Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Haltu áfram að aga hugann

Haltu áfram að aga hugann

Haltu áfram að aga hugann

ÞAÐ er ánægjulegt að fylgjast með vel þjálfuðum fimleikamanni leika listir sínar. Biblían hvetur kristna menn til að aga hugann líkt og fimleikamaður agar líkamann.

Páll postuli skrifaði í Hebreabréfinu: „Fasta fæðan er fyrir fullorðna, fyrir þá sem jafnt og þétt hafa agað hugann [bókstaflega „skilningarvitin“] til að greina gott frá illu.“ (Hebr. 5:14) Af hverju hvatti Páll kristna Hebrea til að þjálfa hugann líkt og fimleikamaður þjálfar vöðvana? Hvernig þjálfum við hugann?

,Þið ættuð að vera kennarar‘

Páll skýrði stöðu Jesú sem ,æðsta prests að hætti Melkísedeks‘ og skrifaði: „Um þetta höfum við langt mál að tala og ykkur torskilið af því að athygli ykkar er orðin sljó. Þó að þið tímans vegna ættuð að vera kennarar, þá hafið þið þess enn á ný þörf að einhver kenni ykkur undirstöðuatriði Guðs orða. Svo er komið fyrir ykkur að þið hafið þörf fyrir mjólk en ekki fasta fæðu.“ — Hebr. 5:10-12.

Ljóst er að sumir Gyðingar, sem tóku kristna trú á fyrstu öld, höfðu hvorki bætt við þekkingu sína né tekið framförum í trúnni. Til dæmis var erfitt fyrir þá að meðtaka breytingar sem tengdust lögmálinu og umskurninni. (Post. 15:1, 2, 27-29; Gal. 2:11-14; 6:12, 13) Sumum þeirra fannst erfitt að leggja niður siði sem tengdust vikulegum hvíldardegi og árlegum friðþægingardegi. (Kól. 2:16, 17; Hebr. 9:1-14) Því hvatti Páll þá til að aga hugann til að greina gott frá illu og sagði þeim að ,snúa sér að fræðslunni fyrir lengra komna‘. (Hebr. 6:1, 2) Sumir þeirra hljóta að hafa tekið til sín áminningar hans og endurskoðað hvernig þeir beittu huganum. Líklega hefur það hjálpað þeim að taka framförum. En hvað um okkur?

Agaðu hugann

Hvernig getum við agað hugann til að þroskast sem kristnir einstaklingar? Við þurfum að gera það „jafnt og þétt“, segir Páll. Við þurfum að aga hugann til að greina rétt frá röngu líkt og fimleikamenn þjálfa vöðvana og líkamann til að gera erfiðar en glæsilegar æfingar.

„Eitt það besta, sem hægt er að gera fyrir heilann, er að þjálfa hann,“ segir John Ratey en hann er dósent í geðlækningum við læknadeild Harvardháskóla. Gene Cohen er forstjóri rannsóknarmiðstöðvar George Washington háskólans í öldrun. Hann segir að „þegar við reynum á hugann geti nýjar griplur vaxið út frá taugafrumum í heilanum og þannig myndast fleiri taugamót eða tengingar“.

Það er því viturlegt að aga hugann og bæta við þekkingu okkar á Biblíunni. Þannig verðum við hæfari til að fara eftir hinum ,fullkomna vilja Guðs‘. — Rómv. 12:1, 2.

Þroskaðu löngun í „fasta fæðu“

Ef við viljum „snúa okkur að fræðslunni fyrir lengra komna“ þurfum við að spyrja okkur: Er ég að fá dýpri skilning á biblíusannindum? Líta aðrir á mig sem andlega þroskaða manneskju? Móðir er hæstánægð með að gefa ungbarni mjólk og barnamat meðan það er ungt. En ímyndaðu þér áhyggjur hennar ef árin líða og barnið borðar ekki fasta fæðu. Eins erum við ánægð að sjá fólk, sem er að kynna sér Biblíuna, taka framförum í trúnni, vígja sig Guði og láta skírast. En hvað ef viðkomandi tekur ekki framförum eftir skírn? Myndi það ekki valda vonbrigðum? (1. Kor. 3:1-4) Kennari vonast til að með tímanum verði lærisveinninn einnig kennari.

Að beina huganum að ákveðnu máli og hugleiða það krefst þess að við leggjum eitthvað á okkur. (Sálm. 1:1-3) Við megum ekki láta afþreyingu — eins og sjónvarp eða önnur áhugamál sem reyna lítið á hugann — trufla okkur og koma í veg fyrir að við hugleiðum mikilvæg mál. Til þess að aga hugann þurfum við að þroska með okkur löngun til að kynna okkur Biblíuna og rit frá hinum ,trúa og hyggna þjóni‘. (Matt. 24:45-47) Auk þess að lesa í Biblíunni eftir fastri áætlun er nauðsynlegt er að taka frá tíma fyrir biblíunám fjölskyldunnar og ítarlegt biblíutengt sjálfsnám.

Jerónimo er farandhirðir í Mexíkó. Hann segist kynna sér hvert einasta tölublað af Varðturninum um leið og það kemur út. Hann tekur einnig frá tíma til náms með eiginkonu sinni. Jerónimo segir: „Við hjónin höfum þann sið að lesa saman í Biblíunni á hverjum degi og við notum hjálpargögn eins og bæklinginn ,See the Good Land‘.“ Bróðir að nafni Ronald segir að hann fylgi alltaf biblíulestri safnaðarins. Hann hefur einnig eitt eða tvö langtímaverkefni á dagskrá sem sjálfsnám. „Ég hlakka til næstu námsstundar vegna þessara verkefna,“ segir hann.

Hvað um okkur? Notum við nægan tíma til sjálfsnáms í Biblíunni og til að íhuga orð Guðs? Ögum við hugann og öflum okkur reynslu í því að taka ákvarðanir í samræmi við meginreglur Biblíunnar? (Orðskv. 2:1-7) Megi það vera markmið okkar að eiga gott samband við Jehóva og njóta þeirrar þekkingar og visku sem fæst með því að aga hugann til að greina rétt frá röngu.

[Mynd á bls. 23]

Ögum hugann „jafnt og þétt“.