Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Sigra þú illt“ með því að hafa stjórn á skapinu

„Sigra þú illt“ með því að hafa stjórn á skapinu

„Sigra þú illt“ með því að hafa stjórn á skapinu

„Leitið ekki hefnda sjálf, mín elskuðu . . . en sigra þú illt með góðu.“ — RÓMV. 12:19, 21.

1, 2. Hvaða góða fordæmi settu vottar sem voru á ferðalagi?

HÓPUR af vottum Jehóva, alls 34, voru að ferðast saman til að vera viðstaddir vígslu deildarskrifstofu. Á leiðinni seinkaði fluginu vegna vélarbilunar. Það sem átti að vera einnar klukkustundar stopp til að taka eldsneyti varð að 44 klukkustunda þrekraun á afskekktum flugvelli með ófullnægjandi þjónustu hvað varðar mat, drykk og hreinlæti. Margir af farþegunum reiddust og höfðu í hótunum við flugvallarstarfsmennina. En vottarnir héldu ró sinni.

2 Að lokum komust vottarnir á leiðarenda og náðu að vera viðstaddir síðasta hluta vígsludagskrárinnar. Þó að þeir væru þreyttir dokuðu þeir við eftir athöfnina til að njóta samvista við trúsystkini á staðnum. Þeir komust að því síðar að þeir höfðu vakið athygli fyrir þolinmæði sína og sjálfstjórn. Einn af farþegunum sagði við starfsmenn flugfélagsins: „Ef ekki hefðu verið 34 vottar í fluginu hefði orðið uppþot á flugvellinum.“

Við búum í reiðum heimi

3, 4. (a) Hvernig og hversu lengi hefur reiði og ofbeldi hrjáð mennina? (b) Hefði Kain getað haldið aftur af reiði sinni? Skýrðu svarið.

3 Álagið í þessu illa heimskerfi getur valdið reiði. (Préd. 7:7) Oft leiðir reiðin til haturs og ofbeldis. Stríð geisa milli þjóða og innan þeirra og spenna innan fjölskyldna veldur átökum á mörgum heimilum. Slík reiði og ofbeldi á sér langa sögu. Kain, frumburður Adams og Evu, drap Abel yngri bróður sinn vegna reiði og öfundar. Kain framdi þetta óhæfuverk þó að Jehóva hefði hvatt hann til að hafa stjórn á tilfinningum sínum og lofað að blessa hann ef hann gerði það. — Lestu 1. Mósebók 4:6-8.

4 Þrátt fyrir að hafa fengið ófullkomleika í arf gat Kain valið. Hann hefði getað haldið aftur af reiðinni. Þess vegna bar hann fulla ábyrgð á ofbeldisverki sínu. Á svipaðan hátt gerir ófullkomleikinn okkur erfiðara fyrir að forðast reiði og reiðiköst. Og ýmislegt annað getur haft sterk neikvæð áhrif og aukið álagið á þessum,örðugu tíðum‘. (2. Tím. 3:1) Til dæmis geta efnahagserfiðleikar valdið okkur hugarangri. Að sögn lögreglu og samtaka, sem aðstoða fjölskyldur, eru tengsl á milli kreppu í efnahagslífinu og tíðari reiðikasta og heimilisofbeldis.

5, 6. Hvaða viðhorf heimsins varðandi reiði gæti haft áhrif á okkur?

5 Margir sem verða á vegi okkar eru „sérgóðir“, „hrokafullir“ og jafnvel „grimmir“. Það er hægðarleikur að smitast af slæmum eiginleikum eins og þessum og láta reiði ná tökum á sér. (2. Tím. 3:2-5) Í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum er hefnd oft sett fram sem göfug og ofbeldi sem eðlileg og réttlætanleg lausn á vandamálum. Dæmigerður söguþráður er þannig að áhorfendur hlakka til þess þegar þorparinn fær makleg málagjöld — venjulega er hann drepinn á hrottafengin hátt af söguhetjunni.

6 Slíkur áróður hvetur ekki til að farið sé eftir vilja Guðs heldur ýtir undir „anda heimsins“ og hugarfar Satans, stjórnanda hans, en hann er fullur reiði. (1. Kor. 2:12; Ef. 2:2; Opinb. 12:12) Þessi andi ýtir undir langanir ófullkomins holds og er algerlega í andstöðu við heilagan anda Guðs og ávexti hans. Ein af grundvallarkenningum kristninnar er að hefna sín ekki þó að manni sé ögrað. (Lestu Matteus 5:39, 44, 45.) Hvernig getum við tekið kennslu Jesú enn betur til okkar?

