Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Vertu í öruggu skjóli í söfnuðinum

Vertu í öruggu skjóli í söfnuðinum

Vertu í öruggu skjóli í söfnuðinum

„Þá vil ég lofa þig í stórum söfnuði.“ — SÁLM. 35:18.

1-3. (a) Hvað getur orðið til þess að kristinn maður stofni sambandi sínu við Jehóva í hættu? (b) Hvar geta þjónar Jehóva fengið vernd?

ÞAU Joe og eiginkona hans voru að snorkla í sumarfríinu við kóralrif í hitabeltinu. Sjórinn var kvikur af fiski af öllum stærðum og litum. Þau syntu ögn lengra frá landi til að skoða rifið betur. Þegar sjórinn snardýpkaði og við blasti dimmblátt hyldýpi sagði kona Joes: „Ég held við séum komin of langt frá landi.“ „Vertu róleg,“ svaraði Joe, „ég veit hvað ég er að gera.“ Þegar hann rifjar þetta upp minnist hann þess að hafa furðað sig á því að fiskurinn var allt í einu horfinn. Hann var skelfingu lostinn þegar hann áttaði sig á ástæðunni. Hákarl kom syndandi neðan úr djúpinu og stefndi beint á hann. Joe var algerlega varnarlaus. Hákarlinn var ekki nema rétt um metra frá honum þegar hann breytti um stefnu, synti burt og hvarf.

2 Kristinn maður getur orðið svo hugfanginn af því sem heimur Satans hefur upp á að bjóða — skemmtanalífi, atvinnu eða eignum — að hann áttar sig ekki á að hann er kominn út á hættusvæði. „Þessi lífsreynsla varð til þess að ég fór að hugsa um félagsskapinn sem við veljum okkur,“ segir Joe en hann er öldungur í söfnuðinum. „Syntu þar sem það er óhætt og ánægjulegt — í söfnuðinum.“ Syntu ekki út í botnlaust djúp þar sem þú átt á hættu að einangrast frá söfnuðinum. Ef þú lendir einhvern tíma í þeirri aðstöðu skaltu hraða þér aftur í öruggt skjól. Annars áttu á hættu að stofna sambandi þínu við Jehóva í voða.

3 Heimur nútímans er hættulegur staður fyrir kristna menn. (2. Tím. 3:1-5) Satan veit að dagar hans eru taldir og hann reynir að klófesta þá sem ugga ekki að sér. (1. Pét. 5:8; Opinb. 12:12, 17) En við erum ekki varnarlaus. Jehóva hefur séð fólki sínu fyrir öruggu andlegu skjóli — kristna söfnuðinum.

4, 5. Hvernig líta margir á framtíðina og af hverju?

4 Þjóðfélagið býður fólki aðeins takmarkað öryggi — hvort heldur líkamlegt eða tilfinningalegt. Mörgum finnst líkamlegu öryggi sínu ógnað af glæpum, ofbeldi, dýrtíð og jafnvel ýmiss konar umhverfisvá. Allir standa frammi fyrir þeim vandamálum sem fylgja elli og heilsuleysi. Og þeir sem hafa vinnu, eiga húsnæði, búa við þokkalegan fjárhag og eru tiltölulega heilsugóðir velta oft fyrir sér hve lengi það endist.

5 Mörgum hefur líka reynst erfitt að skapa sér tilfinningalegt öryggi. Ótalmargir, sem vonuðust eftir að hjónaband og fjölskylda myndi veita þeim frið og hamingju, hafa því miður orðið fyrir vonbrigðum. Margt kirkjurækið fólk er ráðvillt og efins um gildi þeirrar trúarleiðsagnar sem það hefur fengið. Vafasamt hátterni og óbiblíulegar kenningar kirkjunnar manna hafa átt drjúgan þátt í því. Margir telja því að þeir eigi um fátt annað að velja en að vona á vísindin og á góðvild og skynsemi annarra manna. Það kemur ekki á óvart að fólk skuli vera mjög uggandi um öryggi sitt eða kjósi hreinlega að hugsa ekki mikið um framtíðina.

6, 7. (a) Af hverju er munur á viðhorfum þeirra sem þjóna Guði og þeirra sem gera það ekki? (b) Hvað ætlum við að líta á í framhaldinu?

