Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hafðu ástúðlega umhyggju á tungu þinni

Hafðu ástúðlega umhyggju á tungu þinni

Hafðu ástúðlega umhyggju á tungu þinni

„Mál hennar er þrungið speki og ástúðleg fræðsla er á tungu hennar.“ — ORÐSKV. 31:26.

1, 2. (a) Hvaða eiginleika eru þjónar Jehóva hvattir til að tileinka sér? (b) Um hvað er fjallað í þessari grein?

LEMÚEL konungur til forna fékk verðmæta kennslu hjá móður sinni. Hún fræddi hann meðal annars um mikilvægan eiginleika góðrar eiginkonu. Honum var sagt: „Mál hennar er þrungið speki, og ástúðleg fræðsla er á tungu hennar.“ * (Orðskv. 31:1, 10, 26) Það er eftirsóknarvert að ástúðleg fræðsla og umhyggja sé á tungu viturrar konu og reyndar allra annarra sem þrá að þóknast Jehóva Guði. Ástúðleg umhyggja ætti að koma fram í tali allra sem þjóna Guði.

2 Hvað er ástúðleg umhyggja? Gagnvart hverjum birtist hún? Hvað getur hjálpað okkur að hafa ástúðlega umhyggju á tungu okkar? Og hvaða áhrif hefur það á samskipti við ættingja og trúsystkini?

Þegar umhyggja er sprottin af tryggum kærleika

3, 4. (a) Hvað er ástúðleg umhyggja? (b) Hvaða munur er á ástúðlegri umhyggju og umhyggju eða manngæsku í almennum skilningi?

3 Eins og orðin bera með sér byggist ástúðleg umhyggja bæði á ást og umhyggju. Umhyggjan er fólgin í því að sýna öðrum áhuga og láta það í ljós með því að vera hjálpsamur og hugulsamur í orði og verki. Og áhuginn á velferð annarra er sprottinn af kærleika til þeirra. En frummálsorðið, sem er þýtt ástúðleg umhyggja, lýsir meiru en umhyggju sem er sprottin af kærleika, vegna þess að umhyggjan bindur sig annarri persónu tryggðar- og kærleiksböndum uns markmiðið með henni hefur náð fram að ganga.

4 Ástúðleg umhyggja er frábrugðin umhyggju á annan hátt. Það er hægt að sýna bláókunnugu fólki umhyggju eða manngæsku í almennum skilningi. Páll postuli og 275 skipbrotsmenn með honum nutu þess konar umhyggju af hálfu Möltubúa, fólks sem þeir höfðu aldrei hitt áður. (Post. 27:37–28:2) Ástúðleg umhyggja byggist hins vegar á tryggðarböndum milli einstaklinga sem þekkjast fyrir. * Kenítar sýndu Ísraelsmönnum þess konar umhyggju „þegar þeir voru á leiðinni frá Egyptalandi“. — 1. Sam. 15:6.

Bæn og hugleiðing eru mikilvæg hjálp

5. Hvað getur hjálpað okkur að hafa taumhald á tungunni?

5 Það er enginn hægðarleikur að sýna ástúðlega umhyggju í tali sínu. Lærisveinninn Jakob skrifaði um tunguna: „Tunguna getur enginn maður tamið, þessa óhemju sem er full af banvænu eitri.“ (Jak. 3:8) Hvað getur hjálpað okkur að hafa taumhald á tungunni, eins óstýrilát og hún er? Orð Jesú gefa okkur innsýn í það. Hann sagði einu sinni við trúarleiðtogana: „Af gnægð hjartans mælir munnurinn.“ (Matt. 12:34) Ef við viljum sýna ástúðlega umhyggju í tali okkar þurfum við að rækta hana innra með okkur, í hjartanu. Við skulum kanna hvernig bæn og hugleiðing eru góð hjálp til þess.

6. Af hverju ættum við að hugleiða ástúðlega umhyggju Jehóva?

6 Í Biblíunni segir að Jehóva Guð sé „gæskuríkur“, það er að segja ríkur að ástúðlegri umhyggju. (2. Mós. 34:6) „Drottinn, jörðin er full af miskunn þinni,“ söng sálmaskáldið og vísaði þar aftur til ástúðlegrar umhyggju hans. (Sálm. 119:64) Í Biblíunni má finna fjölda frásagna sem vitna um hvernig Jehóva sýndi dýrkendum sínum ástúðlega umhyggju. Ef við gefum okkur tíma til að hugleiða „stórvirki“ Jehóva með þakklátum huga getur það vakið með okkur löngun til að tileinka okkur þennan góða eiginleika. — Lestu Sálm 77:13.

