Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Það sem dagur Jehóva mun leiða í ljós

Það sem dagur Jehóva mun leiða í ljós

Það sem dagur Jehóva mun leiða í ljós

„Dagur Drottins mun koma sem þjófur . . . og jörðin og þau verk, sem á henni eru, upp brenna.“ — 2. PÉT. 3:10.

1, 2. (a) Hvernig mun það illa heimskerfi, sem nú er, líða undir lok? (b) Um hvaða spurningar verður fjallað?

HIÐ illa heimskerfi, sem nú er, byggist á þeirri stóru lygi að maðurinn geti stjórnað jörðinni á farsælan hátt óháð Jehóva. (Sálm. 2:2, 3) Getur nokkuð, sem byggt er á blekkingum, staðið að eilífu? Auðvitað ekki. En við þurfum ekki að bíða þess að heimur Satans líði undir lok af sjálfsdáðum heldur mun Guð eyða honum á tilsettum tíma og á sinn hátt. Þegar Guð lætur til skarar skríða gegn þessum illa heimi gerir hann það í fullkomnu samræmi við réttlæti sitt og kærleika. — Sálm. 92:8; Orðskv. 2:21, 22.

2 „Dagur Drottins mun koma sem þjófur,“ skrifaði Pétur postuli, „og þá munu himnarnir líða undir lok með miklum gný, frumefnin sundurleysast í brennandi hita og jörðin og þau verk, sem á henni eru, upp brenna.“ (2. Pét. 3:10) Hvað eru „himnarnir“ og „jörðin“ sem hér eru nefnd? Hver eru „frumefnin“ sem eiga að sundurleysast? Og hvað átti Pétur við þegar hann sagði að „jörðin og þau verk, sem á henni eru,“ skyldu „upp brenna“? Ef við vitum svörin við þessum spurningum erum við betur undir það búin að mæta þeim geigvænlegu atburðum sem verða í náinni framtíð.

Himnar og jörð sem líða undir lok

3. Hvað eru „himnarnir“, sem talað er um í 2. Pétursbréfi 3:10, og hvernig líða þeir undir lok?

3 Orðið „himnar“ er oft notað í Biblíunni til að tákna stjórnvöld sem eru upphafin yfir þegnana. (Jes. 14:13, 14; Opinb. 21:1, 2) „Himnarnir“, sem munu „líða undir lok“, tákna stjórn manna yfir óguðlegu samfélagi. Þegar sagt er að þeir líði undir lok með „miklum gný“ kann það að benda til þess hve skjótt þessum himnum verður gereytt.

4. Hvað er „jörðin“ og hvernig verður henni eytt?

4 „Jörðin“ táknar mannheiminn sem er fjarlægur Guði. Slíkur heimur var til á dögum Nóa, og hann leið undir lok í flóðinu samkvæmt tilskipun Guðs. „Eins ætlar Guð með sama orði að eyða með eldi himnunum sem nú eru ásamt jörðinni. Hann mun varðveita þá til þess dags er óguðlegir menn verða dæmdir og tortímast.“ (2. Pét. 3:7) Allir óguðlegir fórust samtímis í flóðinu en eyðing framtíðarinnar kemur í áföngum í „þrengingunni miklu“. (Opinb. 7:14) Í fyrri áfanga þrengingarinnar fær Guð pólitíska stjórnendur þessa heims til að eyða ,Babýlon hinni miklu‘ og sýnir þar með óbeit sína á þessari trúarlegu skækju. (Opinb. 17:5, 16; 18:8) Í Harmagedónstríðinu, sem er síðari áfangi þrengingarinnar miklu, afmáir Jehóva sjálfur það sem eftir er af heimi Satans. — Opinb. 16:14, 16; 19:19-21.

„Frumefnin sundurleysast“

5. Hvað er meðal annars fólgið í hinum táknrænu frumefnum?

5 Hver eru „frumefnin“ sem „sundurleysast“? Í biblíuorðabók er orðið skilgreint sem „frumatriði“ eða „undirstöðuatriði“. Orðið „var notað um stafi stafrófsins, undirstöðuatriði talaðs máls“. „Frumefnin“, sem Pétur talar um, eru því þau undirstöðuatriði sem gefa heiminum óguðleg einkenni, viðhorf, starfsaðferðir og markmið. Þessi ,frumefni‘ eru meðal annars ,andi heimsins‘ sem „verkar í þeim, sem ekki trúa“. (1. Kor. 2:12; lestu Efeseusbréfið 2:1-3.) Heimur Satans er mettaður af þessum anda eða ,lofti‘. Hann fær fólk til að hugsa, áforma, tala og hegða sér í samræmi við hugsunarhátt Satans, „valdhafans í loftinu“, sem er bæði hrokafullur og þrjóskur.

