Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Frumkristnin og guðir Rómar

Frumkristnin og guðir Rómar

Frumkristnin og guðir Rómar

PLÍNÍUS yngri, landstjóri Biþýníu, skrifaði í bréfi til rómverska keisarans Trajanusar: „Þessa stefnu hef ég tekið varðandi þá sem eru færðir fram fyrir mig og sakaðir um að vera kristnir. Ég spyr þá hvort þeir séu kristnir og ef þeir játa því spyr ég þá í annað og þriðja sinn með hótunum um refsingar. Ef þeir halda áfram að segjast vera kristnir dæmi ég þá til aftöku.“ Hann skrifaði um þá sem afneituðu kristninni með því að bölva Kristi og tilbiðja styttu af keisaranum og líkneski af guðum sem Plíníus hafði fært inn í réttarsalinn: „Ég tel rétt að sleppa þeim úr haldi.“

Frumkristnir menn voru ofsóttir vegna þess að þeir neituðu að tilbiðja keisarann og líkneski hinna ýmsu guða. En hvað um önnur trúarbrögð innan Rómaveldis? Hvaða guðir voru tilbeðnir og hvernig litu Rómverjar á þá? Af hverju voru kristnir menn ofsóttir fyrir að neita að færa guðum Rómar fórnir? Svörin við þessum spurningum geta hjálpað okkur að takast á við svipuð vandamál nú á dögum sem tengjast hollustu við Jehóva.

Trúarbrögð innan heimsveldisins

Íbúar Rómaveldis töluðu ólík tungumál og tilheyrðu hinum ýmsu menningarsamfélögum. Guðirnir, sem þeir tilbáðu, voru að sama skapi fjölbreytilegir. Þótt Rómverjum hafi eflaust fundist gyðingdómurinn óvenjulegur litu þeir á hann sem religio licita, eða viðurkennd trúarbrögð, og vernduðu hann. Tvisvar á dag var tveimur lömbum og nauti fórnað í musterinu í Jerúsalem fyrir keisarann og rómversku þjóðina. Í augum Rómverja skipti ekki máli hvort þessar fórnir friðuðu einn guð eða marga. Það sem skipti máli var að fórnin gaf þeim næga sönnun fyrir því að Gyðingar væru þeim hliðhollir.

Heiðni í ýmsum myndum var algeng í staðbundnum trúarreglum. Grísk goðafræði hafði notið almennrar viðurkenningar og spásagnir voru algengar. Svokölluð dultrú Austurlanda lofaði áhangendum sínum ódauðleik, beinni opinberun og að nálgast guðina í gegnum dulrænar trúarathafnir. Þessi trúarbrögð dreifðust um allt heimsveldið. Á fyrstu öldunum eftir Krist var vinsælt að tilbiðja egypska guðinn Serapis og gyðjuna Ísis, sýrlensku fiskigyðjuna Atargatis og persneska sólguðinn Míþras.

Postulasagan dregur upp skýra mynd af heiðnu andrúmsloftinu sem frumkristnir menn bjuggu við. Sem dæmi má nefna að rómverski landstjórinn á Kýpur hafði í fylgd með sér töframann nokkurn sem var Gyðingur. (Post. 13:6, 7) Í Lýstru hélt mannfjöldinn að Páll og Barnabas væru grísku guðirnir Hermes og Seifur. (Post. 14:11-13) Þegar Páll var í Filippí hitti hann ambátt sem hafði spásagnaranda. (Post. 16:16-18) Í Aþenu sagði Páll að honum fyndist íbúarnir vera „í öllum greinum miklir trúmenn“. Í borginni hafði hann einnig séð altari sem var tileinkað „ókunnum guði“. (Post. 17:22, 23) Íbúar Efesus tilbáðu gyðjuna Artemis. (Post. 19:1, 23, 24, 34) Og á eynni Möltu hélt fólk að Páll væri guð því að honum varð ekki meint af snákabiti. (Post. 28:3-6) Við slíkar aðstæður þurftu kristnir menn að vera á verði gegn áhrifum sem hefðu getað haft skaðleg áhrif á sanna tilbeiðslu.

