Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sameinuð í kærleika – fréttir frá ársfundinum

Sameinuð í kærleika – fréttir frá ársfundinum

Sameinuð í kærleika – fréttir frá ársfundinum

EFTIRVÆNTING ríkti í mótshöll votta Jehóva í Jersey City í New Jersey-ríki í Bandaríkjunum. Morguninn 3. október 2009 höfðu rúmlega 5.000 manns safnast saman til að sækja 125. ársfund Biblíu- og smáritafélagsins Varðturninn í Pennsylvaníu. Þúsundir annarra fylgdust með dagskránni í gegnum fjarfundarbúnað á Betelheimilunum þremur í Bandaríkjunum og á Betel í Kanada. Alls voru 13.235 sameinaðir í kærleika til Jehóva til að njóta dagskrárinnar á þessum þriggja tíma fundi.

Geoffrey Jackson var fundarstjóri en hann á sæti í hinu stjórnandi ráði. Hann hóf fundinn með því að kynna kór betelíta sem söng söngva úr nýju söngbókinni okkar. Annar meðlimur hins stjórnandi ráðs, David Splane, stjórnaði kórnum og minntist stuttlega á mikilvægi tónlistar í sannri tilbeiðslu. Áheyrendum var boðið að syngja þrjá nýja söngva á fundinum. Kórinn söng þá fyrst og síðan sungu kórinn og áheyrendur saman. Það ber ekki að líta á þetta sem dæmi til eftirbreytni fyrir söfnuði, farandsvæði eða umdæmi heldur var kór aðeins fenginn til að syngja við þetta sérstaka tækifæri.

Fréttir frá deildarskrifstofum

Gestkomandi bræður, sem eiga sæti í deildarnefndum, fluttu fréttir frá fimm deildarskrifstofum. Kenneth Little tilkynnti að innan skamms verði svo til öll blöð fyrir Bandaríkin og Kanada prentuð í Kanada. Við það tífaldast framleiðslan þar í landi. Til að þetta takist verður ný prentvél keyrð á tveimur vöktum, alls 16 tíma á dag.

Reiner Thompson skýrði frá boðunarstarfinu í Dóminíska lýðveldinu og Albert Olih lýsti starfsemi okkar í Nígeríu. Emile Kritzinger frá Mósambik greindi frá því að eftir áratuga ofsóknir í Mósambik hefðu Vottar Jehóva hlotið lögskráningu árið 1992. Undanfarið hafa þessi þrjú lönd öll átt mikilli boðberaaukningu að fagna. Viv Mouritz frá deildarskrifstofunni í Ástralíu sagði frá framgangi starfsins á Austur-Tímor en bræður okkar í Ástralíu hafa umsjón með starfseminni þar.

Nefndir hins stjórnandi ráðs

Árið 1976 var öll starfsemi Votta Jehóva færð undir umsjón sex nefnda hins stjórnandi ráðs. Seinna voru bræður úr hópi annarra sauða útnefndir sem aðstoðarmenn. Nú eru aðstoðarmennirnir 23 talsins. Sex þeirra voru teknir tali. Þeir hafa samtals þjónað í fullu starfi í 341 ár — hver um sig að meðaltali í 57 ár.

Don Adams kom á Betel árið 1943. Hann lýsti því að ritarar allra nefndanna fimm sitji í ritaranefndinni sem tryggir að nefndirnar fimm vinni snurðulaust saman. Þessi nefnd bregst við þegar neyðarástand skapast svo sem ofsóknir, dómsmál, náttúruhamfarir og önnur aðkallandi mál sem snerta votta Jehóva víðsvegar um heiminn.

