Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Réttur barna til að þroskast andlega“

„Réttur barna til að þroskast andlega“

„Réttur barna til að þroskast andlega“

HINN 9. desember 2008 hélt sænska Akademían um réttindi barna málþing sem bar yfirskriftina: „Réttur barna til að þroskast andlega.“ Ýmis sjónarmið komu fram hjá ræðumönnum sænsku kirkjunnar, frá öðrum kirkjudeildum kristna heimsins, íslam og húmanistahreyfingunni.

Meðal ræðumanna var prestur sem sagði: „Það er vart hægt að lýsa því hversu mikilvægar frásögur Biblíunnar eru fyrir andlegan þroska barna.“ Hvernig fullnægir Biblían andlegum þörfum barna?

„Frásögur Biblíunnar gefa börnum kost á efni sem þau geta íhugað sjálf og velt fyrir sér,“ sagði presturinn. Hann taldi upp „sögurnar af Adam og Evu, Kain og Abel, Davíð og Golíat, fæðingu Jesú, tollheimtumanninum Sakkeusi, dæmisögurnar um týnda soninn [og] miskunnsama Samverjann“. Að sögn hans eru þetta „nokkrar af þeim sögum sem geta mótað hugsunarhátt [barna] þegar kemur að alvarlegum þáttum tilverunnar eins og sviksemi, fyrirgefningu, iðrun, hatri, niðurlægingu, sáttum og bróðurlegum og óeigingjörnum kærleika“. Hann hélt áfram og sagði: „Þessar sögur gefa okkur fyrirmynd sem er hægt að fylgja í daglegu lífi og geta þannig sýnt sig í verki og orðið að hagnýtri reynslu.“

Það er mjög gott að hvetja til biblíulestrar. En eru börn í raun og veru fær um að,íhuga sjálf og velta fyrir sér‘ því sem þau lesa í Biblíunni og draga réttar ályktanir?

Jafnvel fullorðnir þurfa á því að halda að einhver útskýri Biblíuna fyrir þeim. Til dæmis er frásaga í Biblíunni um mann sem gat ekki öðlast sanna trú með því að,íhuga sjálfur og velta fyrir sér‘ því sem hann las. Hann var embættismaður frá Eþíópíu og var að lesa í spádómsbók Jesaja en skildi hana ekki. Þar sem hann vildi skilja boðskap spámannsins var hann ánægður þegar lærisveininn Filippus bauðst til að leiðbeina honum. (Post. 8:26-40) Þessi Eþíópíumaður var engin undantekning. Við öll, og þó sér í lagi börnin, þurfum á því að halda að einhver hjálpi okkur að skilja Biblíuna.

Í Biblíunni erum við vöruð við því að ,heimska geti sest að í hjarta sveinsins‘. (Orðskv. 22:15) Börn þurfa leiðbeiningar frá foreldrum sínum og handleiðslu þeirra. Foreldrar bera ábyrgð á því að börnin læri siðferðisboðskap Biblíunnar sem er kenndur í kristna söfnuðinum. Börn eiga rétt á slíkri kennslu. Frá unga aldri þarf að hjálpa þeim að leggja biblíulegan grunn svo þau geti vaxið andlega og orðið fullþroska einstaklingar sem „jafnt og þétt hafa agað hugann til að greina gott frá illu“. — Hebr. 5:14.