Rómversk trúarbrögð

Eftir því sem heimsveldið stækkaði viðurkenndu Rómverjar fleiri guði. Þeir trúðu því að þetta væru sömu guðir og þeir þekktu fyrir, bara í annarri mynd. Í stað þess að útrýma erlendum trúarsiðum viðurkenndu Rómverjar þessa siði og tóku þá upp á arma sína. Trúarbrögð Rómar urðu því jafn fjölbreytileg og íbúarnir frá hinum ýmsu menningarheimum. Samkvæmt trúarbrögðum Rómar var óskipt hollusta ekki nauðsynleg. Fólk gat tilbeðið marga ólíka guði á sama tíma.

Júpíter var æðstur hinna upprunalegu rómversku guða. Hann var kallaður Optimus Maximus, sá besti og mesti. Menn töldu hann birtast í vindi, rigningu, þrumum og eldingum. Júnó, systir Júpíters og maki, var sett í samband við tunglið og hún átti að vaka yfir öllum þáttum í lífi kvenna. Dóttir hans, Mínerva, var gyðja handiðna, starfsgreina, lista og stríðs.

Guðir Rómar virtust óteljandi. Larar og penatar voru fjölskylduvættir. Vesta var gyðja arinelds. Janus var með tvær ásjónur og talinn guð alls upphafs. Hver starfsgrein hafði sinn verndarguð. Rómverjar höfðu jafnvel guði fyrir óhlutstæð hugtök. Pax verndaði friðinn, Salus heilsuna, Pudicitia var gyðja hógværðar og skírlífis, Fídes gyðja frjósemi, Virtus guð hugrekkis og Volupatas gyðja nautnar. Hver einasti þáttur í lífi Rómverja var talinn lúta vilja guðanna, hvort sem það var opinberlega eða í einkalífinu. Til að fólki gengi vel í því sem það tók sér fyrir hendur þurfti það að blíðka viðeigandi guð með trúarbænum, fórnum og hátíðahöldum.

Ein leið til að finna út hver væri vilji guðanna var að leita að fyrirboðum. Ein helsta leiðin til að gera það var að rannaka innyfli fórnardýra. Talið var að ástand og útlit innyflanna gæfi til kynna hvort guðirnir hefðu vanþóknun eða velþóknun á því sem átti að gera.

Undir lok annarrar aldar f.Kr. voru Rómverjar farnir að tengja helstu guði sína við grísku guðina — Júpíter var hliðstæða Seifs, Júnó samsvaraði Heru og svo framvegis. Rómverjar höfðu líka tekið upp grísku goðafræðina. Þessar goðsagnir fegruðu alls ekki guðina. Þeir höfðu sömu galla og takmörk og mennirnir. Seifi var til dæmis lýst sem nauðgara og barnaníðingi sem hafði kynmök jafnt við dauðlega og þá sem taldir voru ódauðlegir. Blygðunarlaust framferði guðanna — sem oft var fagnað dátt í hringleikahúsum fornaldar — gaf tilbiðjendunum leyfi til að láta undan lágkúrulegustu hvötum.

Líklega hefur fátt menntað fólk tekið þessar goðsögur bókstaflega. Sumir túlkuðu þær sem líkingasögur. Þetta andrúmsloft er kannski ástæðan fyrir frægri spurningu Pontíusar Pílatusar: „Hvað er sannleikur?“ (Jóh. 18:38) Hún lýsti „þeirri almennu skoðun menntaðra manna að það væri til einskis að reyna að fullyrða neitt um þessi mál“.

Keisaradýrkun

Í stjórnartíð Ágústusar (27 f.Kr. til 14 e.Kr.) hófst keisaradýrkun. Margir fundu til þakklætis í garð Ágústusar, sérstaklega í grískumælandi héruðunum í austri, því að þar hafði hann komið á velmegun og friði eftir langan ófriðartíma. Fólkið vildi halda áfram að njóta verndar sýnilegs yfirvalds. Það vildi stjórn sem gæti yfirstigið trúarlegan ágreining, stuðlað að þjóðernishyggju og sameinað heiminn undir „frelsara“ sínum. Það varð til þess að keisarinn hlaut guðlegan heiður.

