Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Markús „þarfur í þjónustunni“

Markús „þarfur í þjónustunni“

Markús „þarfur í þjónustunni“

SÖFNUÐURINN í Antíokkíu hafði haft sín vandamál en ágreiningurinn, sem kom upp á milli postulanna Páls og Barnabasar, var af öðru tagi. Þeir voru að skipuleggja trúboðsferð en þegar kom að því að ákveða hver færi með þeim „varð þeim mjög sundurorða“. (Post. 15:39) Það varð til þess að þeir fóru hvor sína leið. Þá greindi á um þriðja trúboðann — Markús.

Hver var Markús? Hvers vegna deildu postularnir um hann? Af hverju höfðu þeir svona sterkar skoðanir á honum? Breyttu þeir einhvern tíma um skoðun? Og hvað getur þú lært af frásögunni um Markús?

Búsettur í Jerúsalem

Markús tilheyrði að öllum líkindum ríkri gyðingafjölskyldu og var alinn upp í Jerúsalem. Það fyrsta sem við lærum um hann er tengt sögu frumkristna safnaðarins. Engill Jehóva frelsaði Pétur postula á yfirnáttúrulegan hátt úr fangelsi Heródesar Agrippa fyrsta árið 44. Síðan fór Pétur „að húsi Maríu, móður Jóhannesar er kallast Markús. Þar höfðu margir safnast saman og voru á bæn.“ — Post. 12:1-12. *

Það virðist vera að söfnuðurinn í Jerúsalem hafi notað heimili móður Markúsar sem samkomustað. Sú staðreynd að „margir“ hittust þar virðist benda til þess að heimilið hafi verið stórt. María hafði þjónustustúlku sem hét Róde en hún kom til dyra þegar Pétur bankaði á „hurð fordyrisins“. Öll þessi atriði benda til þess að María hafi verið töluvert efnuð. Húsinu er lýst sem heimili hennar fremur en eiginmanns hennar. Hún var því ef til vill ekkja og Markús enn frekar ungur. — Post. 12:13.

Markús var að öllum líkindum meðal þeirra sem höfðu komið saman til að biðja. Hann hlýtur að hafa verið vel kunnugur lærisveinum Jesú og öðrum sem höfðu séð ýmislegt sem Jesús gerði. Meira að segja er sennilegt að Markús hafi verið ungi fáklæddi maðurinn sem reyndi að elta Jesú þegar hann var handtekinn en flúði síðan þegar reynt var að handsama hann. — Mark. 14:51, 52.

Verkefni hans í söfnuðinum

Samband Markúsar við þroskaða kristna einstaklinga hefur án efa haft góð áhrif á hann. Hann tók framförum og vakti athygli bræðra sem gegndu ábyrgðarstörfum í söfnuðinum. Um árið 46 komu Páll og Barnabas með söfnunarfé frá Antíokkíu til styrktar trúsystkinum í Jerúsalem sem bjuggu við hungursneyð. Þá vakti Markús athygli þeirra og þegar Páll og Barnabas sneru aftur til Antíokkíu tóku þeir hann með sér. — Post. 11:27-30; 12:25.

Við fyrstu sýn gæti lesandinn ályktað að það hafi ekki verið nein sérstök tengsl milli þessara þriggja manna fyrir utan að þeir voru trúbræður, og að Páll og Barnabas hafi einfaldlega fengið Markús í lið með sér vegna hæfileika hans. En í einu af bréfum Páls kemur í ljós að Markús var frændi Barnabasar. (Kól. 4:10) Það kann að skýra ýmislegt sem gerðist seinna í tengslum við Markús.

Um ári síðar fengu Páll og Barnabas leiðbeiningar frá heilögum anda um að fara í trúboðsferð. Þeir héldu af stað frá Antíokkíu til Kýpur. Jóhannes Markús fór með þeim „til aðstoðar“. (Post. 13:2-5) Kannski átti hann að annast daglegar þarfir þeirra meðan á ferðinni stæði til þess að postularnir gætu einbeitt sér að andlegum málum.

