Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Þannig ber ykkur að lifa heilögu og guðrækilegu lífi“

„Þannig ber ykkur að lifa heilögu og guðrækilegu lífi“

„Þannig ber ykkur að lifa heilögu og guðrækilegu lífi“

„Þar eð allt þetta ferst, þannig ber ykkur að lifa heilögu og guðrækilegu lífi.“ — 2. PÉT. 3:11.

1. Af hverju var síðara bréf Péturs tímabær hvatning til kristinna manna á þeim tíma?

ÞEGAR Pétur postuli skrifaði síðara innblásna bréfið hafði kristni söfnuðurinn mátt þola miklar ofsóknir en það hafði hvorki dregið úr kappsemi hans né hægt á vextinum. Satan greip því til annarra ráða, til aðferða sem höfðu reynst honum vel oft áður. Eins og kemur fram í bréfi Péturs reyndi Satan að spilla þjónum Guðs með því að beita falskennurum en „augu þeirra [voru] full hórdóms“ og „hjarta þeirra [hafði] tamið sér ágirnd“. (2. Pét. 2:1-3, 14; Júd. 4) Þar af leiðandi er síðara bréf Péturs hlýleg hvatning til kristinna manna um að vera trúir og ráðvandir.

2. Að hverju er athyglinni beint í 3. kafla 2. Pétursbréfs og hvaða spurninga ættum við að spyrja okkur?

2 Pétur skrifaði: „Ég álít mér líka skylt, á meðan ég er í þessari tjaldbúð, að halda ykkur vakandi með því að rifja þetta upp fyrir ykkur. Ég veit að þess mun skammt að bíða að tjaldbúð minni verði svipt . . . Ég vil einnig leggja kapp á að þið ætíð eftir burtför mína getið minnst þessa.“ (2. Pét. 1:13-15) Pétur vissi að hann átti skammt eftir ólifað en vildi að tímabærar áminningar sínar væru í minnum hafðar. Og það fór svo að þær urðu hluti af Biblíunni og við höfum öll tækifæri til að lesa þær. Þriðji kaflinn í síðara bréfi Péturs er sérlega áhugaverður fyrir okkur vegna þess að hann beinir athyglinni að „síðustu dögum“ núverandi heimskerfis og eyðingu hinna táknrænu himna og jarðar. (2. Pét. 3:3, 7, 10) Hvað ráðleggur Pétur okkur? Hvernig getum við áunnið okkur velþóknun Jehóva með því að fara að ráðum Péturs?

3, 4. (a) Hvað hvatti Pétur okkur til að gera og við hverju varaði hann? (b) Hvaða þrjú atriði skoðum við nánar?

3 Eftir að hafa minnst á að heimur Satans leysist sundur segir Pétur: „Þannig ber ykkur að lifa heilögu og guðrækilegu lífi.“ (2. Pét. 3:11, 12) Pétur vissi að þeir einir myndu bjargast á ,hefndardegi‘ Guðs sem gerðu vilja hans og sýndu af sér eiginleika sem væru honum að skapi. (Jes. 61:2) Pétur bætir því við: „Fyrst þið vitið þetta fyrir fram, þið elskuðu, þá hafið gát á ykkur að þið látið eigi dragast með af villu þverbrotinna manna [falskennara] og fallið frá staðfestu ykkar.“ — 2. Pét. 3:17.

4 Pétur var einn þeirra sem ,vissi fyrir fram‘ hvað ætti eftir að gerast og hann vissi þess vegna að á síðustu dögum yrðu kristnir menn að vera sérstaklega á varðbergi til að vera Guði trúir. Jóhannes postuli skýrði ástæðuna síðar meir. Hann sá fyrir að Satan yrði úthýst af himnum og að hann yrði „í miklum móð“ gagnvart þeim sem „varðveita orð Guðs og hafa vitnisburð Jesú“. (Opinb. 12:9, 12, 17) Trúir, andasmurðir þjónar Guðs og tryggir félagar þeirra af hópi,annarra sauða‘ munu fara með sigur af hólmi. (Jóh. 10:16) En hvað um okkur hvert og eitt? Verðum við trúföst? Það er meðal annars undir því komið að við (1) temjum okkur guðrækni, (2) séum siðferðilega og andlega hrein og flekklaus og (3) sjáum prófraunir í réttu ljósi. Lítum nánar á þetta þrennt.

Ástundum guðrækni

5, 6. Hvaða eiginleika ættum við að temja okkur og af hverju er það töluverð vinna?

