Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þegar makinn er ótrúr

Þegar makinn er ótrúr

Þegar makinn er ótrúr

MARGARITA og eiginmaður hennar Raúl höfðu þjónað Jehóva í fullu starfi í mörg ár. * En skömmu eftir að fyrsta barn þeirra fæddist byrjaði Raúl að fjarlægjast Jehóva. Að lokum fór hann að lifa siðlausu lífi og honum var vikið úr söfnuðinum. „Mér fannst ég vera að deyja þegar allt þetta gerðist,“ segir Margarita. „Ég var niðurbrotin og vissi ekki mitt rjúkandi ráð.“

Skömmu eftir að Jane gifti sig brást eiginmaðurinn ást hennar og trausti á annan hátt. Hann tók að misþyrma henni. „Í fyrsta skiptið sem hann lamdi mig var ég agndofa, vandræðaleg og auðmýkt,“ segir Jane. „Þessi hegðun, að misþyrma mér og sárbiðja svo um fyrirgefningu, varð að mynstri. Ég hélt að það væri alltaf skylda mín sem kristinnar konu að fyrirgefa og gleyma. Ég taldi líka að ég væri að svíkja hann ef ég nefndi þetta vandamál við einhvern annan — jafnvel við öldungana í söfnuðinum. Þetta mynstur ofbeldis og fyrirgefningar hélt áfram árum saman. Allan þennan tíma ímyndaði ég mér að ég hlyti að geta gert eitthvað til þess að maðurinn minn myndi elska mig. Þegar hann yfirgaf mig og dóttur okkar að lokum fannst mér eins og ég hefði brugðist og að ég hefði átt að gera eða segja meira til að styrkja hjónabandið.“

Vera má að þú þjáist tilfinningalega, fjárhagslega og andlega, líkt og Margarita og Jane, vegna þess að eiginmaður þinn hefur svikið þig. Eiginmaður gæti einnig þurft að ganga í gegnum sorg og erfiðleika af því að konan hefur verið ótrú. Við lifum óneitanlega á,örðugum tíðum‘ eins og Biblían spáði. Í þessum spádómi um hina ,síðustu daga‘ kemur fram að fjölskyldur eigi undir högg að sækja og eðlilegur kærleikur sé með öllu horfinn í mörgum tilfellum. Sumir segjast þjóna Guði en lifa ekki samkvæmt því. (2. Tím. 3:1-5) Sannkristnir menn eru ekki ónæmir fyrir þessum vandamálum. Því er gott að íhuga hvernig hægt sé að takast á við lífið ef makinn er ótrúr á einn eða annan hátt.

Sjáðu þig sömu augum og Jehóva gerir

Í fyrstu má vera að þú eigir erfitt með að trúa því að ástvinur skuli geta sært þig svona illa. Þú gætir jafnvel farið að kenna sjálfum þér um syndsamlega hegðun hans.

En hafðu samt hugfast að jafnvel Jesús, sem var fullkominn maður, var svikinn af manni sem hann treysti og elskaði. Jesús valdi nánustu félaga sína, postulana 12, eftir að hafa íhugað málið vandlega í bænarhug. Þá voru þeir allir trúir þjónar Jehóva. Jesús hefur því eflaust tekið það nærri sér þegar Júdas „varð svikari“. (Lúk. 6:12-16) En Jehóva gerði Jesú ekki ábyrgan fyrir ákvörðunum Júdasar.

Auðvitað er enginn maki fullkominn sem stendur. Bæði hjónin gera sín mistök. Sálmaskáldinu var innblásið að rita þessi raunsæju orð: „Ef þú, Drottinn, gæfir gætur að misgjörðum, Drottinn, hver fengi þá staðist?“ (Sálm. 130:3) Hjón eiga að líkja eftir Jehóva og reyna að líta fram hjá ófullkomleika hvort annars. — 1. Pét. 4:8.

En „sérhvert okkar [skal] gera Guði skil á sjálfu sér“. (Rómv. 14:12) Ef makinn venur sig á að vera meiðandi í tali eða verkum er það hann sem verður að sæta ábyrgð frammi fyrir Jehóva en hann fordæmir ofbeldi og meiðandi tal. Það er því aldrei nein réttmæt ástæða fyrir því að koma þannig fram við maka sinn, sýna honum gróft kærleiks- og virðingarleysi. (Sálm. 11:5; Ef. 5:33; Kól. 3:6-8) Ef kristinn maður fær endurtekið reiðiköst, iðrast ekki og vill ekki breyta sér verður að víkja honum úr söfnuðinum. (Gal. 5:19-21; 2. Jóh. 9, 10) Enginn þarf að hafa samviskubit yfir því að segja öldungum frá slíkri hegðun af hendi maka síns. Jehóva hefur vissulega samúð með þeim sem hafa þolað illa meðferð af þessu tagi.