7, 8. (a) Hvernig sýndi Jehóva Lot og fjölskyldu hans ástúðlega umhyggju? (b) Hvernig var Davíð innanbrjósts þegar Guð sýndi honum ástúðlega umhyggju?

7 Tökum sem dæmi hvernig Jehóva frelsaði Lot, frænda Abrahams, og fjölskyldu hans þegar hann eyddi borginni Sódómu þar sem þau bjuggu. Englarnir, sem höfðu komið til Lots, hvöttu hann til að yfirgefa borgina með hraði ásamt fjölskyldu sinni þegar nálgaðist eyðinguna. „En Lot fór hægt að öllu,“ segir í Biblíunni, „svo að [englarnir] tóku í hönd honum og í hönd konu hans og dætranna beggja, fyrir miskunn Drottins við þau, og leiddu þau í öruggt skjól utan borgar.“ Hreyfir það ekki við okkur að íhuga hvernig Jehóva bjargaði Lot? Er þetta ekki skýrt dæmi um ástúðlega umhyggju hans? — 1. Mós. 19:16, 19.

8 Davíð Ísraelskonungur fékk einnig að kynnast ástúðlegri umhyggju Jehóva. Hann söng: „[Jehóva] fyrirgefur allar misgjörðir þínar, læknar öll þín mein.“ Davíð hlýtur að hafa verið innilega þakklátur fyrir að Jehóva skyldi fyrirgefa honum syndina sem hann drýgði með Batsebu. Í lofsöng, sem hann orti um Jehóva, segir: „Svo hár sem himinninn er yfir jörðinni, svo voldug er miskunn hans við þá er óttast hann.“ (Sálm. 103:3, 11) Ef við hugleiðum þessa frásögu og fleiri frásögur Biblíunnar fyllumst við þakklæti fyrir ástúðlega umhyggju Jehóva, og við getum ekki annað en þakkað honum og lofað hann. Því þakklátari sem við erum þeim mun sterkari löngun höfum við til að líkja eftir hinum sanna Guði. — Ef. 5:1.

9. Af hverju hafa dýrkendur Jehóva ærið tilefni til að sýna ástúðlega umhyggju í daglega lífinu?

9 Af Biblíunni má sjá að Jehóva sýnir ástúðlega umhyggju þeim sem eiga gott samband við hann. Hann sýnir þeim tryggan kærleika sinn. En hvað um þá sem eiga ekki slík tengsl við hinn lifandi Guð? Er hann harður og kuldalegur við þá? Alls ekki. „[Guð] er góður við vanþakkláta og vonda,“ segir í Lúkasi 6:35. „[Hann] lætur sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta.“ (Matt. 5:45) Við nutum gæsku og umhyggju Guðs áður en við kynntumst sannleikanum og tileinkuðum okkur hann. En eftir að við tókum að tilbiðja Jehóva hefur hann sýnt okkur tryggan kærleika sinn — stöðuga og ástúðlega umhyggju sína. (Lestu Jesaja 54:10.) Við getum verið innilega þakklát fyrir það. Og höfum við ekki ærið tilefni til að sýna ástúðlega umhyggju í tali okkar og á öðrum sviðum daglega lífsins?

10. Af hverju er bænin ómetanleg hjálp til að temja sér ástúðlega umhyggju?

10 Bænin er sérlega verðmæt hjálp til að þroska með okkur ástúðlega umhyggju. Það kemur til af því að ástúðleg umhyggja er nátengd kærleika og gæsku sem er hvort tveggja ávöxtur heilags anda Jehóva. (Gal. 5:22) Við getum glætt ástúðlega umhyggju í hjörtum okkar með því að leyfa anda Guðs að hafa áhrif á okkur. Einfaldasta leiðin til að fá heilagan anda er að biðja um hann. (Lúk. 11:13) Það er vel við hæfi að biðja oft um anda Guðs og þiggja handleiðslu hans. Já, bæn og hugleiðing eru mikilvæg hjálp til að sýna ástúðlega umhyggju í tali okkar.

