Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Tökum sem mestan þátt í andlegu uppskerunni

Tökum sem mestan þátt í andlegu uppskerunni

Tökum sem mestan þátt í andlegu uppskerunni

„Verið . . . síauðug í verki Drottins.“ — 1. KOR. 15:58.

1. Hvað bauð Jesús lærisveinunum?

JESÚS var á ferð um Samaríu undir lok ársins 30 þegar hann tók sér hvíld við brunn í grennd við borgina Síkar. Það var þá sem hann sagði við lærisveinana: „Lítið upp og horfið á akrana, þeir eru fullþroskaðir til uppskeru.“ (Jóh. 4:35) Jesús átti ekki við bókstaflega uppskeru heldur andlega en hún fólst í því að safna saman hjartahreinu fólki sem gerðist fylgjendur hans. Hann var í rauninni að bjóða lærisveinunum að taka þátt í þessari uppskeru. Það var mikil vinna fram undan og knappur tími til að ljúka henni.

2, 3. (a) Hvað sýnir að við lifum á uppskerutímanum? (b) Um hvað er fjallað í þessari grein?

2 Það sem Jesús sagði um uppskeru hefur sérstaka þýðingu á okkar tímum. Akurinn er allt mannkyn og við lifum á þeim tíma þegar þessi akur er ,fullþroskaður til uppskeru‘. Ár hvert þiggja milljónir manna boðið um að læra hinn lífgandi sannleika og þúsundir nýrra lærisveina láta skírast. Það er mikill heiður fyrir okkur að mega taka þátt í mestu uppskeru sögunnar undir umsjón Drottins uppskerunnar, Jehóva Guðs. Ert þú,síauðugur í verki Drottins‘ og önnum kafinn við þetta uppskerustarf? — 1. Kor. 15:58.

3 Þau þrjú og hálft ár sem Jesús boðaði fagnaðarerindið hér á jörð bjó hann lærisveinana undir uppskerustarfið sem þeir áttu í vændum. Jesús kenndi lærisveinunum margt á þessu tímabili en í þessari grein einbeitum við okkur að þrem mikilvægum lærdómum. Þar koma fram þrír eiginleikar sem eru okkur mikils virði þegar við reynum að gera okkar besta til að safna saman fleiri lærisveinum. Skoðum þessa þrjá eiginleika betur.

Auðmýkt er mikilvæg

4. Hvernig benti Jesús á að það væri mikilvægt að vera auðmjúkur?

4 Sjáðu fyrir þér lærisveinana sem hafa verið að deila um hver þeirra sé mestur. Sennilega ber svipur þeirra enn merki um vantraustið og óvildina hið innra. Jesús kallar þá til sín lítið barn og lætur það standa á meðal þeirra. Hann beinir athygli þeirra að barninu og segir: „Hver sem auðmýkir sig [eða „hver sem gerir sig smáan,“ Byington] og verður eins og barn þetta, sá er mestur í himnaríki.“ (Lestu Matteus 18:1-4.) Í stað þess að hugsa eins og heimurinn, sem metur manngildið eftir valdi, fjárhag og stöðu, þurftu lærisveinarnir að átta sig á að þeir væru því aðeins miklir að þeir ,gerðu sig smáa‘ í augum annarra. Jehóva myndi ekki blessa þá eða nota í þjónustu sinni nema þeir væru auðmjúkir.

5, 6. Af hverju er nauðsynlegt að vera auðmjúkur til að taka sem mestan þátt í uppskerunni? Lýstu með dæmi.

5 Margir í þessum heimi eru alla ævina að sækjast eftir völdum, peningum og upphefð. Þeir hafa þar af leiðandi lítinn sem engan tíma til að kynnast Guði eða þjóna honum. (Matt. 13:22) Þjónar Jehóva eru hins vegar meira en fúsir til að ,gera sig smáa‘ í augum annarra til að ávinna sér blessun og velþóknun Drottins uppskerunnar. — Matt. 6:24; 2. Kor. 11:7; Fil. 3:8.