Dan Molchan lýsti verksviði starfsmannanefndarinnar sem hefur umsjón með andlegri og líkamlegri velferð 19.851 betelstarfsmanns um heim allan. David Sinclair sagði frá því að útgáfunefndin sæi um innkaup birgða og tækjabúnaðar fyrir deildarskrifstofurnar. Næst skýrði Robert Wallen frá starfsemi þjónustunefndarinnar sem hefur umsjón með boðunarstarfi og safnaðarstarfi þjóna Jehóva. Bróðir Wallen hefur starfað á Betel í næstum 60 ár. William Malenfant sagði frá þeirri miklu vinnu sem felst í því að undirbúa mótsdagskrár, en það er í verkahring fræðslunefndarinnar. Að lokum greindi John Wischuk frá því hvernig ritnefndin stjórnar vönduðum undirbúningi og vinnslu efnis fyrir ritin okkar. *

Árstextinn 2010 fjallar um kærleikann

Næstu þrjár ræður voru fluttar af meðlimum hins stjórnandi ráðs. Gerrit Lösch hóf mál sitt á spurningunni: „Viltu að öðrum þyki vænt um þig?“ Kærleikur er ein af frumþörfum mannsins og við þrífumst ekki án hans. Við eigum tilveru okkar kærleikanum að þakka því að Jehóva skapaði okkur af örlæti og kærleika. Við boðum og kennum fagnaðarboðskapinn fyrst og fremst af því að við elskum Jehóva.

Kærleikur byggður á meginreglum nær ekki aðeins til náungans heldur líka til óvina okkar. (Matt. 5:43-45) Áheyrendur voru hvattir til að hugleiða það sem Jesús gekk í gegnum okkar vegna. Hann var barinn, spottaður, það var hrækt á hann og hann var stunginn. Þrátt fyrir það bað hann fyrir hermönnunum sem staurfestu hann. Þykir okkur ekki enn vænna um hann þegar við íhugum þetta? Bróðir Lösch tilkynnti síðan árstextann fyrir 2010 sem er sóttur í 1. Korintubréf 13:7, 8: ,Kærleikurinn umber allt. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.‘ Við getum bæði vænst þess að lifa að eilífu og sömuleiðis að njóta og sýna kærleika að eilífu.

Ert þú alveg á síðustu dropunum?

Samuel Herd hóf ræðu sína á líkingu. Segjum sem svo að vinur þinn sæki þig og þið séuð á leið í 50 kílómetra ferðalag. Þú ert í farþegasætinu og tekur eftir að bensínmælirinn sýnir að bensínið sé búið. Þú segir vini þínum að hann sé alveg að verða bensínlaus. Hann segir þér þá að hafa engar áhyggjur, því það séu enn nokkrir lítrar eftir á tankinum. Skömmu seinna verðið þið samt bensínlausir. Er það þess virði að aka á ,síðustu dropunum‘ og hætta á að verða stopp? Er ekki mun betra að vera með fullan tank? Það má segja í yfirfærðri merkingu að eldsneytið sé þekking okkar á Jehóva.

Til að tryggja að við höfum nóg eldsneyti verðum við að fylla á tankinn og það reglubundið. Það má gera á fjóra vegu. Í fyrsta lagi með sjálfsnámi. Við verðum að vera vel að okkur í Biblíunni með því að lesa í henni daglega. Það er ekki nóg að lesa bara orðin, við verðum að skilja það sem við lesum. Í öðru lagi skulum við nýta okkur vel biblíunámskvöld fjölskyldunnar. Stönsum við vikulega til að fylla á tankinn eða setjum við bara smávegis á hann? Í þriðja lagi má nefna safnaðarbiblíunám og samkomusókn og í fjórða lagi hljóðláta og ótruflaða hugleiðingu á vilja Jehóva. Í Sálmi 143:5 segir: „Ég minnist fornra daga, hugleiði allar gjörðir þínar, ígrunda verk handa þinna.“

„Þau sem hlýtt hafa Guði skína sem sól“

John Barr flutti þriðju og síðustu ræðuna og útskýrði dæmisögu Jesú um hveitið og illgresið. (Matt. 13:24-30, 38, 43) Dæmisagan fjallar um „kornskurðartíð“ þegar ,börnum ríkisins‘ verður safnað saman og illgresið aðskilið til að brenna því.