Þegar hjón tala saman

11. (a) Hvernig vitum við að Jehóva ætlast til þess að eiginmaður sýni konu sinni ástúðlega umhyggju? (b) Hvernig getur ástúðleg umhyggja hjálpað eiginmanni að hafa taumhald á tungu sinni?

11 Páll postuli hvetur eiginmenn: „Elskið konur ykkar eins og Kristur elskaði kirkjuna og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir hana.“ (Ef. 5:25) Páll minnir þá einnig á hvað Jehóva sagði við Adam og Evu. Hann skrifaði: „Þess vegna skal maður yfirgefa föður og móður og búa við eiginkonu sína og munu þau tvö verða einn maður.“ (Ef. 5:31) Ljóst er að Jehóva ætlast til þess að eiginmaður sé konu sinni trúr og tryggur og sýni henni ástúðlega umhyggju öllum stundum. Eiginmaður, sem sýnir tryggan kærleika, ber ekki bresti og mistök eiginkonunnar á torg né talar niðrandi um hana. Hann hrósar henni oft. (Orðskv. 31:28) Ef einhverra orsaka vegna kastast í kekki milli hjónanna gætir maðurinn þess að auðmýkja ekki konuna sína.

12. Hvernig getur eiginkona látið ástúðlega umhyggju stjórna tungu sinni?

12 Eiginkona ætti einnig að láta ástúðlega umhyggju stjórna því hvernig hún notar tunguna. Hún ætti ekki að endurspegla anda heimsins í tali sínu. Hún ber djúpa virðingu fyrir eiginmanni sínum og talar vel um hann þegar aðrir heyra til. (Ef. 5:33) Þannig ýtir hún undir virðingu annarra fyrir honum. Hún stillir sig um að véfengja skoðanir hans eða vera honum ósammála í áheyrn barnanna því að hún vill ekki að hann falli í áliti hjá þeim. Hún ræðir ágreiningsmál við hann í einrúmi. „Viska kvennanna reisir húsið,“ segir í Biblíunni. (Orðskv. 14:1) Hún skapar hlýlegt og þægilegt andrúmsloft fyrir alla á heimilinu.

13. Hvar er sérstaklega mikilvægt að sýna ástúðlega umhyggju og hvað stuðlar að því?

13 Jafnvel innan veggja heimilisins verða hjón að sýna hvort öðru virðingu með því hvernig þau tala. „Nú skuluð þið segja skilið við allt þetta,“ skrifaði Páll, „reiði, bræði, vonsku, lastmæli [og] svívirðilegt orðbragð.“ Síðan bætti hann við: „Íklæðist . . . hjartagróinni meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi . . . Íklæðist yfir allt þetta elskunni sem bindur allt saman og fullkomnar allt.“ (Kól. 3:8, 12-14) Þegar börnin eru vön því að heyra foreldra sína tala með ástúð og umhyggju blómstra þau og líkja sennilega eftir þeim í tali.

14. Hvernig geta þeir sem veita fjölskyldu forstöðu verið hughreystandi?

14 Sálmaskáldið orti um Jehóva: „Lát náð þína verða mér til huggunar.“ (Sálm. 119:76) Jehóva huggar og hughreystir þjóna sína fyrst og fremst með því að hvetja þá og leiðbeina þeim. (Sálm. 119:105) Hvernig geta þeir sem veita fjölskyldu forstöðu líkt eftir föðurnum á himnum og hughreyst þá sem eru í þeirra umsjá? Þeir geta gert það með því að hvetja og leiðbeina eftir þörfum. Gott er að nýta vel biblíunámskvöld fjölskyldunnar til að afla sér verðmætrar biblíuþekkingar. — Orðskv. 24:4.

Sýnum trúsystkinum tryggan kærleika

15. Hvernig geta öldungar og aðrir þroskaðir einstaklingar beitt tungunni til verndar öðrum í söfnuðinum?

15 Davíð konungur bað: „Lát náð þína og trúfesti ætíð vernda mig.“ (Sálm. 40:12) Hvernig geta öldungar og aðrir þroskaðir einstaklingar í söfnuðinum líkt eftir Jehóva? Það vitnar vissulega um ástúðlega umhyggju að nota tunguna til að beina athygli að biblíulegum upplýsingum. — Orðskv. 17:17.