Góð og slæm fordæmi

7. Hvaða afleiðingar hafði það að Símeon og Leví misstu stjórn á skapi sínu?

7 Í Biblíunni er gnægð leiðbeininga um hvernig eigi að hafa stjórn á skapi sínu og dæmi um hvað geti gerst ef við gerum það og eins ef við gerum það ekki. Skoðum frásöguna af því þegar synir Jakobs, þeir Símeon og Leví, hefndu sín á Síkem fyrir að nauðga Dínu, systur þeirra. Þeim ,var mjög misboðið og þeir urðu ævareiðir‘. (1. Mós. 34:7) Aðrir synir Jakobs réðust á borg Síkems, rændu hana og tóku konurnar og börnin herfangi. Þeir gerðu þetta ekki bara út af Dínu heldur líklega einnig vegna stolts og vegna þess að þeir höfðu verið auðmýktir. Þeim fannst að Síkem hefði misboðið þeim og Jakobi, föður þeirra. En hvað fannst Jakobi um framferði þeirra?

8. Hvað getum við lært af frásögunni um Símeon og Leví?

8 Dapurleg reynsla Dínu hlýtur að hafa hryggt Jakob mjög mikið. En hann fordæmdi engu að síður hefnd sona sinna. Símeon og Leví reyndu samt að réttlæta gerðir sínar og sögðu: „Átti honum þá að líðast að fara með systur okkar eins og skækju?“ (1. Mós. 34:31) En málinu var ekki þar með lokið því að Jehóva var ósáttur. Mörgum árum síðar spáði Jakob því að afkomendum Símeons og Leví yrði dreift meðal ættkvísla Ísraels vegna reiði þeirra og ofbeldisverka. (Lestu 1. Mósebók 49:5-7.) Já, taumlaus reiði þeirra kallaði yfir þá vanþóknun bæði Guðs og föður þeirra.

9. Hvenær var Davíð næstum því búinn að láta skapið hlaupa með sig í gönur?

9 Öðru máli gegndi um Davíð konung. Hann fékk mörg tækifæri til að hefna sín en gerði það ekki. (1. Sam. 24:4-8) Eitt sinn var skapið þó næstum búið að hlaupa með hann í gönur. Auðugur maður, sem hét Nabal, úthúðaði mönnum Davíðs þó að þeir hefðu verndað hjarðir hans og fjárhirða. Kannski var Davíð móðgaður, sér í lagi fyrir hönd manna sinna. Hann var því um það bil að fara að hefna sín. Hann var lagður af stað með mönnum sínum til að ráðast á Nabal og heimilisfólk hans þegar ungur maður sagði Abígail, eiginkonu Nabals, hvað hefði gerst og hvatti hana til að bregðast við því. Hún var skynsöm og undirbjó strax rausnarlega gjöf og fór til fundar við Davíð. Hún baðst auðmjúklega afsökunar á ósvífni Nabals og höfðaði til guðsótta Davíðs. Davíð kom til sjálfs sín og sagði: „Blessuð séu hyggindi þín og þú sjálf sem forðaðir mér frá því að baka mér blóðskuld.“ — 1. Sam. 25:2-35.

Kristileg viðhorf og framkoma

10. Hvernig eiga kristnir menn að líta á hefnd?

10 Frásögurnar af Símeon og Leví og af Davíð og Abígail sýna svo ekki verður um villst að Jehóva hefur vanþóknun á taumlausri reiði og ofbeldi en hann blessar þá sem stuðla að friði. Páll postuli skrifaði: „Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á ykkar valdi. Leitið ekki hefnda sjálf, mín elskuðu, látið reiði Guðs um að refsa eins og ritað er: ,Mín er hefndin, ég mun endurgjalda,‘ segir Drottinn. En ,ef óvin þinn hungrar þá gef honum að eta, ef hann þyrstir þá gef honum að drekka. Með því að gera þetta safnar þú glóðum elds á höfuð honum.‘ Lát ekki hið illa sigra þig en sigra þú illt með góðu.“ — Rómv. 12:18-21. *

