„Ver kostgæfinn við að . . . kenna“
„Ver kostgæfinn við að . . . kenna“
„ÞÉR kallið mig meistara og Drottin og þér mælið rétt því það er ég.“ (Jóh. 13:13) Með þessum orðum benti Jesús lærisveinum sínum á hlutverk sitt sem kennari. Stuttu áður en hann steig upp til himna bauð hann fylgjendum sínum: „Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum . . . og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður.“ (Matt. 28:19, 20) Síðar lagði Páll postuli einnig áherslu á mikilvægi þess að kenna orð Guðs. Hann skrifaði Tímóteusi sem var öldungur í kristna söfnuðinum: „Ver kostgæfinn við að lesa upp úr Ritningunni, uppörva og kenna . . . Stunda þetta, ver allur í þessu til þess að framför þín sé öllum augljós.“ — 1. Tím. 4:13-15.
Nú sem fyrr er kennslan áberandi þáttur bæði í boðunarstarfinu og á samkomum. Hvernig getum við verið kostgæfin við að kenna og á hvern hátt hjálpar það okkur að taka framförum sem kennarar í orði Guðs?
Líkjum eftir kennaranum mikla
Kennsluaðferðir Jesú höfðuðu til margra áheyrenda hans. Tökum eftir áhrifunum sem orð hans höfðu á samkundugesti í Nasaret. Guðspjallamaðurinn Lúkas sagði: „Allir lofuðu hann og undruðust þau hugnæmu orð sem fram gengu af munni hans.“ (Lúk. 4:22) Lærisveinar Jesú líktu eftir meistara sínum þegar þeir boðuðu fagnaðarerindið. Og Páll postuli hvatti trúsystkini sín með þessum orðum: „Breytið eftir mér eins og ég breyti eftir Kristi.“ (1. Kor. 11:1) Páll líkti eftir aðferðum Jesú. Því varð honum mjög vel ágengt þegar hann „kenndi opinberlega og í heimahúsum“. — Post. 20:20.
Kennt „á torginu“
Gott dæmi um hæfileika Páls til að kenna opinberlega er að finna í 17. kafla Postulasögunnar. Þar lesum við um heimsókn hans til Aþenu í Grikklandi. Í borginni sá Páll skurðgoð hvert sem litið var, á götum úti og á torgum. Það er engin furða að þetta hafi orðið honum til skapraunar. Hann lét það samt ekki á sig fá heldur „ræddi . . . í samkundunni . . . og daglega á torginu við þá sem urðu á vegi hans“. (Post. 17:16, 17) Þetta er gott fordæmi fyrir okkur. Ef við nálgumst fólk með alls konar bakgrunn án fordóma en af virðingu getur það leitt til þess að einhverjir hlusti og losni úr ánauð falskra trúarbragða. — Post. 10:34, 35; Opinb. 18:4.
Það var virkilega krefjandi fyrir Pál að ná til þeirra sem hann hitti á markaðstorginu. Meðal áheyrenda hans voru heimspekingar en skoðanir þeirra samrýmdust ekki sannindunum sem hann boðaði. Þegar upp kom ágreiningur tók hann að sjálfsögðu tillit til athugasemda þeirra. Sumir kölluðu hann ,skraffinn‘ (bókstaflega „frætínslumann“). Aðrir sögðu: „Hann virðist boða ókunna guði.“ — Post. 17:18.
Niðrandi athugasemdir áheyrendanna komu Páli samt ekki úr jafnvægi. Þegar hann var beðinn um að útskýra það sem hann var að kenna greip hann þvert á móti tækifærið til að halda ræðu sem sýndi vel að hann var fær kennari og bjó yfir næmum skilningi. (Post. 17:19-22; 1. Pét. 3:15) Við skulum nú fara yfir ræðuna í smáatriðum og draga af henni lærdóm sem gæti hjálpað okkur að verða betri kennarar.
Sameiginlegur grundvöllur
Páll sagði: „Aþeningar, þið komið mér svo fyrir sjónir að þið séuð í öllum greinum miklir trúmenn því að ég . . . hugði að helgidómum ykkar og fann þá meðal annars altari sem á er ritað: Ókunnum guði. Þetta sem þið nú dýrkið og þekkið ekki, það boða ég ykkur.“ — Post. 17:22, 23.
Páll tók vel eftir því sem var í kringum hann. Þannig lærði hann margt um þá sem hann talaði við. Við getum fengið vissar upplýsingar um húsráðanda ef við erum athugul. Til dæmis geta leikföng í garði eða merki á dyrum gefið ákveðnar vísbendingar. Ef við höfum einhverja hugmynd um aðstæður húsráðanda getum við valið vel bæði hvað við segjum og einnig hvernig við segjum það. — Kól. 4:6.
Páll var jákvæður í boðskap sínum. Hann komst samt að raun um að það sem Aþeningar dýrkuðu villti um fyrir þeim. Páll benti þeim greinilega á hvernig þeir gætu beint tilbeiðslu sinni að hinum sanna Guði. (1. Kor. 14:8) Það er mikilvægt fyrir okkur að tala skýrt og vera jákvæð þegar við flytjum fagnaðarerindið um ríki Guðs.