6. Hvernig birtist andi heimsins?

6 Þeir sem eru smitaðir af anda heimsins leyfa því, vitandi eða óafvitandi, Satan að hafa áhrif á sig með þeim afleiðingum að þeir endurspegla viðhorf hans og hugsunarhátt. Þeir gera þar af leiðandi það sem þeim sýnist og skeyta ekki um vilja Guðs. Viðbrögð þeirra við margs konar aðstæðum stjórnast af stolti eða eigingirni. Þeir eru uppreisnargjarnir og láta það sem „maðurinn girnist“ og það sem „glepur augað“ teyma sig áfram. — Lestu 1. Jóhannesarbréf 2:15-17. *

7. Af hverju verðum við að ,varðveita hjartað‘?

7 Það er því ákaflega mikilvægt að ,varðveita hjartað‘ með því að láta viskuna frá Guði ráða vali okkar á vinum, lesefni, afþreyingarefni og vefsíðum sem við skoðum á Netinu. (Orðskv. 4:23) Páll postuli skrifaði: „Gætið þess að láta engan hertaka ykkur með marklausu, villandi spekitali sem byggist á mannasetningum og er komið frá heimsvættunum en ekki frá Kristi.“ (Kól. 2:8) Það er þeim mun brýnna sem dagur Jehóva nálgast að fara eftir þessari hvatningu vegna þess að á þeim degi munu öll „frumefnin“ í heimi Satans bráðna. Þau eru ekki eldtraust og standast ekki hinn „brennandi hita“ á degi Jehóva. Þetta minnir á orðin í Malakí 4:1: „Dagurinn kemur, logandi sem eldstó. Þá verða allir hrokagikkir og óguðlegir að hálmi og dagurinn sem kemur mun kveikja í þeim.“

„Jörðin og þau verk, sem á henni eru, upp brenna“

8. Hvernig eru jörðin og þau verk, sem á henni eru, afhjúpuð?

8 Hvað átti Pétur við þegar hann skrifaði að „jörðin og þau verk, sem á henni eru, [myndu] upp brenna“? Orðið, sem er þýtt „brenna“, má einnig þýða „fletta ofan af“ eða „afhjúpa“. Pétur á við það að í þrengingunni miklu fletti Jehóva ofan af heimi Satans og sýni fram á að hann standi gegn sér og ríki sínu og verðskuldi því eyðingu. Í Jesaja 26:21 er spádómur um þann tíma. Þar segir: „Drottinn heldur frá bústað sínum til að refsa íbúum jarðarinnar fyrir misgjörð þeirra. Þá mun jörðin láta birtast blóðið sem á henni var úthellt og ekki hylja þá lengur sem á henni voru vegnir.“

9. (a) Hverju ættum við að hafna og af hverju? (b) Hvað ættum við að tileinka okkur og af hverju?

9 Á degi Jehóva munu þeir sem hafa látið mótast af þessum illa heimi og anda hans sýna sitt rétta eðli og jafnvel strádrepa hver annan. Það er alls ekki óhugsandi að allt hið ofbeldisfulla afþreyingarefni, sem er vinsælt í heiminum núna, sé viss innræting til þess tíma þegar „hver höndin verður uppi á móti annarri“. (Sak. 14:13) Það er því mikilvægt að hafna öllu — kvikmyndum, bókum, tölvuleikjum og öðru slíku — sem getur ýtt undir einkenni sem eru andstyggileg í augum Guðs, til dæmis hroka og ofbeldishneigð. (2. Sam. 22:28; Sálm. 11:5) Við skulum frekar tileinka okkur ávöxt heilags anda Guðs því að þar er um að ræða eiginleika sem reynast eldtraustir í,hitanum‘ á degi Jehóva. — Gal. 5:22, 23.

,Nýr himinn og ný jörð‘

10, 11. Hvað er átt við þegar talað er um ,nýjan himin‘ og ,nýja jörð‘?

