Hryggið ekki heilagan anda Jehóva
Hryggið ekki heilagan anda Jehóva
„Hryggið ekki Guðs heilaga anda sem þið eruð innsigluð með.“ — EF. 4:30.
1. Hvað hefur Jehóva gert fyrir milljónir manna og hvaða skylda hvílir á herðum þeirra?
JEHÓVA hefur gert mjög sérstakar ráðstafanir fyrir milljónir manna sem búa í þessum hrjáða heimi. Hann hefur gert þeim mögulegt að eignast náið samband við sig fyrir milligöngu einkasonar síns, Jesú Krists. (Jóh. 6:44) Þú ert einn úr þessum hópi manna ef þú hefur vígt þig Guði og lifir eftir vígsluheiti þínu. Þar sem þú ert skírður í nafni heilags anda hvílir sú skylda þér á herðum að þú hegðir þér í samræmi við þennan anda. — Matt. 28:19.
2. Hvaða spurningar ætlum við að skoða?
2 Við sem ,sáum í andann‘ íklæðumst hinum nýja manni. (Gal. 6:8; Ef. 4:17-24) En Páll postuli gefur okkur ráð og varar okkur við því að hryggja heilagan anda Guðs. (Lestu Efesusbréfið 4:25-32.) Við skulum nú líta nánar á orð Páls. Hvað átti hann við þegar hann talaði um að hryggja anda Guðs? Hvernig gæti nokkur, sem hefur vígt sig Jehóva, gert annað eins? Og hvernig getum við varast að hryggja anda Jehóva?
Það sem Páll átti við
3. Útskýrðu orðin í Efesusbréfinu 4:30.
3 Skoðum fyrst orð Páls í Efesusbréfinu 4:30. Hann skrifaði: „Hryggið ekki Guðs heilaga anda sem þið eruð innsigluð með til endurlausnardagsins.“ Páll vildi ekki að trúsystkini sín, sem hann elskaði heitt, stefndu sambandi sínu við Guð í hættu. Það var með anda Jehóva sem þau höfðu verið „innsigluð . . . til endurlausnardagsins“. Heilagur andi Guðs var og er enn innsigli, eða fyrir fram ,trygging‘, fyrir ráðvanda þjóna Guðs sem hafa verið andasmurðir. (2. Kor. 1:22) Innsiglið táknar að þeir séu eign Guðs og eigi í vændum líf á himni. Þeir sem verða endanlega innsiglaðir eru 144.000 talsins. — Opinb. 7:2-4.
4. Af hverju þarf að varast að hryggja heilagan anda Guðs?
4 Að hryggja anda Guðs gæti verið upphafið að því að andinn hætti að starfa í lífi kristins manns. Við sjáum að þessi möguleiki er fyrir hendi af orðum Davíðs eftir að hann syndgaði með Batsebu. Davíð sárbændi Jehóva fullur iðrunar: „Varpa mér ekki burt frá augliti þínu og tak ekki þinn heilaga anda frá mér.“ (Sálm. 51:13) Úr hópi hinna andasmurðu munu aðeins þeir sem eru trúir „allt til dauða“ fá „kórónu“ ódauðleikans á himnum. (Opinb. 2:10; 1. Kor. 15:53) Hið sama má segja um kristna menn með jarðneska von. Þeir þurfa heilagan anda til að geta verið Guði ráðvandir og þar með hljóta þeir eilíft líf að gjöf, vegna trúar á lausnarfórn Krists. (Jóh. 3:36; Rómv. 5:8; 6:23) Við þurfum því öll að gæta þess að hryggja ekki heilagan anda Jehóva.
Hvernig gæti þjónn Guðs hryggt anda hans?
5, 6. Hvernig gæti þjónn Guðs hryggt anda hans?
5 Við sem erum vígðir þjónar Guðs getum forðast að hryggja heilagan anda hans. Það er hægt ef við ,lifum í andanum‘ því að þá látum við ekki undan röngum löngunum holdsins og sýnum ekki slæma eiginleika. (Gal. 5:16, 25, 26) En það gæti breyst. Við gætum hryggt anda Guðs að ákveðnu marki ef við næstum óafvitandi leyfðum okkur smám saman að taka upp hegðun sem er fordæmd í innblásnu orði hans.
