Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Kristur er öflugur leiðtogi okkar

Kristur er öflugur leiðtogi okkar

Kristur er öflugur leiðtogi okkar

„Hann fór út sigrandi og til þess að sigra.“ — OPINB. 6:2.

1, 2. (a) Hvernig lýsir Biblían konunginum Kristi eftir 1914? (b) Hvað hefur Kristur gert síðan hann tók við völdum?

KRISTUR var krýndur sem konungur Messíasarríkis Jehóva árið 1914. Hvernig sjáum við hann fyrir okkur? Sem íhugulan konung í hásæti sem rennir augunum til jarðar endrum og eins til að sjá hvernig söfnuði hans vegnar? Ef svo er ættum við að skoða hug okkar að nýju. Í Sálmunum og Opinberunarbókinni eru honum lýst sem atorkumiklum og sigursælum konungi á hesti sem ríður fram „sigrandi og til þess að sigra“. — Opinb. 6:2; Sálm. 2:6-9; 45:2-5.

2 Fyrsta verk Krists eftir að hann var krýndur konungur var að sigra ,drekann og engla hans‘. Í hlutverki sínu sem Míkael höfuðengill barðist hann, ásamt englum sínum, við Satan og illu andana, kastaði þeim niður af himnum og takmarkaði áhrif þeirra við jörðina og næsta nágrenni. (Opinb. 12:7-9) Síðan kom hann sem „boðberi sáttmálans“, ásamt föður sínum, til andlega musterisins til að rannsaka það. (Mal. 3:1) Hann dæmdi kristna heiminn, sem er svívirðilegasti hluti ,Babýlonar hinnar miklu‘, og fann hann sekan um blóðskuld og um andlegan saurlifnað með stjórnmálakerfi þessa heims. — Opinb. 18:2, 3, 24.

Kristur hreinsar þjón sinn á jörð

3, 4. (a) Hvaða verk vann Kristur sem „boðberi“ Jehóva? (b) Hvað kom í ljós við rannsókn á musterinu og hvaða ráðstafanir gerði Jesús sem höfuð safnaðarins?

3 Þegar Jehóva og „boðberi“ hans rannsökuðu forgarð andlega musterisins fundu þeir einnig hóp sannkristinna manna sem tilheyrðu ekki kirkjum kristna heimsins. En jafnvel þessir andasmurðu kristnu menn, sem eru kallaðir ,synir Leví‘, þurftu að hreinsast. Malakí spámaður hafði lýst því í spádómi: „Hann [Jehóva] sest til að bræða silfrið og hreinsa það, hann hreinsar syni Leví, hann gerir þá sem hreint silfur og skíragull. Þá munu þeir færa Drottni fórnargjafir á réttan hátt.“ (Mal. 3:3) Jehóva fékk ,boðbera sáttmálans‘, Kristi Jesú, það verkefni að hreinsa þessa andlegu Ísraelsmenn.

4 Kristur komst samt sem áður að raun um að þessir trúu, andasmurðu fylgjendur hans gerðu sitt ýtrasta til að sjá ,hjúunum‘ fyrir andlegri fæðu á réttum tíma. Allt frá 1879 höfðu þeir í blíðu og stríðu birt biblíuleg sannindi varðandi ríki Guðs í þessu tímariti. Jesús hafði spáð að þegar hann kæmi til að rannsaka hjú sín og heimamenn skömmu áður en ,veröldin liði undir lok‘ myndi hann finna þar þjón sem gæfi þeim „mat á réttum tíma“. Hann myndi lýsa þjóninn sælan og „setja hann yfir allar eigur sínar“ á jörð. (Matt. 24:3, 45-47) Sem höfuð kristna safnaðarins hefur Jesús notað þennan ,trúa og hyggna þjón‘ til að gæta hagsmuna ríkis síns á jörð. Hann hefur gefið hinum andasmurðu ,hjúum‘ og ,öðrum sauðum‘, sem starfa með þeim, leiðbeiningar fyrir milligöngu stjórnandi ráðs. — Jóh. 10:16.