10Lestu 2. Pétursbréf 3:13. ,Nýi himinninn‘ er himneskt ríki Guðs sem var stofnsett árið 1914 þegar „tímar heiðingjanna“ tóku enda. (Lúk. 21:24) Í þessari konungsstjórn sitja Kristur Jesús og 144.000 meðstjórnendur hans sem hafa nú flestir hlotið himnesk laun sín. Í Opinberunarbókinni er talað um þessa útvöldu sem „borgina helgu, nýja Jerúsalem“. Jóhannes sér hana „stíga niður af himni frá Guði, búna sem brúði er skartar fyrir manni sínum“. (Opinb. 21:1, 2, 22-24) Hin nýja Jerúsalem og brúðgumi hennar mynda stjórn nýja heimsins rétt eins og Jerúsalem á jörð var stjórnarsetur Ísraels til forna. Þessi himneska borg mun „stíga niður af himni“ í þeim skilningi að hún beinir athygli sinni að jörðinni.

11,Nýja jörðin‘ er nýtt jarðneskt samfélag manna sem hafa sýnt að þeir lúta ríki Guðs af fúsu geði. Andlega paradísin, sem þjónar Jehóva búa í nú þegar, verður þá loksins í sínu rétta umhverfi í hinum fagra ,komandi heimi‘. (Hebr. 2:5) Hvað þurfum við að gera til að fá að búa í nýja heiminum?

Búðu þig undir hinn mikla dag Jehóva

12. Af hverju verður dagur Jehóva reiðarslag fyrir heiminn?

12 Bæði Páll og Pétur sögðu fyrir að dagur Jehóva kæmi „sem þjófur“ — óvænt, svo að lítið bæri á. (Lestu 1. Þessaloníkubréf 5:1, 2.) Sannkristnir menn, sem bíða dagsins með eftirvæntingu, verða jafnvel undrandi á því hve snögglega hann kemur. (Matt. 24:44) En heimurinn á miklu meira en undrun í vændum. Páll skrifaði: „Þegar menn [sem eru fjarlægir Jehóva] segja: ,Friður og engin hætta,‘ þá kemur snögglega tortíming yfir þá eins og jóðsótt yfir þungaða konu. Og þeir munu alls ekki undan komast.“ — 1. Þess. 5:3.

13. Hvernig getum við komið í veg fyrir að yfirlýsingin um ,frið og enga hættu‘ blekki okkur?

13 Yfirlýsingin um ,frið og enga hættu‘ er eins og hver önnur lygi innblásin af illum öndum. En þjónar Jehóva láta ekki blekkjast. Páll skrifaði: „Þið . . . eruð ekki í myrkri svo að dagurinn geti komið yfir ykkur sem þjófur. Þið eruð öll börn ljóssins og börn dagsins.“ (1. Þess. 5:4, 5) Við skulum því halda okkur í ljósinu, fjarri myrkrinu í heimi Satans. Pétur skrifaði: „Fyrst þið vitið þetta fyrir fram, þið elskuðu, þá hafið gát á ykkur að þið látið eigi dragast með af villu þverbrotinna manna [falskennara í kristna söfnuðinum] og fallið frá staðfestu ykkar.“ — 2. Pét. 3:17.

14, 15. (a) Hvernig sýnir Jehóva okkur virðingu? (b) Hvaða innblásnu orð ættum við að taka alvarlega?

14 Við tökum eftir að Jehóva segir okkur ekki bara að ,hafa gát á okkur‘ og síðan ekki söguna meir. Hann sýnir okkur þá vinsemd og virðingu að láta okkur ,vita fyrir fram‘ í stórum dráttum hvað gerist í framtíðinni.

15 Því miður hafa sumir orðið kærulausir gagnvart áminningum um að halda vöku sinni, eða jafnvel hæðst að þeim. ,Við höfum heyrt þessar sömu áminningar áratugum saman,‘ segja þeir kannski. En þeir sem gera þetta ættu að hafa hugfast að þar með eru þeir í rauninni að tortryggja Jehóva og son hans, ekki aðeins trúa og hyggna þjónshópinn. „Þetta rætist vissulega,“ sagði Jehóva. (Hab. 2:3) Jesús tók í sama streng og sagði: „Vakið því, þér vitið eigi hvaða dag Drottinn yðar kemur.“ (Matt. 24:42) Og Pétur skrifaði: „Þar eð allt þetta ferst, þannig ber ykkur að lifa heilögu og guðrækilegu lífi og bíða eftir degi Guðs og flýta fyrir að hann komi.“ (2. Pét. 3:11, 12) Trúi og hyggni þjónshópurinn og hið stjórnandi ráð verður aldrei kærulaust gagnvart þessum alvarlegu orðum.