6 Ef við gengjum sífellt í berhögg við handleiðslu heilags anda værum við að hryggja andann og Jehóva sem er uppspretta hans. Með því að rannsaka Efesusbréfið 4:25-32 sjáum við hvernig við eigum að hegða okkur og það getur komið í veg fyrir að við hryggjum anda Guðs.
Hvernig getum við varast að hryggja heilagan anda?
7, 8. Hvers vegna verðum við að vera sannsögul?
7Við verðum að vera sannsögul. Páll skrifaði í Efesusbréfinu 4:25: „Leggið því af lygina og talið sannleika hvert við sinn náunga því að við erum hvert annars limir.“ Fyrst við erum sameinuð og „erum hvert annars limir“ ættum við að sjálfsögðu ekki að vera undirförul eða reyna vísvitandi að blekkja trúsystkini okkar því að þá værum við að ljúga að þeim. Sá sem lætur ekki af slíkri hegðun glatar sambandi sínu við Guð. — Lestu Orðskviðina 6:16-19.
8 Orð og verk, sem blekkja, gætu ógnað einingu safnaðarins. Við viljum því vera eins og spámaðurinn Daníel en óvinum hans tókst ekki að finna neitt í fari hans sem gæti orðið honum til ámælis. (Dan. 6:5) Við ættum að hafa í huga að kristnir menn með himneska von verða að vera sannsöglir og varðveita einingu innan hóps andasmurðra fylgjenda Krists því að Páll sagði þeim að limirnir á „líkama Krists“ tilheyrðu allir hver öðrum. (Ef. 4:11, 12) Ef við vonumst til að lifa að eilífu í paradís hér á jörð verðum við líka að vera sannsögul og stuðla þar með að einingu innan alþjóðlega bræðralagsins.
9. Af hverju er mikilvægt að við förum eftir því sem stendur í Efesusbréfinu 4:26, 27?
9Við þurfum að standa gegn djöflinum svo að hann fái ekki tækifæri til að skaða trú okkar. (Jak. 4:7) Við getum staðið gegn Satan með hjálp heilags anda. Eitt sem við getum til dæmis gert er að varast taumlausa reiði. Páll skrifaði: „Ef þið reiðist þá syndgið ekki. Sólin má ekki setjast yfir reiði ykkar. Gefið djöflinum ekkert færi.“ (Ef. 4:26, 27) Ef við reiðumst af réttlátum sökum skulum við fara strax með bæn í hljóði því að það getur hjálpað okkur að halda rónni og sýna sjálfstjórn. Annars gætum við gert eitthvað sem myndi hryggja anda Guðs. (Orðskv. 17:27) Við skulum því ekki halda í reiðina og leyfa þar með Satan að freista okkar til að gera eitthvað slæmt. (Sálm. 37:8, 9) Við getum staðið gegn honum meðal annars með því að útkljá ágreiningsmál fljótt og í samræmi við leiðbeiningar Jesú. — Matt. 5:23, 24; 18:15-17.
10, 11. Hvers vegna megum við hvorki stela né vera óheiðarleg?
10Við megum alls ekki freistast til að stela eða vera óheiðarleg. Páll skrifaðu um þjófnað: „Hinn stelvísi hætti að stela en leggi hart að sér og geri það sem gagnlegt er með höndum sínum svo að hann hafi eitthvað að miðla þeim sem þurfandi er.“ (Ef. 4:28) Ef skírður þjónn Guðs myndi stela væri hann í rauninni að „misbjóða nafni Guðs“ og óvirða það. (Orðskv. 30:7-9) Fátækt réttlætir ekki einu sinni þjófnað. Þeir sem elska Guð og náungann gera sér ljóst að það er aldrei hægt að réttlæta þjófnað. — Mark. 12:28-31.