5 Pétur skrifaði í byrjun síðara bréfsins: „Leggið þess vegna alla stund á að sýna í trú ykkar dygð og í dygðinni þekkingu, í þekkingunni sjálfsaga, í sjálfsaganum þolgæði, í þolgæðinu guðrækni, í guðrækninni bróðurelsku og í bróðurelskunni kærleika. Ef þið hafið þetta til að bera og vaxið í því verðið þið hvorki iðjulaus né mun þekking ykkar á Drottni vorum Jesú Kristi reynast dáðlaus og ávaxtalaus.“ — 2. Pét. 1:5-8.

6 Það er töluverð vinna að ástunda guðrækni. Við þurfum til dæmis að leggja eitthvað á okkur til að sækja allar safnaðarsamkomur, lesa daglega í Biblíunni og stunda reglulegt og auðgandi sjálfsnám. Og það getur kostað þó nokkra fyrirhöfn og góða skipulagningu að halda uppi reglulegu, ánægjulegu og innihaldsríku fjölskyldunámi. En þegar komin er föst regla á hlutina verður auðveldara að fylgja þessum uppbyggilegu venjum, ekki síst þegar kostirnir taka að koma í ljós.

7, 8. (a) Hvað hafa sumir sagt um biblíunámskvöld fjölskyldunnar? (b) Hvernig nýtur þú góðs af námskvöldi fjölskyldunnar?

7 Systir nokkur segir um fjölskyldunámið: „Það býður upp á tækifæri til að kynna sér allt mögulegt.“ Önnur segir: „Í hreinskilni sagt vildi ég alls ekki að bóknámið hætti. Það var uppáhaldssamkoman mín. En núna er fjölskyldunámskvöldið komið í staðinn, og ég geri mér grein fyrir að Jehóva veit hvers við þörfnumst og hvenær.“ Heimilisfaðir segir: „Við höfum gríðarlega mikið gagn af námskvöldinu. Það er frábært að vera með samkomu sem er sérsniðin fyrir okkur hjónin. Okkur finnst báðum að við sýnum ávöxt andans í enn ríkari mæli og við höfum meiri ánægju en nokkru sinni fyrr af boðunarstarfinu.“ Annar fjölskyldufaðir segir: „Börnin eru sjálf farin að leita upplýsinga og þau læra heilmikið — og hafa gaman af. Þetta fyrirkomulag sannfærir okkur enn betur um að Jehóva viti hvað hvílir á okkur og bænheyri okkur.“ Er þér eins innanbrjósts gagnvart þessari góðu ráðstöfun Guðs?

8 Látið ekki smávægileg atriði trufla fjölskyldunámið. Hjón sögðu: „Á hverju fimmtudagskvöldi síðastliðnar fjórar vikur hefur eitthvað komið upp á í fjölskyldunni sem varð næstum til þess að námið féll niður, en við létum það ekki gerast.“ Stöku sinnum getur auðvitað þurft að hnika dagskránni til. Verið samt staðráðin í að láta ekki fjölskyldunámið falla niður — ekki eina einustu viku.

9. Hvernig styrkti Jehóva Jeremía og hvað getum við lært af dæmi hans?

9 Jeremía spámaður er okkur góð fyrirmynd. Hann þurfti andlegu fæðuna sem hann fékk frá Jehóva og var mjög þakklátur fyrir hana. Andlega næringin gerði honum kleift að halda áfram að prédika fyrir áhugalausu fólki. Hann sagði að „orð Drottins“ væri eins og,eldur í hjarta sér sem brynni í beinum sínum‘. (Jer. 20:8, 9) Það hjálpaði honum einnig að þrauka þá erfiðu tíma sem náðu hámarki þegar Jerúsalem var eydd. Núna höfum við ritað orð Guðs í heild sinni. Við skulum vera dugleg að lesa það og hugleiða og tileinka okkur sjónarmið Guðs. Þá getum við, líkt og Jeremía, haldið áfram að boða fagnaðarerindið með gleði, verið trúföst í prófraunum og haldið okkur andlega og siðferðilega hreinum. — Jak. 5:10.

Verum „flekklaus og vammlaus“

10, 11. Af hverju þurfum við að kappkosta að vera „flekklaus og vammlaus“ og hvað þarf til?