11. Hvernig lærði systir ein að hafa stjórn á skapi sínu?

11 Við getum farið eftir þessum leiðbeiningum. Systir nokkur kvartaði við öldung undan nýjum yfirmanni á vinnustað hennar. Hún sagði að hann væri ósanngjarn og óvinsamlegur. Hún var reið við hann og vildi segja upp. Öldungurinn hvatti hana til að gera ekkert í fljótfærni. Hann áttaði sig á því að reiðileg viðbrögð systurinnar höfðu einungis gert illt verra. (Tít. 3:1-3) Öldungurinn benti henni á að þótt hún fyndi sér annað starf þyrfti hún samt að breyta viðbrögðum sínum þegar aðrir kæmu illa fram við hana. Hann ráðlagði henni að koma fram við yfirmann sinn eins og hún vildi að komið væri fram við sig, líkt og Jesús kenndi. (Lestu Lúkas 6:31.) Hún féllst á að reyna og með tímanum breyttist viðmót yfirmannsins og hann þakkaði henni meira að segja fyrir störf hennar.

12. Hvers vegna getur ágreiningur milli trúsystkina reynt sérstaklega á?

12 Það kemur kannski ekki á óvart þegar svona vandamál koma upp utan kristna safnaðarins. Við vitum að margt er ósanngjarnt í heimi Satans og við þurfum að berjast gegn því að láta reita okkur til reiði. (Sálm. 37:1-11; Préd. 8:12, 13; 12:13, 14) En þegar ágreiningur kemur upp milli trúsystkina getur það valdið okkur miklu meiri sársauka. Systir nokkur segir: „Stærsta hindrunin fyrir mig þegar ég var að koma í sannleikann var að sætta mig við að fólk Jehóva er ófullkomið.“ Við komum úr köldum og kærleikslausum heimi og vonumst til að allir í kristna söfnuðinum séu hlýlegir í viðmóti. Ef trúbróðir er tillitslaus eða kemur ókristilega fram getur það sært okkur eða reitt til reiði, sérstaklega ef hann gegnir ábyrgðarstöðu í söfnuðinum. Við gætum spurt: „Hvernig getur þetta gerst meðal þjóna Jehóva.“ Svona lagað gerðist reyndar líka meðal hinna andasmurðu á dögum postulanna. (Gal. 2:11-14; 5:15; Jak. 3:14, 15) Hvernig ættum við að bregðast við því?

13. Af hverju ættum við að leggja okkur fram um að leysa ágreiningsmál og hvernig förum við að því?

13 „Ég lærði að biðja fyrir þeim sem særa mig,“ sagði systirin sem minnst var á hér á undan. „Það hjálpar alltaf.“ Eins og við höfum þegar lesið kenndi Jesús okkur að biðja fyrir þeim sem ofsækja okkur. (Matt. 5:44) Er ekki enn ríkari ástæða til að biðja fyrir trúsystkinum okkar? Rétt eins og faðir, sem vill að börnin sín elski hvert annað, vill Jehóva að þjónum hans á jörðinni komi vel saman. Við hlökkum til þess að lifa saman í friði og hamingju að eilífu og Jehóva er að kenna okkur það núna. Hann vill að við vinnum saman að því mikla verki sem hann hefur falið okkur. Við skulum því leysa ágreining eða líta fram hjá honum og halda áfram að vera samstíga. (Lestu Orðskviðina 19:11.) Í stað þess að fjarlægjast trúsystkini okkar þegar upp kemur missætti ættum við að hjálpa hvert öðru að halda okkur sem næst söfnuðinum, óhult í,eilífum örmum‘ Jehóva. — 5. Mós. 33:27.

Mildileg framkoma er til góðs

14. Hvernig getum við komið í veg fyrir að Satan sundri okkur?

14 Satan og illir andar reyna að raska friði fjölskyldna og safnaða til að koma í veg fyrir að við boðum fagnaðarerindið. Þeir reyna að valda sundrung vegna þess að þeir vita að hún spillir fyrir. (Matt. 12:25) Til að berjast gegn skaðlegum áhrifum þeirra er viturlegt að fara að ráðum Páls: „Þjónn Drottins á ekki að eiga í ófriði heldur á hann að vera ljúfur við alla.“ (2. Tím. 2:24) Mundu að við eigum ekki í baráttu við „menn af holdi“ heldur við „andaverur vonskunnar“. Ef við ætlum að fara með sigur af hólmi verðum við að íklæðast andlegum herklæðum, þar á meðal „fúsleik til að flytja fagnaðarboðin um frið“. — Ef. 6:12-18.

