Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Önnum kafinn í söfnuði Jehóva

Önnum kafinn í söfnuði Jehóva

Önnum kafinn í söfnuði Jehóva

Vernon Zubko segir frá

ÉG ÓLST upp á sveitabæ nálægt Stenen, þorpi í fylkinu Saskatchewan í Kanada. Við systkinin vorum fimm. Elst var Aurellia, ég var næstelstur og síðan komu yngri systkinin Alvin, Allegra og Daryl. Foreldrar okkar, Fred og Adella, lögðu mikið á sig til að kenna okkur vegu Jehóva og sjá okkur fyrir efnislegum nauðsynjum. Allt fram á þennan dag erum við þeim þakklát fyrir að hafa kennt okkur sannleikann.

Pabbi, sem var andasmurður, var hugrakkur boðberi fagnaðarerindisins. Hann vann hörðum höndum fyrir lífsnauðsynjum en gætti þess einnig að allir vissu að hann væri vottur. Sannleikurinn var alltaf á vörum hans. Brennandi áhugi hans og hugrekki höfðu varanleg áhrif á mig. Hann sagði oft við mig: „Vertu önnum kafinn í söfnuði Jehóva, þá kemstu hjá alls konar vandræðum.“

Við fórum oft í götustarfið í Stenen og nágrannabæjunum. Það var ekki alltaf auðvelt fyrir mig. Í hverjum bæ voru hrekkjusvín sem komu til okkar yngri krakkanna og stríddu okkur. Einu sinni þegar ég var átta ára stóð ég á götuhorni með blöðin Varðturninn og Vaknið! þegar hópur unglinga umkringdi mig. Þeir þrifu af mér nýja hattinn og hengdu hann á staur við hliðina á mér. Eldri trúbróðir, sem hafði auga með mér, sá sem betur fór hvað um var að vera. Hann kom til mín og spurði: „Er allt í lagi, Vern?“ Strákarnir hurfu snarlega. Þótt atvikið hafi hleypt mér í dálítið uppnám kenndi það mér að vera á hreyfingu í götustarfinu en standa ekki kyrr eins og staur! Og þessi þjálfun á mótunarárunum gaf mér hugrekkið sem þurfti til að starfa hús úr húsi.

Við Alvin vorum skírðir í maí 1951. Ég var þá 13 ára og man enn þá eftir að bróðir Jack Nathan, sem flutti skírnarræðuna, hvatti okkur til að láta aldrei mánuð líða án þess að tala um Jehóva. * Í fjölskyldu okkar var brautryðjandastarf alltaf álitið besta ævistarfið. Að skóla loknum árið 1958 flutti ég því til Winnipeg í Manitoba og fór að starfa sem brautryðjandi. Þótt pabbi væri ánægður að hafa mig með sér í fjölskyldufyrirtækinu við að vinna timbur hvöttu þau mamma mig eindregið til að gerast boðberi í fullu starfi og studdu mig til fararinnar.

Nýtt heimili og nýr starfsfélagi

Árið 1959 kom boð frá deildarskrifstofunni um að allir sem hefðu tök á færu til Quebec þar sem boðberaþörfin væri mikil. Ég fór til Montreal til að starfa þar sem brautryðjandi. Hvílík breyting! Þetta var nýr kafli í lífi mínu þar sem ég fór að læra frönsku og aðlagast ólíkri menningu. Farandumsjónarmaðurinn sagði við mig: „Segðu aldrei: ,Við vorum vön að gera þetta svona heima.‘“ Þetta var góð áminning. — 1. Kor. 9:22, 23.

Ég hafði engan starfsfélaga þegar ég flutti til Quebec. Ung systir, Shirley Turcotte, sem ég hafði hitt áður í Winnipeg, varð varanlegur starfsfélagi minn þegar við giftumst í febrúarmánuði 1961. Hún kom einnig frá fjölskyldu sem elskaði Jehóva. Ég gerði mér ekki fyllilega grein fyrir því þá að hún yrði mér ómetanleg uppspretta styrks og hvatningar í áranna rás.

