Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Einn er leiðtogi yðar, Kristur“

„Einn er leiðtogi yðar, Kristur“

„Einn er leiðtogi yðar, Kristur“

„Þér skuluð ekki . . . láta kalla yður leiðtoga því einn er leiðtogi yðar, Kristur.“ — MATT. 23:9, 10.

1. Hvern líta vottar Jehóva á sem leiðtoga sinn og hvers vegna?

KIRKJUDEILDIR kristna heimsins eiga sér mennska leiðtoga, svo sem páfann í Róm, patríarka og erkibiskupa rétttrúnaðarkirknanna og forystumenn annarra trúardeilda. Vottar Jehóva líta ekki á nokkurn mann sem leiðtoga sinn. Þeir eru ekki lærisveinar eða fylgjendur manna. Það kemur heim og saman við spádómleg orð Jehóva varðandi son sinn: „Ég gerði hann að vitni fyrir þjóðirnar, að höfðingja og stjórnanda þjóðanna.“ (Jes. 55:4) Alþjóðasöfnuður andasmurðra kristinna manna og ,annarra sauða‘, sem starfa með þeim, vill engan annan leiðtoga en þann sem Jehóva hefur gefið. (Jóh. 10:16) Þeir eru sammála orðum Jesú: „Einn er leiðtogi yðar, Kristur.“ — Matt. 23:10.

Engillinn sem var leiðtogi Ísraels

2, 3. Hvaða hlutverki gegndi sonur Guðs í Ísrael?

2 Öldum áður en kristni söfnuðurinn var stofnsettur hafði Jehóva sett engil sem leiðtoga þjóðar sinnar, Ísraels. Eftir að Jehóva hafði leitt Ísraelsmenn út úr Egyptalandi sagði hann við þá: „Ég sendi engil á undan þér til að vernda þig á leiðinni og leiða þig til þess staðar sem ég hef ákveðið. Gættu þín og hlustaðu á það sem hann segir. Óhlýðnastu honum ekki, hann mun ekki fyrirgefa þrjósku ykkar af því að nafn mitt er í honum.“ (2. Mós. 23:20, 21) Það er rökrétt að álykta að þessi engill, sem hafði ,nafn Jehóva í sér‘, hafi verið frumgetinn sonur hans.

3 Ljóst er að sonur Guðs bar nafnið Míkael áður en hann fæddist á jörð. Í Daníelsbók er hann kallaður „leiðtogi þinn [Daníels]“ og þjóðar hans. (Dan. 10:21) Hjá lærisveininum Júdasi kemur fram að Míkael hafi haft afskipti af málefnum Ísraelsmanna löngu fyrir daga Daníels. Eftir að Móse dó virðist Satan hafa ætlað að nota lík hans með einhverjum hætti í eigin þágu, hugsanlega til að leiða Ísraelsmenn út í skurðgoðadýrkun. Míkael skarst í leikinn og kom í veg fyrir það. Júdas segir svo frá: „Eigi dirfðist einu sinni höfuðengillinn Mikael að saka djöfulinn um guðlast, er hann átti í orðadeilu við hann um líkama Móse, heldur sagði: ,Drottinn refsi þér!‘“ (Júd. 9) Skömmu eftir þetta, rétt áður en Ísraelsmenn settust um Jeríkó, var það eflaust Míkael, „hershöfðingi Drottins“, sem birtist Jósúa til að fullvissa hann um stuðning Guðs. (Lestu Jósúabók 5:13-15.) Þegar voldugur illur andi reyndi að hindra engil í að flytja Daníel spámanni mikilvægan boðskap kom höfuðengillinn Míkael englinum til hjálpar. — Dan. 10:5-7, 12-14.

Hinn fyrirheitni leiðtogi kemur fram

4. Hverju var spáð um komu Messíasar?

4 Áður en þetta atvik átti sér stað hafði Jehóva sent Gabríel engil til að flytja Daníel spámanni spádóm um komu „hins smurða höfðingja“. (Dan. 9:21-25, Biblían 1981) * Haustið 29, nákvæmlega á réttum tíma, kom Jesús til Jóhannesar til að láta skírast. Heilögum anda var úthellt yfir Jesú. Þar með varð hann hinn smurði, það er að segja Kristur eða Messías. (Matt. 3:13-17; Jóh. 1:29-34; Gal. 4:4) Sem slíkur átti að hann verða óviðjafnanlegur leiðtogi.