15. Hvernig eigum við að bregðast við árásum á söfnuðinn?

15 Óvinir Jehóva ráðast grimmilega á friðsama þjóna hans. Sumir þeirra ráðast með beinum hætti á votta Jehóva. Aðrir bera út róg um okkur í fjölmiðlum eða fyrir rétti. Jesús sagði fylgjendum sínum að við þessu mætti búast. (Matt. 5:11, 12) Hvernig ættum við að bregðast við? Við eigum aldrei að gjalda „illt fyrir illt“, hvorki í orði né verki. — Rómv. 12:17; lestu 1. Pétursbréf 3:16.

16, 17. Í hvaða óþægilegu aðstöðu lenti söfnuður einn?

16 Sama hvað djöfullinn reynir að gera okkur getum við ,sigrað illt með góðu‘ og gefið góðan vitnisburð. Söfnuður einn á eyju í Kyrrahafinu leigði sal fyrir minningarhátíðina. Forystumenn kirkjunnar á staðnum sögðu sóknarbörnunum að koma saman í þessum sal til messuhalds á sama tíma og halda átti minningarhátíðina. Lögreglustjórinn skipaði hins vegar forystumönnum kirkjunnar að rýma salinn áður en vottarnir ætluðu að nota hann. Samt var salurinn fullur af fólki og messahald í gangi þegar kom að því að halda hátíðina.

17 Lögreglan var að búa sig undir að rýma salinn með valdi. Þá kom forstöðumaður kirkjunnar til eins af öldungunum og spurði: „Eruð þið með eitthvað sérstakt á dagskrá í kvöld?“ Bróðirinn sagði honum frá minningarhátíðinni og maðurinn svaraði: „Æ, ég vissi það ekki.“ Þá sagði lögreglumaður: „En við sögðum þér það í morgun.“ Forstöðumaðurinn sneri sér þá að öldungnum, brosti lymskulega og sagði: „Hvað ætlið þið nú að taka til bragðs? Við erum með fullan sal af fólki. Ætlið þið að láta lögregluna reka okkur út?“ Hann hafði með slægð hagað málum svo að vottarnir virtust ofsækja kirkjuna. Hvernig brugðust bræður okkar við?

18. Hvernig brugðust bræðurnir við ögruninni og með hvaða árangri?

18 Vottarnir buðu forystumönnum kirkjunnar að halda messunni áfram í hálftíma og síðan myndu bræðurnir halda minningarhátíðina. Messuhaldið varð lengra en til var ætlast en eftir að sóknarbörnin fóru var hátíðin haldin. Daginn eftir kölluðu yfirvöld staðarins saman opinbera rannsóknarnefnd. Eftir að hafa farið yfir málið ákvað rannsóknarnefndin að kirkjunni bæri að tilkynna að vandamálið hefði ekki verið vottunum að kenna heldur forstöðumanni kirkjunnar. Rannsóknarnefndin þakkaði einnig vottunum fyrir hversu þolinmóðir þeir voru við erfiðar aðstæður. Viðleitni vottanna til að ,hafa frið við alla menn‘ hafði borið góðan árangur.

19. Hvað annað getur stuðlað að friðsamlegum samskiptum?

19 Önnur mikilvæg leið til að eiga friðsamleg samskipti við aðra er að vera vinsamleg í tali. Í næstu grein verður fjallað um hvað það er að vera mild og vinsamleg í tali og hvernig við temjum okkur það.

[Neðanmáls]

^ gr. 10 ,Glóðir elds‘ vísa til fornrar aðferðar við að bræða málmgrýti. Það var hitað bæði ofan frá og neðan til að vinna málminn úr grjótinu. Ef við erum vinsamleg við þá sem eru óvinsamlegir getur það breytt viðmóti þeirra og laðað fram hið góða í fari þeirra.

Geturðu svarað?

• Af hverju er mikil reiði í heiminum?

• Hvaða frásögur í Biblíunni sýna hvað getur gerst ef við höfum stjórn á skapi okkar og ef við missum stjórn á því?

• Hvernig eigum við að bregðast við ef trúsystkini særir okkur?

• Hvernig ættum við að bregðast við árásum á söfnuðinn?

[Spurningar]

[Mynd á bls. 16]

Símeon og Levi sneru aftur — en eftir að hafa misst stjórn á skapi sínu.

[Myndir á bls. 18]

Ef við erum vinsamleg getum við breytt viðmóti annarra.