Bróðir Barr tók skýrt fram að þessi söfnun myndi ekki halda áfram endalaust. Hann vitnaði í Matteus 24:34 en þar segir: „Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok uns allt þetta er komið fram.“ Hann las tvisvar þessa skýringu: „Jesús er greinilega að tala um að þeir af hinum andasmurðu, sem væru á jörðinni árið 1914 þegar táknið kæmi í ljós, yrðu um tíma samtíða öðrum andasmurðum sem myndu sjá þrenginguna miklu hefjast.“ Við vitum ekki nákvæmlega hvað „þessi kynslóð“ spannar langt tímabil, en það nær yfir þessa tvo hópa sem voru að einhverju leyti samtíða. Enda þótt hinir andasmurðu séu á mismunandi aldri eru einstaklingar í hópunum tveimur, sem mynda kynslóðina, samtíða einhvern hluta hinna síðustu daga. Það er uppörvandi að vita að yngstu andasmurðu samtíðarmenn eldri hóps hinna andasmurðu, sem sáu táknið þegar það kom í ljós árið 1914, verða ekki allir dánir áður en þrengingin mikla hefst.

„Börn ríkisins“ bíða eftirvæntingafull eftir launum sínum á himni. En við verðum öll að vera staðföst og skína sem sól allt til enda. Það er mikill heiður að fá að fylgjast með söfnun „hveitisins“ á okkar dögum.

Eftir lokasöng flutti Theodore Jaracz úr hinu stjórnandi ráði lokabæn. Dagskrá ársfundarins var ákaflega uppbyggileg fyrir alla viðstadda.

[Neðanmáls]

^ gr. 10 Sjá nánari lýsingu á verkefnum sex nefnda hins stjórnandi ráðs í Varðturninum 15. maí 2008, bls. 29.

[Rammi á bls. 5]

SKÓLI FYRIR ÖLDUNGA

Anthony Morris, sem á sæti í hinu stjórnandi ráði, tilkynnti á ársfundinum að haldið yrði áfram að mennta safnaðaröldunga. Snemma árs 2008 tók til starfa við fræðslumiðstöðina í Patterson í New York-ríki skóli fyrir öldunga í Bandaríkjunum. Sjötugasta og öðru námskeiðinu var rétt að ljúka en hingað til hafa 6.720 öldungar fengið fræðslu. Mikið er þó enn ógert. Í Bandaríkjunum einum eru yfir 86.000 öldungar. Þess vegna samþykkti hið stjórnandi ráð að öðrum skóla yrði komið á fót í Brooklyn í New York. Hann tók til starfa 7. desember 2009.

Fjórir farandumsjónarmenn skyldu fá kennaraþjálfun í tvo mánuði í Patterson. Þeir yrðu sendir til Brooklyn til að kenna og aðrir fjórir fengju þá þjálfun. Þeir myndu síðan kenna í skólanum í Brooklyn og fyrri hópurinn í öldungaskólum í mótshöllum og ríkissölum. Þetta yrði svo endurtekið þangað til 12 kennarar stunduðu kennslu á ensku við sex skóla í Bandaríkjunum í hverri viku. Fjórir kennarar yrðu síðan þjálfaðir til að kenna á spænsku. Þessi skóli kemur ekki í staðinn fyrir núverandi Ríkisþjónustuskóla. Markmiðið er að stuðla að því að öldungar taki framförum í þjónustu sinni við Jehóva. Deildarskrifstofur um heim allan fara síðan af stað með skóla í mótshöllum og ríkissölum þjónustuárið 2011.

[Myndir á bls. 4]

Ársfundurinn hófst með söng úr nýju söngbókinni „Lofsyngjum Jehóva“.