16. Hvaða hugarfar ættum við að forðast og hvers vegna?

16 Það er „illur þjónn“ sem ályktar sem svo að húsbóndanum dveljist. (Matt. 24:48) Þessi illi þjónn tilheyrir hópi manna sem lýst er í 2. Pétursbréfi 3:3, 4. Pétur skrifaði: „Á síðustu dögum munu koma spottarar er stjórnast af eigin girndum“ og hæðast að þeim sem eru hlýðnir og hafa dag Jehóva sífellt í huga. Í staðinn fyrir að einbeita sér að því að þjóna Guði og styðja ríki hans hugsa þessir spottarar aðeins um sjálfa sig og sínar eigin girndir. Þetta er hættulegt hugarfar og ber vott um óhlýðni. Vörum okkur á því. Við skulum heldur líta á „langlyndi Drottins“ sem „hjálpræðisleið“ með því að vera önnum kafin að boða ríki Guðs og gera fólk að lærisveinum. Gerum okkur ekki óþarfa áhyggjur af tímasetningum Jehóva. — 2. Pét. 3:15; lestu Postulasöguna 1:6, 7.

Treystu á Guð hjálpræðis

17. Hvernig brugðust trúir kristnir menn við hvatningu Jesú um að flýja Jerúsalem og hvers vegna?

17 Eftir að rómverskar hersveitir réðust inn í Júdeu árið 66 flúðu trúir kristnir menn Jerúsalem við fyrsta tækifæri eins og Jesús hafði sagt þeim að gera. (Lúk. 21:20-23) Af hverju voru þeir einbeittir og forðuðu sér tafarlaust? Þeir hafa án efa haft viðvörun Jesú efst í huga. Þeir bjuggust örugglega við að ákvörðun þeirra hefði vissa erfiðleika í för með sér eins og Kristur hafði varað við. En þeir vissu líka að Jehóva myndi aldrei yfirgefa trúa þjóna sína. — Sálm. 55:23.

18. Hvernig lítur þú á þrenginguna miklu í ljósi þess sem Jesús sagði í Lúkasi 21:25-28?

18 Við þurfum líka að treysta Jehóva algerlega því að hann einn getur bjargað okkur þegar mesta þrenging mannkynssögunnar gengur yfir núverandi heimskerfi. Einhvern tíma eftir að þrengingin mikla hefst en áður en Jehóva fullnægir dómi sínum yfir því sem eftir er af heimi Satans mun fólk „falla í öngvit af ótta og kvíða fyrir því er koma mun yfir heimsbyggðina“. En þegar óvinir Jehóva skjálfa af ótta verða dyggir þjónar hans óhræddir. Þeir fagna vegna þess að þeir vita að lausnin er í nánd. — Lestu Lúkas 21:25-28.

19. Um hvað er fjallað í næstu grein?

19 Þeir sem halda sér aðgreindum frá heiminum og ,frumefnum‘ hans eiga spennandi framtíð í vændum. En eins og fram kemur í næstu grein er ekki nóg að forðast hið illa til að hljóta líf. Við þurfum líka að tileinka okkur eiginleika sem Jehóva hefur velþóknun á og breyta í samræmi við vilja hans. — 2. Pét. 3:11.

[Neðanmáls]

^ gr. 6 Nánari lýsingu á þeim einkennum, sem andi heimsins ýtir undir, má finna í Varðturninum, 1. september 1994, bls. 13-17.

Hvert er svarið?

• Hvað tákna . . .

núverandi ,himnar og jörð‘?

„frumefnin“?

,nýi himinninn og nýja jörðin‘?

• Af hverju treystum við Guði algerlega?

[Spurningar]

[Mynd á bls. 5]

Hvernig geturðu ,varðveitt hjartað‘ og haldið þér aðgreindum frá heiminum?

[Mynd á bls. 6]

Hvernig sýnum við að við álítum „langlyndi Drottins vors vera hjálpræðisleið“?