Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Af hverju eigum við að sýna hinum öldruðu virðingu?

Af hverju eigum við að sýna hinum öldruðu virðingu?

Af hverju eigum við að sýna hinum öldruðu virðingu?

VIÐ strönd Kaliforníu í Bandaríkjunum stendur tré sem ótal ljósmyndarar hafa fest á filmu. Tréð er kallað „einmana kýprusviðurinn“. Talið er að þetta fallega tré sé meira en 250 ára og vegna þess hve mikið það hefur staðið af sér hefur það hlotið ýmiss konar eftirtekt. Til dæmis hefur vír verið strengdur í tréð og steinar hlaðnir í kringum það til að veita því stuðning.

„Einmana kýprusviðurinn“ minnir okkur ef til vill á öldruð trúsystkini okkar sem sýna mikla þrautseigju. Þau gera það meðal annars með því að boða fagnaðarerindið. Spámaðurinn Jóel sagði fyrir að „gamalmenni“ myndu flytja fólki boðskap Biblíunnar. (Jóel 3:1-5; Post. 2:16-21) Hugsaðu um allan þann tíma sem þau verja til þess að fræða fólk um „fagnaðarerindið um ríkið“. (Matt. 24:14) Sumir þessara öldruðu boðbera hafa staðist áralangar ofsóknir eða aðra erfiðleika. Fyrst einn kýprusviður vekur athygli fyrir þrautseigju og fær stuðning með steinhleðslu og vírum, verðskulda þá ekki hinir öldruðu á meðal okkar miklu frekar athygli okkar og virðingu?

Jehóva Guð fyrirskipaði fólki sínu til forna: „Þú skalt standa upp fyrir hinum gráhærða og virða öldunga.“ (3. Mós. 19:32) Meðal fólks Guðs nú á dögum eru margir sem hafa þjónað Guði trúfastlega svo áratugum skiptir. (Míka 6:8) Þegar þeir halda áfram að fara eftir meginreglum Biblíunnar verða gráu hárin á höfði þeirra eins og „heiðurskóróna“. — Orðskv. 16:31.

Páll postuli sagði hinum unga Tímóteusi: „Ávíta þú ekki aldraðan mann harðlega.“ Tímóteus átti öllu heldur að „uppörva hann sem föður“ og „aldraðar konur sem mæður“. (1. Tím. 5:1, 2) Tímóteus átti sem sagt að „standa upp“ fyrir hinum gráhærðu. Jehóva ætlast því augljóslega til að slík virðing birtist í tali okkar.

Í Rómverjabréfinu 12:10 segir: „Keppist um að sýna hvert öðru virðingu.“ Umsjónarmenn safnaðarins sýna öldruðum trúsystkinum vissulega virðingu. En við eigum öll að keppast við að sýna hvert öðru virðingu.

Að sjálfsögðu ber fjölskyldunni sérstök skylda til að hugsa um foreldra sína og afa og ömmur. Fólk hefur leitað ýmissa leiða til að varðveita „einmana kýprusviðinn“ og heldur því áfram. Við ættum sömuleiðis að leita allra leiða til að foreldrar okkar og afar og ömmur haldi reisn sinni. Ef við hlustum á þau með athygli kemur það í veg fyrir að við gerum hlutina eftir okkar höfði án þess að taka tillit til tilfinninga þeirra. — Orðskv. 23:22; 1. Tím. 5:4.

Hinir öldruðu meðal okkar eru afar dýrmætir í augum Jehóva. Hann yfirgefur þá aldrei. (Sálm. 71:18) Hinn sanni Guð styrkir þá öllu heldur svo að þeir haldi áfram að þjóna honum trúfastlega. Við skulum líka halda áfram að styðja hina öldruðu og sýna þeim virðingu.

[Myndir á bls. 7]

Hinir öldruðu þurfa á því að halda að þeim sé sýnd virðing og heiður ekki ósvipað og „einmana kýprusviðurinn“ þarf að fá stuðning.

[Rétthafi myndar]

American Spirit Images/​age fotostock