölvun lögmálsins“. (Gal. 3:13, 19-24; 4:1-5) Hann var að tala um frelsið sem er samfara því að fylgja Kristi. Þeir sem kunnu að meta þetta frelsi þjónuðu hver öðrum í kærleika. Þeir sem voru ekki kærleiksríkir rifust og baktöluðu hver annan. — Gal. 5:15.

10. Hvað er gott að vita til að skilja ritningarstað rétt og hvernig getum við aflað okkur upplýsinga?

10 Til að skilja ritningarstað rétt getur líka verið gott að kynna sér sögulegan bakgrunn og aðstæður. Hver skrifaði biblíubókina, hvenær hún var skrifuð og við hvaða aðstæður? Einnig getur verið gott að vita í hvaða tilgangi hún var skrifuð og hafa innsýn í hefðir, siðferði og trúariðkanir þess tíma. *

11. Hvað þurfum við að varast þegar við útskýrum ritningarstaði?

11 Að ,fara rétt með orð sannleikans‘ er ekki aðeins fólgið í því að skýra biblíusannindi vel og nákvæmlega. Við ættum að varast að nota Biblíuna til að hræða fólk. Þó að hægt sé að verja sannleikann með hjálp Biblíunnar, líkt og Jesús gerði þegar Satan freistaði hans, á ekki að nota hana eins og barefli til að ógna áheyrendum okkar. (5. Mós. 6:16; 8:3; 10:20; Matt. 4:4, 7, 10) Við ættum að gera eins og Pétur postuli hvetur til. Hann sagði: „Helgið Krist sem Drottin í hjörtum ykkar. Verið ætíð reiðubúin að svara hverjum manni sem krefst raka fyrir voninni sem þið eigið. En gerið það með hógværð og virðingu.“ — 1. Pét. 3:15, 16.

12, 13. Hvaða „vígi“ getur sannleikur Biblíunnar brotið niður? Nefndu dæmi.

12 Hverju getur sannleikur Biblíunnar áorkað þegar rétt er með hann farið? (Lestu 2. Korintubréf 10:4, 5.) Sannleikurinn í Biblíunni getur brotið niður sterkustu „vígi“, það er að segja flett ofan af falskenningum, skaðlegum venjum og hugmyndum sem endurspegla visku ófullkominna manna. Við getum notað Biblíuna til að kveða niður sérhverja hugmynd sem „hreykir sér gegn þekkingunni á Guði“. Við getum notað kenningar Biblíunnar til að hjálpa fólki að leiðrétta hugsunarhátt sinn svo að hann samræmist sannleikanum.

13 Tökum sem dæmi 93 ára konu sem er búsett á Indlandi. Allt frá barnæsku lærði hún að trúa á endurholdgun. Þegar hún fór að kynna sér Biblíuna með því að skrifast á við son sinn, sem bjó erlendis, meðtók hún fúslega það sem hún lærði um Jehóva og fyrirheit hans. Endurholdgunarkenningin var hins vegar svo rótföst í huga hennar að hún mótmælti þegar sonurinn sagði henni frá eðli dauðans. „Ég get bara ekki skilið sannleikann í Biblíunni,“ skrifaði hún. „Öll trúarbrögð kenna að það búi eitthvað ódauðlegt innra með okkur. Ég hef alltaf trúað að líkaminn deyi og að ósýnilegi hlutinn endurfæðist um það bil 8.400.000 sinnum í öðrum líkömum. Hvernig getur þetta verið ósatt? Eru flest trúarbrögð á rangri braut?“ Getur Biblían unnið bug á svona rótgróinni trúarskoðun? Nokkrum vikum síðar, eftir að hafa séð fleiri biblíuleg rök, skrifaði hún: „Ég er loksins farin að skilja sannleikann um dauðann. Það gleður mig ósegjanleg að í upprisunni skulum við geta hitt látna ástvini okkar að nýju. Ég vona að ríki Guðs komi fljótlega.“

Notaðu orð Guðs til að sannfæra

14. Hvað merkir það að sannfæra áheyrendur okkar?

14 Til að nota Biblíuna á áhrifaríkan hátt í boðunarstarfinu er ekki nóg að lesa ritningarstaði. Páll „reyndi að sannfæra“ fólk og það ættum við líka að gera. (Lestu Postulasöguna 19:8, 9; 28:23.) „Að sannfæra“ merkir að ,fullvissa einhvern um eitthvað, koma einhverjum á tiltekna skoðun, fá einhvern til að trúa einhverju‘. Þegar við sannfærum einhvern svo að hann tekur við ákveðinni kenningu Biblíunnar fáum við hann til að setja traust sitt á þessa kenningu. Til að gera það þurfum við að sannfæra áheyrendur okkar um að það sem við segjum sé satt. Við getum gert það á eftirfarandi vegu.