6 Það er óneitanlega himinn og haf milli viðhorfa þeirra sem tilheyra kristna söfnuðinum og þeirra sem gera það ekki. Enda þótt við sem erum þjónar Jehóva þurfum að takast á við mörg af sömu vandamálum og erfiðleikum og annað fólk eru viðbrögð okkar allt önnur. (Lestu Jesaja 65:13, 14; Malakí 3:18.) Af hverju? Af því að við finnum í Biblíunni fullnægjandi skýringar á ástandinu sem ríkir í mannlegu samfélagi, og við erum í stakk búin til að takast á við erfiðleikana í lífinu. Þess vegna kvíðum við ekki framtíðinni úr hófi fram. Þar sem við tilbiðjum Jehóva fáum við vernd gegn fölskum og óbiblíulegum rökum, siðlausu hátterni og afleiðingum þess. Þeir sem tilheyra kristna söfnuðinum búa því við innri ró sem aðrir þekkja ekki. — Jes. 48:17, 18; Fil. 4:6, 7.

7 Við skulum líta á dæmi sem geta hjálpað okkur að bera saman öryggi þeirra sem þjóna Jehóva og hinna sem gera það ekki. Þessi dæmi geta verið okkur hvatning til að líta í eigin barm og skoða hugsunarhátt okkar og breytni. Þau geta hvatt okkur til að kanna hvort við getum farið enn betur eftir leiðbeiningum Guðs sem eru til þess fallnar að vernda okkur. — Jes. 30:21.

„Við lá að mér skrikaði fótur“

8. Hvað hafa þjónar Jehóva alltaf þurft að gera?

8 Allt frá fornu fari hafa þeir sem kusu að þjóna Jehóva og hlýða honum reynt að forðast náinn félagsskap við þá sem gerðu það ekki. Jehóva talaði reyndar um að fjandskapur yrði milli þeirra sem tilbæðu hann og hinna sem fylgdu Satan. (1. Mós. 3:15) Þar sem þjónar Guðs fylgja eindregið meginreglum hans hafa þeir tekið aðra stefnu en umheimurinn. (Jóh. 17:15, 16; 1. Jóh. 2:15-17) Það hefur ekki alltaf verið auðvelt. Sumir af þjónum Guðs hafa meira að segja stundum efast um að það væri skynsamlegt að temja sér fórnfýsi.

9. Lýstu innri baráttu eins af sálmariturunum.

9 Einn af þjónum Jehóva fór einu sinni að velta fyrir sér hvort hann hefði tekið skynsamlegar ákvarðanir. Þetta var sálmaritari, líklega einn af afkomendum Asafs, og við finnum hugleiðingar hans í Sálmi 73. Hann spurði af hverju hinum óguðlegu virðist ganga allt í haginn, þeir virðist hamingjusamir og í góðum efnum, en að sumir sem reyna að þjóna Guði þurfi hins vegar að þola prófraunir og erfiðleika. — Lestu Sálm 73:1-13.

10. Af hverju skipta spurningar sálmaskáldsins máli fyrir þig?

10 Hefurðu einhvern tíma spurt svipaðra spurninga og sálmaskáldið? Ef svo er þarftu ekki að vera þjakaður af sektarkennd eða hugsa sem svo að þú sért að ganga af trúnni. Í rauninni hafa margir þjónar Jehóva velt þessu fyrir sér, þeirra á meðal sumir sem hann notaði til að skrifa Biblíuna. (Job. 21:7-13; Sálm. 37:1; Jer. 12:1; Hab. 1:1-4, 13) Allir sem þrá að þjóna Jehóva verða að hugsa alvarlega um eftirfarandi spurningu og viðurkenna svarið við henni: Er best að þjóna Guði og hlýða honum? Þetta er nátengt deilumálinu sem Satan hleypti af stað í Edengarðinum og er þungamiðjan í stóru spurningunni um drottinvald Guðs. (1. Mós. 3:4, 5) Við ættum því öll að hugleiða spurningarnar sem sálmaskáldið varpaði fram. Eigum við að öfunda guðlausa oflátunga sem virðist ganga allt í haginn? Ættum við að hætta að þjóna Jehóva og feta í fótspor þeirra? Það er auðvitað það sem Satan vill að við gerum.

11, 12. (a) Hvernig sigraðist sálmaskáldið á efasemdum sínum og hvað getum við lært af því? (b) Hvað hefur hjálpað þér að komast að sömu niðurstöðu og sálmaskáldið?

