Traust okkar á Jehóva styrktist við hverja raun
Traust okkar á Jehóva styrktist við hverja raun
Ada Dello Stritto segir frá
Ég var rétt að ljúka við að skrifa niður dagstextann í minnisbókina mína. Ég er 36 ára en það tók mig tvær klukkustundir að skrifa þessar fáu línur. Hvers vegna var ég svona lengi að því? Mamma ætlar að útskýra það. — Joel.
VIÐ hjónin létum skírast sem vottar Jehóva árið 1968. Við höfðum eignast tvo heilbrigða syni, David og Marc, þegar þriðji sonurinn Joel fæddist árið 1973. Hann kom fyrir tímann á sjúkrahúsi í borginni Binche í Belgíu, um 60 kílómetra fyrir sunnan Brussel. Hann vó aðeins tæpar sjö merkur. Þegar ég fór heim af spítalanum þurfti Joel að verða eftir til að þyngjast.
Nokkrar vikur liðu en Joel sýndi engar framfarir. Þá fórum við Luigi, eiginmaðurinn minn, með drenginn til barnalæknis. Þegar hann hafði skoðað Joel sagði hann: „Mér þykir það leitt. En Joel virðist hafa öll þau vandamál sem bræður hans hafa ekki.“ Það varð löng þögn. Á þeirri stundu varð mér ljóst að litli drengurinn okkar átti við erfið heilsuvandamál að stríða. Síðan fór læknirinn með manninn minn afsíðis og sagði við hann: „Sonur þinn er með þrístæðu 21,“ en það er einnig þekkt undir nafninu Downs-heilkenni. *
Við urðum mjög hrygg að fá þessa greiningu hjá barnalækninum og ákváðum að fara til annars sérfræðings. Hann skoðaði Joel litla vandlega í nærri klukkustund án þess að segja eitt einasta orð. Okkur Luigi fannst það heil eilífð. Loksins leit læknirinn upp og sagði: „Barnið verður mjög háð ykkur.“ Síðan bætti hann við vingjarnlegri röddu: „En Joel verður hamingjusamur af því að foreldrum hans þykir vænt um hann!“ Ég var yfirbuguð af geðshræringu, tók Joel í fangið og við fórum heim með hann. Hann var þá tveggja mánaða.
Samkomurnar og boðunarstarfið veittu okkur styrk
Frekari læknisrannsóknir leiddu í ljós að Joel var einnig með hættulegan hjartagalla og alvarlega beinkröm. Hjartað var of stórt og þrýsti
á lungun svo að honum var hætt við sýkingum. Það leið ekki á löngu þar til það gerðist. Fjögurra mánaða smitaðist Joel af berkjulungnabólgu og varð að fara aftur á spítalann þar sem hann var settur í sóttkví. Það var sársaukafullt að horfa á hann berjast. Okkur langaði til að halda á honum og láta vel að honum en í tvo og hálfan mánuð fengum við alls ekki að snerta hann. Það var erfiður tími fyrir okkur. Við Luigi gátum ekkert annað gert en að horfa á, halda utan um hvort annað og biðja.Á þessum erfiða tíma héldum við áfram að sækja samkomur með David og Marc sem voru þá sex og þriggja ára. Okkur fannst eins og Jehóva héldi í höndina á okkur þegar við vorum í ríkissalnum. Þar fannst okkur við geta varpað áhyggjum okkar á Jehóva og fundið fyrir innri friði, umkringd bræðrum og systrum. (Sálm. 55:23) Hjúkrunarkonurnar, sem önnuðust Joel, höfðu jafnvel orð á því að þær tækju eftir hvernig samkomurnar hjálpuðu okkur að halda ró okkar.
Á þessu tímabili bað ég Jehóva líka um styrk til að fara út í boðunarstarfið. Í stað þess að vera heima og gráta langaði mig til að tala við aðra og segja þeim hvers vegna það veitti mér styrk að treysta á loforð Guðs um heim án sjúkdóma. Í hvert sinn, sem ég gat tekið þátt í boðunarstarfinu, fannst mér að Jehóva hefði bænheyrt mig.
