Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hjálpaðu börnunum að hafa yndi af lestri og námi

Hjálpaðu börnunum að hafa yndi af lestri og námi

Hjálpaðu börnunum að hafa yndi af lestri og námi

FÁTT mótar framtíð barna meira en að kenna þeim að lesa og læra. Það getur líka veitt þeim mikla ánægju. Ein af hugljúfustu bernskuminningum margra er frá þeim tíma þegar foreldrarnir lásu fyrir þá. Lestur getur verið mjög ánægjulegur og ekki síður gagnlegur. Þetta á sérstaklega við um þjóna Guðs, vegna þessa að framför þeirra í trúnni byggist á lestri og námi í Biblíunni. Kristinn faðir sagði: „Það sem okkur finnst dýrmætast tengist lestri og námi.“

Góðar námsvenjur geta hjálpað börnunum að eignast náið samband við Guð. (Sálm. 1:1-3, 6) Þótt lestrarkunnátta sé ekki skilyrði fyrir hjálpræði kemur fram í Biblíunni að lestur tengist andlegum blessunum. Í Opinberunarbókinni 1:3 segir til dæmis: „Sæll er sá er les þessi spádómsorð og sælir eru þeir sem heyra þau.“ Auk þess kemur skýrt fram í innblásnum leiðbeiningum Páls til Tímóteusar hve einbeiting er mikilvægur þáttur í námi. „Stunda þetta, ver allur í þessu.“ Til hvers? „Til þess að framför þín sé öllum augljós.“ — 1. Tím. 4:15.

Þótt maður kunni að lesa og læra er það auðvitað engin trygging fyrir því að það verði manni til góðs. Margir sem búa yfir þessari kunnáttu nýta hana ekki og eyða tímanum frekar í það sem skiptir minna máli. En hvernig geta foreldrar glætt áhuga barnanna á gagnlegri þekkingu?

Fordæmi þitt og kærleikur

Börnin læra að njóta námsstundanna ef þar ríkir kærleiksríkt andrúmsloft. Owen og Claudia, sem eru kristin hjón, segja um börnin sín tvö: „Þau hlakkaði til námsstundanna vegna þess að þetta var sérstakur tími, þeim leið vel og þau voru örugg. Í þeirra huga voru þetta notalegar stundir.“ Jafnvel þegar börnin komast á unglingsárin, sem geta verið erfið, hefur ástúðlegt andrúmsloft í fjölskyldunáminu mikil áhrif á viðhorf þeirra til náms og lestrar. Börn Owens og Claudiu þjóna nú sem brautryðjendur og njóta góðs af þeim góðu lestrar- og námsvenjum sem þau ólust upp við.

Auk kærleika er gott fordæmi mjög mikilvægt. Börn, sem alast upp við að sjá foreldrana lesa og nema, eru líklegri til að líta á lestur og nám sem eðlilegan hluta lífsins. En hvernig getur foreldri, sem á ekki gott með lestur, sýnt slíkt fordæmi? Það getur þýtt að maður þurfi að forgangsraða upp á nýtt eða breyta hugarfari sínu gagnvart lestri. (Rómv. 2:21) Ef lestur er ríkur þáttur í daglegu lífi þínu hefur það djúp áhrif á börnin. Kostgæfni þín — sérstaklega við biblíulestur, undirbúning fyrir samkomur og fjölskyldunám — sýnir börnunum hve mikils virði það er.

Til þess að geta glætt með börnunum löngun til að lesa er grundvallaratriði að sýna þeim ástúð og gott fordæmi. En hvað fleira getur þú gert?

Áhugi sem byrjar með lestri

Hvað er hægt að gera til að hjálpa börnunum að hafa yndi af lestri? Láttu börnin kynnast bókum frá unga aldri. Öldungur nokkur ólst upp við það að foreldrar hans kenndu honum að hafa yndi af lestri. Hann segir: „Láttu börnin venjast því að meðhöndla bækur. Á þann hátt verða bækur vinir þeirra og eðlilegur hluti af lífinu.“ Bækur sem byggðar eru á Biblíunni, eins og Lærum af kennaranum mikla og Biblíusögubókin mín, verða nánir félagar barnanna löngu áður en þau geta lesið. Þegar þú lest slíkar bækur fyrir börnin verða þau bæði fyrir áhrifum af málfarinu og ,andlegu efni á andlegan hátt‘. — 1. Kor. 2:13.

