Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Óttast eigi, ég bjarga þér“

„Óttast eigi, ég bjarga þér“

„Óttast eigi, ég bjarga þér“

JESÚS varaði lærisveina sína við og sagði: „Djöfullinn mun varpa nokkrum yðar í fangelsi til þess að reyna yður.“ Rétt áður hafði hann sagt: „Kvíð þú ekki því sem þú átt að líða.“ Þar sem Satan heldur áfram að nota hótanir um fangelsisvist til að stöðva boðunarstarfið er mögulegt að sumar ríkisstjórnir ofsæki sannkristna menn. (Opinb. 2:10; 12:17) Hvernig getum við verið tilbúin til að takast á við vélabrögð djöfulsins og verið laus við kvíða eins og Jesús hvatti okkur til?

Auðvitað höfum við öll einhvern tímann fundið fyrir ótta. En í orði Guðs er okkur lofað að með hjálp Jehóva getum við sigrast á óttanum. Hvernig? Jehóva býr okkur undir að mæta andstöðu með því að upplýsa okkur um hvaða aðferðir Satan og útsendarar hans nota. (2. Kor. 2:11) Til að skýra þetta skulum við líta á dæmi úr Biblíunni. Við skoðum einnig nokkur dæmi úr samtíðinni um hvernig trúsystkini okkar hafa „staðist vélabrögð djöfulsins“. — Ef. 6:11-13.

Guðhræddur konungur mætir illum stjórnanda

Sanheríb, hinn illi konungur Assýríu, lagði undir sig hverja þjóðina á fætur annarri á áttundu öld f.Kr. Eftir þessa sigra var hann fullur sjálfstrausts og beindi sjónum sínum að þjónum Jehóva og Jerúsalem sem var höfuðborg þeirra. Hiskía var guðhræddur konungur í þessari borg. (2. Kon. 18:1-3, 13) Satan hefur án efa nýtt sér þessar aðstæður og egnt Sanheríb til að gera vilja sinn í þeim tilgangi að þurrka sanna tilbeiðslu út af jörðinni. — 1. Mós. 3:15.

Sanheríb sendi fulltrúa sína til Jerúsalem og krafðist þess að íbúar borgarinnar gæfust upp. Meðal fulltrúanna var marskálkurinn en hann var aðaltalsmaður konungs. * (2. Kon. 18:17) Hann reyndi að draga kjarkinn úr Gyðingum svo að þeir gæfust upp án bardaga. Hvaða aðferðir notaði hann til að hræða þá?

Trúfastir þrátt fyrir einangrun

Marskálkurinn sagði við fulltrúa Hiskía: „Svo segir stórkonungurinn, konungur Assýríu:,Á hverju hefur þú traust? Þú treystir sjálfsagt á þennan brotna reyrstaf, Egyptaland, sem stingst inn í hönd þess sem styður sig við hann og fer gegnum hana.‘“ (2. Kon. 18:19, 21) Ásakanir marskálksins voru rangar. Hiskía hafði ekki gert bandalag við Egypta. En með því að koma með þessar ásakanir var marskálkurinn að minna Gyðinga á að þeir væru algerlega einangraðir.

Nú á tímum nota andstæðingar sannrar tilbeiðslu hótanir um einangrun á svipaðan máta til þess að hræða sannkristna menn. Systir nokkur var í fangelsi og einangruð frá trúsystkinum sínum árum saman vegna trúar sinnar. Hún sagði síðar frá því hvað hjálpaði henni að halda ró sinni: „Bænin hjálpaði mér að nálgast Jehóva . . . Ég hugsaði um loforðið í Jesaja 66:2 þar sem segir að Guð líti til ,umkomulausra og beygðra í anda‘. Það styrkti mig alltaf og var mikil huggun.“ Bróðir, sem hafði verið í einangrun árum saman, hafði svipaða sögu að segja: „Ég áttaði mig á því að klefinn, þessi litli kassi, gat líka verið heill heimur þegar maður á náið samband við Guð.“ Já, náið samband við Jehóva veitti þessum tveim þjónum Guðs styrk til að þrauka í einangrun. (Sálm. 9:10, 11) Ofsækjendur þeirra gátu einangrað þau frá fjölskyldu, vinum og trúsystkinum en þau vissu að enginn gæti einangrað þau frá Jehóva. — Rómv. 8:35-39.

Því er afar mikilvægt að við nýtum okkur hvert tækifæri til að styrkja samband okkar við Jehóva. (Jak. 4:8) Við ættum því reglulega að spyrja okkur: „Hversu raunverulegur er Jehóva mér? Hefur orð hans afgerandi áhrif á ákvarðanir mínar stórar sem smáar?“ (Lúk. 16:10) Ef við leggjum okkur fram um að eiga náið samband við Guð höfum við ekkert að óttast. Spámaðurinn Jeremía talaði fyrir hönd þjakaðra Gyðinga og sagði: „Ég ákallaði nafn þitt, Drottinn, úr djúpi gryfjunnar . . . Þú nálgaðist mig þegar ég hrópaði til þín, sagðir:,Óttast ekki!‘“ — Harmlj. 3:55-57.