Boðunarferð á Gaspéskagann

Eftir tveggja ára hjónaband vorum við send sem sérbrautryðjendur til Rimouski í Quebec. Um vorið kom erindi frá deildarskrifstofunni og við vorum beðin um að boða fagnaðarerindið um gervallan Gaspéskagann á austurströnd Kanada. Verkefnið fólst í því að sá eins mörgum fræjum sannleikans og við mögulega gætum. (Préd. 11:6) Við hlóðum bílinn okkar með meira en 1.000 tímaritum og nærri 400 bókum auk matvöru og fatnaðar. Síðan fórum við af stað í mánaðarlanga boðunarferð. Við störfuðum kerfisbundið í öllum litlu þorpunum á Gaspéskaganum. Í svæðisútvarpinu var varað við að vottarnir væru að koma og fólki sagt að taka ekki við ritum frá okkur. Flestir íbúanna misskildu samt tilkynninguna og héldu að verið væri að auglýsa ritin frá okkur. Þeir tóku því við þeim.

Á þessum árum var frelsi til að boða fagnaðarerindið frekar nýmæli á vissum stöðum í Quebec. Það var ekki óalgengt að lögreglan stöðvaði boðbera. Þetta gerðist í einni borginni þar sem við skildum eftir rit í næstum hverju húsi. Lögregluþjónn bað okkur um að koma með sér á lögreglustöðina og við hlýddum. Ég komst að því að borgarlögmaðurinn hafði gefið út skipun um að stöðva boðunarstarfið. Lögreglustjórinn var ekki við þann daginn. Ég sýndi því lögmanninum ítarlegt skjal frá deildarskrifstofunni í Toronto sem útskýrði rétt okkar til að boða fagnaðarerindið. Þegar lögmaðurinn hafði lesið bréfið sagði hann snögglega: „Sjáið til, ég vil engin vandræði. Sóknarpresturinn sagði mér að stöðva ykkur.“ Þar sem við vildum að fólkið á svæðinu vissi að starf okkar væri ekki ólöglegt fórum við samstundis aftur þangað sem lögreglan hafði stöðvað okkur og héldum þar áfram.

Næsta morgun þegar við fórum aftur á fund lögreglustjórans fauk í hann þegar hann heyrði að við höfðum verið stöðvuð. Þið hefðuð bara átt að heyra símtal hans við lögfræðinginn. Lögreglustjórinn sagði okkur að værum við í einhverjum vandræðum skyldum við hringja beint til hans og hann tæki málið að sér. Okkur fannst fólkið vingjarnlegt og gestrisið þótt við værum ókunnug og frönskukunnáttan takmörkuð. En við veltum fyrir okkur hvort þetta fólk myndi nokkurn tíma kynnast sannleikanum. Við fengum svar mörgum árum síðar þegar við fórum aftur þangað til að byggja ríkissali út um allan Gaspéskagann. Við komumst að raun um að margir þeirra sem við höfðum vitnað fyrir eru nú trúsystkini okkar. Það má með sanni segja að Jehóva gefur vöxtinn. — 1. Kor. 3:6, 7.

Gjöf frá Jehóva

Lisa dóttir okkar fæddist 1970. Þessi gjöf Jehóva jók mjög á lífsgleði okkar. Shirley og Lisa unnu með mér við byggingu margra ríkissala. Þegar Lisa lauk skólagöngu sagði hún: „Jæja, mamma og pabbi, þar sem ég varð til þess að þið hættuð tímabundið að þjóna í fullu starfi ætla ég að bæta fyrir það og verða brautryðjandi.“ Meira en 20 árum síðar starfar Lisa enn sem brautryðjandi en núna með eiginmanninum, Sylvain. Saman hafa þau orðið þess aðnjótandi að fá að vinna við nokkrar alþjóðlegar byggingarframkvæmdir. Markmið okkar sem fjölskylda er að lifa einföldu lífi og vera reiðubúin að þjóna Jehóva. Ég hef aldrei gleymt orðum Lisu frá því hún byrjaði sem brautryðjandi. Hún hvatti mig til að verða aftur boðberi í fullu starfi árið 2001 og ég hef verið brautryðjandi síðan. Ég hef lært að treysta á Jehóva í öllu sem ég geri og lifa einföldu en ánægjulegu og hamingjusömu lífi.