6 Francisco er safnaðaröldungur í Suður-Ameríku. Sem ungur maður hætti hann háskólanámi og gerðist brautryðjandi. „Þegar ég trúlofaði mig hefði ég getað leitað mér að vinnu sem hefði tryggt okkur hjónunum öruggari fjárhag,“ segir hann. „Við ákváðum hins vegar að einfalda líf okkar og halda áfram að þjóna Jehóva í fullu starfi. Svo fæddust börnin og það hafði sínar áskoranir í för með sér. En með hjálp Jehóva tókst okkur að standa við ákvörðun okkar.“ Francisco heldur áfram: „Ég hef getað þjónað sem öldungur í meira en 30 ár, auk þess að gegna ýmsum öðrum verkefnum. Við höfum aldrei séð eftir því að lifa einföldu lífi.“

7. Hvernig hefur þú reynt að fara eftir leiðbeiningunum í Rómverjabréfinu 12:16?

7 Ef þú ert ekki ,stórlátur‘ að hætti heimsins heldur gerir þig ánægðan með lítið mátt þú líka búast við margs konar blessun og verkefnum í þjónustu Guðs. — Rómv. 12:16; Matt. 4:19, 20; Lúk. 18:28-30.

Iðjusemi skilar sér

8, 9. (a) Endursegðu í stuttu máli dæmisögu Jesú um talenturnar. (b) Fyrir hverja getur dæmisagan verið sérstaklega uppörvandi?

8 Til að taka sem mestan þátt í uppskerunni þurfum við líka að vera iðjusöm. Jesús sýndi fram á þetta í dæmisögunni um talenturnar. * Dæmisagan fjallar um mann sem fól þrem þjónum eigur sínar og fór síðan úr landi. Einum þjóninum fékk hann fimm talentur, öðrum tvær og þeim þriðja eina. Fyrstu tveir þjónarnir létu hendur standa fram úr ermum eftir að húsbóndinn var farinn og ávöxtuðu talenturnar. Þriðji þjónninn var hins vegar latur og gróf í jörð talentuna sem honum var fengin. Þegar húsbóndinn kom aftur umbunaði hann þjónunum, sem höfðu ávaxtað féð, með því að setja þá „yfir mikið“. Hann tók hins vegar talentuna af þriðja þjóninum og rak hann af heimilinu. — Matt. 25:14-30.

9 Þú þráir eflaust að líkja eftir iðjusömu þjónunum í dæmisögu Jesú og eiga sem mestan þátt í því að gera aðra að lærisveinum. En segjum sem svo að aðstæður þínar takmarki stórlega hve mikið þú getur lagt af mörkum. Efnahagsástandið er ef til vill þannig að þú neyðist til að vinna langan vinnudag til að sjá fjölskyldunni farborða. Eða kannski er aldurinn farinn að færast yfir og heilsan ekki eins góð og áður. Ef svo er hefur dæmisagan um talenturnar að geyma uppörvandi boð til þín.

10. Hvernig sýndi húsbóndinn í dæmisögunni um talenturnar sanngirni og af hverju finnst þér það uppörvandi?

10 Við tökum eftir að húsbóndinn í dæmisögunni gerði sér grein fyrir að hæfni þjónanna var mismikil. Hann gaf það í skyn þegar hann fékk þeim talenturnar „hverjum eftir hæfni“. (Matt. 25:15) Eins og við var að búast aflaði fyrsti þjónninn töluvert meira en annar þjónninn. Húsbóndinn viðurkenndi samt að báðir hefðu staðið sig vel með því að kalla þá báða ,góðan og trúan þjón‘ og launa þeim jafnt. (Matt. 25:21, 23) Drottinn uppskerunnar, Jehóva Guð, veit sömuleiðis að aðstæður þínar hafa áhrif á hve mikið þú getur gert í þjónustu hans. En hann kann að meta að þú skulir þjóna honum af allri sálu og umbunar þér samkvæmt því. — Mark. 14:3-9; lestu Lúkas 21:1-4.

11. Segðu frá dæmi sem sýnir að það getur haft mikla blessun í för með sér að vera iðjusamur við erfiðar aðstæður.

11 Selmira býr í Brasilíu. Hún er gott dæmi um að það sé hægt að vera duglegur í þjónustu Guðs þó að aðstæður manns í lífinu séu ekki eins og best verður á kosið. Fyrir 20 árum var eiginmaður hennar skotinn til bana af ræningjum og hún þurfti að sjá ein síns liðs fyrir þrem ungum börnum. Hún vann langan vinnudag við húshjálp og þurfti að fara milli staða með troðfullum samgöngutækjum. Þrátt fyrir erfiðleikana tókst henni að haga málum sínum þannig að hún gæti starfað sem brautryðjandi. Tvö af börnunum gerðust síðar brautryðjendur líka. „Á þessum árum hef ég haft rúmlega 20 biblíunemendur og þeir hafa bæst við ,fjölskyldu‘ mína,“ segir hún. „Ást þeirra og vinátta er mér enn mikils virði. Það er fjársjóður sem fæst ekki fyrir peninga.“ Drottinn uppskerunnar hefur sannarlega umbunað Selmiru fyrir iðjusemi hennar.

