Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Varðveittu sterkt samband við Guð þegar þú annast sjúkan ættingja

Varðveittu sterkt samband við Guð þegar þú annast sjúkan ættingja

Varðveittu sterkt samband við Guð þegar þú annast sjúkan ættingja

KIM var greind með krabbamein eftir að æxli fannst nærri hryggnum. * Steve, eiginmaður hennar, segir að eftir að æxlið hafi verið fjarlægt með skurðaðgerð hafi Kim, sem er vottur, farið í geisla- og lyfjameðferð. Meðferðin hafði þær aukaverkanir að hún varð mjög máttvana. Það dró verulega úr hreyfigetu hennar.

Geturðu ímyndað þér hve sársaukafullt það var fyrir Steve að horfa upp á ástkæran förunaut sinn berjast við illvígan sjúkdóm? Þú átt ef til vill nákominn ættingja sem á við hrörnunarsjúkdóm að stríða eða fylgikvilla ellinnar. (Préd. 12:1-7) Þá veistu að til þess að annast ástvin svo vel fari verður maður að gæta að eigin heilsu. Ef þú veikist í trúnni er hætt við að það komi niður á tilfinningalegri og líkamlegri heilsu þinni og þú gætir orðið ófær um að veita nokkrum í fjölskyldunni þann stuðning sem hann þarfnast. Hvernig er hægt að varðveita samband sitt við Guð samhliða því að annast sjúkan eða aldraðan ættingja? Gætu aðrir í söfnuðinum gert eitthvað til að sýna þeim sjúka umhyggjusemi?

Að varðveita jafnvægi

Til að halda sterku sambandi við Guð og halda líkamlegri heilsu þegar annast er um veikan ættingja verður að sýna aðlögunarhæfni og nota tíma sinn og krafta í samræmi við aðstæður. „Hjá hinum hógværu er viska,“ segir í Orðskviðunum 11:2. Í þessu samhengi merkir orðið „hógvær“ að vera meðvitaður um eigin takmarkanir. Til þess að vera öruggur um að ganga ekki fram af þér gætirðu þurft að endurskoða tímaáætlun og skyldustörf.

Steve sýndi visku og hógværð með því að endurmeta vinnuálag sitt. Auk þess að vera fyrirvinna heimilisins var hann umsjónarmaður öldungaráðsins og starfshirðir í einum af söfnuðum Votta Jehóva á Írlandi. Hann var einnig í spítalasamskiptanefndinni á svæðinu. Steve segir að Kim hafi aldrei kvartað yfir því að hann hafi vanrækt hana með því að vera of upptekinn við að sinna þessum ábyrgðarstörfum. „En ég vissi að ég ætlaði mér of mikið.“ Hvernig brást Steve við aðstæðunum? Hann segir: „Þegar ég hafði hugleitt málið og lagt það fyrir Jehóva í bæn, ákvað ég að draga mig í hlé sem umsjónarmaður öldungaráðsins. Ég hélt áfram að þjóna sem öldungur en með því að láta af hendi sum ábyrgðarstörfin í söfnuðinum gat ég veitt Kim þann tíma og þá athygli sem hún þarfnaðist.“

Þegar fram í sótti skánaði Kim. Hjónin endurmátu aðstæður sínar og með aðstoð Kim gat Steve sinnt að nýju ábyrgðarstörfum sínum í söfnuðinum. „Við höfum bæði lært að vinna innan þeirra marka sem heilsan leyfir,“ segir hann. „Ég er svo þakklátur Jehóva fyrir hjálpina og konu minni fyrir stuðninginn sem hún veitir mér þrátt fyrir slæma heilsu og án þess að kvarta.“

Lítum einnig á reynslu Jerrys, sem er farandhirðir, og Maríu, eiginkonu hans. Þau þurftu að aðlaga markmið sín að því að sinna öldruðum foreldrum sínum. „Markmið okkar beggja var að þjóna sem trúboðar erlendis,“ segir María. „En Jerry er einkabarn og foreldrar hans þurftu á umönnun að halda. Þess vegna ákváðum við að vera um kyrrt á Írlandi til að hugsa um þau. Með því móti gátum við verið á staðnum allan tímann sem faðir Jerrys var á spítalanum áður en hann dó. Núna höfum við samband við móður hans á hverjum degi og erum til taks ef hún þarfnast hjálpar. Trúsystkinin í söfnuði hennar hafa verið henni mjög hjálpsöm og veitt henni stuðning. Við höfum því getað haldið áfram að sinna farandhirðisstarfinu.“