Uppskerutími á jörð

5. Hvað sá Jóhannes konung Messíasarríkisins gera?

5 Jóhannes postuli sá í sýn annað sem konungur Messíasarríkisins myndi gera á „Drottins degi“ eftir að hann tæki við völdum árið 1914. Jóhannes skrifaði: „Ég sá, og sjá: Hvítt ský og á skýinu einhvern sitja líkan mannssyni. Hann hafði gullkórónu á höfði og beitta sigð í hendi.“ (Opinb. 1:10; 14:14) Jóhannes heyrði engil Jehóva segja þessum uppskerumanni að beita sigðinni því að ,kornið væri þroskað‘ á jörð. — Opinb. 14:15, 16.

6. Hvað myndi gerast í tímans rás að sögn Jesú?

6 Þessi ,uppskerutími‘ minnir á dæmisögu Jesú um hveitið og illgresið. Jesús líkti sér við mann sem sáði hveiti í akur sinn og vænti þess að fá góða uppskeru. Hveitið táknar „börn ríkisins“, það er að segja sannkristna menn sem voru andasmurðir til að vera með Kristi í ríki hans. Í skjóli nætur sáði hins vegar óvinur, „djöfullinn“, illgresi í akurinn en illgresið táknar „börn hins vonda“. Sáðmaðurinn sagði verkamönnunum að láta hveitið og illgresið vaxa saman fram að kornskurði sem er „endir veraldar“. Þá myndi hann senda engla sína til að skilja hveitið frá illgresinu. — Matt. 13:24-30, 36-41.

7. Hvernig stjórnar Kristur uppskerustarfinu á jörð?

7 Jesús hefur uppfyllt sýnina sem Jóhannes sá með því að stjórna uppskerustarfi um allan heim. Það hófst með því að safnað var saman þeim sem eftir voru af 144.000 ,börnum ríkisins‘ en þau eru ,hveitið‘ í dæmisögu Jesú. Munurinn á sannkristnum mönnum og falskristnum sýndi sig æ betur eftir lok fyrri heimsstyrjaldar. Það leiddi til þess að farið var að safna öðrum sauðum og þar með var komið að næsta þætti uppskerunnar. Aðrir sauðir eru ekki „börn ríkisins“ heldur „mikill múgur“ fúsra þegna þessa ríkis. Þeim er safnað saman frá öllum ,þjóðum og tungum‘. Þeir lúta Messíasarríkinu sem er í höndum Krists Jesú og hinna 144.000 „heilögu“ sem stjórna með honum af himnum ofan. — Opinb. 7:9, 10; Dan. 7:13, 14, 18.

Forystan fyrir söfnuðunum

8, 9. (a) Hvað sýnir að Kristur fylgist ekki aðeins með hátterni safnaðarins í heild heldur einnig einstakra safnaðarmanna? (b) Hvaða „djúp Satans“ ættum við að forðast, samanber myndina á bls. 26?

8 Eins og fram kom í greininni á undan fylgdist Kristur náið með andlegu ástandi einstakra safnaða á fyrstu öld. Núna situr Kristur, leiðtogi okkar, að völdum sem konungur og fer með „allt vald . . . á himni og jörðu“. Og hann fer með styrka forystu fyrir söfnuðunum um heim allan og umsjónarmönnum þeirra. (Matt. 28:18; Kól. 1:18) Jehóva hefur skipað hann „höfuðið yfir öllu“ í söfnuði hinna andasmurðu. (Ef. 1:22) Ekkert sem á sér stað í meira en 100.000 söfnuðum Votta Jehóva, fer því fram hjá honum.

9 Jesús sendi eftirfarandi boð til safnaðarins í Þýatíru til forna: „Þetta segir sonur Guðs sem augu hefur eins og eldsloga . . . Ég þekki verkin þín.“ (Opinb. 2:18, 19) Hann ávítaði fólk í þessum söfnuði fyrir siðlaust og eigingjarnt líferni og sagði: „Ég er sá sem rannsakar nýrun og hjörtun og ég mun gjalda yður hverju og einu eftir verkum yðar.“ (Opinb. 2:23) Af þessum orðum má sjá að Kristur fylgist ekki aðeins með hátterni hvers safnaðar í heild heldur einnig líferni einstakra safnaðarmanna. Hann hrósaði kristnum mönnum í Þýatíru sem ,þekktu ekki djúp Satans‘. (Opinb. 2:24) Nú á dögum hefur hann sömuleiðis velþóknun á bæði ungum og öldnum sem kafa ekki ofan í „djúp Satans“ með aðstoð Netsins eða ofbeldisfullra tölvuleikja, eða með því að sökkva sér niður í kenningar manna sem einkennast af því að allt sé leyfilegt. Það gleður hann að fylgjast með erfiði og fórnum hinna mörgu þjóna sinna nú á dögum sem gera sitt ýtrasta til að fylgja forystu hans á öllum sviðum lífsins.