5. Hvernig fór Jesús með forystuna meðan hann þjónaði á jörð?

5 Jesús reyndist vera ,hinn smurði höfðingi‘ allt frá því að hann lét skírast. Fáeinum dögum eftir að hann hóf þjónustu sína á jörð byrjaði hann að safna að sér lærisveinum og vann fyrsta kraftaverkið. (Jóh. 1:35–2:11) Lærisveinarnir fylgdu honum á ferðum hans um landið þvert og endilagt og boðuðu fagnaðarerindið um ríkið. (Lúk. 8:1) Hann kenndi þeim að prédika og gekk á undan með góðu fordæmi í boðuninni og kennslunni. (Lúk. 9:1-6) Safnaðaröldungar nú á dögum ættu að líkja eftir honum.

6. Hvernig reyndist Kristur vera hirðir og leiðtogi?

6 Jesús benti á annan þátt forystu sinnar þegar hann líkti sjálfum sér við ástríkan hirði. Fjárhirðar í Austurlöndum leiða hjarðir sínar í bókstaflegri merkingu. William M. Thomson segir í bók sinni The Land and the Book: „Fjárhirðirinn gengur á undan, ekki aðeins til að vísa veginn heldur líka til að kanna hvort leiðin sé fær og örugg . . . Með stafnum stjórnar hann hjörðinni, leiðir hana á grösug beitilönd og ver hana gegn óvinum.“ Jesús sýndi fram á að hann væri sannur hirðir og leiðtogi þegar hann sagði: „Ég er góði hirðirinn. Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina. Mínir sauðir heyra raust mína og ég þekki þá og þeir fylgja mér.“ (Jóh. 10:11, 27) Jesús stóð við orð sín og fórnaði lífi sínu í þágu sauðanna en Jehóva reisti hann upp frá dauðum og gerði hann að „höfðingja og frelsara“. — Post. 5:31; Hebr. 13:20.

Jesús hefur umsjón með söfnuðinum

7. Fyrir atbeina hvers hefur Jesús umsjón með kristna söfnuðinum?

7 Skömmu áður en hinn upprisni Jesús fór til himna sagði hann við lærisveina sína: „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu.“ (Matt. 28:18) Jehóva lét Jesú gefa lærisveinunum heilagan anda til að styrkja þá í sannleika kristninnar. (Jóh. 15:26) Jesús úthellti heilögum anda yfir frumkristna menn á hvítasunnu árið 33. (Post. 2:33) Með úthellingu andans var kristni söfnuðurinn stofnsettur. Jehóva fól syni sínum umboð til að fara með forystu af himnum fyrir söfnuðinum á jörð. (Lestu Efesusbréfið 1:22; Kólossubréfið 1:13, 18.) Jesús leiðir kristna söfnuðinn fyrir atbeina heilags anda Jehóva, og hefur í þjónustu sinni engla sem eru „undir hann lagðir“. — 1. Pét. 3:22.

8. Hvaða hóp notaði Kristur á fyrstu öld til að fara með forystu fyrir lærisveinunum og hverja notar hann núna?

8 Það var einnig fyrir atbeina heilags anda að Kristur „gaf mönnunum gjafir“ í mynd ,hirða og kennara‘ í söfnuðinum. (Ef. 4:8, 11) Páll postuli hvatti kristna umsjónarmenn: „Hafið gát á sjálfum ykkur og allri hjörðinni sem heilagur andi fól ykkur til umsjónar. Verið hirðar kirkju Guðs.“ (Post. 20:28) Þegar kristni söfnuðurinn tók til starfa voru allir þessir umsjónarmenn andasmurðir. Postular og öldungar safnaðarins í Jerúsalem mynduðu stjórnandi ráð hans. Kristur notaði þennan hóp til að leiða alla andasmurða „bræður“ sína á jörðinni. (Hebr. 2:11, neðanm.; Post. 16:4, 5) Núna á endalokatímanum hefur Kristur lagt „allar eigur sínar“ — alla hagsmuni ríkis síns á jörð — í hendur hins ,trúa og hyggna þjóns‘ og hins stjórnandi ráðs sem er skipað andasmurðum kristnum mönnum. (Matt. 24:45-47) Hinir andasmurðu og aðrir sauðir, sem starfa með þeim, vita að með því að fylgja leiðsögn hins stjórnandi ráðs eru þeir í rauninni að fylgja Kristi, leiðtoga sínum.