Þótt Ágústus hafi ekki leyft öðrum að kalla sig guð meðan hann lifði fór hann fram á að Róm væri persónugerð sem gyðja — Roma Dea — og tilbeðin sem slík. Eftir dauða Ágústusar var hann síðan tekinn í guðatölu. Trúarleg tilbeiðsla og þjóðernishyggja í héruðunum beindist því að miðpunkti heimsveldisins og stjórnendum þess. Þessi nýja keisaradýrkun breiddist fljótlega út til allra héraðanna og varð leið til að sýna ríkinu hollustu og tryggð.

Dómitíanus, keisari frá 81 til 96 e.Kr., var fyrsti rómverski keisarinn sem fór fram á að vera tilbeðinn sem guð. Á þeim tíma höfðu Rómverjar gert greinarmun á kristnum mönnum og gyðingum. Þeir litu á kristnina sem nýja trúarreglu og voru andsnúnir henni. Líklega var það í stjórnartíð Dómitíanusar sem Jóhannes postuli var í útlegð á eynni Patmos sakir „vitnisburðarins um Jesú“. — Opinb. 1:9.

Jóhannes skrifaði Opinberunarbókina á meðan hann var í útlegðinni. Þar nefnir hann kristna manninn Antípas sem var drepinn í borginni Pergamos en hún var mikilvæg miðstöð keisaradýrkunar. (Opinb. 2:12, 13) Um þetta leyti gæti keisarastjórnin hafa verið byrjuð að krefjast þess að kristnir menn tækju þátt í helgisiðum ríkistrúarinnar. Hvort sem svo var eða ekki, var Plíníus farinn að krefjast þess að kristnir menn í Biþýníu tækju þátt í slíkum helgisiðum árið 112 f.Kr., eins og kom fram í bréfinu til Trajanusar sem nefnt var í upphafi greinarinnar.

Trajanus hrósaði Plíníusi fyrir það hvernig hann tók á málum sem færð voru fyrir hann og hann gaf þá skipun að kristnir menn, sem neituðu að tilbiðja guði Rómar, skyldu teknir af lífi. Trajanus skrifaði: „En þegar einstaklingurinn neitar því að hann sé kristinn og sýnir það með því að falla fram fyrir guðum okkar, má (svo framarlega sem engar aðrar grunsemdir liggja fyrir) náða hann á grundvelli iðrunar.“

Rómverjar gátu ekki viðurkennt trú sem útheimti óskipta hollustu af fylgjendum sínum. Af hverju ætti Guð kristinna manna að krefjast slíkrar hollustu fyrst rómversku guðirnir gerðu það ekki? Álitið var að tilbeiðsla á guðum ríkisins væri einfaldlega viðurkenning á pólitíska kerfinu. Þess vegna var það álitið landráð að neita að tilbiðja þá. En það var yfirleitt engin leið að þvinga kristna menn til hlýðni eins og Plíníus komst að raun um. Fyrir þeim jafngilti slík tilbeiðsluathöfn ótrúmennsku við Jehóva og margir frumkristnir menn vildu frekar deyja en að taka þátt í keisaradýrkun.

Af hverju ætti þetta að vekja áhuga okkar nú á dögum? Í sumum löndum er ætlast til þess að þegnarnir heiðri þjóðartákn. Vissulega virða kristnir menn yfirvöld. (Rómv. 13:1) En þegar kemur að athöfnum í tengslum við þjóðfána virðum við kröfu Jehóva Guðs um óskipta hollustu og fylgjum eftirfarandi leiðbeiningum í orði hans: ,forðist skurðgoðadýrkun‘ og „gætið ykkar á falsguðunum“. (1. Kor. 10:14; 1. Jóh. 5:21; Nah. 1:2, NW) Jesús sagði: „Drottin, Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum.“ (Lúk. 4:8) Höldum því áfram að tilbiðja Jehóva Guð okkar og sýna honum hollustu.

[Innskot á bls. 5]

Sannkristnir menn veita Jehóva óskipta hollustu.

[Myndir á bls. 3]

Frumkristnir menn neituðu að tilbiðja keisarann eða guðalíkneski.

Dómitíanus keisari

Seifur

[Rétthafi myndar]

Dómitíanus keisari: Todd Bolen/​Bible Places.com; Seifur: Mynd eftir Todd Bolen/​Bible Places.com, tekin á fornleifasafninu í Istanbúl.

[Mynd á bls. 4]

Kristnir menn í Efesus neituðu að tilbiðja hina vinsælu gyðju Artemis. — Post. 19:23-41.