10. Hvernig er forystu Krists fyrir safnaðaröldungum lýst í Opinberunarbókinni og hvað þurfa þeir að viðurkenna?

10 Kristur fer með kærleiksríka umsjón með söfnuðum sínum á jörð fyrir milligöngu safnaðaröldunga. (Ef. 4:8, 11, 12) Allir umsjónarmennirnir á fyrstu öld voru andagetnir. Þeim er lýst í Opinberunarbókinni sem stjörnum í hægri hendi Krists. (Opinb. 1:16, 20) Flestir safnaðaröldungar á okkar dögum eru af hópi annarra sauða. Þeir eru útnefndir undir leiðsögn heilags anda eftir að farið hefur verið með bæn, þannig að það má líta svo á að þeir séu líka undir forystu eða handleiðslu Krists. (Post. 20:28) Þeir viðurkenna að Kristur notar stjórnandi ráð skipað andasmurðum kristnum mönnum til að leiða lærisveina sína á jörð og leiðbeina þeim. — Lestu Postulasöguna 15:6, 28-30.

„Kom þú, Drottinn Jesús“

11. Af hverju þráum við heitt að sjá leiðtoga okkar koma skjótt?

11 Í opinberuninni, sem Jóhannesi postula var gefin, segir Jesús nokkrum sinnum að hann komi skjótt. (Opinb. 2:16; 3:11; 22:7, 20) Eflaust á hann þar við að hann komi til að fullnægja dómi yfir Babýlon hinni miklu og illu heimskerfi Satans í heild. (2. Þess. 1:7, 8) Hinn aldni Jóhannes var óþreyjufullur að sjá alla þá stórkostlegu atburði koma fram, sem boðaðir voru, og kallaði: „Amen. Kom þú, Drottinn Jesús!“ Við sem erum uppi við endalok þessa illa heimskerfis þráum einnig að sjá leiðtoga okkar og konung koma til að helga nafn föður síns og réttlæta drottinvald hans.

12. Hvaða verki lýkur Kristur áður en eyðingarvindunum verður sleppt lausum?

12 Áður en Jesús eyðir sýnilegu kerfi Satans verður búið að innsigla endanlega þá síðustu af hinum 144.000 andlegu Ísraelsmönnum. Í Biblíunni segir greinilega að eyðingarvindunum verði ekki sleppt lausum yfir heimskerfi Satans fyrr en búið sé að innsigla hinar 144.000. — Opinb. 7:1-4.

13. Hvernig mun Kristur birtast í fyrri hluta ,þrengingarinnar miklu‘?

13 Fæstir jarðarbúar hafa veitt því athygli að Kristur hefur verið nærverandi sem konungur síðan 1914. (2. Pét. 3:3, 4) Innan skamms sýnir hann hins vegar að hann er nærverandi með því að fullnægja dómi Jehóva yfir margþættu kerfi Satans. Kristur mun „birtast“ með óyggjandi hætti þegar hann útrýmir ,lögleysingjanum‘, það er að segja prestastétt kristna heimsins. (Lestu 2. Þessaloníkubréf 2:3, 8.) Það verður áþreifanleg sönnun þess að Kristur hafi látið til skarar skríða sem útnefndur dómari Jehóva. (Lestu 2. Tímóteusarbréf 4:1.) Eyðing svívirðilegasta hluta ,Babýlonar hinnar miklu‘ er undanfari þess að illu heimsveldi falskra trúarbragða verði gereytt. Jehóva leggur það í brjóst stjórnmálaleiðtoga að tortíma þessari skækju. (Opinb. 17:15-18) Það er fyrri hluti ,þrengingarinnar miklu‘. — Matt. 24:21.

14. (a) Af hverju verður fyrri hluti þrengingarinnar miklu styttur? (b) Hvað mun „tákn Mannssonarins“ þýða fyrir þjóna Jehóva?