12. Hvernig er hægt að vera iðinn í boðunarstarfinu?

12 Ef þú býrð við slíkar aðstæður að þú hefur ekki mikinn tíma aflögu til að boða fagnaðarerindið gætirðu samt reynt að eiga meiri þátt í uppskerunni með því að verða skilvirkari í starfi. Þegar þú notfærir þér góðar tillögur, sem fram koma á hinum vikulegu þjónustusamkomum, verðurðu enn færari boðberi og lærir að prófa nýjar leiðir til að boða fagnaðarerindið. (2. Tím. 2:15) Og kannski gætirðu fórnað einhverju sem þú gerir en er ekki alveg nauðsynlegt, eða fært það til, svo að þú getir að staðaldri sótt samansafnanir fyrir boðunarstarfið. — Kól. 4:5.

13. Á hverju byggist iðjusemi?

13 Hafðu hugfast að iðjusemi á rætur sínar í þakklátu hjarta. (Sálm. 40:9) Þriðji þjónninn í dæmisögu Jesú var hræddur við húsbóndann. Honum fannst hann vera kröfuharður og ósanngjarn. Þess vegna gróf hann talentuna í jörð í stað þess að nota hana til að ávaxta eigur húsbóndans. Til að vera ekki hirðulaus eins og hann þurfum við að eiga innilegt samband við Drottin uppskerunnar, Jehóva. Gefðu þér tíma til að kynna þér aðlaðandi eiginleika hans og hugleiða þá — kærleika hans, langlyndi og miskunn. Þá finnurðu löngun innra með þér til að gera þitt besta í þjónustu hans. — Lúk. 6:45; Fil. 1:9-11.

„Verið heilög“

14. Hvaða mikilvægu kröfu þurfa þeir að uppfylla sem vilja vinna að uppskerunni?

14 Pétur postuli vitnar í Hebresku ritningarnar og lýsir skýrum vilja Guðs með þjóna sína á jörð. Hann segir: „Verðið heldur sjálf heilög í öllu dagfari ykkar eins og sá er heilagur sem ykkur hefur kallað. Ritað er: ,Verið heilög því ég er heilagur.‘“ (1. Pét. 1:15, 16; 3. Mós. 19:2; 5. Mós. 18:13) Með þessum orðum er undirstrikað að þeir sem vinna að uppskerunni verða að vera siðferðilega og andlega hreinir. Við getum uppfyllt þessa mikilvægu kröfu með því að gera ráðstafanir til að láta hreinsast. Við getum orðið hrein með hjálp sannleikans í orði Guðs.

15. Yfir hvaða krafti býr sannleikurinn í orði Guðs?

15 Sannleiksorði Guðs er líkt við hreinsandi vatn. Páll postuli segir til dæmis að söfnuður andasmurðra kristinna manna sé hreinn í augum Guðs. Hann sé eins og brúður Krists sem hreinsaði hana ,með orðinu og í vatnslauginni. Heilög skyldi hún og lýtalaus‘. (Ef. 5:25-27) Jesús hafði líka talað um að orð Guðs, sem hann boðaði, hreinsaði fólk. Hann sagði við lærisveina sína: „Þér eruð þegar hrein vegna orðsins sem ég hef talað til yðar.“ (Jóh. 15:3) Sannleikurinn í orði Guðs býr því yfir krafti til að hreinsa fólk siðferðilega og andlega. Tilbeiðsla okkar er honum því aðeins þóknanleg að við leyfum sannleika hans að hreinsa okkur með þessum hætti.