11 Hvað hjálpaði sálmaskáldinu að sigrast á efasemdum sínum? Hann viðurkennir að hann hafi næstum snúið baki við réttlætinu en afstaða hans breyttist þegar hann gekk inn í „helgidóma Guðs“, það er að segja þegar hann hugleiddi vilja Jehóva og blandaði geði við fólk sem tilbað hann í tjaldbúðinni eða musterinu. Þá rann upp fyrir honum að hann vildi ekki deila kjörum með illvirkjum. Hann gerði sér grein fyrir að með lífsstefnu sinni og ákvörðunum voru þeir komnir „á hála jörð“. Sálmaskáldið áttaði sig á að allir sem eru Jehóva ótrúir og yfirgefa hann „hljóta skelfilegan dauðdaga“. Jehóva styður hins vegar og styrkir þá sem þjóna honum. (Lestu Sálm 73:16-19, 27, 28.) Þú hefur vafalaust áttað þig á að þetta er dagsatt. Það getur virst eftirsóknarvert að lifa fyrir sjálfan sig án þess að hugsa um lög Guðs en afleiðingarnar eru óhjákvæmilega slæmar. — Gal. 6:7-9.

12 Hvað annað má læra af reynslu sálmaskáldsins? Hann fann öruggt skjól meðal þjóna Guðs og þar öðlaðist hann visku. Hann fór að hugsa skýrt og rökrétt þegar hann fór á staðinn þar sem Jehóva var tilbeðinn. Eins er það núna að við getum fundið vitra ráðgjafa og fengið holla andlega fæðu á safnaðarsamkomum. Það er því ærin ástæða fyrir því að Jehóva skuli segja þjónum sínum að sækja samkomur. Þar fá þeir uppörvun og hvatningu til að breyta viturlega. — Jes. 32:1, 2; Hebr. 10:24, 25.

Vandaðu val vina þinna

13-15. (a) Hvað kom fyrir Dínu og hvað má læra af því? (b) Af hverju er það okkur til verndar að umgangast trúsystkini?

13 Dína, dóttir Jakobs, lenti í alvarlegum erfiðleikum vegna þess að hún valdi sér félagsskap í heiminum. Í frásögn 1. Mósebókar segir að hún hafi vanið sig á að umgangast ungu konurnar meðal Kanverja á svæðinu þar sem fjölskyldan bjó. Kanverjar höfðu ekki sömu háleitu siðferðisreglurnar og tilbiðjendur Jehóva. Þvert á móti benda fornleifafundir til þess að hátterni Kanverja hafi orðið til þess að landið fylltist skurðgoðadýrkun, siðspillingu, kynlífsdýrkun og ofbeldi. (2. Mós. 23:23; 3. Mós. 18:2-25; 5. Mós. 18:9-12) Mundu hvaða afleiðingar það hafði fyrir Dínu að leggja lag sitt við þetta fólk.

14 Á svæðinu bjó Síkem, ungur maður sem naut „mestrar virðingar í ætt föður síns“. Hann kom auga á Dínu, „tók hana með valdi, lagðist með henni og nauðgaði henni“. (1. Mós. 34:1, 2, 19) Hvílíkur harmleikur! Heldurðu að Dínu hafi dottið í hug að svona nokkuð gæti hent hana? Kannski var hún bara að sækjast eftir félagsskap unga fólksins á staðnum og taldi sér ekki stafa nein hætta af þeim. En þar lét hún blekkjast.

15 Hvaða lærdóm getum við dregið af þessari frásögu? Við getum hreinlega ekki leyft okkur að blanda geði við fólk sem er ekki í trúnni og ímyndað okkur að það komi okkur ekki í koll. Í Biblíunni segir að ,vondur félagsskapur spilli góðum siðum‘. (1. Kor. 15:33) Hins vegar er það okkur til verndar að umgangast fólk sem er sömu trúar og við, hefur sömu siðferðisgildi og elskar Jehóva. Góður félagsskapur er þér hvatning til að breyta viturlega. — Orðskv. 13:20.

„Þið létuð laugast“

16. Hvað sagði Páll postuli um suma í söfnuðinum í Korintu?

16 Kristni söfnuðurinn hefur hjálpað mörgum að hreinsa sig af óhreinu hátterni. Þegar Páll postuli skrifaði fyrra bréf sitt til safnaðarins í Korintu minntist hann á breytingar sem kristnir menn þar höfðu gert til að laga sig að kröfum Guðs. Sumir höfðu áður lifað í saurlífi, hórdómi eða kynvillu, dýrkað skurðgoð, verið þjófar, drykkjumenn og svo framvegis. „En þið létuð laugast,“ skrifaði Páll. — Lestu 1. Korintubréf 6:9-11.