10 Við sem erum kristin vitum að við lifum á endalokatímanum. Það kemur okkur því ekki á óvart að heimurinn skuli vera gagntekinn af því sem Jehóva hefur andstyggð á, svo sem ágirnd, ofbeldi og spillingu í kynferðismálum. Brögð Satans eru þaulhugsuð og það má lýsa þeim þannig í hnotskurn: Ef ekki er hægt að hræða þjóna Guðs er kannski hægt að spilla þeim. (Opinb. 2:13, 14) Þess vegna þurfum við að fara eftir hlýlegri hvatningu Péturs: „Kappkostið að lifa í friði frammi fyrir [Guði], flekklaus og vammlaus.“ — 2. Pét. 3:14.

11 Orðið „kappkostið“ er áþekkt hvatningu Péturs fyrr í bréfinu um að,leggja alla stund á‘ góða eiginleika. Ljóst er að Jehóva, sem innblés Pétri að skrifa þetta, veit að við þurfum að leggja hart að okkur til að vera „flekklaus og vammlaus“, óspillt af óþverranum í heimi Satans. Við þurfum meðal annars að leggja hart að okkur að varðveita hjartað svo að óviðeigandi girndir nái ekki tökum á því. (Lestu Orðskviðina 4:23; Jakobsbréfið 1:14, 15.) Við þurfum einnig að vera einbeitt til að standast þrýsting þeirra sem furða sig á kristnu líferni okkar og hallmæla okkur. — 1. Pét. 4:4.

12. Hvaða loforð er að finna í Lúkasi 11:13?

12 Þar sem við erum ófullkomin kostar það baráttu að gera rétt. (Rómv. 7:21-25) Við getum því aðeins sigrað í baráttunni að við leitum hjálpar Jehóva sem gefur þeim fúslega heilagan anda sem biðja hann í einlægni. (Lúk. 11:13) Andi Guðs kallar fram í fari okkar eiginleika sem hann hefur velþóknun á. Það hjálpar okkur síðan að takast á við freistingar og prófraunir lífsins, og þær geta færst í aukana eftir því sem dagur Jehóva nálgast.

Láttu prófraunir styrkja þig

13. Hvað hjálpar okkur að vera þolgóð í prófraunum sem við verðum fyrir?

13 Einhvers konar prófraunir eru óhjákvæmilegar eins lengi og þetta gamla heimskerfi stendur. En í stað þess að verða niðurdreginn, væri ekki gott að líta á prófraunirnar sem tækifæri til að sanna fyrir Guði að þú elskir hann og til að styrkja trúna á hann og orð hans? Lærisveinninn Jakob skrifaði: „Álítið það mesta fagnaðarefni er þið ratið í ýmiss konar raunir. Þið vitið að trúfesti ykkar vekur þolgæði.“ (Jak. 1:2-4) Höfum líka hugfast að „Drottinn [veit] hvernig hann á að hrífa hina guðhræddu úr freistingu“. — 2. Pét. 2:9.

14. Hvers vegna er fordæmi Jósefs hvetjandi fyrir þig?

14 Jósef, sonur Jakobs, er dæmi um mann sem varð fyrir miklu mótlæti. Bræður hans seldu hann í þrælkun. (1. Mós. 37:23-28; 42:21) Varð þetta grimmdarverk til þess að hann missti trúna? Varð hann bitur gagnvart Guði fyrir að leyfa þessa illsku? Það kemur skýrt fram í Biblíunni að svo var ekki. En prófraunir Jósefs voru ekki á enda. Síðar var hann ranglega sakaður um nauðgunartilraun og var varpað í fangelsi. Enn var hann staðfastur í guðrækni sinni. (1. Mós. 39:9-21) Hann lét prófraunirnar styrkja sig og honum var ríkulega umbunað fyrir.

15. Hvað getum við lært af Naomí?

15 Prófraunir geta auðvitað hryggt okkur og gert okkur niðurdregin. Kannski leið Jósef stundum þannig. Að minnsta kosti var öðrum trúum þjónum Guðs þannig innanbrjósts. Naomí missti eiginmann sinn og báða synina. „Kallið mig ekki Naomí,“ sagði hún, „kallið mig Mara [sem merkir „hin beiska“] því að Hinn almáttugi hefur búið mér beiska harma.“ (Rut. 1:20, 21, neðanm.) Viðbrögð Naomí voru bæði eðlileg og skiljanleg. En aldrei missti hún trúna né glataði sambandinu við Jehóva. Hún var staðföst líkt og Jósef. Jehóva umbunaði síðan þessari ágætu konu. (Rut. 4:13-17, 22) Og í hinni komandi paradís á jörð mun hann afmá allt það tjón sem Satan og illur heimur hans hafa valdið. „Hins fyrra verður ekki minnst framar og það skal engum í hug koma.“ — Jes. 65:17.

