Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Hvenær gæti komið til greina að láta skírast í annað sinn?

Skírður einstaklingur gæti við ákveðnar aðstæður hugleitt hvort skírn hans hafi verið gild og hvort hann ætti að láta skírast í annað sinn. Þegar hann lét skírast gæti hann til dæmis hafa haldið því leyndu að hann tók þátt í einhverju eða bjó við aðstæður sem hefðu verið brottrekstrarsök hefði hann verið búinn að láta skírast. Gat hann vígt sig Guði við slíkar aðstæður? Vígsla hans hefði aðeins verið gild hefði hann látið af röngu hegðuninni. Það er því ekkert óeðlilegt að einstaklingi, sem lét skírast þótt hann héldi áfram að iðka synd, gæti fundist nauðsynlegt að láta skírast aftur.

En hvað um einstakling sem iðkaði ekki synd þegar hann lét skírast en gerði samt eitthvað seinna sem var tekið fyrir af dómnefnd safnaðarins? Segjum að hann héldi því fram að hann hefði ekki skilið til fulls hvað hann var að gera þegar hann lét skírast og því væri skírnin í raun ekki gild. Þegar öldungarnir hitta hinn brotlega ættu þeir ekki að draga í efa að skírn hans sé gild og ekki spyrja hann hvort honum finnist vígsla hans og skírn fullgild. Hann hlustaði á biblíulega ræðu sem fjallaði um þýðingu skírnarinnar. Hann svaraði spurningum um vígslu og skírn játandi. Síðan fór hann í sundföt og honum var dýft niður í vatn. Það er því raunhæft að ætla að hann hafi skilið alvöru þess sem hann var að gera. Öldungarnir ættu því að líta á hann sem skírðan einstakling.

Ef viðkomandi dregur samt í efa að skírn hans sé gild gætu öldungarnir bent honum á að lesa í Varðturninum (enskri útgáfu) 1. mars 1960, bls. 159 til 160 og 15. febrúar 1964, bls. 123 til 126 þar sem ítarlega er rætt um þetta mál. Ef einhver ákveður að láta skírast aftur vegna sérstakra aðstæðna (eins og lélegrar biblíuþekkingar þegar hann lét skírast) þá er það einkamál hans.

Hvað ættu kristnir menn að hafa í huga í sambandi við að deila húsnæði með öðrum?

Allir þurfa að búa einhvers staðar. Nú á dögum eru samt margir sem eiga ekki sitt einkaheimili. Fjárhagsaðstæður, veikindi eða eitthvað annað gerir það kannski að verkum að stórfjölskyldur þurfa að búa saman. Sums staðar þurfa ættingjar að gera sér að góðu að búa margir saman í einu herbergi og geta nánast hvergi verið út af fyrir sig.

Það er ekki í verkahring safnaðar Jehóva að útbúa langan lista með reglum um hvað sé viðeigandi samastaður fyrir þjóna hans víðsvegar í heiminum. Kristnir menn eru hvattir til að hugleiða frumreglur Biblíunnar til að komast að því hvort húsnæðismál þeirra séu Guði velþóknanleg eða ekki. Hverjar eru þessar frumreglur?

Það fyrsta, sem hafa skal í huga, er hvaða áhrif það mun hafa á okkar andlega mann að búa með öðru fólki. Hvaða fólk er þetta? Tilbiður það Jehóva? Lifir það í samræmi við siðferðiskröfur Biblíunnar? Páll postuli skrifaði: „Villist ekki. Vondur félagsskapur spillir góðum siðum.“ — 1. Kor. 15:33.

Í Biblíunni segir að Jehóva fordæmi hórdóm og frillulífi. (Hebr. 13:4) Það er því augljóst að Guð myndi ekki samþykkja að ógift fólkafgagnstæðukynibyggisam- an eins og hjón. Kristinn maður myndi ekki vilja búa þar sem siðleysi er látið viðgangast.

Enn fremur hvetur Biblían alla sem þrá velþóknun Guðs til að ,flýja saurlifnaðinn‘. (1. Kor. 6:18) Það væri því viturlegt fyrir kristinn mann að búa ekki á stað sem gæti leitt hann út í siðleysi. Tökum sem dæmi ef margir vottar sofa á sama heimilinu. Gætu skapast vafasamar aðstæður? Hvað ef bróðir og systir, sem eru ekki hjón, yrðu ein vegna þess að annað heimilisfólk þyrfti að bregða sér frá um stund? Ef ógiftur bróðir og systir, sem eru hrifin hvort af öðru, myndu búa á sama heimilinu væru þau líka að setja sig í siðferðilega hættu. Það væri viturlegt að forðast slíkar aðstæður.

Það væri líka óviðeigandi að hjón, sem skilja, myndu halda áfram að búa í sama húsi. Þar sem þau voru vön að deila hjónasænginni gætu slíkar aðstæður fengið þau til að leiðast út í siðleysi. — Orðskv. 22:3.

Að lokum má nefna að þótt kristnum manni finnist ákveðin búseta boðleg er ekki síður mikilvægt að hugleiða hvernig samfélagið myndi líta á málið. Hann verður að taka tillit til þess ef það veldur neikvæðu umtali í samfélaginu. Við viljum alls ekki að hegðun okkar kasti rýrð á nafn Jehóva. Páll orðaði þetta svona: „Verið hvorki Gyðingum né Grikkjum né kirkju Guðs til ásteytingar. Ég fyrir mitt leyti reyni í öllu að þóknast öllum og hygg ekki að eigin hag, heldur hag hinna mörgu, til þess að þeir verði hólpnir.“ — 1. Kor. 10:32, 33.

Fyrir þá sem vilja fylgja réttlátum kröfum Jehóva getur verið þrautin þyngri að finna ásættanlegan samastað. En kristnir menn verða engu að síður að ,meta rétt hvað Drottni þóknast‘. Þeir verða að fullvissa sig um að ekkert ósæmilegt viðgangist á heimilum þeirra. (Ef. 5:5, 10) Þetta krefst þess að við biðjum Jehóva um leiðsögn og gerum allt sem við getum til að vernda líkamlega og andlega velferð okkar og heilagt nafn Jehóva.