15. Hvernig geturðu beint athygli að Biblíunni þannig að þú vekir virðingu fyrir henni?

15Beindu athygli að Biblíunni þannig að þú vekir virðingu fyrir henni. Þegar þú kynnir ritningarstað skaltu minna á mikilvægi þess að þekkja afstöðu Guðs í málinu. Eftir að þú hefur spurt spurningar og húsráðandinn svarað gætirðu sagt eitthvað þessu líkt: „Við skulum kanna hvernig við getum kynnt okkur skoðun Guðs á málinu.“ Þú gætir líka spurt: „Hvað segir Guð um þetta mál?“ Ef þú kynnir textann með þessum hætti leggurðu áherslu á að Biblían sé bók Guðs og stuðlar að því að áheyrandinn fái virðingu fyrir henni. Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar þú vitnar fyrir manneskju sem trúir á Guð en veit ekki hvað kennt er í Biblíunni. — Sálm. 19:8-11.

16. Hvernig geturðu skýrt ritningarstað vel?

16Lestu ekki bara ritningarstaði heldur skýrðu þá líka. Páll var vanur að skýra og sanna það sem hann kenndi með því að vísa í Ritninguna. (Post. 17:3) Í sama versi getur verið fjallað um fleiri en eitt atriði svo að þú getur þurft að benda á aðalorðin sem eiga við það sem þú ert að kenna. Hægt er að gera þetta með því að endurtaka orðin sem bera uppi hugsunina eða með því að spyrja spurninga sem hjálpa viðmælandanum að koma auga á þessi orð. Síðan skaltu skýra hvað þessi hluti versins merkir. Þegar þú ert búinn að því skaltu sýna áheyrandanum fram á hvernig versið eigi við hann.

17. Hvernig er hægt að rökræða á sannfærandi hátt með hjálp Biblíunnar?

17Rökræddu á sannfærandi hátt með hjálp Biblíunnar. Páll höfðaði til áheyrenda og beitti sannfærandi rökum þegar hann „lagði út af ritningunum“. (Post. 17:2, 4) Reyndu að ná til hjartna áheyrenda líkt og hann gerði. Dragðu fram hvað býr í hjörtum fólks með því að spyrja vingjarnlegra spurninga sem vitna um einlægan áhuga á viðmælandanum. (Orðskv. 20:5) Vertu alltaf nærgætinn. Ræddu málin á skýran og rökréttan hátt. Færðu næg rök fyrir máli þínu og byggðu það sem þú segir tryggilega á orði Guðs. Það er betra að nota eina ritningargrein vel með því að skýra hana og lýsa með dæmum heldur en að lesa tvo eða þrjá ritningarstaði hvern á fætur öðrum. Með því að gera þetta ,eykurðu fræðsluna á vörum þínum‘ og verður meira sannfærandi. (Orðskv. 16:23) Stundum gætirðu þurft að kynna þér málin betur og koma með ýtarlegri upplýsingar. Aldraða indverska konan, sem áður er nefnd, þurfti að fá að vita af hverju kenningin um ódauðlega sál er jafn útbreidd og raun ber vitni. Hún þurfti að skilja hver væri uppruni kenningarinnar og hvernig hún hefði ratað í flest trúarbrögð heims til að sannfærast og viðurkenna það sem Biblían kennir um málið. *

Haltu áfram að nota Biblíuna fagmannlega

18, 19. Af hverju ættum við að halda áfram að beita ,sverði andans‘ fagmannlega?

18 „Mynd þessa heims er að breytast,“ segir í Biblíunni, og vondir menn magnast í vonskunni. (1. Kor. 7:31, NW; 2. Tím. 3:13) Það er því mikilvægt að halda áfram að nota „sverð andans, Guðs orð“, til að vinna „vígi“ falskra kenninga.

19 Það er mikil gæfa að hafa orð Guðs, Biblíuna, og geta notað kröftugan boðskap hennar til að uppræta falskenningar og ná til hjartahreinna manna. Ekkert „vígi“ er svo sterkt að það standist þennan boðskap. Við skulum því leggja okkur fram um að beita ,sverði andans‘ fagmannlega þegar við boðum ríki Guðs eins og hann hefur falið okkur að gera.

[Neðanmáls]

^ gr. 10 Hægt er að afla sér upplýsinga af þessu tagi í greinaflokknum „Orð Jehóva er lifandi“ í Varðturninum, og í bókunum „All Scripture Is Inspired of God and Beneficial“ og Insight on the Scriptures.

Hvað lærðir þú?

• Hve kröftugt er orð Guðs?

• Hvernig getum við ,farið rétt með orð sannleikans‘?

• Hverju getur boðskapur Biblíunnar áorkað í baráttunni við sterk „vígi“?

• Hvernig geturðu orðið enn meira sannfærandi í boðunarstarfinu?

[Spurningar]

[Rammi/​mynd á bls. 12]

Notaðu orð Guðs til að sannfæra

▪ Vektu virðingu fyrir Biblíunni.

▪ Útskýrðu ritningarstaði.

▪ Beittu sannfærandi rökum til að ná til hjartna fólks.

[Mynd á bls. 11]

Þú þarft að læra að nota „sverð andans“ vel.