Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Bræður — sáið í andann og sækist eftir þjónustuverkefnum

Bræður — sáið í andann og sækist eftir þjónustuverkefnum

Bræður — sáið í andann og sækist eftir þjónustuverkefnum

„Sá sem sáir í andann mun . . . uppskera eilíft líf.“ — GAL. 6:8.

1, 2. Hvernig eru orðin í Matteusi 9:37, 38 að rætast og á hverju er þar af leiðandi þörf í söfnuðinum?

SÖGULEGUR atburður á sér stað um allan heim. Það starf, sem Jesús Kristur talaði um, er í fullum gangi. Hann sagði: „Uppskeran er mikil en verkamenn fáir. Biðjið því Drottin uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar.“ (Matt. 9:37, 38) Jehóva Guð svarar nú slíkum bænum í áður óþekktum mæli. Á þjónustuárinu 2009 fjölgaði söfnuðum Votta Jehóva um 2.031 og eru þeir nú 105.298 talsins. Að meðaltali létu 757 skírast á hverjum degi.

2 Slíkur vöxtur kallar á að hæfir bræður taki forystuna í að kenna söfnuðinum og vera hirðar hans. (Ef. 4:11) Á liðnum áratugum hefur Jehóva vakið upp hæfa karlmenn til að gæta sauða sinna og við erum alveg viss um að hann haldi því áfram. Af spádóminum í Míka 5:4 sjáum við að á síðustu dögum myndi fólk Guðs hafa ,sjö hirða og átta smurða leiðtoga‘, sem táknar að töluverður fjöldi hæfra manna yrði til staðar til að fara með forystu í söfnuðinum.

3. Útskýrðu hvað það merkir að ,sá í andann‘.

3 Ertu skírður bróðir? Hvað getur þá vakið með þér löngun til að sækjast eftir þjónustuverkefnum í söfnuðinum? Það skiptir höfuðmáli að þú „sáir í andann“. (Gal. 6:8) Það felur í sér að þú hagir lífi þínu þannig að heilagur andi Guðs geti haft áhrif á þig. Vertu staðráðinn í að ,sá ekki í holdið‘. Láttu ekki þægindi, afþreyingu eða skemmtun kæfa löngun þína til að gera meira í þjónustu Guðs. Allir kristnir menn ættu að ,sá í andann‘ og hugsanlegt er að karlmenn, sem gera það, verði með tímanum skipaðir í ábyrgðarstöður í söfnuðinum. Þörfin fyrir safnaðarþjóna og öldunga er gífurleg og því er þessari grein sérstaklega beint til skírðra karlmanna. Bræður, við hvetjum ykkur því til að hugleiða málið og leggja það fyrir Jehóva í bæn.

Sækstu eftir göfugu hlutverki

4, 5. (a) Hvaða þjónustuverkefnum eru skírðir bræður hvattir til að sækjast eftir? (b) Hvernig geta bræður sóst eftir verkefnum innan safnaðarins?

4 Kristinn karlmaður verður ekki sjálfkrafa umsjónarmaður. Hann þarf að sækjast eftir þessu ,göfuga hlutverki‘. (1. Tím. 3:1) Það felur í sér að þjóna trúsystkinum með því að sinna þörfum þeirra af áhuga. (Lestu Jesaja 32:1, 2.) Sá sem sækist eftir þjónustustarfi af réttum hvötum er ekki metnaðargjarn heldur langar einlæglega til að verða öðrum til hjálpar.

5 Bræður sækjast eftir að verða safnaðarþjónar og umsjónarmenn með því að leggja sig fram um að uppfylla hæfniskröfurnar í Biblíunni. (1. Tím. 3:1-10, 12, 13; Tít. 1:5-9) Ertu skírður bróðir? Veltu þessum spurningum þá fyrir þér: Tek ég sem mestan þátt í boðunarstarfinu og hjálpa ég öðrum að gera það sömuleiðis? Byggi ég upp trúsystkini mín með því að láta mér einlæglega annt um velferð þeirra? Er ég þekktur fyrir að vera duglegur biblíunemandi? Reyni ég að bæta svör mín á safnaðarsamkomum? Sinni ég vandlega þeim verkefnum sem öldungarnir fela mér? (2. Tím. 4:5) Hugsa þarf alvarlega um þessar spurningar.