Kristur hrindir boðunarstarfinu af stað

9, 10. Hvernig stjórnaði Kristur útbreiðslu fagnaðarerindisins?

9 Allt frá upphafi stjórnaði Jesús persónulega boðuninni og kennslunni um heim allan. Hann forgangsraðaði hvernig fagnaðarerindið um ríkið skyldi boðað jarðarbúum. Meðan hann var enn á jörð sagði hann postulunum: „Leggið ekki leið yðar til heiðinna manna og farið ekki í samverska borg. Farið heldur til týndra sauða af Ísraelsætt. Farið og prédikið: Himnaríki er í nánd.“ (Matt. 10:5-7) Þeir fylgdu þessum fyrirmælum og boðuðu ríkið dyggilega meðal Gyðinga og trúskiptinga, einkum eftir hvítasunnu árið 33. — Post. 2:4, 5, 10, 11; 5:42; 6:7.

10 Síðar beitti Jesús heilögum anda til að láta boðun fagnaðarerindisins ná til Samverja og síðan til annarra þjóða. (Post. 8:5, 6, 14-17; 10:19-22, 44, 45) Til að efla útbreiðslu fagnaðarerindisins meðal þjóðanna stóð Jesús persónulega að baki því að Sál frá Tarsus snerist til kristinnar trúar. Hann sagði lærisveininum Ananíasi: „Far þegar í stræti það sem kallað er Hið beina og í húsi Júdasar skaltu spyrja eftir manni frá Tarsus, er heitir Sál . . . Far þú, því að þennan mann hef ég valið mér að verkfæri til þess að bera nafn mitt fram fyrir heiðingja, konunga og börn Ísraels.“ (Post. 9:3-6, 10, 11, 15) Við þekkjum „þennan mann“ sem Pál postula. — 1. Tím. 2:7.

11. Hvernig beitti Kristur heilögum anda til að færa út kvíarnar í boðunarstarfinu?

11 Þegar tíminn kom til að prédika fagnaðarerindið meðal þjóðanna fékk Páll bendingu af himni um að fara í trúboðsferðir um Litlu-Asíu og Evrópu. Lúkas segir svo frá í Postulasögunni: „Eitt sinn er þeir [kristnir spámenn og kennarar í söfnuðinum í Antíokkíu í Sýrlandi] voru að þjóna Drottni og föstuðu sagði heilagur andi: ,Takið frá, mér til handa, þá Barnabas og Sál til að vinna það verk sem ég hef kallað þá til.‘ Síðan föstuðu þeir og báðust fyrir, lögðu hendur yfir þá og létu þá fara.“ (Post. 13:2, 3) Jesús hafði persónulega valið sér Sál frá Tarsus „að verkfæri“ til að bera nafn sitt fram fyrir heiðingja. Þessi nýi drifkraftur í boðunarstarfinu var því kominn frá Kristi, leiðtoga safnaðarins. Á annarri trúboðsferð Páls sýndi það sig ótvírætt að Jesús notaði heilagan anda til að stjórna starfinu. Í frásögunni segir að „andi Jesú“, það er að segja Jesús fyrir tilstuðlan heilags anda, hafi leiðbeint Páli og félögum hans þegar þeir skipulögðu ferðina, og þeir sáu sýn sem varð til þess að þeir fóru til Evrópu. — Lestu Postulasöguna 16:6-10.

Forysta Jesú fyrir söfnuði sínum

12, 13. Hvernig má sjá af Opinberunarbókinni að Kristur fylgist náið með því sem fram fer í hverjum söfnuði?