Páll, Barnabas og Markús ferðuðust um Kýpur endilanga, prédikuðu á leiðinni og stefndu síðan til Litlu-Asíu. Þá tók Jóhannes Markús ákvörðun sem olli Páli vonbrigðum. Samkvæmt frásögunni ,skildi Jóhannes við þá, þegar þeir komu til Perge, og sneri aftur til Jerúsalem‘. (Post. 13:13) Ekki kemur fram hvers vegna hann gerði það.

Nokkrum árum síðar voru Páll, Barnabas og Markús komnir aftur til Antíokkíu. Postularnir tveir voru að ræða um að fara í aðra trúboðsferð til að byggja á þeim árangri sem náðst hafði í þeirri fyrri. Barnabas vildi taka frænda sinn með en Páll tók það ekki í mál vegna þess að Markús hafði áður yfirgefið þá. Þetta var ástæðan fyrir deilunni sem lýst var í upphafi. Barnabas fór til Kýpur, heimalands síns, og tók Markús með sér en Páll fór til Sýrlands. Páll og Barnabas höfðu greinilega mismunandi skoðanir á fyrri ákvörðun Markúsar.

Sáttir á ný

Þessi reynsla hefur eflaust hryggt Markús. En hann hélt áfram að vera trúfastur í þjónustunni. Um 11 eða 12 árum eftir misklíð hans og Páls kemur Markús aftur við sögu. Hvar? Þar sem maður myndi síst búast við að hann væri — með Páli.

Á árunum 60-61, meðan Páll var í fangelsi í Róm, sendi hann frá sér allnokkur bréf sem eru nú hluti af Heilagri ritningu. Í bréfinu til Kólossumanna skrifaði hann: „Aristarkus, sambandingi minn, biður að heilsa ykkur. Svo og Markús, frændi Barnabasar, sem þið hafið fengið orð um. Ef hann kemur til ykkar þá takið vel á móti honum . . . Þeir eru nú sem stendur einu umskornu samverkamenn mínir í þjónustu við Guðs ríki og hafa þeir verið mér styrkur.“ — Kól. 4:10, 11.

Hvílík umskipti! Páll hafði orðið fyrir miklum vonbrigðum með Markús en mat hann nú mikils sem samstarfsmann. Ljóst er að Páll hafði látið Kólossumenn vita að hugsanlega myndi Markús heimsækja þá. Ef hann gerði það myndi hann koma til þeirra sem fulltrúi Páls.

Hafði Páll verið of dómharður við Markús? Hafði Markús þurft á ögun að halda og notið góðs af henni? Eða var það kannski sitt lítið of hvoru? Hvort heldur sem er þá vitnar það um þroska bæði Páls og Markúsar að þeir náðu að sættast. Þeir létu fortíðina ekki hafa áhrif á sig og unnu saman á ný. Þetta er frábært fordæmi fyrir hvern þann sem hefur átt í einhverjum ágreiningi við trúsystkini.

Ferðalangurinn Markús

Þegar maður les um ýmis ferðalög Markúsar áttar maður sig á því að hann ferðaðist töluvert. Hann bjó í Jerúsalem en flutti til Antíokkíu og þaðan sigldi hann til Kýpur og Perge. Síðan fór hann til Rómar og þaðan vildi Páll senda hann til Kólossu. Og það var ekki allt og sumt.

Pétur postuli skrifaði fyrra bréf sitt á árunum 62 til 64. Hann skrifaði: „Söfnuðurinn í Babýlon . . . og Markús, sonur minn, heilsa ykkur.“ (1. Pét. 5:13) Markús fór greinilega til Babýlonar til að þjóna við hlið postulans sem hafði mörgum árum áður verið viðstaddur kristnar samkomur á heimili móður hans.