6. Hvað þarf bróðir að gera til að verða hæfur til að sinna ábyrgðarstörfum í söfnuðinum?

6 Önnur leið til að verða hæfur til að sinna ábyrgðarstörfum í söfnuðinum er sú að „að styrkjast fyrir [Guðs] anda í hinum innra manni“. (Ef. 3:16, Nýja testamenti Odds) Sá sem verður safnaðarþjónn eða öldungur er ekki kosinn í embætti. Þjónustuverkefni er eingöngu hægt að fá með því að taka framförum í trúnni. Hvernig er hægt að gera það? Ein leið til þess er að ,lifa í andanum‘ og þroska með sér ávöxt hans. (Gal. 5:16, 22, 23) Þegar þú sýnir þá góðu eiginleika sem þarf til að bera aukna ábyrgð og þegar þú ferð eftir ráðleggingum sem þér hafa verið gefnar verður „framför þín . . . öllum augljós“. — 1. Tím. 4:15.

Fórnfýsi er nauðsynleg

7. Hvað felur það í sér að þjóna öðrum?

7 Að þjóna öðrum felur í sér mikla vinnu og útheimtir fórnfýsi. Umsjónarmenn í söfnuðinum eru andlegir hirðar og því snerta vandamál hjarðarinnar þá mjög. Líttu á hvaða áhrif það hafði á Pál postula að bera þessa ábyrgð á hjörðinni. Hann sagði trúsystkinum sínum í Korintu: „Af mikilli þrengingu og hjartans trega skrifaði ég ykkur með mörgum tárum, ekki til þess að þið skylduð hryggjast heldur til þess að þið skylduð komast að raun um þann mikla kærleik sem ég ber til ykkar.“ (2. Kor. 2:4) Það er augljóst að Páll gaf sig allan í þetta verkefni.

8, 9. Nefndu dæmi úr Biblíunni sem sýna hvernig karlmenn önnuðust aðra.

8 Fórnfýsi hefur alltaf einkennt þá sem hafa lagt hart að sér í þágu þjóna Jehóva. Getum við ímyndað okkur Nóa segja við fjölskyldu sína: „Látið mig vita þegar örkin verður tilbúin svo að ég geti farið inn í hana með ykkur“? Móse sagði ekki við Ísraelsmenn í Egyptalandi: „Ég hitti ykkur við Rauðahafið. Reynið að komast þangað klakklaust.“ Jósúa sagði ekki: „Látið mig vita þegar múrar Jeríkó falla.“ Og Jesaja benti ekki á einhvern annan og sagði: „Þarna er hann. Sendu hann.“ — Jes. 6:8.

9 Jesús Kristur er besta dæmið um mann sem leyfði anda Guðs að hafa áhrif á sig. Hann þáði fúslega það verkefni að vera lausnari mannkyns. (Jóh. 3:16) Ætti fórnfýsi hans og kærleikur ekki að hvetja okkur til að vera fórnfús líka? Gamalreyndur öldungur lýsti viðhorfi sínu til hjarðarinnar og sagði: „Það sem Jesús sagði við Pétur — vertu hirðir sauða minna — hefur mikil áhrif á mig. Með árunum hef ég betur séð hvernig nokkur hlýleg orð eða lítið góðverk getur uppörvað aðra. Ég hef unun af hirðastarfinu.“ — Jóh. 21:16.

10. Hvað getur fengið kristna karlmenn til að líkja eftir fordæmi Jesú og þjóna öðrum?

10 Skírðir bræður í söfnuðinum vilja vissulega hafa sama viðhorf til hjarðar Guðs og Jesús hafði, en hann sagði: „Ég mun veita yður hvíld.“ (Matt. 11:28) Vegna trúar sinnar á Guð og kærleika til safnaðarins finna kristnir karlmenn hjá sér löngun til að sækjast eftir þessu göfuga hlutverki og þeir hugsa ekki sem svo að það sé of krefjandi. En hvað nú ef skírðan bróður langar ekkert sérstaklega til að sækjast eftir þjónustuverkefni? Getur hann þroskað með sér löngun til að þjóna söfnuðinum?

Þroskaðu með þér löngun til að þjóna öðrum

11. Hvernig er hægt að þroska með sér löngun til að þjóna öðrum?

11 Ef minnimáttarkennd hefur staðið í vegi fyrir því að þú sækist eftir umsjónarstarfi er viðeigandi að þú biðjir um heilagan anda. (Lúk. 11:13) Andi Jehóva hjálpar þér að sigrast á þeim áhyggjum sem þú kannt að hafa varðandi þetta starf. Löngunin til að þjóna kemur frá Guði því að andi hans hvetur bræður til að sækjast eftir umsjónarstarfi og veitir þeim síðan styrk til að geta sinnt heilagri þjónustu. (Fil. 2:13; 4:13) Það er því rétt að þú biðjir Jehóva um að hjálpa þér að þroska með þér löngun til að þiggja þjónustuverkefni. — Lestu Sálm 25:4, 5.