„Þetta er ótrúlegt!“
Það var mikill gleðidagur þegar við gátum loksins komið með Joel heim af sjúkrahúsinu. En strax næsta dag snerist gleði okkar upp í sorg. Joel versnaði snögglega og við urðum að þjóta með hann aftur á spítalann. Þegar læknarnir höfðu rannsakað hann sögðu þeir: „Joel á í mesta lagi eftir að lifa í hálft ár.“ Tveim mánuðum síðar, þegar hann var um átta mánaða, virtist forspá læknanna ætla að rætast því að Joel versnaði. Einn af læknunum settist hjá okkur og sagði: „Mér þykir leitt að þurfa að segja ykkur að við getum ekkert meira gert fyrir hann.“ Síðan bætti hann við: „Eins og nú er komið getur enginn nema Jehóva hjálpað honum.“
Ég fór aftur inn í sjúkrastofuna til Joels. Þótt ég hafi verið úrvinda, bæði tilfinningalega og líkamlega, var ég ákveðin í að fara ekki frá sjúkrabeði hans. Nokkrar trúsystur skiptust á að vera hjá mér þar sem Luigi þurfti að hugsa um eldri drengina. Vika leið. Þá fékk Joel skyndilega hjartaáfall. Hjúkrunarkonurnar komu þjótandi inn í stofuna en gátu ekkert gert til að hjálpa honum. Eftir nokkrar mínútur sagði ein þeirra hæglátlega: „Því er lokið . . .“ Úrvinda og niðurbrotin brast ég í grát og yfirgaf sjúkrastofuna. Ég reyndi að biðja til Jehóva en fann varla orð til að lýsa kvöl minni. Stundarfjórðungur leið. Þá kallaði hjúkrunarkona til mín: „Joel er að ranka við sér!“ Hún tók undir handlegginn á mér og sagði: „Komdu, þú getur farið inn til hans núna.“ Þegar ég kom inn til Joels var hjartað farið að slá aftur! Þetta var ekki lengi að fréttast og hjúkrunarkonur og læknar komu til að líta á hann. „Þetta er ótrúlegt!“ sögðu margir.
Fjögurra ára tók Joel undravert skref
Fyrstu árin eftir að Joel fæddist sagði barnalæknirinn ítrekað við okkur: „Joel þarfnast mikillar ástúðar.“ Þar sem við Luigi höfðum fundið sterkt fyrir ástríkri umhyggju Jehóva
eftir að Joel fæddist langaði okkur líka til að umvefja son okkar ást og umhyggju. Við höfðum mörg tækifæri til þess því að hann þurfti aðstoð við allt sem hann gerði.Fyrstu sjö árin í lífi Joels máttum við búast við sömu atburðarásinni á hverju ári. Frá október til mars kom upp hjá honum hvert heilsuvandamálið eftir annað og við urðum að fara með hann fram og til baka á sjúkrahúsið. Ég reyndi jafnframt að verja eins miklum tíma og ég mögulega gat með David og Marc. Þeir áttu líka mikinn þátt í því að Joel tók framförum og það með undraverðum árangri. Ýmsir læknar höfðu til dæmis sagt okkur að Joel myndi aldrei geta gengið. En dag einn þegar Joel var fjögurra ára sagði Marc: „Komdu Joel, sýndu mömmu hvað þú getur!“ Mér til undrunar tók Joel fyrstu skrefin! Við glöddumst og fjölskyldan bað saman og þakkaði Jehóva af öllu hjarta. Við hrósuðum Joel alltaf og sýndum hrifningu okkar jafnvel þótt hann bætti aðeins litlu við sig á einhverju sviði.
Trúarlegt uppeldi ber góðan árangur
Við fórum með Joel á samkomur í ríkissalnum eins oft og mögulegt var. Við settum hann í sérstaka barnakerru sem var lokuð með gegnsærri yfirbreiðslu úr plasti til að vernda hann gegn sýklum sem gátu auðveldlega valdið honum veikindum. Og þótt hann sæti undir yfirbreiðslunni hafði hann gaman af því að vera með söfnuðinum.
Trúsystkini okkar veittu okkur mikinn styrk og umvöfðu okkur gæsku. Þau veittu okkur þá hjálp sem við þörfnuðumst. Einn bróðirinn minnti okkur oft á orðin í Jesaja 59:1: „Sjá, hönd Drottins er eigi svo stutt að hann geti ekki hjálpað og eyra hans ekki svo dauft að hann heyri ekki.“ Þessi hughreystandi orð hjálpuðu okkur að treysta Jehóva.
Þegar Joel stækkaði reyndum við að kenna honum að þjóna Jehóva eftir bestu getu. Við öll tækifæri töluðum við um Jehóva þannig að hann lærði að elska himneskan föður sinn. Við báðum Jehóva innilega að blessa viðleitni okkar svo að trúarlega uppeldið bæri ávöxt.