Verum háttvís og óhlutdræg
Páll hélt áfram og sagði: „Guð, sem skóp heiminn og allt sem í honum er, hann, sem er herra himins og jarðar, býr ekki í musterum sem með höndum eru gerð. Ekki verður honum heldur þjónað með höndum manna, eins og hann þyrfti nokkurs við, þar sem hann sjálfur gefur öllum líf og anda og alla hluti.“ — Post. 17:24, 25.
Með háttvísi beinir Páll athyglinni að Jehóva sem lífgjafa okkar með því að vísa til hans sem „herra himins og jarðar“. Það er mikil gleði fólgin í því að benda hjartahreinu fólki með ólíkan trúar- og menningarbakgrunn á að allt líf á uppruna sinn hjá Jehóva Guði. — Sálm. 36:10.
Því næst sagði Páll: „Hann skóp og af einum allar þjóðir manna . . . er hann hafði ákveðið setta tíma og mörk bólstaða þeirra. Hann vildi að þær leituðu Guðs ef verða mætti þær þreifuðu sig til hans og fyndu hann. En eigi er hann langt frá neinum af okkur.“ — Post. 17:26, 27.
Með kennsluaðferðum okkar getum við sýnt öðrum fram á hvers konar Guð við tilbiðjum. Jehóva gefur öllum þjóðum tækifæri, án manngreinarálits, til að ,þreifa sig til hans og finna hann‘. Á svipaðan hátt tölum við án manngreinarálits við alla sem við hittum. Við reynum að hjálpa þeim sem trúa á skaparann til að eignast samband við hann því að hann getur veitt okkur eilífa blessun. (Jak. 4:8) En hvernig hjálpum við þeim sem efast um tilveru Guðs? Við fylgjum fordæmi Páls. Tökum eftir hvað hann sagði í framhaldinu.
„Í honum lifum, hrærumst og erum við. Svo hafa og sum skáld ykkar sagt: Því að við erum líka hans ættar. Fyrst við erum nú Guðs ættar megum við eigi ætla að guðdómurinn Post. 17:28, 29.
sé líkur smíði af gulli, silfri eða steini.“ —Páll reyndi að ná eyrum fólks með því að vitna í skáld sem Aþeningar þekktu og viðurkenndu. Við reynum líka að byggja á sameiginlegum grunni með því að ræða um það sem við vitum að hlustendur okkar munu taka til greina. Til dæmis á líking Páls í Hebreabréfinu alveg eins vel við nú á tímum: „Sérhvert hús hefur einhver gert en Guð er sá sem allt hefur gert.“ (Hebr. 3:4) Ef við fáum húsráðendur til að íhuga þessa einföldu líkingu getur það hjálpað þeim að viðurkenna sannindin sem við boðum. Tökum eftir öðru áhrifamiklu kennsluatriði í ræðu Páls — hvatningunni.
Bendum á að tíminn sé naumur
Páll sagði: „Guð hefur umborið vanvisku liðinna tíma. En nú boðar hann mönnum hvarvetna að allir skuli snúa sér til hans því að hann hefur sett dag er hann mun láta mann, sem hann hefur fyrirhugað, dæma heimsbyggðina með réttvísi.“ — Post. 17:30, 31.
Þar sem Guð hefur leyft illskuna um tíma hefur hann gefið okkur öllum tækifæri til að sýna hvað búi raunverulega í hjörtum okkar. Það er nauðsynlegt að við leggjum áherslu á að tíminn sé naumur og að við tölum af sannfæringu um blessanir Guðsríkis sem eru svo nærri. — 2. Tím. 3:1-5.
Mismunandi viðbrögð
„Þegar þeir heyrðu nefnda upprisu dauðra gerðu sumir gys að en aðrir sögðu: ,Við munum hlusta á þetta hjá þér öðru sinni.‘ Þannig skildi Páll við þá. En nokkrir menn slógust í fylgd hans. Þeir tóku trú.“ — Post. 17:32-34.
Sumir taka við samstundis við því sem við kennum, aðrir þurfa lengri tíma til að láta sannfærast af rökum okkar. En þegar skýrar og einfaldar útskýringar á sannleikanum hjálpa jafnvel einni manneskju að komast til nákvæmrar þekkingar á Jehóva erum við þakklát fyrir að hann skuli nota okkur til að laða fólk til sonar síns. — Jóh. 6:44.
Lærum af Páli
Þegar við hugsum um ræðu Páls getum við lært margt um það hvernig hægt er að útskýra biblíusannindi fyrir öðrum. Ef við fáum það verkefni að flytja opinbera ræðu í söfnuðinum getum við reynt að líkja eftir Páli með því að tjá okkur af nærgætni. Það hjálpar vantrúuðum að skilja biblíusannindi og taka við þeim. Við viljum segja skilmerkilega frá slíkum sannindum en gæta þess vandlega að gera ekki lítið úr trúarskoðunum vantrúaðra sem eru ef til vill viðstaddir. Við reynum að sama skapi að vera sannfærandi og háttvís í boðunarstarfinu. Með því fylgjum við ráðleggingu Páls um að „vera kostgæfin við að kenna“.
[Mynd á bls. 30]
Páll kenndi á skýran, einfaldan og nærgætinn hátt.
[Mynd á bls. 31]
Við líkjum eftir Páli með því að virða tilfinningar þeirra sem við prédikum fyrir.