Lestu reglulega fyrir þau. Gerðu það að venju að lesa fyrir börnin á hverjum degi. Þegar þú gerir það kennirðu þeim að tala rétt og örvar áhuga þeirra á lestri. Það skiptir líka máli hvernig þú lest. Ef þú lifir þig inn í lesturinn vekur það áhuga þeirra. Þau munu eflaust biðja þig um að lesa sömu söguna aftur og aftur. Láttu það eftir þeim. Með tímanum sýna þau áhuga á öðru lesefni. Gættu þess þó að gera ekki lesturinn að skyldukvöð. Jesús er okkur dæmi til eftirbreytni því að hann kenndi áheyrendum sýnum aðeins það „sem þeir gátu numið“. (Mark. 4:33) Börnin hlakka til lestrarstundarinnar og þér gengur betur að hjálpa þeim að hafa yndi af lestri ef þú leggur ekki of hart að þeim.

Hvettu börnin til þátttöku og ræðið saman um það sem þið lesið. Þér til ánægju muntu uppgötva að lítil börn læra fljótt að þekkja, bera fram og skilja mörg orð. Og þegar þið ræðið saman um lesefnið hjálpar það börnunum að taka enn meiri framförum. Samræður hjálpa börnunum „ að bera kennsl á orð sem þau þurfa seinna að læra og skilja þegar þau fara sjálf að lesa,“ segir í bók sem fjallar um það hvernig hægt sé að þjálfa börnin í lestri. „Þegar hugurinn er að þroskast og ung börn eru að reyna að ná tökum á lestri eru samræður mikilvægar,“ segir í sömu bók, „því innihaldsríkari . . . því betri.“

Fáðu börnin til að lesa fyrir þig og hvettu þau til að spyrja spurninga. Kannski gætir þú stungið upp á spurningum og komið með tillögur að svörum. Á þann hátt læra börnin að bækur eru fullar af upplýsingum og að það liggur merking að baki orðunum sem þau lesa. Þessi aðferð er sérstaklega gagnleg þegar það sem þið lesið er byggt á orði Guðs, þýðingarmesta efni sem til er. — Hebr. 4:12.

Gleymdu þó ekki að lestur er flókið fyrirbæri. Það tekur tíma og æfingu að ná tökum á honum. * Ýttu því undir lestraráhuga barna þinna með því að hrósa þeim óspart. Hrós stuðlar að því að börnin hafi yndi af lestri.

Lesið sér til ánægju og gagns

Þegar þú kennir börnunum góðar námsaðferðir gefur það lestrinum tilgang. Nám felur í sér að læra staðreyndir og skilja hvernig þær tengjast. Til þess að geta gert það þurfa þau að læra að flokka, muna og nota upplýsingar. Það er fyrst þegar barn hefur náð tökum á námi og sér tilganginn með því að námið verður bæði ánægjulegt og gagnlegt. — Préd. 10:10.

Kenndu þeim undirstöðuatriði náms. Biblíunámskvöld fjölskyldunnar, lestur dagstextans og aðrar svipaðar stundir eru kjörin tækifæri til að kenna börnunum góðar námsaðferðir. Þegar þau sitja kyrr og beina athyglinni að ákveðnu efni í stuttan tíma læra þau einbeitingu sem er grundvallaratriði í námi. Þú getur líka hvatt son þinn til að segja hvernig það sem hann var að læra tengist því sem hann veit fyrir. Þannig lærir hann að gera samanburð. Hvernig væri að biðja dóttur þína að gera stuttan útdrátt úr því sem hún hefur lesið og segja frá með eigin orðum? Það hjálpar henni að skilja og muna það sem hún les. Upprifjun, það að endurtaka aðalatriði greinar sem er lesin, er önnur minnishjálp sem þú getur kennt þeim. Það er jafnvel hægt að kenna mjög ungum börnum að skrifa minnispunkta í námsstundinni eða á safnaðarsamkomum. Það er kjörin aðferð til að halda einbeitingunni. Þessar einföldu námsaðferðir hjálpa bæði barninu og þér að hafa ánægju og gagn af námsferlinu.