12 Jesús fylgdist náið með því sem fram fór í söfnuðum andasmurðra fylgjenda sinna á fyrstu öld. Hann vissi nákvæmlega hvernig hver einasti söfnuður var á sig kominn. Það sést greinilega af 2. og 3. kafla Opinberunarbókarinnar. Þar nafngreinir hann sjö söfnuði sem voru allir í Litlu-Asíu. (Opinb. 1:11) Það er full ástæða til að ætla að hann hafi líka haft fullkomna vitneskju um stöðu mála í öðrum söfnuðum fylgjenda sinna á jörðinni á þeim tíma. — Lestu Opinberunarbókina 2:23.

13 Jesús hrósaði sumum söfnuðunum fyrir þolgæði þeirra, trúfesti í prófraunum, hollustu við orð sitt og fyrir að hafna fráhvarfsmönnum. (Opinb. 2:2, 9, 13, 19; 3:8) Hins vegar áminnti hann alvarlega nokkra söfnuði vegna þess að þeir höfðu fallið frá sínum fyrri kærleika til hans og þeir umbáru skurðgoðadýrkun, saurlifnað og sértrúarhugmyndir. (Opinb. 2:4, 14, 15, 20; 3:15, 16) Jesús var alltaf kærleiksríkur, jafnvel við þá sem hann áminnti alvarlega. Hann sagði: „Ég tyfta og aga alla þá sem ég elska. Legg þú því allt kapp á að bæta ráð þitt.“ (Opinb. 3:19) Þótt Jesús væri á himnum leiddi hann söfnuði lærisveina sinna á jörð fyrir atbeina heilags anda. Hann lauk orðum sínum til þessara safnaða þannig: „Hver sem eyra hefur hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum.“ — Opinb. 3:22.

14-16. (a) Hvernig hefur Jesús reynst vera hugrakkur leiðtogi þjóna Jehóva á jörð? (b) Hvað hefur það haft í för með sér að Jesús skuli hafa verið með lærisveinum sínum „alla daga allt til enda veraldar“? (c) Um hvað er rætt í greininni á eftir?

14 Við höfum séð að engillinn Míkael (Jesús) reyndist djarfur og áræðinn leiðtogi Ísraels. Hann var hugrakkur leiðtogi og ástríkur hirðir fyrstu lærisveina sinna meðan hann þjónaði á jörð. Hann tók forystuna í boðunarstarfinu, og eftir upprisu sína hafði hann nána umsjón með boðun fagnaðarerindisins um ríkið.

15 Þegar fram liðu stundir myndi Jesús beita heilögum anda til að láta boða fagnaðarerindið út til ystu endimarka jarðar. Áður en hann steig upp til himna sagði hann lærisveinunum: „Þér munuð öðlast kraft er heilagur andi kemur yfir yður og þér munuð verða vottar mínir í Jerúsalem og allri Júdeu, í Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar.“ (Post. 1:8; lestu 1. Pétursbréf 1:12.) Fagnaðarerindið var boðað af miklum krafti á fyrstu öld undir forystu Krists. — Kól. 1:23.

16 En Jesús gaf sjálfur til kynna að þessu starfi yrði haldið áfram allt fram á endalokatímann. Eftir að hann hafði falið fylgjendum sínum að prédika og gera fólk af öllum þjóðum að lærisveinum gaf hann þeim loforð og sagði: „Ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ (Matt. 28:19, 20) Síðan Kristi var fengið konungsvald árið 1914 hefur hann verið með lærisveinum sínum í ríkari mæli en nokkru sinni fyrr og verið öflugur leiðtogi þeirra. Í næstu grein er fjallað um hið mikla starf sem hann hefur unnið frá og með 1914.

[Neðanmáls]

Til upprifjunar

• Hvernig reyndist sonur Guðs öflugur leiðtogi Ísraels?

• Hvernig leiðir Kristur söfnuð sinn á jörð?

• Hvernig hefur Kristur stjórnað útbreiðslu fagnaðarerindisins?

• Hvað sýnir að Kristur fylgist grannt með stöðu mála í hverjum söfnuði?

[Spurningar]

[Mynd á bls. 21]

„Ég sendi engil á undan þér.“

[Mynd á bls. 23]

Líkt og forðum daga hefur Kristur gefið hirða til að gæta hjarðar sinnar.