Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Harran – forn menningarmiðstöð sem iðaði af lífi

Harran – forn menningarmiðstöð sem iðaði af lífi

Harran – forn menningarmiðstöð sem iðaði af lífi

ÞEGAR þeir sem þekkja til Biblíunnar heyra minnst á Harran flýgur þeim strax í hug trúfasti ættfaðirinn Abraham. Hann settist að í Harran ásamt Söru, eiginkonu sinni, Tera föður sínum og Lot bróðursyni sínum, á leið sinni frá Úr til Kanaanslands. Þar eignaðist Abraham mikinn auð. Eftir að faðir hans lést hélt Abraham ferðinni áfram til landsins sem hinn sanni Guð hafði heitið honum. (1. Mós. 11:31, 32; 12:4, 5; Post. 7:2-4) Seinna sendi Abraham elsta þjón sinn til Harran, eða næsta nágrennis, til að finna eiginkonu handa Ísak. Jakob, sonarsonur Abrahams, bjó þar einnig um árabil. — 1. Mós. 24:1-4, 10; 27:42-45; 28:1, 2, 10.

Þegar Sanheríb Assýríukonungur setti Hiskía Júdakonungi úrslitakosti taldi hann upp Harran með „þjóðunum“ sem Assýríukonungar höfðu sigrað. Með Harran átti hann ekki aðeins við sjálfa borgina heldur einnig svæðið umhverfis. (2. Kon. 19:11, 12) Í spádómi Esekíels er minnst á að Harran hafi átt í miklum viðskiptum við Týrus og sýnir það fram á að Harran hafi verið mikilvæg verslunarmiðstöð. — Esek. 27:1, 2, 23.

Harran er nú á dögum aðeins lítill bær nálægt Şanlıurfa í austanverðu Tyrklandi. En til forna var Harran gróskumikil viðskiptamiðstöð. Harran er ein af afar fáum stöðum fornaldar sem ber enn sama heiti og notað er í Biblíunni. Assýringar kölluðu borgina Harranu sem getur þýtt „Leið“ eða „Lestarleið“ og það bendir til þess að Harran hafi staðið við mikilvæga verslunarleið milli stærri borga. Áletrun, sem fannst við uppgröft í Harran, leiðir í ljós að móðir Nabónídusar konungs í Babýlon var yfirhofgyðja í musteri Sin sem var tunglguð Harran. Að sögn sumra endurreisti Nabónídus þetta musteri. Eftir það komu fram ýmis heimsveldi en Harran hvarf ekki af sjónarsviðinu.

Nú er Harran gerólík því sem áður var. Harran til forna var framsækin og mikilvæg borg, einkum á vissum tímum í sögunni. En nú á dögum er Harran aðeins lítil þyrping húsa með hvolfþökum. Umhverfis eru rústir fornra menningarheima. Þeir sem eitt sinn bjuggu í Harran rísa upp í nýjum heimi Guðs — þar á meðal Abraham, Sara og Lot. Að öllum líkindum geta þau sagt okkur margt fleira um þessa fornu menningarmiðstöð.

[Mynd á bls. 20]

Rústir Harran.

[Mynd á bls. 20]

Hús með hvolfþökum.

[Mynd á bls. 20]

Harran eins og bærinn lítur út núna.