Ef giftur einstaklingur heldur framhjá er hann ekki aðeins að syndga gegn saklausum maka sínum heldur líka gegn Jehóva. (Matt. 19:4-9; Hebr. 13:4) Ef saklausi makinn hefur leitast við að lifa samkvæmt meginreglum Biblíunnar er engin ástæða til að hafa sektarkennd vegna syndar þess sem framdi hjúskaparbrotið.

Mundu að Jehóva veit hvernig þér líður. Hann lýsir sjálfum sér sem eiginmanni Ísraelsþjóðarinnar og í Biblíunni er að finna margar hjartnæmar lýsingar á sorginni sem hann upplifði vegna þess að þjóðin var honum ótrú. (Jes. 54:5, 6; Jer. 3:1, 6-10) Þú getur treyst að Jehóva er meðvitaður um öll tárin sem þú hefur úthellt ef þú hefur á einhvern hátt verið svikinn af maka þínum. (Mal. 2:13, 14) Hann veit að þú þarft á huggun og uppörvun að halda.

Hvernig Jehóva huggar

Kristni söfnuðurinn er ein af leiðunum sem Jehóva notar til að hugga og hughreysta. Jane naut þess konar stuðnings. „Farandhirðirinn kom í heimsókn þegar ég var mjög langt niðri,“ segir hún. „Hann vissi hversu niðurdregin ég var vegna þess að eiginmaður minn hafði sótt um skilnað. Bróðirinn tók sér tíma til að hjálpa mér að skilja ritningarstaði eins og 1. Korintubréf 7:15. Ritningarstaðirnir ásamt vinsamlegum orðum hans hjálpuðu mér að losna við sektarkenndina og öðlast vissa hugarró.“ *

Margarita, nefnd hér á undan, lærði einnig að Jehóva sér fyrir aðstoð fyrir milligöngu safnaðarins. „Þegar ljóst var að eiginmaður minn myndi ekki iðrast,“ segir Margarita, „flutti ég ásamt börnunum til annarar borgar. Þegar við komum þangað fann ég tvö herbergi og leigði þau. Daginn eftir var ég að taka upp úr töskunum, gagntekin af sorg, þegar var bankað. Ég bjóst við að það væri húseigandinn sem bjó við hliðina á okkur. En mér til mikillar furðu var þetta systirin sem hafði aðstoðað móður mína við biblíunám og hjálpað fjölskyldu okkar að kynnast sannleikanum. Hún hafði ekki búist við að hitta mig heldur hafði komið í húsið af því að hún var að aðstoða húseigandann við biblíunám. Ég fann til mikils léttis og ég réð ekki við tilfinningarnar. Ég útskýrði aðstæður mínar og við grétum báðar. Hún bjó strax þannig um hnútana að við gætum sótt samkomu þennan sama dag. Söfnuðurinn tók vel á móti okkur og öldungarnir sáu til þess að ég fengi hjálp til að annast andlegar þarfir fjölskyldunnar.“

Hvernig aðrir geta hjálpað

Trúsystkini okkar geta vissulega hjálpað til á margvíslegan hátt. Til dæmis þurfti Margarita að finna vinnu. Fjölskylda í söfnuðinum bauðst til að líta eftir börnum hennar eftir skólann þegar þess þyrfti.

„Ég kunni virkilega að meta það þegar bræður og systur buðust til að fara með mér og börnunum í boðunarstarfið,“ segir Margarita. Með slíkri aðstoð geta trúsystkini hjálpað til og ,borið byrðar hvert annars og uppfyllt þannig lögmál Krists‘. — Gal. 6:2.

Þeir sem þjást vegna synda annarra kunna svo sannarlega að meta svona hjálp. Eiginmaður Monique yfirgaf hana og skildi hana eftir með hátt í tveggja milljóna króna greiðslukortaskuld og fjögur börn til að ala upp. Monique segir: „Trúsystkini mín sýndu mér svo mikinn kærleika. Ég get ekki ímyndað mér hvernig við hefðum komist af án stuðnings þeirra. Mér finnst Jehóva hafa séð okkur fyrir frábærum bræðrum sem gáfu börnum mínum mikið af sjálfum sér. Það hefur verið ánægjulegt að sjá börnin þroskast vegna hjálpar af þessu tagi. Ef ég þurfti á ráðleggingum að halda hjálpuðu öldungarnir mér. Ef ég þurfti einhvern til að ræða við voru þeir tilbúnir að hlusta.“ — Mark. 10:29, 30.