11 Þótt Páll telji upp það sem við eigum ekki að gera bendir hann líka á það sem við eigum að gera. Ef við lifum í andanum leggjum við hart að okkur til að sjá fyrir fjölskyldunni og líka til að hafa „eitthvað að miðla þeim sem þurfandi er“. (1. Tím. 5:8) Jesús og postularnir lögðu peninga til hliðar til að hjálpa fátækum en svikarinn Júdas Ískaríot stakk hluta af þeim í eigin vasa. (Jóh. 12:4-6) Hann lét heilagan anda augljóslega ekki leiða sig. Við sem fylgjum leiðsögn anda Guðs erum heiðarleg og viljum „í öllum greinum breyta vel“ eins og Páll gerði. (Hebr. 13:18) Þannig vörumst við að hryggja heilagan anda Jehóva.
Fleiri leiðir til að hryggja ekki andann
12, 13. (a) Hvers konar tal eigum við að forðast samkvæmt Efesusbréfinu 4:29? (b) Hvernig ætti tal okkar að vera?
12Við verðum að gæta tungu okkar. Páll sagði: „Látið ekkert fúkyrði líða ykkur af munni heldur það eitt sem er gott til uppbyggingar, þar sem þörf gerist, til þess að það verði til góðs þeim sem heyra.“ (Ef. 4:29) Aftur nefnir Páll bæði það sem við eigum ekki að gera og líka það sem við eigum að gera. Þegar við leyfum anda Guðs að hafa áhrif á okkur finnum við hjá okkur hvöt til að ,tala það sem er gott til uppbyggingar svo að það verði til góðs þeim sem heyra‘. Við ættum heldur ekki að láta neitt „fúkyrði“ líða okkur af munni. Gríska orðið, sem merkir „fúkki“, hefur verið notað til að lýsa úldnum fiski, kjöti eða ávexti. Rétt eins og okkur býður við slíkum mat ættum við að hata tal sem Jehóva álítur illt.
13 Tal okkar ætti að vera virðulegt, vingjarnlegt og „salti kryddað“. (Kól. 3:8-10; 4:6) Þegar fólk hlustar á okkur ætti það að geta áttað sig á að við erum ólík öðrum. Við skulum því hjálpa náunganum með því að tala það „sem er gott til uppbyggingar“. Okkur ætti að vera innanbrjósts eins og sálmaritaranum sem orti: „Mættu orð mín vera þér þóknanleg og hugsanir hjarta míns koma fram fyrir þig, Drottinn, bjarg mitt og frelsari.“ — Sálm. 19:15.
14. Hvað þurfum við að segja skilið við samkvæmt Efesusbréfinu 4:30, 31?
14Við þurfum að segja skilið við beiskju, reiði, lastmæli og alla mannvonsku. Eftir að hafa varað við því að hryggja anda Guðs skrifaði Páll: „Látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt ykkur og alla mannvonsku yfirleitt.“ (Ef. 4:30, 31) Við erum ófullkomin og þurfum því öll að leggja hart að okkur til að hafa stjórn á hugsunum okkar og gerðum. Ef við gæfum „beiskju, ofsa [og] reiði“ lausan tauminn myndum við hryggja anda Guðs. Hið sama má segja ef við héldum lista yfir það ranga sem aðrir hafa gert okkur, fylltumst gremju og neituðum að sættast við þann sem gerði á hlut okkar. Ef við svo mikið sem byrjuðum að hunsa biblíuleg ráð gætum við farið að tileinka okkur eiginleika sem myndu leiða til þess að við syndguðum gegn andanum með skelfilegum afleiðingum fyrir okkur.
15. Hvað ættum við að gera ef við höfum orðið fyrir rangindum?
15Við þurfum að vera góðviljuð, miskunnsöm og fús til að fyrirgefa. Páll skrifaði: „Verið góðviljuð hvert við annað, miskunnsöm, fús til að fyrirgefa hvert öðru eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið ykkur.“ (Ef. 4:32) Jafnvel þótt við höfum orðið fyrir rangindum sem særðu okkur mikið skulum við fyrirgefa eins og Guð gerir. (Lúk. 11:4) Setjum sem svo að trúsystkini hafi sagt eitthvað slæmt um okkur. Við komum að máli við einstaklinginn til að reyna að leysa úr þessu. Hann sér einlæglega eftir því sem hann gerði og biðst fyrirgefningar. Við fyrirgefum honum en við þurfum að gera meira en það. Í 3. Mósebók 19:18 (Biblían 1981) stendur: „Eigi skalt þú hefnisamur vera né langrækinn við samlanda þína, en þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Ég er Drottinn.“