14 Jesús sagði að dagar þessarar þrengingar yrðu styttir „vegna hinna útvöldu“, það er að segja þeirra sem eftir eru af andasmurðum kristnum mönnum á jörð. (Matt. 24:22) Jehóva leyfir ekki að hinum andasmurðu og öðrum sauðum verði tortímt þegar ráðist er á falstrúarbrögðin. Jesús bætti við að „eftir þrengingu þessara daga“ yrðu tákn á sólu, tungli og stjörnum, og síðan myndi „tákn Mannssonarins birtast á himni“. Það verður síðan til þess að þjóðir jarðar „hefja kveinstafi“. En það verður annað uppi á teningnum hjá hinum andasmurðu, sem hafa himneska von, og félögum þeirra sem eiga jarðneska von. Þeir munu ,rétta úr sér og bera höfuðið hátt því að lausn þeirra er í nánd‘. — Matt. 24:29, 30; Lúk. 21:25-28.

15. Hvaða verk vinnur Kristur þegar hann kemur?

15 Áður en Mannssonurinn fullkomnar sigur sinn kemur hann með enn öðrum hætti. Hann sagði í spádómi: „Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni og allir englar með honum, þá mun hann sitja í dýrðarhásæti sínu. Allar þjóðir munu safnast frammi fyrir honum og hann mun skilja þær að eins og hirðir skilur sauði frá höfrum. Sauðunum skipar hann sér til hægri handar en höfrunum til vinstri.“ (Matt. 25:31-33) Hér er talað um að Kristur komi sem dómari til að aðgreina fólk af,öllum þjóðum‘ í tvo hópa, ,sauði‘ og ,hafra‘. ,Sauðirnir‘ eru þeir sem hafa dyggilega stutt andlega bræður hans (andasmurða kristna menn á jörð), og ,hafrarnir‘ eru þeir sem „hlýða ekki fagnaðarerindinu um Drottin vorn Jesú“. (2. Þess. 1:7, 8) Sauðirnir eru kallaðir „hinir réttlátu“ og hljóta ,eilíft líf‘ á jörð en hafrarnir „fara til eilífrar refsingar“ sem þýðir að þeim verður útrýmt. — Matt. 25:34, 40, 41, 45, 46.

Jesús fullkomnar sigur sinn

16. Hvernig mun leiðtogi okkar Kristur fullkomna sigur sinn?

16 Jesús getur farið út „sigrandi og til þess að sigra“ eftir að búið er að innsigla alla meðkonunga hans og meðpresta og safna sauðunum honum til hægri handar þannig að þeir bjargist. (Opinb. 5:9, 10; 6:2) Hann fer fyrir hersveit sem skipuð er voldugum englum og eflaust einnig upprisnum bræðrum hans og gereyðir stjórnmála-, hernaðar- og viðskiptakerfi Satans á jörð. (Opinb. 2:26, 27; 19:11-21) Kristur fullkomnar sigurinn með því að eyða illu heimskerfi Satans. Eftir það varpar hann Satan og illu öndunum í undirdjúp þar sem þeir fá að dúsa í þúsund ár. — Opinb. 20:1-3.

17. Hvert leiðir Kristur aðra sauði sína í þúsundáraríkinu og hvað ættum við að vera ákveðin í að gera?

17 Jóhannes postuli segir frá ,miklum múgi‘ af öðrum sauðum sem komast lifandi gegnum þrenginguna miklu. Síðan segir hann: „Lambið, sem er fyrir miðju hásætinu, mun vera hirðir þeirra og leiða þá til vatnslinda lífsins.“ (Opinb. 7:9, 17) Um þúsund ár leiðir Kristur aðra sauði, sem hlýða á raust hans, og leiðbeinir þeim svo að þeir hljóti eilíft líf. (Lestu Jóhannes 10:16, 26-28.) Við skulum vera ákveðin í að fylgja dyggilega konungi okkar og leiðtoga — bæði núna og í nýja heiminum sem Jehóva hefur lofað.

Til upprifjunar

• Hvað gerði Kristur eftir að hann tók við völdum?

• Hverja notar Kristur á jörðinni til að leiða söfnuðina?

• Með hvaða hætti á leiðtogi okkar Kristur eftir að koma?

• Hvernig heldur Kristur áfram að leiða okkur í nýja heiminum?

[Spurningar]

[Mynd á bls. 29]

Kristur birtist með óyggjandi hætti þegar hann eyðir illu heimskerfi Satans.