Aðrir geta hjálpað á ýmsan hátt

Þegar rætt var um hvað ætti að gera til að sjá öldruðum ekkjum í söfnuðinum fyrir lífsnauðsynjum sagði Páll postuli: „Ef einhver sér eigi fyrir sínum, sérstaklega heimilismönnum, þá hefur hann afneitað trúnni og er verri en vantrúaður.“ Páll minnti trúsystkinin á að ætti verk þeirra að vera „Guði þóknanlegt“ þyrftu þau að sjá fyrir öldruðum foreldrum sínum og fyrir öfum sínum og ömmum. (1. Tím. 5:4, 8, Biblían 1981) En aðrir í söfnuðinum gætu og ættu að veita aðstoð eftir þörfum.

Lítum á Håkan og Inger, öldruð hjón sem eiga heima í Svíþjóð. „Þegar eiginkona mín greindist með krabbamein var það áfall fyrir okkur bæði,“ segir Håkan. „Inger hafði alla tíð verið heilsuhraust og sterk. Nú urðum við að fara á hverjum degi á spítalann þar sem Inger fékk meðferð. Aukaverkanir af lyfjunum höfðu lamandi áhrif á hana. Inger var heima á þessu tímabili og ég þurfti að vera hjá henni til að annast hana.“ Hvaða hjálp fengu Håkan og Inger frá söfnuði sínum?

Öldungarnir í söfnuðinum gerðu ráðstafanir til þess að þau gætu hlustað á samkomurnar símleiðis. Þar að auki höfðu bræður og systur samband við þau með heimsóknum og símtölum. Þau sendu þeim einnig bréf og kort. „Við fundum fyrir stuðningi allra bræðra og systra ásamt hjálp Jehóva,“ segir Håkan. „Þessi umhyggja átti mikinn þátt í að við héldum trúarstyrk okkar. Til allrar hamingju hefur Inger náð sér og við getum nú sótt aftur samkomurnar í ríkissalnum.“ Þegar trúsystkini í söfnuðinum gera eins og þau geta til að hjálpa þeim sem eru veikir og aldraðir meðal þeirra ber það vott um að þau séu eins og „vinur [sem] lætur aldrei af vináttu sinni, í andstreymi reynist hann sem bróðir“. — Orðskv. 17:17.

Jehóva metur viðleitni þína

Það getur sannarlega verið lýjandi að annast sjúkan ættingja. En samt skrifaði Davíð: „Sæll er sá sem sinnir bágstöddum,“ eins og til dæmis þeim sem þurfa á hjálp að halda í veikindum sínum. — Sálm. 41:2.

Hvers vegna getur sá sem annast veikan eða þjáðan mann verið hamingjusamur? Í Orðskviðunum 19:17 segir: „Sá lánar Drottni sem líknar fátækum, hann mun endurgjalda honum.“ Hinn sanni Guð hefur sérstakan áhuga á trúföstum þjónum sínum sem þjást af veikindum og hann blessar þann sem sýnir þeim góðvild. Sálmaritarinn Davíð söng: „Drottinn styður hann á sóttarsæng, þú læknar hann þegar hann liggur sjúkur.“ (Sálm. 41:4) Við getum treyst því að Jehóva hjálpar þeim sem veitir kærleiksríka umhyggju lendi sá maður sjálfur í erfiðleikum eða hörmungum.

Það er gott til þess að vita að Jehóva Guð tekur eftir og metur það sem við gerum til að annast sjúka ættingja. Þótt það kosti okkur áreynslu að veita slíka aðstoð fullvissar Biblían okkur um að „slíkar fórnir eru Guði þóknanlegar“. — Hebr. 13:16.

[Neðanmáls]

^ gr. 2 Nöfnum hefur verið breytt.

[Myndir á bls. 18]

Varðveitið sambandið við Jehóva og þiggið hjálp frá öðrum.