Páll var aftur settur í fangelsi í Róm árið 65. Þar skrifaði hann bréf til Tímóteusar og bað hann að koma frá Efesus og bætti við: „Tak þú Markús með þér til mín.“ (2. Tím. 4:11) Þannig að Markús var þá í Efesus. Og eflaust hefur hann orðið við beiðni Páls um að snúa aftur til Rómar með Tímóteusi. Ferðalög voru ekki auðveld á þeim tíma en Markús fór sjálfviljugur í allar þessar ferðir.

Annað sérstakt verkefni

Markús fékk það stórkostlega verkefni að vera innblásið að skrifa eitt af guðspjöllunum. Þó að hvergi sé minnst á höfundinn í öðru guðspjallinu er það eignað Markúsi samkvæmt elstu hefðum og sagt að hann hafi fengið upplýsingarnar frá Pétri. Raunin er sú að Pétur varð vitni að nánast öllu sem Markús skrifaði um.

Sérfræðingar um Markúsarguðspjall telja að hann hafi skrifað það fyrir lesendur af hópi heiðingja. Hann gaf gagnlegar útskýringar á siðum Gyðinga í guðspjallinu. (Mark. 7:3; 14:12; 15:42) Markús þýddi arameísk orð sem óvíst var að aðrir en Gyðingar skildu. (Mark. 3:17; 5:41; 7:11, 34; 15:22, 34) Hann notar latínu töluvert og útskýrir jafnvel algeng grísk orð á latínu. Hann útskýrir hversu mikils virði peningar Gyðinga eru í rómverskri mynt. (Mark. 12:42) Allt þetta er í samræmi við það að Markús hafi skrifað guðspjallið í Róm eins og lengi hefur verið talið.

„Þarfur í þjónustunni“

Markús gerði ýmislegt fleira í Róm en að skrifa guðspjallið. Mundu að Páll sagði við Tímóteus: „Tak þú Markús með þér til mín.“ Hvers vegna vildi Páll það? „Hann er mér þarfur í þjónustunni.“ — 2. Tím. 4:11.

Þetta er í síðasta skiptið sem minnst er á Markús í Biblíunni ef miðað er við tímaröð og það segir okkur ýmislegt um hann. Hvergi er sagt að hann hafi verið í hlutverki postula, leiðtoga eða spámanns þegar starfi hans með söfnuðinum er lýst. Hann var þjónn, það er að segja maður sem þjónaði öðrum. Og á þessum tímapunkti, rétt fyrir dauða Páls, gat postulinn sannarlega notið góðs af stuðningi hans.

Þegar við tökum saman upplýsingarnar, sem við höfum um Markús, sjáum við að hann var kappsamur boðberi Guðsríkis. Hann starfaði á ýmsum ólíkum stöðum og var ánægður með að þjóna öðrum. Markús uppskar vissulega miklar blessanir vegna þess að hann gafst ekki upp.

Þjónar Guðs nú á tímum sýna sömu staðfestu og Markús við að prédika fagnaðarerindið. Líkt og hann hafa sum okkur getað flutt á aðra staði, jafnvel erlendis, til að boða fagnaðarerindið. Þó að fæst okkar hafi tök á því að flytja búferlum getum við öll líkt eftir Markúsi á annan hátt. Við getum verið fús til að aðstoða trúsystkini okkar að sinna þjónustunni við Jehóva eins og Markús sem lagði mikið á sig til að þjóna trúsystkinum sínum. Þegar við gerum það getum við verið viss um að við höfum áfram blessun Jehóva. — Orðskv. 3:27; 10:22; Gal. 6:2.

[Neðanmáls]

^ gr. 5 Það var algengt að samtímamenn Markúsar tækju sér annað nafn, annaðhvort af hebreskum eða erlendum uppruna. Gyðinglegt nafn Markúsar var Johanan — Jóhannes á íslensku. Latneskt nafn hans var Markús. — Post. 12:25.

[Kort/​mynd á bls. 8, 9]

(Sjá uppsettan texta í ritinu)

Nokkrar af þeim borgum sem Markús heimsótti

Róm

Efesus

Kólossa

Perge

Antíokkía (í Sýrlandi)

Kýpur

MIÐJARÐARHAF

Jerúsalem

Babýlon