12. Hvernig geta bræður öðlast næga visku til að sinna ábyrgðarstarfi?

12 Skírður bróðir ákveður kannski að sækjast ekki eftir umsjónarstarfi af því að honum virðast þarfir safnaðarins vera flóknar og krefjandi. Eða kannski finnst honum að hann skorti visku til að sinna þessu ábyrgðarstarfi. Ef sú er raunin getur hann eflaust öðlast visku með því að verða duglegri að lesa í Biblíunni og biblíutengdum ritum. Hann ætti að spyrja sig hvort hann taki frá tíma til biblíunáms og hvort hann biðji Guð um visku. Lærisveinninn Jakob skrifaði: „Ef einhvern mann í ykkar hópi brestur visku, þá biðji hann Guð sem gefur öllum örlátlega og átölulaust og honum mun gefast.“ (Jak. 1:5) Trúirðu þessum innblásnu orðum? Guð svaraði bæn Salómons og gaf honum „skynugt hjarta“ sem gerði honum kleift að greina á milli góðs og ills þegar hann þurfti að dæma í ýmsum málum. (1. Kon. 3:7-14) Satt er það að staða Salómons var sérstök. En við getum verið viss um að Guð veitir þeim visku sem falin er ábyrgð í söfnuðinum svo að þeir geti hugsað vel um sauði hans. — Orðskv. 2:6.

13, 14. (a) Útskýrðu hvaða áhrif „kærleiki Krists“ hafði á Pál. (b) Hvaða áhrif ætti „kærleiki Krists“ að hafa á okkur?

13 Fleira er hægt að gera til að þroska með sér löngun til að þjóna öðrum. Ein góð leið er sú að hugsa vandlega um allt sem Jehóva og sonur hans hafa gert fyrir okkur. Lítum til dæmis á 2. Korintubréf 5:14, 15(Lestu.) Hvernig, knýr kærleiki Krists okkur‘? Þegar Kristur laut vilja Guðs og gaf líf sitt í okkar þágu sýndi hann kærleika sem er svo einstakur að því betur sem við kunnum að meta hann, þeim mun meira hreyfir hann við hjarta okkar. Páll lét kærleika Krists stýra lífsstefnu sinni. Þessi kærleikur aftraði honum frá því að vera eigingjarn og hjálpaði honum að einbeita sér að því að þjóna Guði og fólki innan sem utan safnaðarins.

14 Ef við gefum okkur tíma til að hugsa um þann kærleika sem Kristur ber til fólks vekur það með okkur þakklæti. Í kjölfarið gerum við okkur ljóst að það væri algerlega óviðeigandi að halda áfram að ,sá í holdið‘ með því að keppa að eigingjörnum markmiðum og lifa lífinu aðallega eins og okkur hentar. Þess í stað gerum við breytingar á lífi okkar svo að við getum gefið okkur að því verkefni sem Guð hefur falið okkur. Við finnum okkur knúin til að ,þjóna‘ trúsystkinum okkar í kærleika. (Lestu Galatabréfið 5:13.) Við sýnum trúsystkinum okkar virðingu ef við lítum á okkur sem þjóna og vinnum auðmjúk í þeirra þágu. Við myndum alls ekki taka undir þá gagnrýni eða dómhörku sem Satan ýtir undir. — Opinb. 12:10.

Fjölskylduverkefni

15, 16. Hvaða hlutverki gegnir fjölskyldan þegar bróðir sækist eftir að verða safnaðarþjónn eða öldungur?

15 Ef bróðir er kvæntur og á börn er einnig tekið mið af fjölskyldu hans þegar skoðað er hvort hann sé hæfur til að verða safnaðarþjónn eða öldungur. Orðstír og trúrækni fjölskyldunnar hefur því bein áhrif á útnefningu hans. Það er því afar mikilvægt að fjölskyldan styðji við bakið á eiginmanni og föður er hann leitast við að þjóna söfnuðinum sem safnaðarþjónn eða öldungur. — Lestu 1. Tímóteusarbréf 3:4, 5, 12.