16, 17. Hvernig getum við meðal annars sýnt að við höfum ástúðlega umhyggju á tungu okkar?

16 Hvað eigum við að gera ef við sjáum bróður eða systur stefna út á ranga braut? Bæri það ekki vitni um ástúðlega umhyggju af okkar hálfu að reyna að leiðrétta þau? (Sálm. 141:5) Ef við uppgötvum að trúbróðir hefur drýgt alvarlega synd ber það vott um tryggan kærleika að hvetja hann til að kalla til sín öldunga safnaðarins svo að þeir geti,smurt hann með olíu í nafni Drottins og beðið fyrir honum‘. (Jak. 5:14) Ef hinn brotlegi leitar ekki til öldunganna ber það hvorki vitni um ástúð né umhyggju af okkar hálfu að þegja yfir syndinni. Sumir á meðal okkar eru ef til vill niðurdregnir eða einmana, finnst þeir einskis virði eða eru bugaðir af vonbrigðum. Að hughreysta niðurdregna er góð leið til að sýna að við höfum ástúðlega umhyggju á tungu okkar. — 1. Þess. 5:14.

17 Hvernig ættum við að bregðast við þegar óvinir Guðs bera út sögur um trúsystkini okkar? Við ættum að leiða slíkar sögur hjá okkur í stað þess að efast um að bræður okkar og systur séu trúföst. Ef sá sem er með ásakanir tekur rökum er hægt að spyrja hann hvort hann sé alveg viss í sinni sök. Ef óvinir ætla að vinna trúsystkinum okkar tjón og reyna að komast á snoðir um hvar þau séu niðurkomin sýnum við tryggan kærleika með því að láta engar slíkar upplýsingar í té. — Orðskv. 18:24.

Sá sem ástundar ástúðlega umhyggju öðlast líf

18, 19. Af hverju ættum við alltaf að sýna ástúðlega umhyggju í samskiptum við trúsystkini?

18 Við ættum að sýna tryggan kærleika í öllum samskiptum við aðra þjóna Jehóva. Ástúðleg umhyggja ætti aldrei að víkja af tungu okkar, ekki einu sinni við erfiðustu aðstæður. Þegar ástúðleg umhyggja Ísraelsmanna gufaði upp „eins og dögg sem hverfur skjótt“ vakti það vanþóknun Jehóva. (Hós. 6:4, 6) Jehóva hefur aftur á móti velþóknun á þeim sem temja sér og ástunda ástúðlega umhyggju. Hvernig blessar hann þá sem gera það?

19 Í Orðskviðunum 21:21 stendur: „Sá sem ástundar réttlæti og kærleika öðlast líf, velgengni og heiður.“ Ein blessunin, sem slíkur maður hlýtur, er að hann öðlast líf — ekki aðeins stutta tilveru heldur eilíft líf. Jehóva hjálpar honum að ,höndla hið sanna líf‘. (1. Tím. 6:12, 19) Við skulum því fyrir alla muni ,sýna hver öðrum miskunnsemi‘ og ástúðlega umhyggju. — Sak. 7:9.

[Neðanmáls]

^ gr. 1 Orðið „ástúðleg“ er þýðing á frummálsorðinu heseð sem merkir,ástúðleg umhyggja‘. Orðið er þýtt með ýmsum hætti í íslensku biblíunni, svo sem miskunn, miskunnsemi, kærleikur, náð og gæska. Þar sem þessi orð koma fyrir í biblíutextum í greininni er átt við ástúðlega umhyggju.

^ gr. 4 Nánari upplýsingar um muninn á ástúðlegri umhyggju annars vegar og tryggð, kærleika og umhyggju hins vegar er að finna í Varðturninum 1. júní 2002, bls. 20-21 og 25-27.

Geturðu svarað?

• Hvað er ástúðleg umhyggja?

• Hvað hjálpar okkur að sýna ástúðlega umhyggju í tali okkar?

• Hvernig geta hjón sýnt hvort öðru tryggan kærleika með tali sínu?

• Hvernig sýnum við ástúðlega umhyggju í samskiptum við trúsystkini?

[Spurningar]

[Mynd á bls. 23]

Davíð lofsöng ástúðlega umhyggju Jehóva.

[Mynd á bls. 24]

Stundarðu biblíunám með fjölskyldunni í hverri viku?