Ekki tekst að sá efasemdum

Marskálkurinn notaði villandi rök til að reyna að sá efasemdum meðal Ísraelmanna. Hann sagði: „Voru það ekki fórnarhæðir [Drottins] og ölturu sem Hiskía lagði af . . . það var Drottinn sjálfur sem sagði við mig: ,Farðu gegn þessu landi og leggðu það í eyði.‘“ (2. Kon. 18:22, 25) Marskálkurinn hélt því fram að Jehóva myndi ekki berjast fyrir hönd fólks síns vegna þess að hann væri óánægður með það. En það var ekki satt. Jehóva var ánægður með Hiskía og Gyðingana sem höfðu snúið aftur til sannrar tilbeiðslu. — 2. Kon. 18:3-7.

Slóttugir ofsækjendur gætu reynt að finna sameiginlegan umræðugrundvöll með upplýsingum sem eru að hluta til sannar. En þeir lauma lygum með þessum upplýsingum og vonast þannig til að geta sáð efasemdum. Til dæmis hefur það stundum gerst að trúsystkinum hefur verið sagt að bróðir, sem fer með forystuhlutverk í þeirra landi, hafi gert málamiðlun og því sé í góðu lagi að þau láti líka undan. En slíkar röksemdir blekkja ekki kristna menn sem átta sig á aðstæðum.

Skoðum nokkuð sem kom fyrir trúsystur í síðari heimsstyrjöldinni. Hún var í fangelsi og henni var sýnd skrifleg yfirlýsing. Plaggið gaf til kynna að bróðir, sem gegndi ábyrgðarstöðu innan safnaðarins, hefði fallið frá trúnni. Sá sem yfirheyrði hana spurði hvort hún hefði treyst þessum bróður. Systirin sagði: „[Hann] er bara ófullkominn maður.“ Hún bætti síðan við að eins lengi og hann lifði í samræmi við meginreglur Biblíunnar myndi Guð nota hann. „En þar sem yfirlýsing hans er ekki í samræmi við Biblíuna er hann ekki lengur bróðir minn.“ Þessi trúfasta systir var skynsöm og tók til sín eftirfarandi leiðbeiningu úr Biblíunni: „Treystið eigi tignarmönnum, mönnum sem enga hjálp geta veitt.“ — Sálm. 146:3.

Ef við höfum nákvæma þekkingu á orði Guðs og lifum í samræmi við það hjálpar það okkur að verjast blekkingum sem gætu veikt ásetning okkar að halda út. (Ef. 4:13, 14; Hebr. 6:19) Við þurfum því að láta daglegan biblíulestur og sjálfsnám hafa forgang til að geta hugsað skýrt þegar við erum undir álagi. (Hebr. 4:12) Já, núna er góður tími til að bæta við þekkingu okkar og styrkja trúna. Bróðir, sem var haldið í einangrun í mörg ár, sagði: „Mig langar til að hvetja trúsystkini mín til að sýna allri andlegri fæðu, sem við fáum, tilhlýðilega virðingu þar sem við vitum ekki hvernig hún á eftir að verða okkur til góðs.“ Ef við rannsökum gaumgæfilega orð Guðs og ritin frá trúa og hyggna þjóninum getur heilagur andi minnt okkur á það sem við höfum lært þegar við stöndum frammi fyrir prófraunum. — Jóh. 14:26.

Vernd gegn hræðsluáróðri

Marskálkurinn reyndi að hræða Gyðingana. Hann sagði: „Nú skaltu veðja við húsbónda minn, Assýríukonung: Ég skal gefa þér tvö þúsund hesta ef þú getur sett á þá riddara. Hvernig mun þér takast að reka nokkurn landstjóra húsbónda míns á flótta, jafnvel þann aumasta þeirra?“ (2. Kon. 18:23, 24) Frá mannlegum sjónarhóli áttu Hiskía og fólk hans ekki möguleika gegn öflugum her Assýringa.

Ofsækjendur geta virst yfirþyrmandi voldugir, sér í lagi ef þeir hafa fullan stuðning stjórnvalda. Þannig var það með nasista sem ofsóttu Votta Jehóva í síðari heimsstyrjöldinni. Þeir reyndu að draga kjarkinn úr mörgum af þjónum Guðs. Einn trúbróðir okkar, sem var mörg ár í fangelsi, lýsti því hvernig honum var hótað. Eitt sinn spurði liðsforingi hann: „Sástu hvernig bróðir þinn var skotinn? Hvað lærðirðu af því?“ Hann svaraði: „Ég er vottur Jehóva og mun vera það áfram.“ „Þá verður þú skotinn næst,“ sagði liðsforinginn. Engu að síður var bróðirinn staðfastur og óvinurinn hætti að reyna að hræða hann. Hvað hjálpaði honum að vera staðfastur þrátt fyrir svona hótun? Hann svarar sjálfur: „Ég treysti á nafn Jehóva.“ — Orðskv. 18:10.