16. Hvernig ættum við að líta á bænir og af hverju?

16 Kærleikur Guðs getur varðveitt okkur óháð þeim prófraunum sem verða á vegi okkar. (Lestu Rómverjabréfið 8:35-39.) Þótt Satan reyni linnulaust að draga úr okkur kjark tekst honum það ekki ef við erum „gætin og algáð til bæna“. (1. Pét. 4:7) Jesús sagði: „Vakið því allar stundir og biðjið svo að þér megið umflýja allt þetta sem koma á og standast frammi fyrir Mannssyninum.“ (Lúk. 21:36) Þegar Jesús sagði „biðjið“ átti hann við sérlega innilega bæn. Með því að hvetja okkur til að biðja þannig leggur hann áherslu á að við megum ekki vera hirðulaus um samband okkar við hann og föður hans. Þeir einir sem njóta velþóknunar Jehóva eiga í vændum að bjargast þegar dagur hans rennur upp.

Höldum ótrauð áfram í þjónustu Jehóva

17. Hvernig geta spámenn fortíðar verið þér til hvatningar ef það er erfitt að boða fagnaðarerindið á starfssvæði þínu?

17 Það er endurnærandi að þjóna Guði. „Þannig ber ykkur að lifa heilögu og guðrækilegu lífi,“ sagði Pétur. (2. Pét. 3:11) Boðun fagnaðarerindisins er snar þáttur í því að lifa guðrækilegu lífi. (Matt. 24:14) Sums staðar getur boðunarstarfið auðvitað verið viss áskorun, kannski vegna áhugaleysis eða andstöðu á starfssvæðinu eða einfaldlega vegna þess að fólk er upptekið af hinu daglega amstri. Þjónar Jehóva til forna áttu við sama vandamál að glíma. En aldrei gáfust þeir upp heldur fluttu sífellt boðskapinn eins og Guð hafði falið þeim. (Lestu 2. Kroníkubók 36:15, 16; Jer. 7:24-26) Hvað gerði þeim kleift að halda áfram? Þeir litu á verkefni sitt sömu augum og Jehóva en ekki eins og heimurinn. Og þeir töldu það ómetanlegan heiður að fá að bera nafn Guðs. — Jer. 15:16.

18. Hvernig er boðunarstarfið tengt því að nafn Guðs verði upphafið í framtíðinni?

18 Okkur veitist líka sá heiður að fá að kunngera nafn og vilja Jehóva. Hugsaðu þér. Þar eð við höfum boðað fagnaðarerindið geta óvinir Guðs ekki borið við vanþekkingu þegar hann fullnægir dómi sínum yfir þeim. Þá vita þeir, rétt eins og faraó forðum daga, að það er Jehóva sem er að verki. (2. Mós. 8:1, 20; 14:25) Jafnhliða því heiðrar Jehóva trúa þjóna sína með því að sýna svo að ekki verður um villst að þeir voru í raun og sannleika fulltrúar hans. — Lestu Esekíel 2:5; 33:33.

19. Hvernig getum við sýnt að við viljum nýta okkur langlyndi Jehóva?

19 Pétur skrifaði trúsystkinum sínum í lok síðara bréfsins: „Álítið langlyndi Drottins vors vera hjálpræðisleið.“ (2. Pét. 3:15) Já, við skulum halda áfram að nýta okkur langlyndi Jehóva. Hvernig? Með því að þroska með okkur eiginleika sem eru honum að skapi, með því að vera „flekklaus og vammlaus“, með því að sjá prófraunir í réttu ljósi og með því að vera önnum kafin í þjónustu Guðs. Ef við gerum það eigum við í vændum þá óendanlegu blessun sem verður samfara ,nýjum himni og nýrri jörð‘. — 2. Pét. 3:13.

Manstu?

• Hvernig getum við ástundað guðrækni?

• Hvernig getum við verið „flekklaus og vammlaus“?

• Hvað má læra af Jósef og Naomí?

• Af hverju er það mikill heiður að fá að boða fagnaðarerindið?

[Spurningar]

[Mynd á bls. 9]

Hvað getur hjálpað ykkur eiginmönnum að byggja upp guðrækni með sjálfum ykkur og fjölskyldunni?

[Myndir á bls. 10]

Hvað getum við lært af viðbrögðum Jósefs þegar hann varð fyrir prófraunum?