16 Það gleður Jehóva þegar fjölskyldan vinnur vel saman. (Ef. 3:14, 15) Fjölskyldufaðirinn þarf að hafa gott jafnvægi til að sinna ábyrgðarstörfum innan safnaðarins og jafnframt veita fjölskyldunni „góða forstöðu“. Það er því mikilvægt að öldungur eða safnaðarþjónn taki frá eitt kvöld í hverri viku til sameiginlegs biblíunáms með fjölskyldunni til gagns fyrir alla. Hann ætti einnig að fara reglulega með þeim í boðunarstarfið. Að sama skapi er mikilvægt að fjölskyldan vinni vel með fjölskylduföðurnum.

Muntu þjóna á ný?

17, 18. (a) Hvað þarf bróðir að vera fús til að gera ef hann er ekki lengur hæfur til að gegna umsjónarstarfi? (b) Hvaða viðhorf ætti bróðir að tileinka sér ef hann þjónaði áður sem öldungur eða safnaðarþjónn?

17 Varstu kannski öldungur eða safnaðarþjónn en ert það ekki lengur? Þú elskar Jehóva og mátt vera viss um að hann ber enn umhyggju fyrir þér. (1. Pét. 5:6, 7) Var þér sagt að þú þyrftir að gera einhverjar breytingar? Vertu fús til að viðurkenna mistök þín og reyndu að bæta þig með hjálp Guðs. Gættu þess að verða ekki bitur. Vertu skynsamur og jákvæður. Bróðir sem hafði verið öldungur í mörg ár en varð að hætta sem slíkur sagði: „Ég var ákveðinn í að vera jafn duglegur við samkomusókn, boðunarstarf og biblíulestur og ég hafði verið meðan ég var öldungur, og mér tókst að ná því markmiði. Ég lærði að vera þolinmóður því að ég bjóst við að endurheimta umsjónarstarf mitt á einu eða tveimur árum en það tók næstum sjö ár þar til ég gat þjónað aftur sem öldungur. Ég tók til mín hvatninguna að gefast ekki upp heldur halda áfram að sækjast eftir umsjónarstarfi og það hjálpaði mér mikið á þessum tíma.“

18 Ef þú ert í svipaðri aðstöðu skaltu alls ekki missa kjarkinn. Hugleiddu hvernig Jehóva blessar þjónustu þína og fjölskyldu núna. Byggðu upp trú fjölskyldu þinnar, heimsæktu sjúka og uppörvaðu hina óstyrku. Mettu umfram allt að verðleikum þann heiður sem þér hefur hlotnast að lofa Guð og boða fagnaðarerindið um ríkið sem vottur Jehóva. * — Sálm. 145:1, 2; Jes. 43:10-12.

Skoðaðu aðstæður þínar upp á nýtt

19, 20. (a) Hvað eru allir skírðir bræður hvattir til að gera? (b) Um hvað verður fjallað í næstu námsgrein?

19 Núna er meiri þörf fyrir umsjónarmenn og safnaðarþjóna en nokkru sinni fyrr. Við hvetjum því alla skírða bræður til að skoða aðstæður sínar upp á nýtt og spyrja sig: „Ef ég er hvorki safnaðarþjónn né öldungur ætti ég þá ekki að brjóta til mergjar hvers vegna ég gegni ekki ábyrgðarstarfi í söfnuðinum?“ Leyfðu anda Guðs að hjálpa þér að tileinka þér rétt viðhorf til þessa mikilvæga máls.

20 Allir í söfnuðinum njóta góðs af fórnfúsri þjónustu trúbræðra sinna. Þegar við stundum góð verk af óeigingirni uppskerum við gleðina sem hlýst af því að þjóna öðrum og sá í andann. En eins og kemur fram í næstu námsgrein megum við ekki hryggja heilagan anda Guðs. Hvernig getum við varast það?

[Neðanmáls]

Hvert er svarið?

• Hvað má sjá af spádóminum í Míka 5:4?

• Hvað er fólgið í fórnfýsi?

• Hvernig er hægt að þroska með sér löngun til að þjóna öðrum?

• Hversu mikilvægt er að fjölskyldan vinni saman þegar bróðir sækist eftir þjónustuverkefnum í söfnuðinum?

[Spurningar]

[Myndir á bls. 25]

Hvað geturðu gert til að sækjast eftir þjónustuverkefnum í söfnuðinum?