Með því að trúa á Jehóva af öllu hjarta höfum við stóran skjöld sem verndar okkur gegn hverju því sem Satan kann að beita til að skaða okkur andlega. (Ef. 6:16) Því er okkur til góðs að biðja Jehóva um að hjálpa okkur að styrkja trúna. (Lúk. 17:5) Við þurfum einnig að nýta okkur það sem kemur frá trúa og hyggna þjóninum til að styrkja trú okkar. Ef okkur er ógnað styrkir það okkur að rifja upp hverju Jehóva lofaði spámanninum Esekíel en hann þurfti að kljást við þrjóskan lýð. Jehóva sagði við hann: „Herði ég nú andlit þitt eins og andlit þeirra og enni þitt eins og enni þeirra. Ég hef gert enni þitt hart sem demant, harðara en kvars.“ (Esek. 3:7-9) Ef nauðsyn krefur getur Jehóva gert okkur hörð sem demant, líkt og Esekíel þurfti að vera.

Að standast freistingar

Þegar ofsækjendur hafa án árangurs reynt allt sem þeir geta til að brjóta niður ráðvendni þjóna Guðs hefur stundum tekist að freista þeirra með gylliboðum. Marskálkurinn notaði einnig þessa aðferð. Hann sagði við íbúa Jerúsalem: „Konungur Assýríu segir: Semjið frið við mig og gangið mér á hönd . . . uns ég kem og flyt ykkur til lands sem líkist ykkar eigin landi. Það er land sem er auðugt að korni og vínberjasafa, brauði og víngörðum, olíuviði og hunangi. Þá munuð þið lifa en ekki deyja.“ (2. Kon. 18:31, 32) Tilhugsunin um að fá nýtt brauð og vín hefur eflaust verið freistandi fyrir íbúana sem þurftu að hýrast innan veggja umsetinnar borgar.

Þessi aðferð var notuð til að reyna að veikja ásetning trúboða sem sat í fangelsi. Honum var sagt að hann myndi fá „notalegt heimili“ með „fallegum garði“ í sex mánuði þar sem hann gæti hugsað málið. En bróðirinn var andlega vakandi og gerði enga málamiðlun hvað varðar meginreglur Biblíunnar. Hvað hjálpaði honum? Hann útskýrði það síðar: „Vonin um Guðsríki var mér raunveruleg . . . Vitneskjan um ríki Guðs styrkti mig. Ég var alveg viss og efaðist ekki eitt augnablik. Mér var ekki haggað.“

Hversu raunverulegt er Guðsríki okkur? Ættfaðirinn Abraham, Páll postuli og Jesús gátu allir þolað miklar raunir vegna þess að ríkið var þeim raunverulegt. (Fil. 3:13, 14; Hebr. 11:8-10; 12:2) Ef við höldum áfram að láta Guðsríki hafa forgang í lífi okkar og höfum varanlegar blessanir þess í huga getum við einnig staðist gylliboð um skammtíma létti. — 2. Kor. 4:16-18.

Jehóva yfirgefur okkur ekki

Þrátt fyrir tilraunir marskálksins til að hræða Gyðinga lögðu Hiskía og þegnar hans allt traust sitt á Jehóva. (2. Kon. 19:15, 19; Jes. 37:5-7) Jehóva svaraði bænum þeirra með því að senda engil sem drap á einni nóttu 185.000 hermenn í herbúðum Assýringa. Daginn eftir fór Sanheríb niðurlægður til Níneve, höfuðborgar sinnar, með leifarnar af hernum. — 2. Kon. 19:35, 36.

Greinilegt er að Jehóva yfirgaf ekki þá sem settu traust sitt á hann. Fordæmi trúsystkina okkar, sem hafa staðist prófraunir, sýna að sama gildir um Jehóva nú á tímum. Það er því ekki að ástæðulausu að himneskur faðir okkar segir: „Ég, Drottinn, er Guð þinn, ég held í hægri hönd þína og segi við þig:,Óttast eigi, ég bjarga þér.‘“ — Jes. 41:13.

[Neðanmáls]

^ gr. 6 „Marskálkur“ var hátt settur embættismaður hjá Assýringum. Hvergi er minnst á nafn mannsins í frásögunni.

[Innskot á bls. 13]

Oftar en 30 sinnum í Biblíunni segir Jehóva þjónum sínum að,óttast eigi‘.

[Mynd á bls. 12]

Hvernig líkjast aðferðir marskálksins þeim aðferðum sem óvinir þjóna Guðs nota nú á tímum?

[Myndir á bls. 15]

Ef við eigum náið samband við Jehóva getum við verið trúföst í prófraunum.