17. Hvernig hafa meginreglur Biblíunnar breytt lífi margra?

17 Fólk, sem trúir ekki, hefur ekki heilbrigðar meginreglur sér til leiðsagnar. Það fer sínar eigin leiðir eða lætur einfaldlega reka á reiðanum í taumleysi umheimsins, líkt og sumir gerðu í Korintu til forna áður en þeir tóku trú. (Ef. 4:14) Nákvæm þekking á leiðbeiningum Guðs og fyrirætlunum hans getur hins vegar breytt til hins betra öllum sem trúa og treysta á leiðsögn Biblíunnar. (Kól. 3:5-10; Hebr. 4:12) Margir sem tilheyra kristna söfnuðinum núna geta sagt þér af eigin reynslu að þeir höfðu engar hömlur í siðferðismálum áður en þeir kynntust réttlátum meginreglum Jehóva og tóku að lifa eftir þeim. En þeir voru hvorki ánægðir né hamingjusamir. Þeir fundu ekki frið fyrr en þeir fóru að umgangast þjóna Guðs og lifa í samræmi við meginreglur Biblíunnar.

18. Hvað gerðist hjá ungri systur og hvað sannar það?

18 Þeir sem ákváðu einhvern tíma að yfirgefa öryggið í kristna söfnuðinum iðrast þess nú sáran, margir hverjir. Systir, sem við skulum kalla Tönju, segist hafa „haft tengsl við sannleikann á uppvaxtarárunum“ en 16 ára hafi hún yfirgefið söfnuðinn til að „eltast við tálbeitur heimsins“. Það hafði meðal annars í för með sér að hún varð barnshafandi og lét eyða fóstri. Hún segir: „Þessi þrjú ár, sem ég var fjarri söfnuðinum, skildu eftir sig óafmáanleg ör á sálinni. Sú hugsun ásækir mig að ég deyddi ófætt barn mitt . . . Mig langar til að segja öllu unga fólkinu, sem óskar þess að það geti ,smakkað‘ heiminn þó ekki sé nema stutta stund: ,Látið það vera!‘ Það bragðast kannski vel í byrjun en það skilur eftir skelfilegt óbragð í munninum. Heimurinn hefur ekkert að bjóða nema sorgir og erfiðleika. Ég veit það. Ég hef prófað það. Haldið ykkur í söfnuði Jehóva. Það er eina leiðin í lífinu sem veitir ykkur hamingju.“

19, 20. Hvaða vernd er að fá í kristna söfnuðinum og í hverju er hún fólgin?

19 Hugsaðu þér bara hvað gæti orðið um þig ef þú yfirgæfir verndina sem þú nýtur í kristna söfnuðinum. Marga hryllir við þegar þeir hugsa til lífsstefnu sinnar áður en þeir kynntust sannleikanum. (Jóh. 6:68, 69) Þú getur haldið áfram að búa við öryggi og njóta verndar gegn þeim sorgum og hörmungum, sem einkenna heim Satans, með því að varðveita náin tengsl við kristna bræður þína og systur. Ef þú umgengst þau og sækir safnaðarsamkomur reglulega minnir það þig stöðugt á hve viturlegar meginreglur Jehóva eru og hvetur þig til að lifa í samræmi við þær. Þú hefur ærna ástæðu til að ,lofa Jehóva í stórum söfnuði‘ eins og sálmaskáldið. — Sálm. 35:18.

20 Það koma auðvitað stundir hjá öllum kristnum mönnum að þeim finnst erfitt að vera Guði trúir, og það eru ýmsar ástæður fyrir því. Kannski þarf bara að benda þeim á réttu leiðina. Hvað getur þú gert, og reyndar allir aðrir í söfnuðinum, til að aðstoða trúsystkini sem svo er ástatt fyrir? Í næstu grein skoðum við hvernig þú getur ,hvatt og uppbyggt‘ trúsystkini þín. — 1. Þess. 5:11.

Hvert er svarið?

• Hvað má læra af þjóni Guðs sem orti Sálm 73?

• Hvaða lærdóm má draga af lífsreynslu Dínu?

• Af hverju geturðu verið óhultur í kristna söfnuðinum?

[Spurningar]

[Myndir á bls. 7]

Syntu þar sem þér er óhætt — haltu þig í söfnuðinum.