Skapaðu aðstæður sem hvetja til náms. Það er auðveldara að einbeita sér ef aðstæður eru þægilegar, umhverfið hljóðlátt og loftræsting og lýsing góð. Að sjálfsögðu skiptir viðhorf foreldranna til náms gríðarlega miklu máli. „Það er mjög mikilvægt að þú sem foreldri takir reglulega frá tíma til lesturs og náms,“ segir móðir nokkur. „Það hjálpar börnunum að vera skiplögð. Þau læra að þau þurfa að ljúka við verkefni innan ákveðinna tímamarka. Margir foreldrar leyfa börnunum ekki að gera neitt annað á meðan námsstundin fer fram. Að sögn sérfræðings hefur þetta mikið að segja þegar kemur að því að kenna börnunum góðar námsvenjur.

Leggðu áherslu á gildi námsins. Sýndu börnunum fram á hvernig þau geta notað það sem þau læra. Þá öðlast námið tilgang. Ungur bróðir viðurkennir: „Ef ég get ekki séð hvernig ég get notað það sem ég læri hef ég miklu minni áhuga á náminu. En ef ég get heimfært námsefnið upp á sjálfan mig langar mig virkilega til að skilja það.“ Þegar börn og unglingar fara að líta á námið sem leið að mikilvægu marki verða þau mun áhugasamari. Þá fara þau að hafa ánægju af námsstundunum á sama hátt og þau fóru að hafa yndi af lestri.

Besta umbunin

Það væri of langt mál að útlista hér alla kosti þess að hjálpa börnunum að hafa yndi af lestri. Það stuðlar að betri árangri í skóla og vinnu, bættum samskiptum við aðra, betri skilningi á heiminum sem við lifum í og styrkir böndin milli foreldra og barna svo fátt eitt sé nefnt. Þá er ótalin sú einstaka ánægja sem lestur og nám veitir.

Ef börnin þín hafa ánægju af námi getur það umfram allt hjálpað þeim að verða andlega sinnaðir þjónar Jehóva. Að hjálpa börnunum að hafa yndi af námi er lykillinn að því að opna hjarta og huga þeirra svo að þau geti skilið ,víddina og lengdina, hæðina og dýptina‘ í sannleika Biblíunnar. (Ef. 3:18) Að sjálfsögðu þurfa kristnir foreldrar að kenna börnunum mjög margt. Foreldrar sem gefa börnunum af tíma sínum og athygli og gera allt sem í þeirra valdi stendur til að gefa þeim góðan grundvöll í lífinu vonast auðvitað eftir því að börnin velji með tímanum að þjóna Jehóva. Þegar börnum eru kenndar góðar námsvenjur verða þau fær um að tryggja andlega velferð sína og styrkja samband sitt við Guð. Foreldrar, biðjið því Jehóva að blessa ykkur þannig að þið getið gert ykkar besta til að hjálpa börnunum að hafa yndi af lestri og námi. — Orðskv. 22:6.

[Neðanmáls]

^ gr. 14 Lestur og nám eru mikil áskorun fyrir börn sem eiga við námsörðugleika að stríða. Góð ráð fyrir foreldra um þetta efni er að finna í Vaknið! apríl – júní 2009, bls. 10-11.

[Rammi/​mynd á bls. 26]

Lestur . . .

• Láttu börnin hafa aðgang að bókum

• Lestu upphátt

• Hvettu til þátttöku

• Ræðið saman um það sem lesið er

• Láttu börnin lesa fyrir þig

• Hvettu börnin til að spyrja spurninga

Nám . . .

• Settu börnunum gott fordæmi

• Kenndu börnunum:

○ einbeitingu

○ samanburð

○ útdrátt

○ upprifjun

○ að skrifa minnispunkta

• Skapaðu aðstæður sem hvetja til náms

• Brýndu fyrir börnunum gildi náms