Góður vinur skilur auðvitað hvenær er best að minnast ekki á neikvæða reynslu viðkomandi. (Préd. 3:7) Margarita segir: „Oftast nýt ég þess að spjalla við trúsystur mínar í nýja söfnuðinum um boðunarstarfið, biblíunámskeiðin okkar eða börnin — allt nema mín eigin vandamál. Ég kann að meta að þær leyfa mér að gleyma fortíðinni og byrja upp á nýtt.“

Láttu ekki undan lönguninni til að hefna þín

Í stað þess að finna til ábyrgðar á syndum makans getur verið að þér gremjist að þú þurfir að þjást út af honum. Ef slík gremja fær að grafa um sig getur hún veikt trúfesti þína og sambandið við Jehóva. Þér gæti fundist freistandi að leita færis til að hefna þín.

Ef þú finnur að slíkar tilfinningar eru að brjótast um í þér gætirðu hugleitt fordæmi Jósúa og Kalebs. Þessir trúföstu menn hættu lífi sínu til að kanna fyrirheitna landið. Hina njósnarana skorti trú og þeir sneru fólkinu svo það hlýddi ekki Jehóva. Sumir Ísraelsmenn vildu meira að segja grýta Jósúa og Kaleb þegar þeir reyndu að hvetja þjóðina til að vera Jehóva trú. (4. Mós. 13:25–14:10) Vegna syndar þjóðarinnar neyddust Jósúa og Kaleb til að reika um eyðimörkina í 40 ár, ekki fyrir eigin syndir heldur syndir annarra.

Þó að Jósúa og Kaleb hafi sennilega verið vonsviknir urðu þeir ekki bitrir vegna synda bræðra sinna. Þeir lögðu megináherslu á að þjóna Jehóva. Þegar þeir voru búnir að vera 40 ár í eyðimörkinni var þeim og levítunum launað fyrir. Þeir voru þeir einu af þessari kynslóð sem lifðu af og fengu að fara inn í fyrirheitna landið. — 4. Mós. 14:28-30; Jós. 14:6-12.

Maki þinn getur orðið þess valdandi að þú þjáist um alllangan tíma. Hjónabandinu er kannski lokið en þú þarft að takast á við tilfinningalega og fjárhagslega erfiðleika í kjölfarið. En í stað þess að láta neikvæðar hugsanir byrgja þér sýn skaltu hafa hugfast að Jehóva veit best hvernig á að fást við þá sem fara á svig við meginreglur hans af ásettu ráði, rétt eins og ótrúir Ísraelsmenn uppgötvuðu í eyðimörkinni. — Hebr. 10:30, 31; 13:4.

Þú getur staðist raunina

Fremur en að láta neikvæðar hugsanir íþyngja þér skaltu beina huganum að vilja Jehóva. „Ég komst að raun um að ég átti auðveldara með að halda mér gangandi ef ég hlustaði á upptökur af Varðturninum og Vaknið!“ segir Jane. „Samkomurnar voru mér einnig mikill styrkur. Þátttaka í þeim auðveldaði mér að leiða hugann frá eigin erfiðleikum. Boðunarstarfið hjálpaði mér á sama hátt. Með því að aðstoða aðra við að byggja upp trú sína á Jehóva styrkti ég mína eigin trú. Og að annast biblíunemendur hjálpaði mér að beina huganum að því sem skiptir máli.“

Monique segir: „Með því að sækja reglulega samkomur og taka eins mikinn þátt í boðunarstarfinu og ég get hef ég náð að halda út. Fjölskyldan er samheldnari og í nánara sambandi við söfnuðinn. Erfiðleikarnir hafa hjálpað mér að viðurkenna eigin veikleika. Ég hef gengið í gegnum prófraun en hef staðist með hjálp Jehóva.“

Þú getur líka staðist svipaðar prófraunir. Þrátt fyrir sársaukann, sem fylgir því að vera svikinn, skaltu reyna að fara eftir innblásnum leiðbeiningum Páls: „Þreytumst ekki að gera það sem gott er því að á sínum tíma munum við uppskera ef við gefumst ekki upp.“ — Gal. 6:9.

[Neðanmáls]

^ gr. 2 Sumum nöfnum hefur verið breytt.

^ gr. 13 Ítarlega umfjöllun um afstöðu Biblíunnar til hjónaskilnaðar er að finna í bókinni „Látið kærleika Guðs varðveita ykkur“, bls. 125-130, 219-221.

[Mynd á bls. 31]

Fráskildir einstaklingar kunna að meta að fá aðstoð í boðunarstarfinu.