16. Hvernig getum við haldið okkur hreinum í augum Jehóva?

16 Við þurfum að snúa baki við öllu sem er óhreint í augum Jehóva til að hann taki okkur í hóp uppskerumanna sinna. Til að fá að vinna áfram að uppskerunni þurfum við að vera til fyrirmyndar á allan hátt og halda háleitar reglur Jehóva um trú og siðferði. (Lestu 1. Pétursbréf 1:14-16.) Við þurfum að láta sannleiksorð Guðs hreinsa okkur jafnt og þétt, rétt eins og við hugum að líkamlegu hreinlæti dagsdaglega. Það felur meðal annars í sér að lesa í Biblíunni og sækja safnaðarsamkomur. Við þurfum einnig að gera okkar ýtrasta til að fara eftir áminningum Guðs. Þá getum við barist gegn syndugum tilhneigingum okkar og spillandi áhrifum heimsins. (Sálm. 119:9; Jak. 1:21-25) Það er hughreystandi til þess að vita að við getum látið „laugast“, jafnvel af alvarlegum syndum, með hjálp sannleikans í orði Guðs. — 1. Kor. 6:9-11.

17. Eftir hvaða ráðum Biblíunnar þurfum við að fara til að halda okkur hreinum?

17 Tekurðu því fagnandi þegar sannleikurinn í orði Guðs hefur hreinsandi áhrif á þig? Hvernig bregstu til dæmis við þegar athygli þín er vakin á hættum sem þér stafar af spilltu skemmtiefni heimsins? (Sálm. 101:3) Forðastu óþarfa félagsskap við skólafélaga og vinnufélaga sem eru ekki vottar? (1. Kor. 15:33) Leggurðu þig einlæglega fram um að sigrast á veikleikum sem gætu gert þig óhreinan í augum Jehóva? (Kól. 3:5) Heldurðu þig frá pólitískum deilum heimsins og þjóðernisandanum sem gegnsýrir margar keppnisíþróttir? — Jak. 4:4.

18. Hvernig stuðlar hreinleiki að því að við berum góðan ávöxt?

18 Það skilar sér ef þú ert trúr og hlýðinn í málum af þessu tagi. Jesús líkti andasmurðum lærisveinum sínum við greinar á vínviði og sagði: „Hverja þá grein á mér sem ber ekki ávöxt sníður [faðir minn] af og hverja þá sem ávöxt ber hreinsar hann svo að hún beri meiri ávöxt.“ (Jóh. 15:2) Þegar þú lætur sannleiksvatn Biblíunnar hreinsa þig geturðu borið enn meiri ávöxt.

Blessun í nútíð og framtíð

19. Hvaða blessun hlutu lærisveinar Jesú þegar þeir unnu að uppskerunni?

19 Trúir lærisveinar Jesú fengu kraft heilags anda á hvítasunnu árið 33 til að vera vottar „allt til endimarka jarðarinnar“. (Post. 1:8) Þeir tóku sæti í hinu stjórnandi ráði, störfuðu sem trúboðar og farandumsjónarmenn og gegndu mikilvægu hlutverki í því að boða fagnaðarerindið „öllu sem skapað er í heiminum“. (Kól. 1:23) Sjálfir hlutu þeir mikla blessun og þeir veittu öðrum óskipta gleði.

20. (a) Hvaða blessun hefur þú hlotið fyrir dygga þátttöku þína í uppskerunni? (b) Hvað ert þú ákveðinn í að gera?

20 Ef við erum auðmjúk og iðjusöm og fylgjum háleitum siðferðisreglum Biblíunnar getum við átt drjúgan þátt í hinni miklu andlegu uppskeru sem unnið er að nú um stundir. Efnishyggja og skemmtanafíkn heimsins er ávísun á kvöl og vonbrigði. Við njótum hins vegar ósvikinnar gleði og lífsfyllingar. (Sálm. 126:6) Mest er þó um vert að ,Drottinn lætur erfiði okkar ekki verða til ónýtis‘. (1. Kor. 15:58) Drottinn uppskerunnar, Jehóva Guð, mun umbuna okkur að eilífu fyrir ,verk okkar og kærleikann sem við auðsýndum honum‘. — Hebr. 6:10-12.

[Neðanmáls]

^ gr. 8 Dæmisagan um talenturnar fjallar fyrst og fremst um samskipti Jesú við andasmurða lærisveina sína. Meginreglurnar eiga hins vegar við alla kristna menn.

Manstu?

• Af hverju þurfum við að vera auðmjúk þegar við vinnum að uppskerunni?

• Hvernig er hægt að temja sér dugnað og iðjusemi?

• Af hverju er mikilvægt að vera siðferðilega og trúarlega hrein til að taka þátt í uppskerunni?

[Spurningar]

[Mynd á bls. 17]

Auðmýkt getur hjálpað okkur að lifa einföldu lífi og einbeita okkur að því að þjóna Guði og styðja ríki hans.