Byggingarframkvæmdir krefjast kærleika, hollustu og trúmennsku

Jehóva hefur kennt mér að ef við erum reiðubúin og þiggjum hvert það verkefni sem hann lætur okkur í té veitast okkur margar blessanir. Það er dýrmætur heiður að starfa í svæðisbyggingarnefndinni og vinna við framkvæmdir með bræðrum og systrum um allt Quebec og víðar.

Þótt þeir sem bjóða fram krafta sína við byggingarframkvæmdir séu ekki allir frábærir ræðumenn skína þeir eins og stjörnur þegar þeir taka þátt í að byggja ríkissali. Þessir elskulegu vottar vinna af lífi og sál og hæfileikar þeirra njóta sín. Árangurinn er alltaf falleg bygging sem notuð er til tilbeiðslu á Jehóva.

Ég hef verið spurður: „Hver er þýðingarmesti eiginleiki sjálfboðaliða við byggingu ríkissala?“ Reynslan hefur sýnt mér að það er mikilvægast að elska Jehóva og son hans, auk þess að elska bræðrafélagið. (1. Kor. 16:14) Í öðru lagi þarf hann að sýna hollustu og trúmennsku. Þegar hlutirnir ganga ekki eins og við viljum að þeir gangi, og það gerist stundum, heldur sá sem sýnir hollustu áfram að fylgja forystu safnaðarins. Vegna trúmennsku sinnar býður hann fram krafta sína á nýjan leik þegar byggingarframkvæmdir verða á döfinni.

Þakklát Jehóva

Faðir minn lést árið 1985 en ráðlegging hans um að vera önnum kafinn í söfnuði Jehóva er greypt í huga minn. Hann er án efa önnum kafinn líkt og aðrir sem hafa verið kallaðir til starfa í himneskum hluta safnaðar Jehóva. (Opinb. 14:13) Móðir mín er orðin 97 ára. Hún getur ekki talað eins vel og hún gerði þar sem hún hefur fengið heilablóðfall. En biblíuþekkingin er enn á sínum stað. Hún vitnar í ritningarstaði í bréfum sínum og hvetur okkur til að þjóna Jehóva trúfastlega. Við systkinin erum ákaflega þakklát fyrir að hafa átt slíka foreldra.

Ég er svo þakklátur Jehóva fyrir Shirley sem hefur verið dyggur lífsförunautur minn. Hún geymir í hjarta sínu ráð sem móðir hennar gaf henni: „Vern verður önnum kafinn í sannleikanum og þú verður að læra að deila honum með öðrum.“ Þegar við giftumst fyrir 49 árum ákváðum við að eldast saman í þjónustu Jehóva, og ef við lifðum bæði af enda þessa heimskerfis, að yngjast saman og halda áfram að þjóna honum að eilífu. Já, við höfum verið „síauðug í verki Drottins“. (1. Kor. 15:58) Jehóva hefur vissulega annast okkur og hefur séð um að okkur hefur aldrei skort nein gæði.

[Neðanmáls]

^ gr. 6 Ævisögu Jacks Hallidays Nathans er að finna í Varðturninum á ensku 1. september 1990, bls. 10-14.

[Mynd á bls. 31]

„Markmið okkar sem fjölskylda er að lifa einföldu lífi og vera reiðubúin að þjóna Jehóva.“