Það er nauðsynlegt að halda vöku sinni
16. Segðu frá dæmi sem sýnir fram á að við gætum þurft að breyta ýmsu hjá okkur til að hryggja ekki anda Jehóva.
16 Þegar við erum ein gætum við látið freistast til að gera eitthvað sem er Guði vanþóknanlegt. Bróðir gæti til dæmis hafa lagt í vana sinn að hlusta á vafasama tónlist. Smám saman fer það að trufla samvisku hans að hafa leitt hjá sér biblíuleg ráð sem birtast í ritum ,trúa og hyggna þjónsins‘. (Matt. 24:45) Hann leitar með áhyggjur sínar til Guðs í bæn og kemur ef til vill í hug orð Páls í Efesusbréfinu 4:30. Hann er staðráðinn í að gera ekkert sem gæti hryggt anda Guðs og ákveður upp frá því að sneiða hjá vafasamri tónlist. Jehóva blessar svona viðhorf. Við skulum því stöðugt vera á varðbergi svo að við hryggjum ekki anda Guðs.
17. Hvað gæti gerst ef við vanræktum bænasamband okkar við Jehóva og héldum ekki vöku okkar?
17 Ef við vanrækjum bænasamband okkar við Jehóva og höldum ekki vöku okkar gætum við látið undan óhreinni eða rangri löngun og hryggt anda hans. Guð notar heilagan anda í samræmi við persónuleika sinn og því má segja að við séum að hryggja andann þegar við hryggjum Guð, en það myndum við aldrei vilja gera. (Ef. 4:30) Fræðimenn Gyðinga á fyrstu öld syndguðu með því að eigna Satan heiðurinn af kraftaverkum Jesú. (Lestu Markús 3:22-30.) Þessir óvinir Krists ,lastmæltu gegn heilögum anda‘ og drýgðu með því ófyrirgefanlega synd. Látum það aldrei henda okkur!
18. Hvernig getum við gengið úr skugga um að við höfum ekki drýgt ófyrirgefanlega synd?
18 Við viljum forðast eins og heitan eldinn að drýgja ófyrirgefanlega synd og því þurfum við að muna eftir orðum Páls um að hryggja ekki andann. En hvað nú ef við höfum syndgað alvarlega? Ef við höfum iðrast og fengið hjálp frá öldungunum getum við dregið þá ályktun að Guð hafi fyrirgefið okkur og að við höfum ekki syndgað gegn heilögum anda. Með hjálp Guðs getum við einnig varast að hryggja andann á nýjan leik.
19, 20. (a) Hvað þurfum við meðal annars að varast? (b) Hvað ættum við að vera staðráðin í að gera?
19 Með heilögum anda sínum eflir Guð kærleika, gleði og einingu meðal þjóna sinna. (Sálm. 133:1-3) Við skulum því varast að hryggja andann með því að bera út skaðlegt slúður eða segja eitthvað sem myndi grafa undan virðingu fyrir þeim sem hafa verið skipaðir hirðar af heilögum anda. (Post. 20:28; Júd. 8) Við skulum öllu heldur efla eininguna og bera virðingu hvert fyrir öðru. Við ættum alls ekki að mynda klíkur innan safnaðarins. Páll skrifaði: „Ég hvet ykkur, systkin, í nafni Drottins vors Jesú Krists, að vera öll samhuga og ekki séu flokkadrættir á meðal ykkar. Verið heldur samlynd og einhuga.“ — 1. Kor. 1:10.
20 Jehóva bæði vill og getur hjálpað okkur svo að við hryggjum ekki anda hans. Höldum áfram að biðja um heilagan anda og verum staðráðin í að hryggja hann ekki. ,Sáum í andann‘ og leitum ákaft leiðsagnar hans nú og að eilífu.
Hvert er svarið?
• Hvað merkir það að hryggja anda Guðs?
• Hvernig gæti vígður þjónn Jehóva hryggt anda hans?
• Hvernig getum við varast að hryggja heilagan anda?
[Spurningar]
[Mynd á bls. 30]
Leysum ágreiningsmál fljótt.
[Mynd á bls. 31]
Hvor ávaxtakarfan lýsir best tali þínu?