Þegar Joel komst á unglingsárin gladdi það okkur að sjá hve gaman hann hafði af því að segja öðrum frá sannleika Biblíunnar. Meðan hann var að ná sér eftir meiri háttar skurðaðgerð, 14 ára gamall, gladdi það mig þegar Joel spurði: „Mamma, má ég gefa skurðlækninum bókina Lifað að eilífu?“ Nokkrum árum síðar þurfti Joel að gangast undir aðra skurðaðgerð. Við vissum vel að það gæti svo farið að hann lifði hana ekki af. Fyrir skurðaðgerðina rétti Joel lækninum bréf sem við höfðum hjálpað honum með. Þar var útskýrð afstaða hans til notkunar á blóði. Skurðlæknirinn spurði Joel: „Og ertu sammála þessu?“ Joel svaraði ákveðið: „Já, læknir.“ Við vorum svo stolt af því að sonur okkur bar traust til skapara síns og var ákveðinn í að gleðja hann. Starfsfólkið á
spítalanum var mjög hjálplegt og fyrir það erum við innilega þakklát.Joel tekur framförum í trúnni
Joel vígði líf sitt Guði og lét skírast þegar hann var 17 ára. Það var ógleymanlegur dagur. Við fyllumst gleði að sjá framfarir hans í trúnni. Síðan hefur hvorki dregið úr kærleika hans til Jehóva né áhuga hans á sannleikanum. Honum þykir mjög gaman að segja við hvern sem hann hittir: „Sannleikurinn er líf mitt!“
Þegar leið á unglingsárin lærði Joel að lesa og skrifa. Það var mikið átak. Hvert einasta orð sem honum tókst að skrifa var sigur. Nú byrjar hann hvern dag á því að rannsaka dagstextann í ritinu Rannsökum daglega ritningarnar. Síðan afritar hann vandlega ritningarstaðinn í eina af minnisbókunum sínum en þær eru núna orðnar að glæsilegu safni.
Á samkomudögum sér Joel um að við komum í fyrra fallinu í ríkissalinn því að hann vill mæta þar snemma og bjóða alla hjartanlega velkomna sem koma inn í salinn. Honum þykir gaman að svara á samkomum og vera með í sýnikennslu. Hann hjálpar einnig við að sjá um hljóðnemana og ýmislegt annað. Hann fer með okkur út í starfið í hverri viku þegar heilsan leyfir. Árið 2007 var söfnuðinum tilkynnt að Joel hefði verið útnefndur safnaðarþjónn. Við táruðumst af gleði. Jehóva blessaði okkur á yndislegan hátt.
Við finnum fyrir hjálparhönd Jehóva
Árið 1999 urðum við fyrir annarri prófraun. Gálaus ökumaður ók á bílinn okkar og Luigi slasaðist alvarlega. Það varð að taka af honum annan fótinn og hann gekkst undir nokkrar skurðaðgerðir á hrygg. Með því að treysta á Jehóva fundum við aftur fyrir þeim styrk sem hann gefur þjónum sínum í neyð. (Fil. 4:13) Þótt Luigi eigi við fötlun að stríða reynum við að horfa á björtu hliðarnar. Þar sem hann er óvinnufær hefur hann meiri tíma til að annast Joel. Og þá hef ég meira svigrúm til að taka virkan þátt í þjónustunni við Jehóva. Luigi hefur rúman tíma til að annast andlegar þarfir fjölskyldunnar og safnaðarins en hann er enn þá umsjónarmaður öldungaráðsins.
Þar sem við lifum við óvenjulegar aðstæður er fjölskyldan mjög mikið saman. Með tímanum höfum við lært að vera sanngjörn og stilla væntingum okkar í hóf. Þegar við erum niðurdregin látum við Jehóva vita um líðan okkar í bæn. Því miður hættu synir okkar, David og Marc, smám saman að þjóna Jehóva þegar þeir komust á fullorðinsárin og fluttu að heiman. Við vonumst til að þeir eigi eftir að snúa aftur til Jehóva. — Lúk. 15:17-24.
Með árunum höfum við fundið að Jehóva hefur styrkt okkur og við höfum lært að treysta honum í öllu því andstreymi sem mætir okkur. Orðin í Jesaja 41:13 eru okkur sérstaklega kær: „Ég, Drottinn, er Guð þinn, ég held í hægri hönd þína og segi við þig:,Óttast eigi, ég bjarga þér.‘“ Að vita að Jehóva heldur fast í hendi okkar veitir huggun. Við getum sagt með sanni að traust okkar á Jehóva, himneskum föður okkar, styrktist við hverja raun.
[Neðanmáls]
^ gr. 5 Þrístæða 21 er meðfæddur galli sem veldur skertri greind. Litningarnir eru venjulega tveir og tveir saman en börn, sem eru með þrístæðu, eru með aukalitning á einni samstæðunni. Þrístæða 21 hefur áhrif á litning 21.
[Myndir á bls. 16, 17]
Joel og Ada, móðir hans.
[Mynd á bls. 18]
Ada, Joel og Luigi.
[Mynd á bls. 19]
Joel nýtur þess að bjóða bræður og systur velkomin í ríkissalinn.